Gagnleg ráð við kvíða barna

kvíði barn

Á vefsíðunni  PsychCentral má finna gagnlega grein eftir Renee Jain, um það hvað foreldrar geta gert fyrir barn sem upplifir kvíða

Í greininni eru tekin saman gagnreynd ráð sem hafa reynst vel þegar kemur að því að bæta líðan kvíðafullra barna.

Margir þekkja það eflaust að verða pirraðir og að finna fyrir vonleysi yfir kvíða barna sinna t.d þegar barn óttast það að mæta í skólann, í afmæli, til tannlæknis eða að spyrja eftir vini. Augljóslega er ekki til ein töfralausn fyrir alla en hér má finna nokkur atriði sem geta nýst vel:

  1. Hughreysting virkar ekki alltaf

Barn sem hefur áhyggjur af einhverju á erfitt með að meðtaka skilaboð foreldra sinna um að ekkert sé að óttast. Að segja við barn að það sé ekkert að óttast í skólanum, afmælinu, kringlunni eða hvar sem er hjálpar oftast ekkert. Ein af ástæðunum er sú að þegar kvíðinn tekur yfir okkur þá fer heilinn okkar í árásar eða flótta gírinn og rökhugsun minnkar. Það getur því verið afskaplega erfitt fyrir barn að hugsa rökrétt þegar kvíðinn er sem mestur. Það getur því hentað betur að hjálpa barninu að taka pásu og  draga djúpt andann til að róa taugakerfið. Þegar barnið hefur róast er hægt að finna mögulegar lausnir á vandanum.

  1. Áhyggjur geta verið góðar 😉

Sum börn brjóta sig niður fyrir það að hafa áhyggjur og halda að eitthvað sé að þeim. Fyrir þau getur virkað vel að læra um áhyggjur og hvaða gagn við höfum haft af áhyggjum í tímans rás. Gott getur verið að segja frá því þegar forfeður okkar þurftu að vera á varðbergi fyrir hættulegum dýrum. Áhyggjur geta virkað sem tæki til að hjálpa okkur að lifa af, einhvers konar varnarkerfi. Áhyggjurnar kveikja á viðvörunarbjöllum og við reynum að komast úr hættu. En stundum geta bjöllurnar hringt þegar engin hætta steðjar að og mikilvægt er að reyna að minnka slíkar falshringingar.

  1. Leyfum kvíðanum að „lifna við“

Að hunsa kvíða hjálpar sjaldnast. Fyrir börn getur hentað vel að persónugera kvíðann, gera kvíðann að manneskju eða fígúru. Hægt er að fræða barnið um að Kalli kvíði eða Kvíðaormurinn eigi heima í „gamla“ heilanum og átti að hjálpa okkur að lifa af þegar við bjuggum í hellum. Stundum er Kvíðaormurinn aðeins of fjörugur og alltaf að láta vita af sér og er þá mikilvægt að reyna að koma vitinu fyrir hann og róa hann.

  1. Gerumst spæjarar

Gott er fyrir börn að muna það að áhyggjur eru leið heilans til að bjarga okkur ef við erum í einhvers konar hættu. Áhyggjur sjá til þess að við tökum eftir öllu í kringum okkur svo ekkert hættulegt fari fram hjá okkur. Við gerum þó stundum mistök, höldum til dæmis að trjágrein sé snákur. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að prófa að vera spæjari, grípa hugsanirnar þegar þær birtast, finna sönnunargögn, með og á móti og jafnvel fara í rökræðukeppni við Kalla kvíða eða Kvíðaorminn.

  1. Leyfum áhyggjurnar

Að segja barni að hafa engar áhyggjur minnkar oftast ekki áhyggjurnar. Að leyfa barni að hafa áhyggjur og lýsa þeim fyrir foreldrunum í ákveðinn tíma á dag (áhyggjutími) í t.d 10-15 mínútur getur verið hjálplegt. Í áhyggjutímanum tjáir barnið áhyggjur sínar skriflega eða munnlega (getur verið gaman að leyfa barninu að skrá áhyggjur niður á blað og geyma í áhyggjuboxi). Þegar áhyggjutíminn er liðinn er mikilvægt að kveðja áhyggjurnar og halda áfram með daginn. Af eigin reynslu þá hefur þessi aðferð reynst vel. Barn sem hefur miklar áhyggjur yfir daginn og er vant að tjá sig um allt milli himins og jarðar sem veldur því áhyggjum á það til að gleyma „litlum“ áhyggjum þegar loksins er komið að áhyggjutímanum og þannig minnka áhrif kvíðans smátt og smátt.

  1. Færum okkur frá HVAÐ EF yfir í HVAÐ ER

Við eigum það til að velta óorðnum hlutum mikið fyrir okkur t.d hvað gerist ef ég mismæli mig í tíma, hvað gerist ef Anna vill ekki vera með mér í dag…….? Rannsóknir sýna að það að einbeita sér að núinu og því sem raunverulega er að gerast en ekki öllu því sem gæti gerst hefur jákvæð áhrif á líðan. Núvitundaræfingar geta því haft jákvæð áhrif á börn.

  1. Forðumst að forðast 🙂

Þegar börn hræðast eitthvað reyna þau mikið að forðast það sem þau hræðast t.d sleppa æfingu, afmæli, forðast hunda og annað. Mikilvægt er fyrir foreldra að aðstoða börnin við að nálgast það sem þau hræðast. Hægt er að gera það í þrepum svo barnið finni sjálft að það hafi ekkert að hræðast t.d sjá mynd af hundi, horfa á myndband af hundi, svo fara í almenningsgarð þar sem hundar gætu verið ……og að lokum kannski klappa hundi.

  1. Tékklisti

Þrátt fyrir margra ára reynslu fara þjálfaðir flugmenn ávallt í gegnum tékklista þegar eitthvað kemur upp á í flugi, því vitað er að þegar við erum í einhvers konar hættu eða teljum okkur í hættu þá virkar rökhugsun okkar ekki alltaf eins vel og hún getur. Það getur því verið gagnlegt að útbúa einhvers konar tékklista fyrir barn sem finnur fyrir kvíða t.d anda rólega og meta aðstæður.

Hér má finna áhugaverða síðu til að aðstoða börn við að komast yfir kvíða.

Elva Björk Ágústsdóttir

Náms- og starfsráðgjafi, (MS í sálfræði)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s