Þegar börn segja að þau séu léleg í einhverju, eigum við fullorðna fólkið það til að rjúka til og leggja okkur öll fram við að sannfæra þau um að það sé ekki rétt hjá þeim. Gunna sem segir að henni leiðist danstímar af því hún sé léleg í dansi, fær að heyra að það sé tóm vitleysa hún sé “flottur dansari” og Andri sem er óánægður með teikninguna sína fær að heyra að teikningin sé “svakalega flott”.
Ef börn fá skilaboð um að það sé slæmt að hafa galla eða vera ekki góð í því sem þau taka sér fyrir hendur getur það í einstaka tilfellum leitt til fullkomnunaráráttu eða óhóflegrar hræðslu við eigin mistök. Þetta á einkum við um börn með veika sjálfsmynd, þau eiga oft í erfiðleikum með að horfast í augu við eigin ófullkomnun. Börn með sterka sjálfsmynd fara aftur á móti síður úr jafnvægi þó þau reki sig á veikleika sína eða vangetu.
Eitt af verkefnum okkar sem önnumst börn er að hjálpa þeim að sjá styrkleika sína og kosti og sættast við eigin galla og ófullkomnun. Fólk sem gerir sér grein fyrir veikleikum sínum, en er um leið meðvitað um styrkleika sína og mannkosti, á auðveldara með að finna sína hillu og sjá í hverju það þarf að bæta sig. Þó svo að barn segist vera lélegt í fótbolta/teikningu/lestri þá þarf það ekki að gefa til kynna að barnið hafi slaka sjálfsmynd eða sé óánægt með sig. Ef um raunsætt mat er að ræða og barnið er sátt í eigin skinni og með þá styrkleika sem það býr yfir, getur þetta eingöngu verið lýsing þeirra á eigin getu. Vanlíðan þarf ekki að fylgja slíkum staðhæfingum. Öðru máli gegnir um staðhæfingar af þessu tagi sem ekki eiga við rök að styðjast (þ.e. barn segist vera lélegt í einhverju sem það er ekki lélegt í) eða eru sagðar í tilfinningalegu uppnámi. Það er vel hægt að benda á eigin vankunnáttu og galla án þess að því fylgi vondar tilfinningar.
Vinkona mín sagði, til dæmis, eftir misheppnaða tilraun til þess að gera sykurmassaköku “þetta er ekki alveg mín deild, svona föndur”. Það var ekki annað að sjá en að hún hefði þó gaman að skrautlegri útkomunni eins og viðstaddir sem gerðu enga tilraun til þess að segja henni að þetta væri góð frammistaða. Enginn virtist telja þörf á því fyrir hæfilekaríka og skemmtilega konu að telja henni trú um að hún sé efnileg kökuskreytingakona.
Oft er betra að taka yfirlýsingum um slaka frammistöðu og vangetu með yfirvegun í stað þess að rengja barn umhugsunarlaust. Það er til dæmis hægt að spyrja barnið hvað það hafi fyrir sér í því og hvort það hafi áhuga á að bæta sig eða ekki. Það þarf ekki að vera vandamál að vera ekki góður í dansi, teikningu, eldamennsku eða fótbolta, það fer allt eftir áhuga, gildum og aðstæðum hvers og eins. Auk þess er gott er að hafa í huga að allir eru lélegir í einhverju og allir sem eru góðir í einhverju hafa einhvern tíman verið lélegir eða ekki eins góðir í því sama.
María Hrönn Nikulásdóttir, sálfræðingur
Bakvísun: Enginn getur allt, en allir geta eitthvað | Krítin