Undanfarið hefur mikið verið fjallað um heilsu og þyngd barna og unglinga. Þann 11. apríl síðastliðinn stóð Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir málþingi um úrræði fyrir of þunga unglinga. Í allri umræðu um þyngd og heilbrigði barna og unglinga er mikilvægt að huga að áhrifum þyngdarumræðunnar á börnin sjálf. Huga þarf að því hvernig rætt er um heilbrigt líf og hvaða áherslur við höfum í umræðunni og þeirri vinnu í að bæta heilsu barna og unglinga.
Oft og tíðum er lögð megin áhersla á þyngd, hve mikið offita hefur aukist meðal barna og unglinga og mikilvægi þess að stjórna þyngd þeirra og koma í veg fyrir heilsubresti. Á málþinginu sem og í annarri umræðu um þyngd barna koma oft fram margir góðir punktar og mikilvægi hreyfingar og andlegrar líðan gerð skil. Megin niðurstaðan er þó nær undantekningarlaust að nauðsynlegt sé að huga að kílóatölunni.
Hætta er á að skilaboð um mikilvægi þess að losa sig við „aukakíló“ ýti undir óánægju barna og unglinga með eigin líkama, sérstaklega þeirra sem teljast yfir kjörþyngd, þar sem þau fá skilaboð um að líkami þeirra sé ekki fallegur eða heilbrigður. Líkamsmynd þeirra getur versnað og áhrif skilaboðanna á líðan og heilsu þeirra orðið skaðleg.
Í allri þessari umræðu finnst mér vanta aðrar áherslur. Þótt reynt sé að stíla umræðunni frekar að almennri heilsu og bættri líðan barna og unglinga þá er niðurstaðan oftast sú sama, börnin þurfa að grennast til að líða betur! En er raunin sú? og ef svo er…. þurfum við þá að kenna börnum okkar að það sé mikilvægt fyrir þau að borða fjölbreyttan mat og hreyfa sig til að koma í veg fyrir ofþyngd eða offitu? eða eru aðrar áherslur betri?
Árið 1998 fór af stað rannsókn á áhrifum góðrar líkamsmyndar meðal unglingsstúlkna. Þar kom fram að þrátt fyrir að flestar upplifðu álíka þrýsting frá samfélagi sínu um að líta vel út og vera grannar, þá höfðu stúlkurnar misgóða líkamsmynd. En líkamsmynd stúlkna verður fyrir áhrifum af mörgum þáttum, sérstaklega þáttum í samfélaginu eins og þeirri ímynd sem er af hinu fullkomna útlit kvenna. Þær stúlkur sem voru með góða líkamsmynd voru ólíkar stúlkunum með slæma líkamsmynd að mörgu leyti. Til að mynda nefndu stúlkurnar sem voru með góða líkamsmynd að mæður þeirra hvöttu þær til að hreyfa sig, borða hollan mat og lifa heilbrigðu lífi og upplifðu stúlkurnar lítið umtal um megrun og mikilvægi þess að vera grannar. Stelpur með góða líkamsmynd huguðu meira að heilsu sinni, að því að borða hollan mat og hreyfa sig heilsunnar vegna en stúlkurnar með verri líkamsmynd. Stúlkurnar sem voru með verri líkamsmynd hugsuðu meira um mikilvægi þess að halda kílóafjöldanum í skefjum. Stelpurnar sem voru með slæma líkamsmynd vigtuðu sig einnig mun oftar en hinar og reyndu oftar að stjórna þyngd sinni með því að halda í við sig í mat.
Þótt allar stúlkurnar í rannsókninni lifi og hrærist í vestrænu samfélagi, þar sem skilaboð um grannan líkamsvöxt kvenna eru áberandi, þá voru skilaboð þeirra sem þær umgangast daglega að ólíkum toga. Áherslan á heilbrigt líf, hollan mat og hreyfingu óháð holdafari hafði jákvæð áhrif á stelpurnar. Áhersla á kílóatöluna hafði aftur á móti neikvæð áhrif. Jákvæð áhersla foreldra, vina og kunningja á heilbrigt líf óháð kílóum hafði góð áhrif á líkamsmynd stúlknanna hvort sem þær voru í kjörþyngd eður ei.
