Væntingar og kröfur til barna

Gunnar komst ekki í úrslit í langstökki eins og hann ætlaði sér, Kristín fékk ekki nema fjóra á samræmdum prófum í stærðfræði og Jóhann, leikarasonurinn, var ekki valinn í stórt hlutverk í skólaleikritinu. Þetta geta allt verið dæmi um frammistöðu sem er verri en lagt var upp með, því getur fylgt vonbrigði bæði hjá börnunum sjálfum og foreldrum þeirra.

Copyright (c) <a href='http://www.123rf.com'>123RF Stock Photos</a>

Copyright (c) 123RF Stock Photos

Foreldrar vilja að sjálfsögðu að börnum þeirra vegni vel í því sem þau taka sér fyrir hendur og að hæfileikar þeirra og styrkleikar fái notið sín. Oft eru foreldrar með ákveðnar væntingar og hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að ganga, hvort sem um ræðir árangur í skóla og tómstundum eða um hegðun frá degi til dags. Þegar frammistaða er síðan ekki í samræmi við væntingar getur það reynst foreldrum erfitt.

Ef börn hinsvegar upplifa oft að þau geti ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra getur það leitt til uppgjafar og neikvæðrar sjálfsmyndar.  Þegar barn hefur nokkrum sinnum lagt sig allt fram um að standa sig og uppfylla væntingar foreldra sinna (eða kennara) en ekki tekist það, getur það komist að þeirri niðurstöðu að það skipti engu hvað það reyni, það getur aldrei uppfyllt kröfurnar og því gagnslaust að reyna. Þannig  geta óraunhæfar væntingar valdið vítahring þar sem barnið hættir að leggja sig fram, árangurinn verður verri en ella og foreldrar missa jafnvel trúnna á barnið.

Við það verður til annað vandamál eða –  of litlar væntingar og kröfur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að foreldrar og aðrir umönnunaraðilar hafi trú á þeim, geri kröfur og vænti góðrar frammistöðu. Slíkt stuðlar að bættum árangri og betri sjálfsmynd. Þegar börn upplifa að fullorðnir hafa trú á að þau geti eitthvað eru meiri líkur á að þau leggi sig fram. Kennarar sem hafa trú á getu nemenda sinna ná til dæmis fram betri námsárangri en þeir sem ekki hafa þá trú.

Hinn gullni meðalvegur getur verið vandrataður í þessu eins og öðru. En um leið og við reynum að vera raunsæ en jafnframt bjartsýn er gott að hafa í huga þroska og getu barnsins og hvaða framförum það hefur áður náð.  Þegar árangur hjá börnum er metinn þarf fyrst og fremst að hafa í huga fyrri getu þess og hvort framfarir hafi orðið, en forðast að bera frammistöðu saman við frammistöðu annarra barna, óháð því hvort barnið kemur vel eða illa út úr þeim samanburði.

Börn eru einnig líklegri til að leggja sig meira fram ef þau setja sér sjálf markmið. Því getur verið gott fyrir fullorðna að aðstoða börn við að orða sjálf markmið sín og að hafa þau raunhæf og skýr. Börn eiga sér oft stóra og háleita drauma og er engin ástæða til að gera lítið úr þeim (þrátt fyrir að foreldrum kunni að þykja þeir óraunhæfir) það sem skiptir máli er að aðstoða barnið við að stefna í rétta átt, gleðjast yfir öllum framförum og gera sér grein fyrir að mörg lítil og raunhæf markmið er leiðin að stórum draumum. Auk þess sem miklvægt er að aðstoða börn við að taka eftir framförum sínum þarf einnig að kenna þeim að taka mistökum. Sjá mistök sem tækifæri til að læra, til dæmis hvað maður getur gert öðruvísi næst og sem eðlilegan hluta af mannlegri hegðun.

Það er gott að hræðast ekki mistök um of og hafa áhuga á að ná árangri. Það byggir upp sterka sjálfsmynd hjá börnum að ná markmiðum sínum og finna að foreldrar þeirra taki eftir og kunni að meta árangurinn, en séu ekki miður sín eða í uppnámi yfir því að þau hafi ekki gert enn betur.

María Hrönn Nikulásdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s