Synir mínir (tveggja og átta ára) fengu yndislega bók í jólagjöf. Bókin heitir Flóðhesturinn sem vildi sjá rassinn á sér og fjallar um flóðhest sem er stór og feitur og afar ánægður með sjálfan sig. Hann eyðir drjúgum hluta dagsins í að dást að eigin vaxtarlagi (höfundar: Kristján Hjálmarsson og Salbjörg Rita Jónsdóttir).
Bókin var kærkomin gjöf inn á okkar heimili þar sem barbídúkkur hafa grennst, GI Joe er orðinn stæltari og meira skorinn, Ponyhesturinn orðinn hávaxinn og grennri og varla hægt að finna sögupersónu í barnabókum eða teiknimyndum sem er með annað vaxtarlag en fyrirsætur á tískupöllunum.
Mér finnst nauðsynlegt að börn fái upplýsingar um það að við erum ólík, og líkamar okkar eru mismunandi í laginu, sumir eru hávaxnir, aðrir lágvaxnir, sumir eru grannir meðan aðrir eru feitir. Það er því mikilvægt að fræðslu- og skemmtiefni sem beint er að börnum geri fjölbreytileikanum góð skil.
Skemmtileg barnabók um feitan flóðhest var því kærkomin gjöf 🙂
Elva Björk Ágústsdóttir