Í heimi þar sem góð frammistaða, keppnir og verðlaun eru mikils metin getur kvíði fyrir slakri frammistöðu og mistökum gert vart við sig hjá börnum. Frammistöðuótti, til dæmis gagnvart íþróttakeppnum, prófum eða sviðsframkomu, getur valdið mikilli vanlíðan og haft slæm áhrif á frammistöðu.
Börn búa við skilaboð úr öllum áttum um að mikilvægt sé að standa sig vel – skilaboðin koma úr fjölmiðlum, skóla, tómstundum og heimili. Þeim sem standa sig best er hampað en ekki hinum. Foreldrar hafa oft, með velferð barna sinna í huga, mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir ganga, gefa börnum sínum heilræði og óska þeim góðs gengis fyrir skóladaginn, æfingar og keppnir. Í orðunum „gangi þér vel“ felst þó ákveðin pressa (þó þau séu sett fram sem hvatning og stuðningur). Þetta er ósk foreldranna um að hlutirnir gangi vel hjá barninu, til dæmis á íþróttamóti, en hlutirnir ganga ekki alltaf vel og enginn gerir sitt allra besta alltaf. Þegar heim er komið mætir börnunum svo gjarnan spurningin „hvernig gekk?“ og ef svarið er „ekki vel“ fá þau hugsanlega viðbrögð eins og „jæja, það gengur bara betur næst“ – og þá er strax komin pressa fyrir næstu tilraun.
Börn hafa flest hver langa daga og mörg hver jafnvel lengri „vinnudaga” en fullorðið fólk sem vinnur fulla vinnu. Skóli og frístund alla virka daga og auk þess eru hjá flestum tómstundir og íþróttir oft í viku. Síðan er heimanám og oft og tíðum einhverjar skyldur á heimili. Með alla þessa dagskrá getur verið íþyngjandi að þurfa stöðugt að sýna góða frammistöðu og hafa áhyggjur af því að ekki takist vel upp.
Það er því mikilvægt að foreldrar, kennarar og þjálfarar hjálpi börnum að njóta og hafa gaman að því sem þau taka sér fyrir hendur en einblíni ekki á frammistöðu og árangur. Það er ekkert að því og yfirleitt jákvætt merki að börn vilji bæta sig og standa sig vel í því sem þau fást við – en eingöngu upp að vissu marki. Það er ekki jákvætt eða gott fyrir sálartetrið að trúa því að ekkert geti verið skemmtilegt nema að þú sért góður í því.
Töpum því ekki gleðinni, höfum áhuga á skemmtanagildi þess sem börnin okkar fást við. Hvetjum þau til að njóta hlutanna óháð frammistöðu. Það getum við til dæmis gert með því að hvíla hvatninguna „gangi þér vel“ og nota þess í stað setninguna „góða skemmtun!“ áður en barnið tekst á við eitthvað þar sem óvíst er um frammistöðu.
María Hrönn Nikulásdóttir