Árangur – Fjársjóðsleitin (sjálfstyrkingarnámskeið)

myndin

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið sem þróað var árið 2010 af Elvu Björk
Ágústsdóttur (sálfræðikennara og námsráðgjafa) og  byggir á hugrænni atferlisfræði

Markmiðið með Fjársjóðsleitinni er að byggja upp sjálfsálit í gegnum leik og
skemmtileg verkefni en sem dæmi leika börnin sjóræningja sem fara í fjársjóðsleit en í
leiðinni finna þau sína eigin styrkleika.  Á námskeiðinu er stuðst við þá
skilgreiningu að sjálfsálit sé það álit sem við höfum á okkur sjálfum og feli í sér mat
manneskjunnar á eigin hæfni og virði (Tafarodi og Swann, 1995). Út frá því er skoðað
hvaða hæfni skiptir máli í lífi barnsins og hvernig megi auka getu barnsins í þeim þáttum.
Markmið námskeiðsins er að efla jákvætt hugarfar, styrkja jákvæða eiginleika og hvetja
börnin til að stíga út fyrir þægindaramma sinn, setja sér markmið og ná þeim.

Í rannsókn Ingu Dóru Glan (2018) á árangri námskeiðsins kom í ljós að hækkun varð á almennu sjálfsáliti, bæði hjá stúlkum og drengjum, eftir þátttöku á námskeiðinu.

Einnig var marktækur munu á líkamsmynd stúlkna fyrir og eftir námskeiðið. Aðrir þættir í sjálfsmati barna eins og námshæfni, félagshæfni og íþróttahæfni, hækkuðu líka, en sú hækkun var ekki marktæk.

Marktækur munur fannst á áhrifum Fjársjóðsleitarinnar á hæfni barnanna að mati
foreldra. Einnig fannst marktækur munur á íþróttahæfni stráka og félagshæfni
stelpna.  Það bendir til að foreldrar strákanna tóku eftir jákvæðum mun hvernig þeir
hegðuðu sér í tengslum við íþróttir eða útileiki. Einnig bendir það til að foreldrar
stelpnanna tóku eftir jákvæðum breytingum í samskiptum stelpnanna við jafnaldra.

Niðurstöður rannsóknarinnar á Fjársjóðsleitinni benda til þess að námskeiðið geti haft jákvæð áhrif á almennt sjálfsálit þátttakenda en einnig á sjálfsálit tengt líkamsmynd og íþróttahæfni sem eru einmitt þeir þættir sem mælast lægst hjá börnum á þessum aldri.

Meðferðir og námskeið sem byggja á hugrænni atferlisfræði eru yfirleitt ekki ætluð fyrir skjótunninn bata þar sem frekar er verið að gefa einstaklingum tækin til að ögra neikvæðum hugsunum sem með tímanum vinnur á lágu sjálfsáliti.

Á heildina litið voru börn og foreldrar ánægð með námskeiðið, bæði með
áhrifin frá því sem og verkfærin sem þau öðluðust til þess að halda áfram þessari
mikilvægu vinnu, að byggja upp sjálfsálit sitt, heima fyrir.

Heimild:

Inga Dóra Glan Guðmunsdóttir, 2018. Fjársjóðsleitin; Markviss uppbygging á sjálfsálit.

https://skemman.is/bitstream/1946/31795/1/Fjarsjodsleitin.IngaDoraGlan.pdf

 

Auglýsingar

Fjársjóðsleitin – Rannsókn á árangri námskeiðsins

myndin

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6-10 ára.

Námskeiðið hefur verið í boði frá árinu 2012.

Árið 2016 hófst ítarleg rannsókn á árangri námskeiðsins og var rannsóknin  hluti af meistaraverkefni Ingu Dóru Glan Guðmundsdóttur í náms- og starfsráðgjöf við HÍ.

Niðurstöður voru á þá leið að námskeiðið hafði marktæk áhrif á sjálfsálit þátttakenda. Munur fannst einnig á áhrifum Fjársjóðsleitarinnar á hæfni barnanna að mati foreldra.

Almennt hafa börn á þessum aldri frekar jákvætt sjálfsálit en rannsóknir benda til þess að það lækki þegar börn færast yfir á unglingsárin. Möguleg ástæða þess er talin geta verið raunsærri endurgjöf frá foreldrum og kennurum og líklega hefur samanburður unglinga við jafnaldra sína einnig mikil áhrif.

