Veikindi og aðrir erfiðleikar geta haft veruleg áhrif á sjálfsmynd barna. Það er mismunandi eftir þroska, reynslu og persónuleika hvernig börn bregðast við erfiðleikum.
Börn sem eru undir miklu álagi geta verið viðkvæm, pirruð, uppstökk, niðurdregin og óákveðin auk þess sem svefn og matarlyst getur raskast. Fram geta komið erfiðleikar með einbeitingu, minni og viðbragð, félagsfærni getur dalað og orðið tímabundin afturför í tilteknum þroskaskrefum. Börnin geta þá upplifað sig minni máttar, að verkefni séu þeim ofviða og trú þeirra á eigin getu minnkað.
Þá gildir að gefa barninu tíma, sýna skilning, stuðning og hvatningu og gæta þess að kröfur séu raunhæfar, að barnið geti uppfyllt þær. Þannig ætti að laga kröfur að aðstæðum en ekki að sleppa öllum kröfum. Það er í lagi að þeirra besta sé ekki eins og venjulega en það er styrkjandi fyrir sjálfsmyndina að standa sig vel, líka í erfiðum aðstæðum.
Þarfir barnsins fyrir umhyggju og öryggi geta aukist og mikilvægt er að mæta þeim. Draga ætti úr óþarfa álagi, reyna að halda föstum skorðum á daglegu lífi án þess þó að gleyma að skemmta sér. Gott er að finna tíma til að vera með hverju barni í einrúmi daglega, þó ekki sé nema 10 mínútur.
Viðbrögð og viðhorf sem börn mæta í umhverfinu hafa áhrif á sjálfsmynd þeirra. Það er því mikilvægt að þeir sem umgangast barnið mest séu upplýstir um hvernig hægt er að koma á móts við þarfir barnsins og fjölskyldunnar. Miðað við þroska og aðstæður ætti að hafa barnið sjálft með í ráðum eins og hægt er, upplýsa það um hvað öðrum er sagt um erfiðleikana og aðstoða það við að búa sig undir hvernig það vill svara spurningum frá öðrum. Mikilvægt er að setja viðeigandi orð á veikindi eða erfiðleika svo auðveldara sé fyrir barnið að tala um þá og bregðast við þegar aðrir tala um þá. Þannig er hægt að stuðla að auknu öryggi hjá barninu í samskiptum við aðra, skapa umhverfi sem gerir nauðsynlegar en raunhæfar kröfur til barnsins og auka um leið skilning allra á að við höfum ólíkar þarfir.
Það er nauðsynlegt fyrir börn að upplifa stundir þar sem þau geta gleymt erfiðleikum og önnur viðfangsefni átt hug þeirra allan. Þegar um veikindi eða sorg er að ræða getur nægt að fullvissa barnið um að það verði alltaf látið vita ef eitthvað alvarlegt er að gerast. Að segja barninu sannleikann skapar og viðheldur trausti. Það þarf ekki að segja barninu allt en segja því nóg til að seðja þörf þess fyrir upplýsingar og til að sefa ótta og áhyggjur sem upp geta komið.
Eitt af grundvallaratriðum þess að þroska með sér sterka sjálfsmynd er að börn finni að þau geti talað um líðan sína. Að áhyggjur og líðan séu tekin gild, hlustað sé á þau og brugðist við í rökréttu samræmi. Það er mikilvægt að börnin viti að það er eðlilegt og algengt að erfiðar tilfinningar og áhyggjur geri vart við sig í erfiðum aðstæðum. Stundum minnkar ótti með því einu að tala um hann. Stundum byggist ótti á misskilningi og þá má sefa hann með því að segja barninu að ótti þess sé skiljanlegur og útskýra svo staðreyndir á einfaldan hátt.
Ein aðferð til að vinna úr erfiðum tilfinningum er að beina athygli einnig að kostunum sem aðstæður hafa í för með sér. Ekki gera lítið úr erfiðleikunum en muna að sjá björtu hliðarnar. Það getur hjálpað að líta á erfiðleika sem tækifæri til að þroskast og læra. Það getur verið góð leið að kenna barninu hvetjandi sjálfstal, til dæmis að segja aftur og aftur „ég held ég geti þetta“. Það getur einnig hjálpað barninu að orða áhyggjur sínar og setja þær til hliðar á táknrænan hátt.
