Flokkaskipt greinasafn: Líkamsmynd

Flóðhesturinn sem vildi sá rassinn á sér

Synir mínir (tveggja og átta ára) fengu yndislega bók í jólagjöf. Bókin heitir Flóðhesturinn sem vildi sjá rassinn á sér og fjallar um flóðhest sem er stór og feitur og afar ánægður með sjálfan sig. Hann eyðir drjúgum hluta dagsins í að dást að eigin vaxtarlagi (höfundar: Kristján Hjálmarsson og Salbjörg Rita Jónsdóttir).

VSO722229

Bókin var kærkomin gjöf inn á okkar heimili þar sem barbídúkkur hafa grennst, GI Joe er orðinn stæltari og meira skorinn, Ponyhesturinn orðinn hávaxinn og grennri og varla hægt að finna sögupersónu í barnabókum eða teiknimyndum sem er með annað vaxtarlag en fyrirsætur á tískupöllunum.

Mér finnst nauðsynlegt að börn fái upplýsingar um það að við erum ólík, og líkamar okkar eru mismunandi í laginu, sumir eru hávaxnir, aðrir lágvaxnir, sumir eru grannir meðan aðrir eru feitir. Það er því mikilvægt að fræðslu- og skemmtiefni sem beint er að börnum geri fjölbreytileikanum góð skil.

Skemmtileg barnabók um feitan flóðhest var því kærkomin gjöf 🙂

Elva Björk Ágústsdóttir

Stríðni vegna holdafars

Ég er námsráðgjafi í grunnskóla. Í skólanum koma oft upp mál er varða til dæmis líðan nemenda, félagstengsl, stríðni og nám. Nýlega vann ég verkefni  í tengslum við stríðni vegna útlits sem mig langar að deila með ykkur.

Kennari hafði áhyggjur af stríðni nokkurra nemenda vegna holdafars eins skólafélaga. Stríðnin virtist hafa slæm áhrif á líðan allra sem að málinu komu. Kennarinn óskaði því eftir aðstoð minni og vildi stöðva stríðnina og um leið bæta líðan og líkamsmynd nemenda.

Við fórum af stað með verkefni og fræðslu í bekknum. Nemendur áttu að velta fyrir sér kostum við mismunandi útlit. Ákveðið útlit var tekið fyrir í einu og kostir eða jákvæðir eiginleikar þess útlits kortlagðir til að mynda  kostir þess að vera hávaxinn, lágvaxinn, grannur eða feitur. Þegar nemendur voru búnir að confident kids logonefna marga jákvæða eiginleika eða kosti áttu þeir að nefna fyrirmyndir sem pössuðu inn í hvern flokk. Sem dæmi má nefna það að ef nemendur nefndu að þeir sem væru hávaxnir gætu orðið góðir í körfubolta hentaði vel að nefna góðan körfuboltaleikmann sem fyrirmynd.

Dæmi um verkefni nemenda:

Hávaxinn

Lágvaxinn

Grannur

Feitur

Kostir:

Góður í körfubolta

Góður í fótbolta

Góður í handbolta

Góður í marki

Getur hjálpað öðrum t.d. náð í hluti sem eru hátt uppi

Góður í frjálsum íþróttum

Sterkur

Sér vel á tónleikum

Góður leikari

Góður söngvari

Kostir:

Góður í dansi

Góður í fimleikum

Getur falið sig vel í feluleik

Góður í handbolta

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í ballet

Góður söngvari

Góður leikari

Liðugur

Góð barnapía

Kostir:

Góður í fimleikum

Góður í ballet

Góður í karate

Kemst á milli þröngra staða

Góður í að fela sig í feluleik

Góður í frjálsum íþróttum

Liðugur

Góður í jazzballet

Lipur

Góður söngvari

Góður leikari

Kostir:

Sterkur

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í handbolta

Góður í glímu

Góður í karate

Góður söngvari

Góður leikari

Góður í lyftingum

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í júdó

Góður í boxi

Góður í Taekwondo

Fyrirmyndir:

Ólafur Stefánsson

Nicole Kidman

Uma Thurman

Jón Arnór Stefánsson

Liv Tyler

 

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Bjarki Sigurðsson

Gróttu stelpurnar

Tom Cruise

Johnny Galecki

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Gróttu stelpurnar

Karate Kid

Kári Steinn

Selena Gomez

Fyrirmyndir:

Adele

Ólafur Darri

Margir júdómenn

Auðunn Jóns.

