Hrós stuðla að góðum samskiptum

Margir foreldrar kannast eflaust við það, að vera oftar en þeir vilja að finna að hegðun barna sinna og upplifa að þeir séu að segja sömu hlutina aftur og aftur án þess að nokkuð breytist. Margt getur orðið til þess að börn fá að heyra að þau séu ekki að standa sig nógu vel: þau raða ekki skónum sínum, ganga illa um, sinna ekki heimanámi, gleyma hlutum, flýta sér ekki nóg eða eru með of mikil læti svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er auðvelt að taka eftir því sem við erum ósátt við, en oft þarf að hafa meira fyrir því að taka eftir því sem vel er gert.

Það getur verið gagnlegt að setja sig í spor barna og velta því fyrir sér hvernig okkur liði ef einhver stæði stöðugt yfir okkur og biði færis á því að benda okkur á öll mistökin sem við gerum og það sem betur má fara  – „svakalega er skrifborðið þitt sóðalegt“, „afhverju ertu ekki búin að ryksuga gólfin?“„voðalega varstu dónaleg að hringja ekki í Sigga á afmælisdaginn hans“, „ekki vera að fá þér kex þegar það er hálftími í mat“. Fyrir fæst okkar væri þetta hvatning til þess að gera betur og það sama gildir fyrir börn. Aftur á móti er þetta líklegt til að skilja eftir tilfinningar sem stuðla að neikvæðri sjálfsmynd og hugmyndum um að takast illa upp og standa sig ekki nógu vel – sérstaklega hjá börnum þar sem sjálfsmynd er í stöðugri þróun.

Árangursríkari aðferð til þess að stuðla að bættri hegðun og sterkari sjálfsmynd hjá börnum er að vera vakandi yfir hegðun þeirra og hrósa þeim óspart þegar þau standa sig vel. Best er að tilgreina skilmerkilega þá hegðun sem hrósað er fyrir. Í stað þess að segja eingöngu „flott hjá þér“  er gott að vera nákvæmari og segja til dæmis „þú stendur þig vel í að muna eftir nestinu þínu á morgnanna“ eða „þú ert aldeilis góður bróðir að hjálpa litlu systur þinni í skóna sína“. Fyrirmæli þurfa auk þess að vera skýr og nákvæm og fela í sér það sem á að gera, frekar en það sem á ekki að gera.

Sumir eru mótfallnir því að hrósa börnum fyrir hegðun sem þeim þykir „sjálfsögð“, eins og að raða skóm eða ganga frá eftir sig. Það þarf hinsvegar að hafa í huga að hegðun sem þykir sjálfsögð hjá fullorðnum þarf alls ekki að vera það hjá börnum. Börn vita oft ekki eins vel og við höldum til hvers er ætlast af þeim, enda er stöðugt verið að bæta við kröfum um hvað þau eigi að gera og hvernig. Því er ekki óeðlilegt að hegðun þeirra sé oft á annan veg en óskað er eftir. Hinsvegar ef börn fá hrós og viðurkenningu fyrir það sem þau gera er líklegra að sama hegðun endurtaki sig fyrr og oftar. Sé það niðurstaða sem við leitum eftir er vænlegri kostur að leita uppi tækifæri til að hrósa börnum og gleðjast með þeim yfir allri góðri hegðun, litlum sem stórum skrefum, í stað þess að ergja sig á því að þau skuli ekki gera það sem okkur þykir sjálfsagt.

Þeir sem ekki hafa lagt það í vana sinn að hrósa fyrir einfalda og litla hluti en vilja sjá betri hegðun hjá börnum eða nemendum sínum, ættu að prófa að hrósa, sama barninu, að minnsta kosti fimm sinnum á dag, þó ekki sé í nema nokkra daga. Svo má meta það hvort ekki hafi dregið úr skömmum og neikvæðum samskiptum með bættri hegðun barnsins sem á í hlut. Að beina athyglinni að því sem börn gera vel frekar en illa er þar að auki ekki eingöngu jákvætt fyrir börnin sjálf heldur verður upplifun hinna fullorðnu af samskiptum við börnin jákvæðari og ánægjulegri.

María Hrönn Nikulásdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s