Í dag er Dagur líkamsvirðingar. Mig langar í tilefni dagsins að líta aðeins til baka og tala um mína eigin líkamsvirðingarbaráttu. Það er svo margt sem mig langar að segja að ég veit varla hvar ég á ætti að hefja þessi „hugsa upphátt“ skrif.
Baráttan fyrir líkamsvirðingu getur verið fjölbreytt. Benda má á mikilvægi þess að einblína á heilsu en ekki holdafar einnig má benda á mikilvægi þess að berjast gegn fitufordómum. Þegar mín líkamsvirðingar vegferð hófst hafði ég enga hugmynd um hugmyndafræðina bak við heilsu óháð holdafari. Ég hafði líka mjög sjaldan velt fyrir mér fordómum sem feitir verða fyrir, enda hafði ég persónulega litla sem enga reynslu af því og gat ekki tengt við það mikilvæga málefni.
Nær allt mitt líf hef ég tengt við þá upplifun og líðan að vera með slæma líkamsmynd. Mjög snemma á lífsleiðinni upplifði ég mig feita, þó án þess að vera það (sem er algjört aukaatriði hér) og tengdi það strax við eitthvað neikvætt. Sem lítil stelpa, rúllandi um á hjólaskautum í Horsens í Danmörku með vinkonum mínum, upplifði ég mig sem síðri manneskju af því ég var feitari en vinkonur mínar. Mörgum finnst þetta kannski yfirborðlegt og ómerkilegt umræðuefni, enda útlit ekki allt sem skiptir máli í lífinu. En fyrir ungu stelpuna mig, hafði slæma líkamsmyndin sem var að myndast, mikil áhrif á andlega líðan og heilsu.
Slæma líkamsmyndin mín myndaðist snemma. Af hverju hún varð slæm veit ég ekki fyrir víst. Ég hafði í fyrsta lagi frekar skakka mynd af sjálfri mér, fannst ég mun feitari en ég var. Eflaust má rekja það til þess að hópurinn sem ég bar mig saman við var í grennri kantinum. Vinkonur mínar voru nettari en ég og notuðu minni fatastærðir. En það er samt ekki aðal atriðið. Aðal atriðið er að ég tengdi aukakíló við eitthvað mjög slæmt.
Á myndinni má sjá mig, til miðju, halda inni maganum í myndatöku.
Ég var ekki alin upp af foreldrum með mikla fitufordóma og það voru ekki áberandi pælingar um útlit og holdafar á mínu heimili, langt frá því. En skilaboðin um að það að vera feitur væri slæmt og að vera grannur væri gott, komu einhvers staðar frá. Eflaust frá fjölmiðlum og samskiptum mínum við jafnaldra.
Skilaboðin sem við fáum eru stundum svo „ósýnileg“ og því erfitt að átta sig á þeim og áhrifum þeirra. Skilaboðin birtast oft í teiknimyndum og sögum ætlaðar börnum og unglingum. Skilaboðin birtast í neikvæðu og frekjulegu myndinni af feita barninu í teiknimyndum, feita kettinum sem er latur og gráðugur, óvinsælu feitu stelpunni í unglingaskólanum og fyndnu, feitu, óheppnu og vandræðilegu vinkonunni sem kemur sætu vinkonunni á séns.
Við hlæjum að feita gráðuga kettinum, okkur finnst feiti frekjulegi (ofast rauðhærði) krakkinn pirrandi og við kippum okkur lítið upp við þá neikvæðu mynd sem við fáum af feitu manneskjunni í bíómyndum. Þetta er náttúrulega bara allt grín er það ekki? Má ekki gera grín að neinu lengur?
En….. ómeðvitað (ef við viljum vera svolítið Freudísk) þá sígur þetta inn og hefur áhrif. Við erum t.d. líklegri til að kaupa Pepsí í hléi í bíó ef Pepsí birtist á skjánum, þótt við teljum okkur alls ekki hafa séð Pepsí og munum ekkert eftir því í myndinni. Þetta sísast allt saman inn – við tökum bara ekkert alltaf eftir því.
Þannig að veðurfréttabörnin sem voru minnkuð í veðurfréttunum á sínum tíma, Klói köttur á kókómjólkinni sem fór í megrun og „köttaði“ sig niður, lati feiti og fyndni kötturinn Grettir og fyndna feita konan í bíómyndinni sem er alltaf í aukahlutverki og fær aldrei draumaprinsinn eða draumastarfið skipta máli. Þessi „fyndnu“ skilaboð hafa neikvæð áhrif á okkur, þótt við áttum okkur ekki á því.
Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir
Námsráðgjafi og sálfræðikennari