Christina Aguilera

Lauren í Glee

Út frá verkefninu urðu skemmtilegar umræður. Til að mynda fannst nemendum áhugavert að sjá hve marga góða kosti útlitin áttu sameiginleg t.d. að vera góður í frjálsum íþróttum. Nemendur nefndu að það vera feitur eða grannur hafði lítið um það að segja hvort viðkomandi gæti orðið góður í frjálsum íþróttum. Nemendur voru líka allir meðvitaðir um það að allar tegundir útlits ættu að þykja eðlilegar og fallegar þar sem við fæðumst ólík. Sumir eru dökkhærðir, aðrir ljóshærðir, sumir verða hávaxnir meðan aðrir verða lágvaxnir. Þetta er ómögulegt að breyta og eitthvað sem enginn ætti að stríða öðrum vegna. Nemendur voru sammála um að það sama á við þegar kemur að holdafari.

Ég vil hvetja alla kennara til að prófa verkefnið. Það stuðlar að umræðu meðal nemenda um kosti hvers og eins. Um leið hvetur verkefnið nemendur sem og okkur starfsmenn skólanna til að fagna fjölbreytileikanum.

Elva Björk Ágústsdóttir. Námsráðgjafi/MS í sálfræði

Áhrif fjölmiðla á líkamsmynd

 Margir upplifa vanlíðan og óánægju með eigið útlit. Þegar litið er yfir rannsóknir á líkamsmynd (þ.e. sú skoðun eða sýn sem fólk hefur á eigið útlit) má sjá að talsverður fjöldi fólks er óánægður með eigið útlit, þótt hlutfall óánægðra breytist yfir tíma og eftir aldri og kyni (Striegel-Moore og Franko, 2002; Thompson o.fl., 1999).

Árið 1998 gerðu Feingold og Mazzella allsherjargreiningu á 222 rannsóknum á kynjamun á útliti og líkamsmynd. Niðurstöður voru  þær að mikil aukning hefur orðið á tíðni slæmrar líkamsmyndar hjá konum á undanförnum 50 árum. Líkamsmynd karla er almennt betri en líkamsmynd kvenna þótt tíðni slæmrar líkamsmyndar hafi einnig aukist hjá þeim. Í rannsókn  Psychology Today sem framkvæmd var frá 1972 til 1997 kom í ljós að óánægja með útlit hjá konum jókst á þessum árum úr 23% upp í 56% en úr 15% í 43% hjá karlmönnum (Garner, 1997). Í öðrum rannsóknum hefur komið í ljós að um  rúmlega helmingur kvenna eru óánægðar með heildarútlit sitt og 43% karlmanna (Garner, 1997). Óánægja með þyngd kemur fram hjá 66% kvenna og eru 71% óánægðar með magasvæðið. Aftur á móti eru rúmlega helmingur karlmanna óánægðir með þyngd sína (Garner, 1997).

Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á líkamsmynd, sjálfsmynd og líðan fólks.

Líkamsmynd mótast að miklu leyti út frá félags-og menningarlegum áhrifum. Þetta má sjá á þeim mun á algengi sem er á slæmri líkamsmynd milli kynja, eftir aldri og ólíkri menningu (Jackson, 2002; Smolak, 2002). Samfélagið  sem við búum í  gefur okkur upplýsingar um hvaða útlit telst aðlaðandi, til dæmis í gegnum fjölmiðla (Smolak, 2002). Það útlit sem samfélagið gefur okkur skilaboð um að sé meira aðlaðandi en annað útlit er oft tengt við heilbrigði (Jackson, 2002). Í vestrænum samfélögum er grannur og hávaxinn líkami kvenna og stæltur líkami karla sá líkamsvöxtur sem þykir eftirsóknarverðastur (Smolak, 2002; Thompson o.fl., 1999). 

