Æfing sem kallast mirror exposure (speglaæfing) er ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota þegar unnið er að bættri líkamsmynd. Rannsóknir hafa sýnt að aðferðin getur bætt líkamsmynd eða sátt við eigin líkama.
Speglaæfingin felst í því að einstaklingur stendur fyrir framan spegil (eins léttklæddur og staður og stund leyfir). Viðkomandi reynir að einblína á einn ákveðinn líkamspart í jafn langa stund í senn t.d:
- hár
- húð
- augu
- nef
- varir
- tennur
- haka
- háls
- axlir
- handleggir
- bringa
- brjóst
- mitti
- magi
- rass
- læri
- mjaðmir
- hné
- kálfar
- öklar
- fætur
- tær
Ein leið til að framkvæma æfinguna er að nefna ákveðinn fjölda atriða (t.d. þrjú atriði) sem eru jákvæðir um líkamspartinn. T.d. „ég er með sterka handleggi“. Einnig er hægt að nefna jákvæða þætti um líkamspartinn sem tengjast því sem líkamsparturinn gerir. T.d. „þegar ég nota hendur mínar þá get ég prjónað fallega peysu“ eða „ég get gert armbeygjur“ ……
Önnur leið til að framkvæma æfinguna er að nota hlutlausar lýsingar. Það að nefna jákvæða eiginleika getur reynst sumum erfitt. Það getur því verið ráðlegt að taka smærri skref í einu og byrja á því að nefna einungis hlutlausa eiginleika um líkamspartinn. Að nefna hlutlausa eiginleika væri svipað því að lýsa útliti fyrir teiknara sem er að teikna mynd af manni en sér ekki fyrirmyndina.
Speglaæfingin myndar svo kallað hugrænt misræmi hjá þeim sem eru ósáttir við eigin líkama. Hugrænt misræmi felur það í sér að ósamræmanlegar hugsanir skapa óþægindi og streitu. Streitan ýtir undir það að fólk breytir hugsunum eða skoðunum sínum til að auka samræmi milli hugsana og minnka óþægindin. Það að tala fallega um þá líkamsparta sem viðkomandi líkar ekki við getur því með tímanum breytt skoðun hans á líkamspörtunum.
Elva Björk Ágústsdóttir