Í pistlinum um mótlæti barna kom fram hve mikilvægt það er að gefa börnum tækifæri til að leysa vanda sjálf.
Hér má finna hagnýta og skemmtilega aðferð til að þjálfa börn og unglinga í að leysa vanda sjálf.
Aðferðin felur í sér fjögur þrep í að leysa vanda. Þrepin eiga að þjóna því hlutverki að fá viðkomandi til að hinkra við og hugsa málið áður en hann fer í hnút. Einnig þjóna þrepin því hlutverki að þeir fullorðnu hinkri við og velti fyrir sér ólíkum hliðum málsins áður en þeir byrja á að ávíta, skammast, rífast sem kemur börnum þeirra oft einungis í varnarstöðu. Með þessari aðferð fá börnin einnig tækifæri til að skoða málin í víðara samhengi í stað þess að einblína einungis á eigin afstöðu. Í samræðunum við börnin er mikilvægt að taka vel á móti hugmyndum þeirra, dæma ekki svör þeirra sem rétt eða röng.
Þegar börn hafa fengið þjálfun í að fylgja þrepunum með því að leysa ímyndaðan vanda úr klípusögum eiga þau auðveldara með að fylgja þrepunum þegar upp kemur vandi hjá þeim sjálfum. Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um þessi þrep til að leiðbeina börnunum þegar upp kemur vandi í stað þess að leysa vandann fyrir þau.
Að leysa vanda pdf skjal
Heimildir:
Sigrún Aðalbjarnardóttir og Árný Elíasdóttir (2008). Samvera: Verum Vinir. Reykjavík:Námsgagnastofnun.
Sigrún Aðalbjarnardóttir (2007). Virðing og umhyggja. Ákall 21. aldar. Reykjavík:Heimskringla
Elva Björk Ágústsdóttir