Margir tengja grannt vaxtarlag við heilbrigt líferni og feitari vöxt við óheilbrigt líferni (Jackson, 2002). Rannsóknir hafa þó sýnt að grannur vöxtur er ekki ávísun á heilbrigðan líkama (Blair, Kohl, Paffenbarger, Clark, Coooper og Gibbons, 1989). Hollt mataræði, reglubundin hreyfing og aðrir heilsusamlegir þættir hafa jákvæð áhrif á heilsu, óháð vaxtarlagi. Þéttvaxið fólk sem lifir heilbrigðu lífi er því alla jafnan með heilbrigðari líkama en grannir sem lifa óheilbrigðu lífi (Blair o.fl., 1989). Hafa ber í huga að gildi varðandi útlit eru ólík eftir samfélögum. Í löndum þar sem ekki fæst næg fæða eru samfélagsleg viðmið önnur og þar er feitari líkamsvöxtur talinn meira aðlaðandi. Í þess konar samfélögum er feitari líkami frekar tengdur við heilbrigði en grannur (Jackson, 2002).

Slæm líkamsmynd er algeng meðal stúlkna og kvenna í vestrænum samfélögum. Að miklu leyti er það vegna þeirrar óhóflegu áherslu sem lögð er á grannan vöxt, hve ólíkt það vaxtarlag er raunverulegum vexti stúlkna og þeirra ókosta sem oft eru tengdir við aukakíló  (Thompson o.fl., 1999; Wilfley og Rodin, 1995). Mikilvægt er fyrir flesta að hafa heilbrigðan líkama. Þar sem grannur vöxtur stúlkna og kvenna er hylltur í vestrænum samfélögum og oftast tengdur við heilbrigði hefur það áhrif á viðhorf þeirra til vaxtarlags (Jackson, 2002). Líkt og fram hefur komið sýna fjölmiðlar grannan vöxt sem hinn fullkomna líkama. Konur og stúlkur verða endurtekið fyrir áhrifum fjölmiðla og getur það leitt til þess að þær meðtaki og samþykki þá ímynd sem er af hinu fullkomna útliti (Thompson o.fl., 1999). Það hve mikið fólk samþykkir það útlit sem hyllt er í samfélaginu, hefur áhrif á líkamsmynd  (Garner, 2002; Jones, Vigfúsdóttir og Lee, 2008).

Rannsóknir á áhættuþáttum slæmrar líkamsmyndar hafa sýnt að margir þættir, eins og líkamsþyngdarstuðull og stríðni, hafa áhrif á líkamsmynd í gegnum þriðju breytu. Þriðja breytan er það hve mikið fólk samþykkir það viðhorf að grannur vöxtur sé fýsilegri en annars konar vaxtarlag (Jones o.fl., 2008). Rekja má óánægju stúlkna og kvenna með eigin líkama til þess hve mikið þær aðhyllast grannan vöxt og hve ólíkur sá vöxtur er raunverulegu vaxtarlagi kvenna. Þar sem fáar konur uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti kvenna beri sig saman við útlit sem fæstar þeirra geta nokkurntíman öðlast (Stice o.fl., 1998; Stice og Shaw, 2002; Tiggemann, 2002).

Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra (Van den Berg og Thompson, 2007). Því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni (Jackson, 2002; Smolak, 2002).Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út en við sjálf (Van den Berg og Thompson, 2007).

Í kringum 1950 var talið mjög aðlaðandi að vera með mjúkar línur og uppfylltu þá fleiri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða líkama (Jackson, 2002; Smolak, 2002).  Í rannsókn frá árinu 1980 á þeim breytingum  sem hafa orðið á fegurðarviðmiðum kvenna yfir 20 ára tímabil, frá 1959 til 1978, kom fram að á meðan fyrirsætur í Playboy og keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ameríka  höfðu grennst töluvert yfir tímabilið hafði líkamsþyngd bandarískra kvenna aukist á sama tíma (Garner, Garfinkel, Schwartz og Thompson, 1980). Ímynd hins fullkomna líkama kvenna hefur því breyst frá því að vera í mýkra laginu, yfir í það að vera mjög grannur og uppfylla þá færri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt (Tiggemann, 2002). Tíðni slæmrar líkamsmyndar stúlkna og kvenna hefur aukist á undanförnum áratugum þar sem bilið milli raunverulegs vaxtarlags og eftirsóknarverðs vaxtarlags hefur aukist (Stice og Shaw, 2002).

