Áhrif hreyfingar á lífsgæði og sjálfsmynd

Heilsa og efnahagsleg staða á fullorðinsárum er samkvæmt rannsóknum betri hjá þeim sem hafa sterka sjálfsmynd í æsku auk þess sem afbrotahegðun meðal þeirra er ólíklegri. Þetta kemur ekki á óvart þar sem sterk sjálfsmynd stuðlar að aukinni getu til að setja sér raunhæf markmið og væntingar, takast á við erfiðleika, nýta sér bjargráð og eigin færni í daglegu lífi. Allt er þetta í röklegu samhengi. Sá sem hefur trú á sjálfum sér og setur sér raunhæf markmið er líklegri til að eiga meiri lífsgæði en sá sem hefur óraunhæfar hugmyndir um eigin getu og möguleika.

Það sem ekki er eins ljóst er hvernig við getum unnið að því að börnin okkar verði fullorðið fólk sem virkar vel í leik og starfi, líður vel í eigin skinni og metur sig og aðra í sanngjörnu ljósi. Það er enginn einn aðili sem getur séð um það verkefni. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra sem komum að börnum á einn eða annan hátt að byggja þau upp. Óteljandi þættir í tilveru barna hafa áhrif á sjálfsmynd þeirra. Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn.

li-kids-exercise

Hreyfing er eitt af því sem skiptir verulegu máli fyrir sjálfsmynd barna. Frá ungum aldri hefur hreyfing áhrif á hvernig við upplifum okkur sjálf, aðra og heiminn. Rannsóknir benda til að hreyfing bæti líðan og námsárangur barna ogungmenna umtalsvert. Með hæfilegri hreyfingu eykst magn serotonins, norepinephrins og dopamins í blóði en þessi boðefni hafa veruleg áhrif á hugsun og líðan. Niðurstöður nýlegra rannsókna styðja sterklega að hreyfing sem er í samræmi við þörf og getu hvers og eins hafi bætandi áhrif á einbeitingarvanda, kvíða- og þunglyndiseinkenni, streitu og fíknihegðun.

Í framhaldsskóla einum í Bandaríkjunum (Naperville Central High School) var íþróttakennslunni breytt og áhersla á hreysti og lífstíl aukin til muna. Til að auka virkni, þátttöku og meta framlag og áreynslu var tekin upp sú aðferð að leggja mat á hjarta- og æðahreysti (cardiovascular fitness). Byrjað var að nota púlsmæla og mældur sá tími sem nemendur voru á æskilegu púlsbili meðan þau hreyfðu sig. Þetta gaf aukin tækifæri til að meta framfarir hvers og eins miðað við hann sjálfan í stað þess að hluti nemenda væri eftirbátur í samanburði við þá sem best standa sig í íþróttum. Eftir að í ljós kom að breytingarnar höfðu í för með sér mælanlega bættan námsárangur og bætta líðan nemenda var þróuð stefna (Sparking Life) sem byggir á sterkum grunni rannsókna sem undirstrika góð áhrif hreyfingar á þróun heilastarfsemi, andlega heilsu og hegðun. Tækifæri nemenda til hreyfingar voru aukin, bæði á morgnana fyrir bóklega tíma og yfir skóladaginn. Einkunnir í bóklegum fögum hækkuðu og líðan nemenda varð betri. Stefna um aukin tilboð hreyfingar við hæfi með áherslu á getu og þarfir hvers og eins hefur í auknu mæli verið aðlöguð í skólum víðsvegar.

Allt þetta leiðir hugann að tækifærum barnanna okkar til hreyfingar, þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra í hreyfingunni og hvað þau fá út úr því að hreyfa sig. Hafa börn tækifæri til að hreyfa sig nægilega oft yfir daginn og eru þau tækifæri með þeim hætti að börnin nýta sér þau og njóti þeirra? Væri æskilegt að setja aukna líkamlega virkni inn í og fyrir kyrrsetutíma í skólum til að mynda? Er ástæða til að auka framboð hreyfingar fyrir börn eftir skólatíma sem miðast við getu hvers og eins? Það er afar mikilvægt að öll börn fái að upplifa: „Það tókst!“ þegar kemur að íþróttum, bæði á skólatíma og utan. Það er grundvallaratriði fyrir sjálfsmynd hvers og eins að hann hafi tækifæri til að uppskera í samræmi við það sem hann leggur á sig.

Eins og áður sagði er markviss uppbygging sjálfsmyndar í verkahring allra aðila sem koma að uppeldi barna. Samvera með fjölskyldumeðlimum í hæfilegri hreyfingu og afslöppuðu andrúmslofti þar sem áhersla er á að njóta er mikils verð þegar kemur að því að stuðla að sterkri sjálfsmynd.

Vægi hreyfingar í lífsgæðum á fullorðinsárum gefur tilefni til að leggja áherslu á að þörfum barna um hreyfingu sé mætt og að ígrunda sérstaklega með hvaða hætti hreyfing stuðlar að bættri sjálfsmynd og auknum lífsgæðum þeirra í æsku og síðar á æfinni. Nýtum þekkingu og reynslu sem byggir á vísindalegum grunni og bendir sterklega til að það skipti máli að börn fái tækifæri til hreyfingar reglulega yfir daginn, að í hreyfingunni felist hæfileg áreynsla og að framlag sé metið í samræmi við getu. Hæfileg hreyfing stuðlar að aukinni einbeitingu og úthaldi námslega, í samskiptum og hegðun og skilar sér í bættri líðan.

Hér að neðan eru slóðir þar sem finna má efni til að brjóta upp kenslustundir, auka notkun líkamlegrar virkni í námi, fréttatengt efni og lesefni um Naperville Central High og Sparking Life:

http://sparkinglife.org/page/naperville-central-high-school

http://www.pbs.org/wnet/need-to-know/video/a-physical-education-in-naperville-ill/7134/

http://www.learningreadinesspe.com/

http://www.edutopia.org/new-pe-curriculum

http://abcnews.go.com/WN/exercise-school-leads-learning/story?id=10371315#.UYq3y6Lwl4J

http://www.leikuradlaera.is/

Anna Sigríður Jökulsdóttir sálfræðingur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s