Að sættast við sjálfan sig

Margir eiga það til að tengja gott sjálfstraust eða góða sjálfsmynd við ákveðið útlit, vinsældir, líkamsvöxt eða það að hafa náð merkilegum árangri. Margir telja þessa þætti skipta miklu máli þegar kemur að því að byggja upp gott sjálfstraust.

En þetta þarf ekki að vera svona flókið, við þurfum ekki að vera með hinn fullkomna líkama, fallegt hár eða vera með doktorsgráðu til að vera með gott sjálfstraust. Gott sjálfstraust felst í rauninni í því að kunna að meta sjálfan sig eins og maður er, með þeim kostum og göllum sem maður hefur. Munurinn á þeim sem eru með gott sjálfstraust og þeim sem eru með lítið sjálfstraust er ekki  geta eða hæfileiki, heldur þekkingin sem viðkomandi hefur á styrkleikum sínum og veikleikum og hve sáttur hann er við sína eiginleika, lífið og tilveruna.

Það sem einkennir oft fólk með góða sjálfsmynd er hversu fært það er í því að vera sátt við sjálft sig, hve vel það kann að meta eiginleika sína og afrek. Fólk með góða sjálfsmynd er þó einnig meðvitað um að það er ekki fullkomið og hafi ýmsa veikleika en leyfa ekki veikleikum sínum eða göllum að skipa stóran sess í lífi þeirra eða sjálfsmynd.

Þegar unnið er í því að bæta sjálfsmyndina getur sjálfskoðun verið góður upphafspunktur. Að þekkja eigin óraunhæfar hugsanir og hugsanavillur er mikilvægt. Margir með lítið sjálfstraust eiga það til að hugsa: „ég er ömurlegur, ég get ekkert, ég er slæm manneskja“ og fleira í þeim dúr. Að átta sig á svona hugsunum og reyna að vinna með þær er mikilvægt skref í átt að bættri sjálfsmynd.

Það getur hentað mörgum að kortleggja sína veikleika og styrkleika. Skrá niður á blað eiginleikana, helst 10 af hvorum. Ef það gengur erfiðlega að finna 10 styrkleika er gott að reyna að rifja upp hvað aðrir hafa sagt við mann og hvernig hrós maður hefur fengið frá öðrum. Með því að kortleggja eiginleikana er hægt að fá góða mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálf, hvaða styrkleika við áttum okkur á og hvaða veikleika við erum meðvituð um. Suma veikleika er hægt að vinna með og reyna að bæta úr en aðra verðum við hreinlega að sætta okkur við og reyna að minnka það vægi sem veikleikarnir hafa á sjálfsmynd okkar.

Elva Björk Ágústsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s