Skilaboð fjölmiðla um hvaða vaxtarlag er talið fallegast ná ekki einungis til fullorðinna heldur einnig til  barna og unglinga. Til dæmis koma leikfangaauglýsingar og barnasjónvarpsefni skilaboðum um útlit  áleiðis til barna(Smolak, 2002). Útlit leikfanga og sögupersóna í barnaefni getur haft áhrif á mótun líkamsmyndar þar sem börn og unglingar bera sig saman við þær persónur (Smolak, 2002). Útlit þessara persóna er ólíkt útliti flestra, til að mynda eiga mjög margar stúlkur á barnsaldri Barbie dúkku en telja má nær ómögulegt fyrir þær að líta út líkt og Barbie dúkka. Svipað má segja um bardagamennina sem drengir jafnan leika sér með og áhrif þeirra á líkamsmynd drengja (Smolak, 2002).

Tengsl þyngdar og líkamsmyndar

Þar sem grannur líkamsvöxtur er sá vöxtur sem talinn er ímynd hins fullkomna líkama ríkir neikvætt samband milli líkamsþyngdar kvenna og ánægju með líkamsvöxt (Field o.fl., 2004; Jones o.fl., 2008).    Þetta skýrist af því að þeir sem eru yfir kjörþyngd eru fjarri þeirri ímynd sem höfð er um hið fullkomna útlit í vestrænu samfélagi (Thompson o.fl., 1999).  Samkvæmt Smolak (2002) þá eykst tíðni slæmrar líkamsmyndar stúlkna á kynþroskaskeiði. Talið er að breyting á líkamsþyngdarstuðli (BMI) geti orsakað aukna tíðni slæmrar líkamsmyndar á þessum árum. Líkamsþyngdarstuðull er mælikvarði á þyngd miðað við hæð og gefur til kynna hvort viðkomandi sé í kjörþyngd eður ei. Niðurstöður margra rannsókna á líkamsmynd sýna að því hærri sem líkamsþyngdarstuðullinn er því verri er líkamsmyndin (Garner, 1997; Smolak, 2002). Þótt tengsl virðast vera á milli líkamsþyngdarstuðuls og líkamsmyndar eru eðli þeirra ekki ljós. Margir telja að þessi tengsl verði  fyrir áhrifum félagssálfræðilegra  þátta eins og viðhorfa (Schwartz og Brownell, 2002; Smolak, 2002).  Á leikskólaaldri eru börn til að mynda meðvituð um neikvæða sýn samfélagsins til þeirra sem eru yfir kjörþyngd. Börn sem eru yfir kjörþyngd finna fyrir þessum viðhorfum (Musher-Eizenman, Holub, Miller, Goldstein og Edwards, Leeper, 2004). Við upphaf skólagöngu nefna til dæmis börn sem eru yfir kjörþyngd að þau séu óánægð með líkama sinn og vilja verða grennri (Smolak, 2002). Tengsl líkamsþyngdarstuðuls og slæmrar líkamsmyndar getur því myndast vegna þriðju breytu, eins og félagslegs viðhorfs til feitra (Smolak, 2002).

Í rannsókn Vander Wal og Thelen frá árinu 2000 kom fram að tengsl líkamsþyngdarstuðuls og slæmrar líkamsmyndar  urðu fyrir áhrifum annarra þátta eins og stríðni, útlitssamanburðar og þrýstings frá öðrum um grannan vöxt. Thompson, Coovert, Richards, Johnson og Cattarin (1995) rannsökuðu áhrif stríðni, vitsmunaþroska og offitu á mótun líkamsmyndar. Þau komu fram með líkan þar sem þau mátu áhrif offitu og stríðni á líkamsmynd. Þar hafði offita ekki bein áhrif á líkamsmynd heldur mynduðust tengsl milli offitu og slæmrar líkamsmyndar vegna þriðju breytu, stríðni.  Í rannsókn þeirra reyndist líkamsmynd einungis vera slæm meðal þeirra þéttvöxnu barna sem höfðu orðið fyrir stríðni vegna útlits.

