Slæm líkamsmynd á Íslandi

Slæm líkamsmynd eða óánægja með eigin líkamsvöxt/útlit er mjög algeng meðal fólks, sérstaklega meðal stúlkna.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á tíðni slæmrar líkamsmyndar á Íslandi, hvort sem er meðal barna og unglinga eða fullorðinna. Þó má gera ráð fyrir því að tíðnitölur á Íslandi séu svipaðar og í öðrum vestrænum ríkjum þar sem Íslendingar búa við svipuð samfélagsleg gildi hvað varðar útlit og vaxtarlag. Erlendar rannsóknir sýna að rúmlega helmingur fólks er óánægt með líkamsvöxt sinn og meirihluti kvenna telja sig þurfa að grennast.

Í meistaraverkefni Ernu Matthíasdóttur í lýðheilsufræðum frá árinu 2009 sem byggði á gögnum Lýðheilsustöðvar á spurningakönnun sem ber heitið „Könnun á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007″ kom í ljós að tæplega 43% Íslendinga á aldrinum 18-79 ára voru ósáttir við eigin líkamsþyngd. Um 72% töldu að þeir þyrftu að grennast og gerðu margir tilraunir til þess. Einnig kom fram munur á óánægju með líkamsþyngd milli kynja þar sem konur voru mun ósáttari við þyngd sína en karlmenn, en rúmlega 80% kvenna töldu sig þurfa að grennast á móti tæplega 63% karla (Erna Matthíasdóttir, 2009).

Mikil óánægja með þyngd virðist hrjá unglinga sem og fullorðna á Íslandi. Í rannsókn Þórdísar Rúnarsdóttur frá árinu 2008, um óánægju kvenna með eigin líkama, kom fram að 76% kvenna og stúlkna á aldrinum 13-24 ára voru óánægðar eða mjög óánægðar með líkama sinn. Óánægjan kom fram óháð því hvort þær voru í kjörþyngd eða ekki (Þórdís Rúnarsdóttir, 2008). Í rannsókn Sigrúnar Daníelsdóttur og félaga, frá árinu 2007 kom fram að þriðjungur þátttakenda hafði farið í megrun að minnsta kosti einu sinni yfir árið. Meðal þeirra voru stúlkur í miklum meirihluta eða 79%. Rannsóknin var unnin úr gögnum könnunar Rannsókna og greiningar ehf., „Ungt fólk 2000“ og náði til 6.346 nemenda í 9.-10. bekk í öllum grunnskólum á Íslandi. Helmingur stúlkna í rannsókninni höfðu farið í megrun og jókst tíðni megrunar  hjá stúlkum úr 9. bekk upp í 10. bekk en ekki hjá drengjum.

Óánægja með þyngd, slæm líkamsmynd og megrun finnast einnig hjá yngri börnum. Afgerandi meirihluti of þungra barna hefur farið í megrun, sem og börn og unglingar sem telja sig vera of þung, óháð því hvort þau eru það eður ei (Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björg Ómarsdóttir, 2008).

Í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar og Guðrúnar Kristinsdóttur frá árinu 2006 á líkamsmynd unglinga í 9. og 10. bekk kom fram að birtingarmynd óánægju með eigin líkama var ólík milli kynja. Niðurstöður voru þær að líkamsmynd stúlkna var mun verri en líkamsmynd drengja og birtist á ólíkan hátt. Það að vera grannur eða grönn tengdist lakari líkamsmynd hjá drengjum en betri líkamsmynd hjá stúlkum. Þessar niðurstöður eru í takt við erlendar rannsóknir á kynjamun á líkamsmynd.

Af niðurstöðum þessara rannsókna má sjá að tíðni megrunar, óánægju með líkamsvöxt og slæmrar líkamsmyndar er há á Íslandi. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er hærri meðal stúlkna en drengja og virðist óánægja með líkamsvöxt vera reglan frekar en undantekningin meðal stúlkna. Það er síðan áhyggjuefni að aldur stúlkna sem telja sig þurfa að grennast fer sífellt lækkandi.

Heimildir:

Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björk Ómarsdóttir. (2008). Ofþyngd, fæðuvenjur, megrunarhegðun og sjálfsmynd meðal barna og unglinga í 6. og 8. bekk í grunnskólum á Íslandi. BS ritgerð: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið

Erna Matthíasdóttir. (2009). Sátt Íslendinga á aldrinum 18-79 ára við eigin líkamsþyngd. Meistaraverkefni: Háskólinn í Reykjavík, Kennslu og lýðheilsudeild

Rúnar Vilhjálmsson og Guðrún Kristjánsdóttir. (2006). Líkamleg frávik og líkamsímynd unglinga: Niðurstöður landskönnunar í níunda og tíunda bekk. Ágrip erindis (nr. E-108) á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum, haldinni í Öskju 4. og 5. janúar 2007. Læknablaðið, fylgirit 53, desember 2006. Sótt 9. mars 2009 af http://www.laeknabladid.is/fylgirit/53/agrip-erinda

Sigrún Daníelsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jakob Smári. (2007). Megrun meðal íslenskra unglinga og tengsl við líkamsmynd, sjálfsvirðingu og átröskunareinkenni. Sálfræðiritið, 12, 85-100

Þórdís Rúnarsdóttir. (2008). Konur í kjörþyngd telja sig of þungar. Sótt 10. Janúar 2011 af:  http://www.hi.is/is/frettir/konur_i_kjorthyngd_telja_sig_of_thungar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s