Að leyfa börnum að takast á við mótlæti

Vilborg kemur grátandi inn úr dyrunum, tvær vinkonur hennar höfðu stungið hana af eftir skóla. Móðir hennar verður einnig miður sín: „Hvað ertu að segja? Voðalega eru þær ómerkilegar. Við skulum bara gera eitthvað skemmtilegt, fara í ísbúðina og horfa á eitthvað skemmtilegt“. Um kvöldið hringdi móðirin síðan í mömmu annarrar vinkonunnar og biður hana um að ræða þessa uppákomu við dóttur sína þar sem Vilborg hefði verið mjög miður sín.

Það er eðlilegt að foreldrar vilji forða börnum sínum frá öllu óþægilegu og sáru og reyna að taka það á sínar herðar í stað þess að horfa upp á börn sín þjást. Þrátt fyrir að ætlunin sé önnur geta skilaboðin til barnsins orðið: „Þú hefur ekki burði eða kjark til að takast á við þetta“ og „Þetta er hræðilegt, engin furða að þú sért miður þín/hræddur/reiður“.

Þegar foreldrar koma börnum sínum í öruggt skjól við hvert tækifæri og taka sjálfir að sér að greiða úr vanda sem börnin standa frammi fyrir, taka þeir um leið frá þeim tækifærin til að æfa sig í að takast á við erfiðar aðstæður (þ.e. aðstæður sem börnunum þykja erfiðar) og standa sjálf uppi sem sigurvegarar.

Í tilviki Vilborgar hefði hugsanlega verið vænlegra fyrir móðurina að aðstoða hana við að finna út úr því hvernig hún ætlaði sjálf að takast á við þá stöðu sem uppi var og hjálpa henni að sjá hvað þessi uppákoma segði um vinkonurnar og hvað þetta segði eða segði ekki um hana sjálfa. Þannig yrði líklegra að Vilborg gæti tekist á við svipaðar aðstæður í framtíðinni á farsælli hátt og án þess að þær hafi eins neikvæð áhrif á hana.

Fullorðnir þurfa þó oft og tíðum að taka upp hanskann fyrir börn sín eða greiða úr erfiðleikum þeirra þegar miklir eru. En þá er gott að þekkja börn sín vel og gera sér grein fyrir hvaða aðstæður eru þeim ofviða og hvaða aðstæður þau geta tekist á við (jafnvel þó þær valdi þeim óþægindum).

Þegar börn okkar eiga erfitt með ákveðna hluti er ágætt að hafa í huga að þegar þau lærðu að ganga studdum við þau í upphafi, héldum í hendur þeirra, slepptum síðan smám saman og létum þau ganga ein og óstudd. Við þurftum hinsvegar að þola að sjá þau hrasa og meiða sig því annars hefðum við aldrei geta sleppt af þeim takinu.

Foreldrar þurfa að aðstoða börn sín við að standa í eigin fætur, ein og óstudd, svo þau geti tekist á við það sem reynist þeim erfitt, því þannig fá þau trú á eigin getu.

María Hrönn Nikulásdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s