Einelti getur haft langvarandi áhrif á sjálfsmynd barna og unglinga. Í rannsókn Boulton og Hawker frá árinu 2000 kom fram að þolendur eineltis upplifa mun meiri neikvæð áhrif og neikvæðari hugsanir um sjálfa sig en þau börn sem ekki hafa orðið fyrir einelti. Þetta á sérstaklega við ef barnið fær ekki aðstoð við lausn vandans eða nær ekki að tileinka sér betri og fjölbreyttari leiðir til að takast á við eineltið.
Ástæða þess hve mikil áhrif einelti getur haft á sjálfsmynd okkar og líðan liggur í því hvernig sjálfsmynd þróast. Sjálfsmynd okkar mótast nefnilega af fyrri reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri. Áhrif neikvæðrar reynslu geta varað lengi og eru oft enn til staðar seinna á lífsleiðinni. Áhrifin eru oft meiri þegar við upplifum neikvæða reynslu sem börn því á þeim árum eru bæði sjálfsmyndin og viðhorfin að mótast.
Í ritgerð Lilju Bjargar Ingibergsdóttur um áhrif eineltis á sjálfsmynd barna kemur fram að sjálfsmynd ásamt félagslegum tengslum fórnarlamba eineltis verður fyrir skaða. Þau eru hrædd um að vera hafnað af félögunum og gefast fljótt upp á því að hitta önnur börn vegna skammar og niðurlægingar.
Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd þeirra sem lent hafa í einelti?
Hvernig fórnarlömbum eineltis tekst að kljást við langtímaáhrif eineltis hefur meira að segja en birtingarform eineltisins. Sá sem lagður er í einelti hefur yfir langan tíma heyrt neikvæðar athugasemdir og verið hafnað af öðrum og er því að einhverju leyti eins og brennimerktur og hugsanirnar halda áfram að einkennast af neikvæðni og viðhalda þannig áfram neikvæðri sjálfsmynd þrátt fyrir að aðstæður hafi breyst og eineltinu sé löngu hætt. Mikilvægt er að upplýsa fórnarlambið um þau tengsl sem eru milli fyrri reynslu og hugsana. Neikvæðar hugsanir ýta undir slæma sjálfsmynd.
Ákveðinn hugsunarháttur getur haft neikvæðari áhrif á sjálfsmynd en annar hugsunarháttur. Þeir sem telja sig gallaða eða misheppnaða eiga erfiðara með að takast á við eineltið, heldur en börn sem læra að vandamálið liggi hjá gerandanum eða í úrræðaleysi skólans. Að benda börnum á að vandinn liggi hjá geranda eða umhverfinu sjálfu í stað þess að barnið líti á sig sem vandamál getur að einhverju leyti bætt þann skaða sem eineltið veldur.
Að átta sig á að sú skoðun sem við höfum um okkur sjálf er komin vegna reynslu okkar í barnæsku getur haft jákvæð áhrif. Að skilja það að þessi sýn á okkur sjálf á kannski engan veginn við í dag og hún er í raun ákveðin barnahugsun sem við höfum um okkur, er mikilvægt skref í því að bæta sjálfsmynd þeirra sem lent hafa í einelti.
Að vinna að bættri félagsfærni barnanna er þó einnig nauðsynlegur þáttur í því að bæta líðan þeirra, þar sem þeirri færni getur hrakað eftir síendurtekna höfnun jafningjanna og minnkandi félagssamskipti.
Við hvetjum ykkur til að skoða eftirfarandi vefsíður og rannsóknir. Einnig hvetjum við ykkur til að skrifa undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti:
http://gegneinelti.is/ + þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti
http://www2.lydheilsustod.is/lydheilsustod/gedraekt/vinir-zippy
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10846/version5/skolavarda_greinGG.pdf
Boulton, J. M. og Hawker, D. S. J. 2000. Research on Peer Victimization and Psychosocial Maladjusment: A Meta-analytic Review of Cross-sectional Studies. The Journal of Child Psychology and Psychiatry and Allied Disciplines. Tölublað 4. Cambridge University.
Lilja Björg Ingibergsdóttir. 2010. Ég er frábær eins og ég er: hver eru áhrif eineltis á sjálfsmynd barna? Lokaverkefni til B.Ed -gráðu í Grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands.
Elva Björk Ágústsdóttir