Ég vaknaði í morgun á ljótunni……. kannist þið við þá tilfinningu?
Í gær var ég þvílíkt sexý, klæddi mig í fallegan kjól, greiddi hárið og valhoppaði um bæinn í opnum sandölum. Ég var fallegri en túristarnir á Laugaveginum og mér fannst líkami minn mun kynþokkafyllri en líkami gínanna í búðargluggunum.
Ég fór sexý að sofa.
Í morgun vaknaði ég ljót. Ég klæddi mig í svörtu rassasíðu heimabuxurnar með hnéförunum og rauða og víða hettupeysu. Ég burstaði tennurnar og greiddi hárið (vildi auðvitað ekki gera öðrum einhvern óleik með andfýlu og hárlykt út um allt). Í dag eru allir sætari en ég og í dag eru allir sexý nema ég. Ég hlakka til að koma heim eftir vinnu og hlamma mér í sófann og „Netflixa“ fram á kvöld.
Ég skammast mín pínu fyrir að líða svona. Ég meina… ég er líkamsvirðingarsinni og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu. Ég held úti fræðslu um sjálfsmynd og mikilvægi þess að þykja vænt um eigin líkama. Má ég vera svona ósátt? Verð ég ekki að vera fyrirmynd og þykja vænt um líkama minn og elska hann alla daga?
Má ÉG vera á ljótunni?
Eitt af verkefnum líkamsvirðingarbaráttunnar er að benda á mikilvægi þess að efla jákvæða líkamsmynd fólks og sátt þeirra við eigin líkamsvöxt. Fólk er hvatt til að hugsa jákvætt um líkamsvöxt sinn og byrja að elska hann eins og hann er. Allt er þetta gott og blessað enda þekkt að sátt við eigin líkamsvöxt eykur bæði andlega og líkamlega heilsu.
En.. að elska líkama sinn getur verið ansi „trikkí“. Við búum í samfélagi sem gefur okkur skýr skilaboð um hvað telst vera aðlaðandi og „réttur“ líkami og hvað ekki. Við fáum óteljandi skilaboð um mikilvægi þess að vera grannur og „fit“ og hræðsluáróðurinn í tengslum við fitu er gríðarlega mikill. Við lærum af þessum skilaboðum og förum að trúa þeim. Við förum að trúa því að líkami okkar þurfi að líta út á ákveðinn hátt til að teljast ásættanlegur og við betri manneskjur.
Það getur því verið ansi mikil vinna að ná sátt við eigin líkamsvöxt þegar skilaboðin sem við fáum kenna okkur annað . Að „aflæra“ að líkaminn sé óásættanlegur getur tekið tíma og mikla vinnu. Það er því mikilvægt að átta sig á að það er bara allt í lagi að elska ekki alltaf líkama sinn eða þykja hann ekkert alltaf svakalega sexý og aðlaðandi. Við erum meðvituð um að neikvæðar tilfinningar eins og sorg og depurð geta verið eðlilegar og því er gott að hafa í huga að neikvæðar tilfinningar gagnvart líkamanum geta einnig verið eðlilegar.
Að brjóta sig niður fyrir það að vera ekki sáttur við eigin líkamsvöxt getur bara valdið enn meiri vanlíðan.
Enginn er fullkominn, enginn (eða næstum því) elskar sjálfan sig 100% alla daga. Við höfum tilfinningar sem sveiflast og því ekkert að því að tilfinningarnar gagnvart líkamanum sveiflist með.
Elva Björk