Á unglingsárum hafa félagsleg viðhorf og þrýstingur um grannan vöxt, mikil áhrif á líkamsmynd unglinga (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002).  Á kynþroskaskeiði bæta stúlkur að jafnaði á sig kílóum vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað á líkama þeirra. Þessar eðlilegu breytingar á útliti kvenna fjarlægir þær meira frá þeirri ímynd sem  ríkir um aðlaðandi útlit í vestrænum samfélögum. Þyngdaraukningin getur því haft neikvæð áhrif á líkamsmynd stúlkna á unglingsárum (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002).  Langtímarannsóknir á líkamsmynd stúlkna styðja þetta þar sem tíðni slæmrar líkamsmyndar eykst töluvert snemma á unglingsárum eða í kringum 12-15 ára. Það er þó mikilvægt að taka fram að þetta gerist vegna áhrifa þriðja þáttar eins og félagslegra viðhorfa um líkamsvöxt eða að þykja grannur líkamsvöxtur eftirsóknarverður (Jones o.fl., 2004; Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Öfugt við þessa þróun, þá breytist líkami drengja á kynþroskaskeiðinu á þá leið að þeir nálgast ímynd um aðlaðandi karlmannslíkama. Líkamsbygging sem felur í sér breiðar axlir og að  vera hávaxinn og vöðvastæltur telst vera aðlaðandi og færir kynþroskinn oft drengi nær þeim vexti (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Þegar þróun slæmrar líkamsmyndar er skoðuð má sjá að óánægja með eigin  líkamsvöxt meðal unglingsstúlkna getur myndast óháð raunverulegri líkamsþyngd eða líkamslögun (Smolak og Levine, 2002).

 Fitufordómar

Líkt og fram hefur komið er tíðni slæmrar líkamsmyndar hærri meðal þeirra sem eru of þungir en þeirra sem eru það ekki (Thompson o.fl., 1999). Þótt viðkomandi skynji sjálfur að líkami hans sé ólíkur þeim líkama sem talinn er eftirsóknarverðastur þá eru það oft neikvæð viðhorf annarra sem ýta enn frekar undir slæma líkamsmynd (Brownell og Puhl, 2003; Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Neikvæð viðhorf þurfa ekki að vera áberandi, líkt og stríðni og neikvæðar athugasemdir. Líkamsmynd manneskju sem ekki telst aðlaðandi samkvæmt gildum samfélagsins getur orðið fyrir hnekkjum, vegna neikvæðra viðhorfa annarra, þótt enginn hafi tjáð skoðun sína á beinan hátt (Jackson, 2002).

Samkvæmt kenningu um félagslegar væntingar þá getur útlit haft áhrif á mótun líkamsmyndar á þá leið að væntingar okkar til aðlaðandi fólks og óaðlaðandi eru ólíkar. Við fáum upplýsingar til dæmis frá fjölmiðlum um hvaða útlit aðlaðandi í okkar samfélagi. Vegna ólíkra væntinga þá högum við okkur mismunandi gagnvart þeim sem eru aðlaðandi en gagnvart þeim sem eru óaðlaðandi. Þessi munur  á hegðun orsakar mun á sjálfsskynjun fólks (Jackson, 2002). Niðurstöður rannsókna á viðhorfum hafa sýnt að þeir sem eru aðlaðandi eru taldir vera góðir, áhugaverðir, hlýir, opnir og félagslega virkir. En  þeir sem ekki uppfylla skilyrðin  um aðlaðandi líkama eru taldir vera latir, þunglyndir, óhamingjusamir, óvinsælir, óáhugaverðir og agalausir (Brownell og Puhl, 2003; Hogg og Vaughan, 2008; Latner og Stunkard, 2003;  Penny og  Haddock, 2007).

