Mikil feimni getur haft neikvæð áhrif á líf barna og unglinga. Feimni eða hlédrægni getur haft þau áhrif að barnið missir af mörgum dásamlegum hlutum. Feimið barn getur til að mynda misst af tækifæri til að taka þátt í skólaleikritinu eða að sýna sitt besta í upplestri í kennslustund. Talið er að feimni hafi verið gagnleg áður fyrr og geti jafnvel verið það ennþá þar sem hún leiðir til varkárni í samskiptum. Mikil breidd er í feimni og getur barn til dæmis fundið fyrir örlítilli feimni þegar það er meðal ókunnugra og verið öruggt heima hjá sér eða með vinum sínum. Önnur börn geta þó upplifað mun meiri feimni, verið mjög óörugg meðal fólks og jafnvel þjáðst af félagsfælni.
Oftast birtist feimni hjá ungum börnum með þeim hætti að barnið horfir ekki í augu annarra, talar lágt eða jafnvel ekkert og er niðurlútt. Barnið getur jafnvel
límt sig fast við einhver sem það þekkir. Barnið tjáir síður skoðanir sínar og langanir, miðað við önnur börn.
Feimin börn eiga það til að hafa of miklar áhyggjur af skoðun annarra. Mörg hver telja að mikilvægt sé að vera fullkomin í samskiptum og áhrif minnstu mismæla eða athugasemda eru mikluð. Í samskiptum við annað fólk eiga börnin það til að mikla fyrir sér mikilvægi eigin hegðunar og hugsa mun oftar um það neikvæða en það jákvæða í eigin fari þegar kemur að samskiptum.
Þar sem feimin börn eiga það til að upplifa vanlíðan í margmenni eða meðal ókunnugra eiga mörg þeirra það til að forðast félagsleg samskipti eða mannamót. Tækifærin til að öðlast betri félagsfærni minnkar þar sem þjálfunin í félagslegum samskiptum er minni.
Barn sem er feimið er eðli málsins samkvæmt ekki mikið fyrir að trana sér fram. Erfiðara getur því reynst að ná það besta úr barninu þar sem það forðast að láta ljós sitt skýna.
Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd feiminna barna?
Í megin dráttum skiptir mestu máli að sýna barninu umhyggju en um leið festu og aga. Að vera góð fyrirmynd fyrir barnið í samskiptum skiptir einnig miklu máli. Þegar rætt er við barnið er mikilvægt að þrýsta ekki um of á það að barnið svari og gefa barninu rúm og færi á að svara. Oft getur verið gott að byrja á léttum, lokuðum spurningum, þar sem barnið þarf einungis að svara t.d. hver eða hvar, já eða nei, í stað þess að koma með langa lýsingu á atburðum. Taka skal einnig tillit til annarra tjáskipta eins og handahreyfinga eða bendinga.
Ef barnið heyrir ítrekað að það sé feimið fer það sjáft að trúa því og nota það sem afsökun fyrir því að forðast margt. Gott er því að reyna af fremsta megnið að hvetja barnið til að prófa nýja hluti. Í sumum tilfellum þarf ekki nema eina jákvæða reynslu af því að fara út fyrir þægindarammann til að minnka feimnina.
Mikilvægt er að fara ekki of geyst af stað, lítil markmið og lítil skref í einu. Í því samhengi er best að byrja á aðstæðum þar sem feimnin er ekki mikil og jafnvel æfa athafnirnar fyrirfram t.d að biðja um aðstoð kennarans. Að gefa barninu tækifæri á að nálgast markmið sín skref fyrir skref er mikilvægt. Barn sem treystir sér ekki til að halda fyrirlestur fyrir samnemendur sína gæti til að mynda treyst sér til að taka fyrirlesturinn upp á myndbandið og kynna myndbandið fyrir samnemendum sínum. Með því að setja lítil markmið að stóra markmiðinu (t.d. að halda fyrirlestur fyrir framan samnemendur) og aðlaga verkefni og athafnir að barninu getur það skref fyrir skref, sigur eftir sigur, nálgast loka markmiði sitt. Æfing og þjálfun á atburðum eða aðstæðum sem barnið kvíðir getur virkað mjög vel og ýtt enn betur undir góðan árangur.
Gott er að hvetja barnið til að tala við aðra og hrósa barninu fyrir góð samskipti t.d. þegar barnið býður góðan daginn eða heilsar bekkjarfélaga sínum. Hægt er að æfa félagsfærnina markvisst t.d. æfa að heilsa, kveðja, biðja um hjálp, tala við ókunnuga, hrósa, spyrja eftir vinum. Oft þurfa börn sem eru feimin aðstoð við að mynda vinasambönd og hvatningu til að leika við önnur börn. Vinasambandið getur síðan styrkt félagsfærni barnsins.
Fyrir mörg börn getur vinna með tilfinningatjáningu skipt sköpum. Sum feimin börn eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Sjálfsmynd þeirra getur verið slæm og því mikilvægt að styrkja sjálfstraust þeirra. Til að mynda með því að fræða barnið um að það sé ekki eitt í heiminum, mörg önnur börn upplifa svipaða tilfinningu og barnið sjálft. Gott er að gefa barninu tækifæri til að uppgötva og sýna sínu sterku hliðar og auka sátt þess við sérkenni sín.
Elva Björk Ágústsdóttir
Heimildir:
Butt, M., Moosa, S., Ajmal, M. og Rahman, F. (2011). Effects of shyness on the self esteem of 9th grade female students. International Journal of Business and Social Science. 2, 12.
Gréta Júlíusdóttir, Ásta Fr. Reynisdóttir, Hólmfríður B. Pétursdóttir. (2005). Feimni: Er hægt að hjálpa börnum að yfirstíga þá hindrun sem feimnin er og þá hvernig? B.Ed ritgerð:Háskólans á Akureyri, Kennaradeild.
Jakob Smári, Félagsfælni. Persona.is (http://www.persona.is/index.php?action=articles&method=display&aid=13&pid=11)
Kolbrún Baldursdóttir. (2006). Feimni hjá börnum. Uppeldi, 1, 19. árg.