Það er mikilvægt að barnið finni að það má alltaf spyrja og að það er hvatt til að ræða málin þó við höfum ekki alltaf fullnægjandi svör. Þó barnið hafi ekki þörf eða vilja til að ræða vandann í dag getur verið að þau vilji það síðar. Það er hægt að hvetja börn til að tala um líðan sína með því að nota ýmislegt í umhverfinu, til dæmis aðstæður sem koma upp, leik sem þau eru í, mynd sem þau teikna eða sjónvarpsefni sem þið eruð að horfa á. Hér gildir að bjóða barninu upp á að tala opinskátt um áhyggjur sínar en um leið gefa því það svigrúm sem það þarf og leyfa því að gleyma sér og njóta líðandi stundar.
Þegar erfiðleikar steðja að er mikilvægt að leggja ríka áherslu á það sem barnið getur, hefur gagn af, dreymir um og þykir skemmtilegt. Er eitthvað sem barninu hefur langað að gera en ekki framkvæmt? Nú gæti verið rétti tíminn til að afla nýrra jákvæðra minninga og byggja upp jákvæða reynslu. Erfiðleikar geta dregið fram veikleika í fari barna líkt og fullorðinna. Því er sérstaklega mikilvægt að rækta styrkleika þeirra, finna nýja styrkleika og uppgötva ný áhugasvið. Ekki gleyma að hafa gaman og nota húmor. Það er ótrúlega losandi að hleypa fram af sér beislinu, hlægja, láta eins og fífl og skemmta sér.
Skemmtilegt og gagnlegt er að halda upp á velgengni í stóru sem smáu. Þannig fá börnin viðurkenningu á að verkefni þeirra séu ögrandi um leið og ýtt er undir sjálfstraust þeirra til að takast á við þau. Eitt af því besta sem hægt er að gefa börnunum er ekki vernd fyrir breytingum, missi eða erfiðleikum heldur sjálfstraust og verkfæri til að bjarga sér og þroskast í öllum aðstæðum sem þau rata í á lífsleiðinni. Í gegnum erfiðleika er hægt að kenna börnum lífsleikni og viðhorf sem gagnast þeim þegar á móti blæs. Þegar börn finna leiðir framhjá takmörkunum læra þau m.a. sveigjanleika, þolinmæði, sjálfstæði, umburðarlyndi og samvinnu.
Á erfiðum tímum er mikilvægt að huga að líðan allra í fjölskyldunni. Það er nauðsynlegt að sinna eigin þörfum. Öðruvísi er erfitt að styðja aðra til lengdar. Það er því mikilvægt að þiggja hjálp og leita hjálpar. Gera ráðstafanir til að fá reglulega hvíld frá ábyrgð og alvöru og gæta þess að klára ekki orkubyrgðirnar. Það er í lagi að börnin sjái að fullorðna fólkið getur ekki gert allt. Ofurforeldrar eru ekki til í alvörunni.
Undir álagi geta allir gert mistök. Verið uppstökkir, brugðist illa við og svo framvegis. Það er allt í lagi að gera mistök. Það er það sem fólk gerir eftir mistök sem segir mest til um hvort reynslan styrki það. Það er öllum hollt að læra að sætta sig við takmarkanir sínar og að fyrirgefa sjálfum sér mistök. Gagnlegt viðhorf er að við erum ekki fullkomin og það gerir ekkert til. Að við reynum okkar besta en meira getum við ekki gert. Stundum er okkar besta ekki alveg frábært en það gerir heldur ekkert til.
Ef barn virðist ekki vera að jafna sig eftir áfall eða erfiðleika, heldur áfram að vera áhyggjufullt, óttaslegið eða sýnir önnur einkenni kvíða eða depurðar getur verið nauðsynlegt að fá aðstoð sálfræðings eða annars fagaðila til að hjálpa barninu að vinna úr erfiðum tilfinningum. Alltaf ætti að hafa samband við fagmann ef viðvarandi áhyggjur eru af þroska, líðan eða hegðun barna.
Anna Sigríður Jökulsdóttir, sálfræðingur hjá Krafti og sjálfstætt starfandi að Laugavegi 13.