Skilaboð sem  fólk  fær frá fjölmiðlum eða öðrum geta haft þau áhrif að  það sér að grannur vöxtur er ímynd hins fullkomna líkama og þeirra eigin vöxtur er ekki ásættanlegur. Viðkomandi upplifir því þrýsting um grannan vöxt og þörf fyrir að breyta eigin líkamsvexti (Stice, 2001; Stice og Whitenton, 2002). Þrýstingur um grannan vöxt getur líka verið óbeinn (Stice og Whitenton, 2002). Viðhorf annarra til vaxtarlags sem ekki telst aðlaðandi samkvæmt gildum samfélagsins getur verið dæmi um þrýsting um grannan vöxt. Foreldrar geta til að mynda haft áhrif á mótun slæmrar líkamsmyndar með því að tjá áhyggjur af eigin líkamsvexti, tala um ókosti þess að vera með aukakíló og sýna hegðun sem tengist megrun  eins og að fylgjast grannt með innbyrðum hitaeiningafjölda (Kearney-Cooke, 2002; Smolak, 2002). Með þessum hætti myndast óbeinn þrýstingur frá foreldrum um grannan vöxt. Viðhorf foreldra til feits vaxtarlags er þá neikvætt og getur það haft þau áhrif að börn þeirra og unglingar, sem telja sig yfir kjörþyngd, upplifa óánægju foreldranna gagnvart sér. Annað dæmi um óbeinan þrýsting eru samtöl meðal vina. Samtöl um útlit, líkamsvöxt og mikilvægi þess að vera grannur geta haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Líkamsmynd verður fyrir meiri hnekkjum eftir því sem við tölum oftar um útlit, líkamsvöxt og þyngd við vini og kunningja og því meira sem við samþykkjum það viðhorf að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður (Jones o.fl., 2004).

Slæm líkamsmynd unglingsstúlku yfir kjörþyngd gæti því mótast vegna  væntinga annarra til hennar og þrýsting sem hún upplifir um að breyta líkamsvexti sínum. Þar sem stúlkan er alin upp í samfélagi þar sem grannur líkami er talinn fallegri en feitari hafa aðrir ákveðnar væntingar til hennar. Hún  upplifir neikvæðari hegðun annarra gagnvart sjálfri sér og gæti fundið fyrir því að aðrir teldu hana lata og agalausa, sem hefur þau áhrif að hún fer að líta neikvæðari augum á sjálfa sig (Jackson, 2002). Verri líkamsmynd getur síðan haft enn verri áhrif á heilsu hennar á þann hátt að líkur á átröskunum aukast, líðan verður verri og minni líkur á því að stúlkan hugsi vel um líkama sinn.

Greinin byggir á MS ritgerð Elvu Bjarkar í sálfræði, hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar og heimildir í ritgerðina sjálfa.

Elva Björk Ágústsdóttir. (2011). Líkamsmyndarnámskeiðið Body Project: Rannsókn á árangri forvarnarnámskeiðs gegn átröskunum. MS-ritgerð: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindadeild.

Elva Björk Ágústsdóttir

Bea and Mr. Jones

Í síðasta pistli var fjallað um mikilvægi þess að feit börn þyki vænt um líkama sinn. Börn og unglingar sem ekki uppfylli skilyrðin um hinn „flotta“ líkama (grannar stelpur, stæltir strákar) fá ítrekað neikvæð skilaboð, bæði beint og óbeint. Dæmi um bein skilaboð er t.d. útlitsstríðni í skóla eða megrunarráð. Dæmi um óbein skilaboð er t.d. fitutal fullorðinna, hræðsla annarra við aukakíló og umræða um mikilvægi þess að vera án aukakílóa.

Sum börn eru frá náttúrunnar hendi feitari en önnur börn, líkt og sum börn eru frá náttúrunnar hendi hávaxin. Þessu getur verið nær ómögulegt að breyta og það bætir ekki úr ef barnið hefur óbeit á eigin líkamsvexti.

