Anna stendur nálægt körfuboltavellinum í frímínútum. Hún horfir á bekkjarfélaga sína spila körfubolta og langar mikið að vera með. Anna er þó ekki viss um hvort bekkjarfélagar hennar munu leyfa henni að vera með eða hvort þeim muni líka það að hafa hana með. Hún fylgist döpur með leik krakkanna, hún er leið yfir því að vera skilin útundan. Í stað þess að taka áhættuna og kanna hvort hún megi vera með þá stendur hún kyrr, dag eftir dag, og fylgist með körfuboltaleik þeirra og sannfærist meira og meira um það að hún sé skilin útundan.
Lísa hefur einnig mikinn áhuga á körfubolta og langar mikið að vera með bekkjarfélögum sínum í leiknum. Hún, líkt og Anna, þorir ekki heldur að taka áhættuna og óttast það að fá ekki að vera með ef krakkarnir fá tækifæri til að segja nei. Í stað þess að standa hjá og fylgjast með eða spyrja kurteisislega hvort hún megi vera með, ryðst hún inn á völlinn og heimtar að fá að vera með.
Það sem þessar stúlkur eiga sameiginlegt er ósk þeirra um að vera með bekkjarfélögum sínum og fá samþykki þeirra. Hegðun þeirra er þó ólík, önnur virðist aðgerðalaus og óörugg meðan hin er í raun of ákveðin, jafnvel ýtin.
Börn sem ná að fara milliveginn í samskiptum, tjá sig en um leið virða skoðanir annarra, virðast ná betri árangri í samskiptum. Börn sem eru ákveðin eiga auðveldara með að standa með sjálfum sér. Þau tjá tilfinningar sínar, þarfir og skoðanir án þess að hunsa eða gera lítið úr skoðunum, tilfinningum eða þörfum annarra.
Börn með slæma sjálfsmynd eiga mörg hver í vanda með að vera ákveðin. Ótti við höfnun eða að líta illa út í augum annara hefur áhrif á getu þeirra til að vera ákveðin og að tjá skoðun sína, sérstaklega ef skoðun þeirra stangast á við skoðun annarra. Sum börn þurfa þjálfun í því að vera ákveðin. Mestu máli skiptir að hvetja börn til að tjá skoðanir sínar, tilfinningar og þarfir en um leið virða skoðanir, tilfinningar og þarfir annarra.
Barn sem lendir í þeirri aðstöðu að samnemandi heimtar að fá bókina sem barnið er að lesa getur tjáð sig á mismunandi hátt. Barn sem á erfitt með að tjá skoðanir sínar og er aðgerðalaust myndi eflaust segja eitthvað í þessum dúr: „þú mátt alveg fá bókina mína, ég þarf hana hvort sem er ekkert„. Barn sem er frekar ýtið og jafnvel árásargjarnt myndi kannski segja eitthvað eins og „ef þú tekur bókina þá lem ég þig„. Barn sem er ákveðið en um leið virðir óskir samnemanda síns gæti sagt eitthvað á þessa leið „Ég er að lesa þessa bók núna, en ég get lánað þér hana þegar ég er búin með hana“. Hér er barnið að nota svokallaða „ég“ setningu.
Að nota „ég“ setningar færir áhersluna á barnið sjálft, ekki samnemandann. Barn sem er ákveðið og vill lýsa óánægju sinni með hegðun samnemanda síns gæti sagt: „Ég varð reið þegar þú heimtaðir að fá bókina mína þar sem ég kem ekki svona illa fram við þig“ Með því að nota „ég“ setningar getur barnið lýst tilfinningum sínum og skoðunum án þess að dæma eða sýna óvirðingu.
Hægt er að þjálfa börn í að nota „ég“ setningar og lýsa tilfinningum sínum í stað þess að dæma aðra. Gott er að nota dæmi: Óli sagði kennaranum að Ari hefði svindlað á prófinu, sem hann gerði ekki. Fyrstu viðbrögð Ara voru að segja við Óla: „Þú ert ömurlegur og algjör lygari, ég svindlaði ekkert!!“ Í stað þess að dæma og nota „þú“ setningar gæti Ari notað „ég“ setningu með því að segja: „Mér leið mjög illa þegar ég frétti að þú sagðir kennaranum að ég svindlaði á prófinu þar sem ég myndi aldrei búa til svona lygasögu um þig“.
Foreldrar, ráðgjafar eða kennarar geta leiðbeint barninu og hvatt það til að tjá sig á hreinskilinn máta án þess að dæma eða sýna öðrum óvirðingu. Hægt er að þjálfa Önnu í góðum leiðum til að komast inn í leik skólasystkina sinna með því að æfa ýmsar góðar setningar til að segja við bekkjarfélagana. Sömuleiðis er hægt að þjálfa Lísu í jákvæðari leiðum til að komast inn í leikinn.
Elva Björk Ágústsdóttir
Heimildir:
Schab, L. M. (2009). Cool, Calm and confident: A workbook to help kids learn assertiveness skills.
Tartakovsky, M. (2012). Raising Assertive Kids. Psych Central. November 21, 2012, from http://psychcentral.com/lib/2012/raising-assertive-kids/