Kannist þið við samtal líkt þessu:
Anna: „Ohhh ég er svo feit í þessum buxum? „
Lísa: „Nei hvað er að þér? Þú ert sko ekkert feit! Ef þú er feit, hvað er ég þá? Ég er miklu feitari en þú“
Anna: „Nei Lísa!! Rassinn minn er miklu breiðari en rassinn þinn, ég vildi ég hefði rass eins og þinn“
Samtal þessu líkt er ekki óalgengt meðal stúlkna og kvenna. Umræðuefnið getur verið mismunandi en aðalatriðið er hið sama, kvartanir yfir eigin líkamsvexti.
Óánægja með eigin líkamsvöxt er svo algeng í okkar samfélagi að nær eðlilegra þykir að vera ósáttur við vöxt sinn en sáttur, sérstaklega meðal stúlkna. Óánægja með líkamsvöxt eða slæm líkamsmynd er alvarleg í ljósi þess hve mikil áhrif óánægjan hefur á líðan og heilsu fólks. Til að mynda er slæm líkamsmynd og sókn í grannan vöxt mikill áhrifaþáttur í þróun átraskana (Stice, 2001).
Í rannsókn á unglingsstúlkum frá árinu 1994 var hugtak sem nefna má fitutal eða fat talk fyrst reifað. Nichter og Vuckovic (1994) nefndu samræður milli stúlkna, þar sem þær tala neikvætt um líkamsvöxt sinn, fitutal. Fitutal er félagslegt og eru slík samtöl mjög algeng í okkar samfélagi. Fitutalið getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar, sátt við líkamann og líkamsmynd. Að heyra aðra tala neikvætt um eigin líkama getur einnig haft neikvæð áhrif. Fitutal annarra ýtir undir fitutal hjá okkur sjálfum sem hefur síðan slæm áhrif á líkamsmynd og líðan (Salk og Engeln-Maddox, 2011)
Þegar við forðumst að tala illa um líkamsvöxt og neitum að taka þátt í slíkri umræðu þá líður okkur betur. Að eyða umræðuefninu eða draga athygli fólks að öðru umræðuefni getur haft jákvæð áhrif. Fitutal innan hópsins verður fátíðara og áhrif þess minnka. Góð eða hnyttin mótrök geta jafnvel haft mikil áhrif á það að bæta líkamsmyndina. Mótrökin ættu ekki að vera í þeim dúr að styðja viðkomandi í fitutalinu t.d. með því að svara Önnu líkt og Lísa gerir, þ.e. að sannfæra Önnu um að hún sé ekki feit. Lísa gæti frekar reynt að storka hugmyndum Önnu um hinn „fullkomna líkamsvöxt“ eða gagnrýnt þá hugmynd að útlit okkar hafi mikið með mannkosti okkar og verðleika að gera.
Einnig er mikilvægt að hafa í huga áhrif fitutals fullorðinna á börn. Möguleiki er á því að Anna líkist móður sinni. Frá því Anna var lítil hefur móðir hennar verið í megrun. Móðir hennar kvartar ítrekað yfir „aukakílóum“ og breiðum rassi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft segir orðatiltækið. Skilaboðin sem Anna fær frá móður sinni eru skýr! Útlit mitt er óæskilegt! Varast skal að líta svona út.
Hlífum börnum fyrir miklu og neikvæðu útlitstali og reynum að bera meiri virðingu fyrir okkur sjálfum í leiðinni.
Elva Björk Ágústsdóttir
Heimildir:
Salk, R. H. og Engeln-Maddox, R. (2011). „If you’re fat, than I’m humongous!“ Frequency, content, and impact of fat talk among college women. Psychology of women quarterly, 35, 18-28.
Stice, E (2001). A prospective test of the dual pathway model of bulimic pathology: Mediating effects of dieting and negative affect. Journal of Abnormal Psychology, 110, 124-135.