Þessi pistill er stutt þýðing á greininni: 12 reasons to ditch the diet mentality sem birtist þann 19. desember í HuffPost. Hægt er að nálgast greinina hér: Greinin
Að léttast, líta betur út, grennast eða breyta líkama sínum á einn eða annan hátt er algengt áramótaheit.
Þótt þetta áramótaheit sé algengt er það með því misheppnaðasta, enda þekkja það margir að horfa til litríks himins þegar klukkan slær tólf á miðnætti og lofa sjálfum sér að nú skuli þetta takast! Hingað og ekki lengra! Í þetta sinn verður sko tekið á því, af alvöru! Hefja síðan nýja árið af fullum krafti, skrá sig í ræktina, keto-námskeiðið eða byrja á súpukúrnum – Allt sett á fullt til hvað? c.a 20. jan? 1. feb?
Með þessum pistli viljum við hvetja þig til að hverfa frá hinu einsleita endalausa árlega áramótaheiti með því að fara yfir 12 ástæður fyrir því af hverju megrun virkar ekki.
- Fyrir flesta er megrun ekki árangursrík aðferð – Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á því af hverju megrun virkar ekki. Líkaminn lítur á megrun sem ástand svelts og bregst við ástandinu með ýmsum aðgerðum til að halda okkur á lífi. Hugur okkar vinnur einnig gegn okkur í megrun, það sem ekki má verður meira heillandi. Við fáum þráhyggju fyrir því sem ekki má borða.
- Megrun truflar tengsl okkar við þarfir líkamans – Með því að fylgja ytri reglum missum við tilfinningu fyrir þörfum líkamans. Að borða eftir klukkunni eða eftir ákveðnu fyrirframgefnu magni truflast tengsl okkar við raunverulegar þarfir líkamans. Líkaminn er nefnilega svo magnaður. Hann veit venjulega hvað hann þarf mikla næringu og hvernig.
- Megrun eykur líkur á ofáti – Þetta þekkja margir! Við byrjum í megrun af fullri ákefð og viss um að í þetta sinn muni markmiðið nást! En áður en við vitum af erum við búin að tæma skápa í leit af sykraðri eða fituríkri fæðu. Líkaminn upplifir skort, líkaminn telur að í garð sé gengið ástand svelts og leitar í skjótfengna orku. Það að „detta í“ sykur og kolvetni eftir tíma skorts er engin tilviljun. Líkaminn veit hvað hann þarf!
- Megrunariðnaðurinn lætur okkur trúa því að ákveðinn matur er vondur og annar góður – Þessi hugsanaháttur eykur skömm og vanlíðan yfir því að hafa smakkað á „vonda“ matnum
- Megrun virkar ekki – Misheppnuð megrun lætur okkur oft líða líkt og við sjálf séum misheppnuð. Flestir ná ekki að viðhalda þyngdartapi eftir megrun. Flestir líta svo á að það sé þeim sjálfum að kenna. Þeim sjálfum að kenna að hafa eyðilagt megrunina eða „dottið í það“. En við verðum að muna að þyngdarbreyting til lengri tíma næst nær aldrei!
- Megrun eykur líkur á þróun átraskana – Við verðum uppteknari af mat og útliti þegar við erum í megrun. Sú mikla athygli sem matur og útlit fær meðan á megrun stendur getur ýtt undir þróun átraskana
- Megrun getur kveikt á óheilbrigðu sambandi við mat – Þótt meirihluti þeirra sem fara í megrun þrói ekki með sér átröskun upplifa margir óheilbrigt samband við mat í kjölfarið af megrun, til dæmis ótta við að borða ákveðna tegund af mat eða hræðslu við að nokkur „auka“kíló.
- Megrun viðheldur fitufordómum og hræðslu við að þyngjast – Sambandið milli þyngdar og heilsu er flókið. Grannur líkami er ekki endilega heilbrigður líkami. Feitur líkami getur verið heilbrigðari en grannur.
- Heilbrigt líferni – Megrun og þyngdartap gerir okkur ekki endilega heilbrigðari. En það getur skipt sköpum, þegar kemur að því að efla heilsu sína , að auka fjölbreytni í fæðunni, hreyfa sig meira og huga að andlegri líðan og félagslegum samskiptum.
- Það eru EKKI til neinar fullkomnar matarvenjur – Sama mataræðið virkar ekki eins fyrir alla. Við erum ólík og þurfum ólíka næringu og mismikið magn.
- Að HÆTTA í megrun hefur jákvæð áhrif á sjálfstraustið! – Hvernig væri að gera þá hluti sem þú ætlaðir alltaf að gera eftir þyngdartapið? Hvernig væri að skrá sig í danshópinn eða fara í bikiní í sund núna? Hvernig væri bara að lifa lífinu NÚNA í þeim líkama sem þú átt NÚNA?
- Samskipti við annað fólk batnar þegar við hættum að ofhugsa um mat og hitaeiningar. Margir þekkja þann vítahring sem hægt er að festast í þegar hitaeiningar og matur er það eina sem skiptir máli. Samskipti við annað fólk minnkar og ánægilegum stundum fækkar.
Það sem er síðan svo svakalega magnað er að um leið og við hættum í megrun, hættum að fylgja ákveðnum ytri reglum í tengslum við mat og förum að treysta líkama okkar, hlusta á hann og hlúa að þörfum hans og bera virðingu fyrir honum þá verðum við heilbrigðari.