Mikilvægt er að styrkja sjálfsálit barna áður en þau komast á unglingsár til að sporna gegn lækkun á sjálfsálit seinna meir. Einnig getur gott sjálfsálit haft jákvæð og vernandi áhrif á líðan og hegðun.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Fjársjóðsleitin geti nýst til uppbyggingar á sjálfsmynd barna og þar af leiðandi sem forvarnarstarf við hinum ýmsu geðrænu vandamálum sem steðja að unglingum í dag og tengjast lágu sjálfsáliti og vöntun á sjálfsþekkingu.

Hægt er að nálgast rannsókn Ingu Dóru hér: https://skemman.is/bitstream/1946/31795/1/Fjarsjodsleitin.IngaDoraGlan.pdf

 

Reynsla og minningar sem bæta sjálfsálit

Lágt sjálfsálit er oft eitt af einkennum raskana eins og þunglyndis, átraskana og sumra persónuleikaraskana. Lágt sálfsálit getur spáð fyrir um bakslög og er áhættuþáttur hvað varðar sjálfskaða og sjálfsvígshegðun.

Í sumum meðferðarformum er ekki unnið sérstaklega með sjálfsálit heldur búist við að sjálfsmat batni samhliða því að önnur einkenni réni. Lágt sjálfsálit getur verið í formi hugsana um mann sjálfan, aðra og heiminn. Til dæmis „ég er misheppnuð“, „fólk dæmir mig“ og „heimurinn er slæmur“. Oft er unnið með slíkar hugsanaskekkjur í meðferð, sérstaklega í hugrænni atferlismeðferð og lærir fólk þá að þróa með sér rökréttari hugmyndir eins og „mér tekst margt sem ég geri“, „sumt fólk dæmir mig kannski “ og svo framvegis.

Ýmislegt bendir til að fleira þurfi til að virkilega breyta sjálfsálitinu. Það er grundvallaratriði fyrir þann sem hugsar á neikvæðan hátt um sjálfan sig að vita að hugsunin er ekki alsendis rétt. En þó fólk viti að það hafi ýmsa kosti og geti gert margt vel þá líður því oft ekki þannig þrátt fyrir allt. Það sem virðist vanta uppá er tilfinningin um að vera fær, duglegur, góður. „Ég veit ég er í grundvallaratriðum nokkuð góð en mér líður ekki þannig“. Það sem vantar er að finnast það. Þá komum við að kjarna málsins, reynslu og minningum. Minningum um að hafa gert sitt besta, tekist vel upp og þar fram eftir götum.

Öll erum við þannig gerð að okkur gengur stundum vel í því sem við erum að gera og stundum ekki eins vel eða jafnvel illa.

Í huga þeirra sem hafa lágt sjálfsálit virðast minningar um slæmt gengi vera tiltækari en minningar um það sem hefur gengið vel.

Hvað segir þetta okkur? Jú, það er mikilvægt fyrir alla að eiga minningar um að ráða vel við verkefni og að búa yfir styrkleikum sem nýtast í daglegum athöfnum. Því fleiri og sterkari sem þær minningar eru því líklegar er að þær verði tiltækari í huga okkar en minningar um slæmt gengi.

Að læra með því að gera er mikilvægt í þessu samhengi.

Til að byggja upp gott sjálfsálit barna er því áríðandi að búa þeim umhverfi þar sem þau fá færi á að upplifað sig sem sterka einstaklinga sem geta og gera vel.

Þannig er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem eiga hlutdeild að heimi barnsins hafi sem skýrustu mynd af getu, styrkleikum og áhuga barnsins og búi því tækifæri til að finna og upplifa sjálft að því takist vel til. Að sama skapi er mikilvægt að skoða hvort barnið lendi oft í því að ráða ekki við aðstæður, upplifi vanmátt og leitast við að fækka þeim tilfellum.

Öllum gengur stundum illa í einhverju.

Það er mikilvægt að börn læri að það er eðlilegt að takast misvel upp og að það eigi við um okkur öll.

Þegar börnunum okkar finnst þau ekki standa sig vel er mikilvægt að setja athygli á þá þætti sem vel hafa gengið, minna á það sem þau hafa gert vel í fortíðinni og stuðla að væntingum um tækifæri til að ganga vel á eftir, á morgun, í framtíðinni.

Anna Sigríður Jökulsdóttir sálfræðingur

Heimildir: Kees Korrelboom, COMET for low self-esteem

Fjarnámskeið – Sjálfsmynd og líkamsmynd

Í nóvember verður aftur boðið upp á námskeið um sjálfsmynd og líkamsmynd.

