Sjálfsábyrgð

1947843_626016364151025_1687281632_n

Eitt af því sem einkennir fólk sem er hamingjusamt og með góða sjálfsmynd er sjálfsábyrgð. Það tekur ábyrgð á eigin líðan og vellíðan, það tekur af skarið, framkvæmir hluti og tekur ábyrgð á gerðum sínum. Þessir einstaklingar bíða ekki endalaust eftir því að aðrir komi og breyti lífi þeirra. Ef þeir gera mistök þá festast þeir ekki í ásökunum heldur velta freka fyrir sér mögulegum lausnum eða breytingum.

Börn með slæma sjálfsmynd eiga það til að kenna öðrum um mistök sín og eiga þá erfitt með að líta í eigin barm og leita lausna. Hið andstæða er þó einnig algengt, að telja sig bera ábyrgð á of mörgum atriðum, eins og líðan annarra.

Mikilvægt er að vinna að raunhæfu sjónarmiði þar sem börnin læra að þekkja hverju þau geta haft stjórn á og hverju ekki. Ef barn á það til að taka líðan annarra inn á sig og telja sig bera ábyrgð á flestu sem gerist í lífi þess er mikilvægt að efla sjálfsvitund barnsins eða þekkingu á getu þess og hæfni. Ef María telur til dæmis rigninguna sem fellur á gesti í afmælisveislu hennar vera henni sjálfri að kenna er mikilvægt að vinna með þá miklu ábyrgð sem hún telur hvíla á herðum sínum.

Á hinn bóginn eiga sum börn erfiðara með að bera ábyrgð á hlutum og venja sig á að kenna öðrum um ófarir sínar. Þetta gerir þeim erfiðara fyrir þegar kemur að því að bæta stöðuna, þar sem í þeirra huga er ábyrgðin ávallt annarra. Ef María mætir oft seint í tíma fær hún áminningu frá kennara sínum. María er orðin pirruð og fúl út í kennara sinn og viðhorf hennar til skólans versnar. Með því að taka ekki ábyrgð á eigin hegðun heldur yfirfæra hana á kennarann sinn batnar staðan ekki. María mætir áfram seint, fær reglulega áminningu frá kennaranum og líðan í skólanum versnar.

Það getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan barns að þurfa að bera ábyrgð á hlutum sem eru raunhæf og viðeigandi fyrir aldur og getu barnsins. Það að setja sér markmið og leggja eitthvað af mörkum til að ná markmiðunum getur bætt líðan. Það getur því hjálpað börnum að æfa sig í að bera ábyrgð á verkefnum sem hentar aldri. Bæði getur það aðstoðað börn sem eiga það til að telja sig bera ábyrgð á öllum  heimsins vandamálum, að sjá að sumu geta þau stjórnað og öðru ekki, sem og getur aukin ábyrgðartilfinning hjálpað börnum sem eiga það til að kenna öðrum um ófarir sínar í stað þess að líta í eigin barm og leita lausna.

Elva Björk Ágústsdóttir Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Færðu inn athugasemd