„Ég er frábær“ aðferðin

Klukkan er sjö að morgni. Guðrún, sem hefur fundið fyrir minnkandi sjálfstrausti, stendur fyrir framan spegilinn og segir „Ég frábær stelpa“.  Svona hefur hún byrjað alla daga í meira en þrjár vikur eftir að hafa fengið þessar ráðleggingar hjá umhyggjusamri frænku.

Image

Sjálfstraustið hefur þó látið á sér standa. Guðrún er ennþá að brotna saman einkum þegar henni gengur illa í skólanum og þegar krakkar í skólanum segja leiðinlega hluti við hana. Þá á hún það til að brjóta sig niður og staðhæfa að hún sé heimsk og leiðinleg.

Guðrún er í eðli sínu hvatvís og á það til að gera og segja hluti sem hún sér eftir. Með aldrinum hefur hún farið að taka þessi mistök mjög nærri sér. Veltir sér upp úr þeim og telur þau til marks um að hún sé ómerkileg, leiðinleg eða heimsk. Flestir sem þekkja Guðrúnu vita hinsvegar að hún er góð, skemmtileg, fyndin, ákveðin, hugulsöm og hæfileikarík stelpa, auk þess að vera lykilleikmaður í fótboltaliðinu sem hún æfir með. Hún er hinsvegar ekki, frekar en við hin, gallalaus eða þannig að öllum líki vel við hana.

Það má velta fyrir sér afhverju sjálfsstyrkingaraðferð Guðrúnar er ekki að virka – að hamra á því við sjáfa sig að hún sé frábær. Ástæðuna má líklega rekja til þess að það er erfitt fyrir Guðrúnu að halda í þessa hugmynd þegar henni verður á, hún nær ekki markmiðum sínum eða er hafnað af félögum. Sú reynslafer ekki saman við þá hugmynd hennar um að vera frábær manneskja. Annað veldur því einnig að aðferðin styrkir ekki sjálfsmynd hennar: Hún hefur óljósa hugmynd um hvað felst í staðhæfingunni og tilgreinir ekki ástæður fyrir því að hún sjálf sé frábær.

Til þess að sjálfsmynd Guðrúnar batni þarf hún að átta sig á því að hún hefur fjölmarga kosti og styrkleika sem margir vildu gjarnan búa yfir og  sætta sig við að vera ófullkomin manneskja sem gerir mistök eins og allir aðrir. Þá verður hún sáttari í eigin skinni og brotnar síður niður við minnstu mistök og óþægilegar uppákomur. 

Það er á brattann að sækja fyrir börn og unglinga með lítið sjálfstraust að ætla að telja sér trú um að þau séu frábær. Líklegra til árangurs er að aðstoða þau við að taka eftir og læra að meta styrkleika sína og kosti sem þau sannanlega hafa, ásamt því að sættast við veikleika sína og annmarka. Börn með slaka sjálfsmynd þurfa fyrst og fremst að komast á þann stað að upplifa sig engu verri né minna virði en önnur börn. Raunsætt mat á styrkleikum (með áherslu á hvað þau geta frekar en hvað þau geta ekki) er því vænlegra til árangurs en óraunsæ glansmynd af eigin ágæti sem heldur ekki vatni í mótlæti hversdagsins.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s