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Farið verður í þá þætti sem móta sjálfsmyndina, þær breytingar sem verða á unglingsárum og þann kynjamun sem finna má á sjálfsmynd og líkamsmynd unglinga. Unnin verða hagnýt verkefni sem hægt er að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi

youth-570881_1920 (1)

Námskeiðið sem haldið var í ágúst gekk mjög vel og var mikill áhugi fyrir fjarnámskeiði.

Umsagnir:

Mat þátttakanda á mælikvarðanum 1-5 var 4,82

Frábært námskeið. Margt sem ég get tekið með mér og nýtt í mínu starfi.

Lifandi og góð kennsla, skemmtilegur kennari. Flott efni. Fræðilegur grunnur góður.

Frábært námskeið – ætti að vera skylduverkefni í grunn- og framhaldsskólum.

Upplýsingar:

https://www.endurmenntun.is/namskeid/stakt-namskeid?courseID=186H18&n=sjalfsmynd-og-likamsmynd-barna-og-unglinga-hagnyt-verkefni-og-leidir-til-ad-baeta-sjalfsmynd-og-lidan-fjarnamskeid&fl=uppeldi-og-kennsla

Sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga – hagnýt verkefni og leiðir til að bæta sjálfsmynd og líðan

Mánudaginn 13. ágúst höldum við námskeið um sjálfsmynd og líkamsmynd í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.

youth-570881_1920 (1)

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Farið verður í þá þætti sem móta sjálfsmyndina, þær breytingar sem verða á unglingsárum og þann kynjamun sem finna má á sjálfsmynd og líkamsmynd unglinga. Unnin verða hagnýt verkefni sem hægt er að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Góð sjálfs- og líkamsmynd hefur jákvæð áhrif á líðan og hegðun barna og unglinga. Rannsóknir sýna að góð sjálfsmynd getur verið verndandi þáttur í þroska barna og minnkað líkur á þróun ýmissa geðraskana, vandamála eins og námsvanda og annarra neikvæðra þátta.

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfs- og líkamsmynd, sjálfstraust, breytingar á unglingsárum, þætti sem hafa áhrif á líðan og þann mun sem finna má á líðan og sjálfsmynd stúlkna og drengja.

Á námskeiðinu verða ýmiskonar verkefni kynnt sem nýta má í starfi sem og í uppeldi. Verkefnin byggja á sálfræðikenningum og benda rannsóknir til þess að verkefnin geti stuðlað að jákvæðri og betri sjálfs- og líkamsmynd.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Þætti sem hafa áhrif á þróun sjálfs- og líkamsmyndar, kynjamun og breytingar.
• Verkefni og verkfæri til að bæta líðan barna og unglinga.

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga.
• Aukinn skilningur á þeim þáttum sem hafa áhrif á líðan barna.
• Að þekkja leiðir til að efla sjálfstraust.
• Að þekkja leiðir og verkefni til að bæta sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Fá tæki og tól til að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Fyrir hverja:

Námskeiðið hentar öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum, t.d. kennurum, námsráðgjöfum, skólasálfræðingum, þroskaþjálfurum, tómstundafræðingum og skólahjúkrunarfræðingum. Námskeiðið hentar einnig foreldrum barna og unglinga.

 

Nánari upplýsingar: http://www.endurmenntun.is/namskeid/stakt-namskeid?courseID=172H18&n=sjalfsmynd-og-likamsmynd-barna-og-unglinga-hagnyt-verkefni-og-leidir-til-ad-baeta-sjalfsmynd-og-lidan&fl=uppeldi-og-kennsla

 

Sjálfstyrkingarverkefni – Verkefnabók

Þann 26.júní var Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)

self esteem
Í tilefni dagsins kynntum við ýmis sjálfstyrkingarverkefni.
Verkefnin voru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Hér má finna verkefnin sem kynnt voru í vikunni ásamt fleiri sjálfstyrkingarverkefnum.

Við hvetjum ykkur til að prófa!

Gangi ykkur vel!!

Sjálfstyrkingarverkefni

 

Sjálfsdagur

self esteem

Þann 26.júní er Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)
Í tilefni dagsins ætlum við að kynna ýmis sjálfstyrkingarverkefni næstu daga á Facebooksíðu okkar :  https://www.facebook.com/sjalfsmyndoglikamsmynd/
Verkefnin eru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Við hvetjum ykkur til að taka þátt og gera eina sjálfstyrkingaræfingu á dag út vikuna.

Í lokin verða verkefnin öll sett saman og hægt að nálgast þau hér á rafrænu formi.