Foreldrar barna og unglinga sem eru yfir kjörþyngd hafa oft áhyggjur af þyngd og heilsu barna sinna. Margir reyna því að hafa áhrif á heilsu þeirra og hvetja börnin til að huga að kílóunum. „Heilsuátök“ þar sem mikil áhersla er lögð á mikilvægi þess að borða hollan mat og hreyfa sig til að stjórna þyngd eru oft eitt af þeim úrræðum sem foreldrar og jafnvel fagfólk grípa til. En hér er um erfiða jafnvægislist að ræða, þ.e hvernig hægt er að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum án þess að hafa neikvæð áhrif á líkamsmynd barna og unglinga. Margar rannsóknir hafa þó sýnt að betra sé að leggja áherslu á almenna heilsu, borða fjölbreytta fæðu og hreyfa sig án tengingar við þyngd, í stað þess að reyna að stjórna þyngd barna og unglinga.
Sumir efast þó um þetta og telja að börn og unglingar sem eru yfir kjörþyngd verði að vera raunsæ á eigið ástand og telja jafnvel að þau ættu ekki að vera eins ánægð með eigin líkamsvöxt og börn sem eru í kjörþyngd. Það virðist vera til staðar einhver hræðsla við það að hvetja börn og unglinga sem eru yfir kjörþyngd til að vera sátt við eigin líkama. Kannski hræðast foreldrar enn meiri þyngdaraukningu og telja því gott að barn þeirra sjái sína „ókosti“ og reyni að vinna að því að bæta eigið útlit og heilsu.
Árið 2007 var framkvæmd áhugaverð rannsókn á líkamsmynd unglinga og áhrif þess að hafa góða líkamsmynd á heilsu og líðan stúlkna sem eru yfir kjörþyngd. Þar kom fram að góð líkamsmynd hafði verndandi áhrif á stúlkurnar. Stúlkur í yfirþyngd sem voru sáttar við eigið útlit virtust hugsa betur um sjálfar sig, hreyfðu sig meira en þær sem voru með hugan við „ókosti“ sína og voru óánægðari með sig. Sátt við eigin líkamsvöxt kom meira að segja í veg fyrir meiri þyngdaraukningu árin á eftir.
Það er mín skoðun að mikilvægt sé að huga að heilsu og líðan barna og unglinga. Með því að stíla allar aðgerðir til að bæta heilsu á feit börn, þá stuðlum við ekki að heilbrigði allra hinna barnanna sem eru í kjörþyngd eða jafnvel undir kjörþyngd. Þau börn geta ekkert síður verið óheilbrigð og lifað óheilsusamlegu lífi, þar sem það er ekkert alltaf bein tenging á milli óheilbrigðs lífernis og kílóatölunnar. Ef niðurstöður margra rannsókn á áhrifum þess að þykja vænt um eigin líkama er höfð til hliðsjónar, þá er ljóst að þegar kemur að heilsuátökum eða inngripum til að bæta heilsu feitra barna og unglinga tel ég ákjósanlegast að hjálpa þeim að þykja vænt um eigin líkama og sjá jákvæðu eiginleika sína í stað þess að hjálpa þeim við að fylgjast með tölunni á vigtinni.
Elva Björk Ágústsdóttir
Rannsóknir sem vísað var í:
Kelly, A. M., Wall, M., Eisenberg, M. E., Story, M. og Neumark-Sztainer, D. (2005). Adolescent girls with high body satisfaction: who are they and whatcan they teach us? Journal of Adolescent Health 37, 391–396.
van den Berg, P. og Neumark-Sztainer, D. (2007). Fat ‘n Happy 5 Years Later: Is It Bad for Overweight Girls to LikeTheir Bodies? Journal of Adolescent Health 41, 415–417