Til að styrkja barnið er mikilvægt að einblína á kosti þess og benda á að allir líkamar eru eðlilegir. Oft reynist vel að láta barnið finna flottar fyrirmyndir sem barnið líkist.

Börn fá sjaldan að heyra og sjá gleðilegar og ævintýralegar sögur um börn sem eru feit. Börn, alveg niður í leikskólaaldur, tengja feitt vaxtarlag við eitthvað neikvætt. Það viðhorf getur haft slæm áhrif á þau. Það er því mikilvægt að miðla sögum, myndum eða öðru skemmtilegu efni til barna sem sýna börn í öllum stærðum og gerðum.

Okkur langar því að benda áhugasömum, sem vinna með ung börn eða eiga ung börn, á þessa skemmtilegu bók sem fjallar um Bea og föður hennar. Bea er orðin leið á því að vera á leikskólanum sínum. Hún vill skipta um líf við pabba sinn og fá að mæta til vinnu í stað þess að vera á leikskólanum. Faðir hennar er einnig orðinn leiður á því að mæta til vinnu alla morgna og tekur því vel í hugmyndina og þau skipta um hlutverk. Það sem gerir þessa barnasögu skemmtilega og ólíka öðrum sögum er að bæði Bea og faðir hennar eru ekki grönn. Þau eru smá þétt og eru teiknuð þannig í raun af engri sérstakri ástæðu –  nema kannski af þeirri einu ástæðu, að börn sem eru feit sjái einstaka sinnum skemmtilegar og jákvæðar persónur í bókum eða myndum sem þau geta samsamað sig við.

http://www.amazon.com/Bea-Mr-Jones-Amy-Schwartz/dp/B0058M7QH0/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1350993933&sr=8-1&keywords=Bea+and+Mr.+Jones

Mega feit börn vera ánægð með líkama sinn?

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um heilsu og þyngd barna og unglinga. Þann 11. apríl síðastliðinn stóð Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir málþingi um úrræði fyrir of þunga unglinga. Í allri umræðu um þyngd og heilbrigði barna og unglinga er mikilvægt að huga að áhrifum þyngdarumræðunnar á börnin sjálf. Huga þarf að því hvernig rætt er um heilbrigt líf og hvaða áherslur við höfum í umræðunni og þeirri vinnu í að bæta heilsu barna og unglinga.

Oft og tíðum er lögð megin áhersla á þyngd, hve mikið offita hefur aukist meðal barna og unglinga og mikilvægi þess að stjórna þyngd þeirra og koma í veg fyrir heilsubresti. Á málþinginu sem og í annarri umræðu um þyngd barna koma oft fram margir góðir punktar og mikilvægi hreyfingar og andlegrar líðan gerð skil. Megin niðurstaðan er þó nær undantekningarlaust  að nauðsynlegt sé að huga að kílóatölunni.

Hætta er á að skilaboð um mikilvægi þess að losa sig við „aukakíló“ ýti undir óánægju barna og unglinga með eigin líkama, sérstaklega þeirra sem teljast yfir kjörþyngd, þar sem þau fá skilaboð um að líkami þeirra sé ekki fallegur eða heilbrigður. Líkamsmynd þeirra getur versnað og áhrif skilaboðanna á líðan og heilsu þeirra orðið skaðleg.

Í allri þessari umræðu finnst mér vanta aðrar áherslur. Þótt reynt sé að stíla umræðunni frekar að almennri heilsu og bættri líðan barna og unglinga þá er niðurstaðan oftast sú sama, börnin þurfa að grennast til að líða betur! En er raunin sú? og ef svo er…. þurfum við þá að kenna börnum okkar að það sé mikilvægt fyrir þau að borða fjölbreyttan mat og hreyfa sig til að koma í veg fyrir ofþyngd eða offitu? eða eru aðrar áherslur betri?

