Á ég að hrósa barni mínu?

Ég hef lent í ansi skrautlegum rökræðum við fólk um hrós og hvatningu til barna. Sumir eru á því að við hrósum börnum of mikið og fyrir lítið og það hafi letjandi áhrif á börnin. Það getur verið að eitthvað sé til í því. Rannsóknir sýna til dæmis að hrós eru misgóð. Það skiptir máli hvernig við hrósum. Að hrósa barni fyrir eiginleika sem eru nokkuð stöðugir eins og greindarfar getur í sumum tilvikum haft letjandi áhrif meðan það að hrósa fyrir hegðun eða virkni getur haft hvetjandi áhrif. Barn sem fær hvatningu fyrir verknað t.d. fyrir góða virkni í verkefni sem unnið er í skólanum, er líklegra til að reyna meira á sig. Barn sem fær eingöngu hrós fyrir að vera klárt er ekki endilega líklegra til að reyna mikið á sig, það gæti jafnvel reynt að komast undan krefjandi verkefnum af hræðslu við að mistakast.

hurray_1

En hrós eru mikilvæg.

Albert Bandura doktor í sálfræði vakti áhuga fólks á hugtakinu trú á eigin getu (self efficacy). Trú á eigin getu er skilgreint sem mat okkar á eigin færni til að skipuleggja og framkvæma röð aðgerða sem eru nauðsynlegar til að geta framkvæmt ákveðnar tegundir verkefna. Hér er ekki um almenna hæfni að ræða heldur færni í ákveðnum verkefnum eða aðstæðubundið mat á hæfni til að framkvæma afmarkað verkefni. Einstaklingur getur þess vegna verið með nokkuð gott sjálftstraust þótt trú hans á eigin getu í eldhúsinu er ekki mikil. Eins getur einstaklingur verið með lítið sjálfstraust en góða trú á eigin getu þegar kemur að eldamennsku.

Ýmist þættir hafa áhrif á trú okkar á eigin getu t.d. bein reynsla, þ.e. hvernig áður hefur gengið að framkvæma ákveðið verkefni. Ef mér hefur hingað til gengið nokkuð vel að elda góðan mat þá eykur það líkur á því að ég hafi góða trú á eigin getu í eldhúsinu. Óbein reynsla getur líka haft áhrif á mótun trúar á eigin getu. Að fylgjast með öðrum og læra þannig handbrögðin í eldhúsinu eykur líkur á því að ég treysti mér til að gera eins. Lýsandi dæmi um þetta kemur úr heimi íþróttanna. Áður töldu menn að líkamlega ómögulegt væri að hlaupa mílu á innan við fjórum mínútum enda hafði engum tekist það fyrir árið 1954. Það ár braut þó Englendingurinn Roger Bannister fjögurra mínútna múrinn með því að hlaupa fjórar mílur á tímanum 3,59 mínútur. Árangur hans hafði mikil áhrif á aðra hlaupara. Ári síðar náðu 37 hlauparar svipuðum tíma og árið þar á eftir brutu 300 hlauparar fjögurra mínútna múrinn. Ólíklegt er að líkamlegt form hlaupara hafi breyst á svo dramatískan hátt á þessum stutta tíma. Líklegra þykir að hugsunarhátturinn hafi breyst. Með því að sjá aðra framkvæma verkið aukast líkurnar á því að við teljum okkur sjálf geta gert hið sama.

Aðrir þættir hafa áhrif á trú á eigin getu og spilar hvatning þar stórt hlutverk. Skilaboð frá öðrum, hrós og klapp eflir okkur. Að heyra “þú getur þetta” eða “áfram áfram!!” staðfestir hugmynd okkar um getuna og ýtir undir enn betri árangur.

Trú á eigin getu getur haft mikil áhrif á líf okkar. Einstaklingar með góða trú eru til að mynda líklegri til að velja krefjandi og þroskandi verkefni í stað þess að forðast þau og efla þannig ennþá betur færnina. Trú á eigin getu hefur áhrif á hve mikið við leggjum á okkur. Einstaklingur með góða trú sýnir seiglu og gefst síður upp við mótlæti. Góð trú á eigin getu getur líka haft áhrif á sjálfstal. Þeir sem hafa litla trú velta sér meira upp úr mistökum, vanmeta getu sína og þeim líður verr við mótlæti. Ef viðkomandi gerir mistök er hann líklegri til að telja orsökina liggja í skort á getu eða hæfni. Þeir sem hafa góða trú á eigin getu beina athyglinni frekar að verkefninu og mögulegum launsum. Ef gerð eru mistök, eiga þeir það til að telja þau verða vegna þess að þeir lögðu ekki nægilega hart að sér og því líklegri til að reyna betur næst.

Til að efla sjálfsmynd barna er því mikilvægt að hvetja þau áfram og nota hrós. Við getum bent þeim á fyrri árangur eða notað herminám og sýnt þeim hvernig eigi að gera og hvetja þau áfram þegar þau reyna sjálf.

Elva Björk Ágústsdóttir

Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s