Árið 1998 fór af stað rannsókn á áhrifum góðrar líkamsmyndar meðal unglingsstúlkna. Þar kom fram að þrátt fyrir að flestar upplifðu álíka þrýsting frá samfélagi sínu um að líta vel út og vera grannar, þá höfðu stúlkurnar misgóða líkamsmynd. En líkamsmynd stúlkna verður fyrir áhrifum af mörgum þáttum, sérstaklega þáttum í samfélaginu eins og þeirri ímynd sem er af hinu fullkomna útlit kvenna. Þær stúlkur sem voru með góða líkamsmynd voru ólíkar stúlkunum með slæma líkamsmynd að mörgu leyti. Til að mynda nefndu stúlkurnar sem voru með góða líkamsmynd að mæður þeirra hvöttu þær til að hreyfa sig, borða hollan mat og lifa heilbrigðu lífi og upplifðu stúlkurnar lítið umtal um megrun og mikilvægi þess að vera grannar. Stelpur með góða líkamsmynd huguðu meira að heilsu sinni, að því að borða hollan mat og hreyfa sig heilsunnar vegna en stúlkurnar með verri líkamsmynd. Stúlkurnar sem voru með verri líkamsmynd hugsuðu meira um mikilvægi þess að halda kílóafjöldanum í skefjum. Stelpurnar sem voru með slæma líkamsmynd vigtuðu sig einnig mun oftar en hinar og reyndu oftar að stjórna þyngd sinni með því að halda í við sig í mat.

Þótt allar stúlkurnar í rannsókninni lifi og hrærist í vestrænu samfélagi, þar sem skilaboð um grannan líkamsvöxt kvenna eru áberandi, þá voru skilaboð þeirra sem þær umgangast daglega að ólíkum toga. Áherslan á heilbrigt líf, hollan mat og hreyfingu óháð holdafari hafði jákvæð áhrif á stelpurnar. Áhersla á kílóatöluna hafði aftur á móti neikvæð áhrif. Jákvæð áhersla foreldra, vina og kunningja á heilbrigt líf óháð kílóum hafði góð áhrif á líkamsmynd stúlknanna hvort sem þær voru í kjörþyngd eður ei.

Foreldrar barna og unglinga sem eru yfir kjörþyngd hafa oft áhyggjur af þyngd og heilsu barna sinna. Margir reyna því að hafa áhrif á heilsu þeirra og hvetja börnin til að huga að kílóunum. „Heilsuátök“ þar sem mikil áhersla er lögð á mikilvægi þess að borða hollan mat og hreyfa sig til að stjórna þyngd eru oft eitt af þeim úrræðum sem foreldrar og jafnvel fagfólk grípa til. En hér er um erfiða jafnvægislist að ræða, þ.e hvernig hægt er að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum án þess að hafa neikvæð áhrif á líkamsmynd barna og unglinga. Margar rannsóknir hafa þó sýnt að betra sé að leggja áherslu á almenna heilsu, borða fjölbreytta fæðu og hreyfa sig án tengingar við þyngd, í stað þess að reyna að stjórna þyngd barna og unglinga.

Sumir efast þó um þetta og telja að börn og unglingar sem eru yfir kjörþyngd verði að vera raunsæ á eigið ástand og telja jafnvel að þau ættu ekki að vera eins ánægð með eigin líkamsvöxt og börn sem eru í kjörþyngd. Það virðist vera til staðar einhver hræðsla við það að hvetja börn og unglinga sem eru yfir kjörþyngd til að vera sátt við eigin líkama. Kannski hræðast foreldrar enn meiri þyngdaraukningu og telja því gott að barn þeirra sjái sína „ókosti“ og reyni að vinna að því að bæta eigið útlit og heilsu.

Árið 2007 var framkvæmd áhugaverð rannsókn á líkamsmynd unglinga og áhrif þess að hafa góða líkamsmynd á heilsu og líðan stúlkna sem eru yfir kjörþyngd. Þar kom fram að góð líkamsmynd hafði verndandi áhrif á stúlkurnar. Stúlkur í yfirþyngd sem voru sáttar við eigið útlit virtust hugsa betur um sjálfar sig, hreyfðu sig meira en þær sem voru með hugan við „ókosti“ sína og voru óánægðari með sig. Sátt við eigin líkamsvöxt kom meira að segja í veg fyrir meiri þyngdaraukningu árin á eftir.

Það er mín skoðun að mikilvægt sé að huga að heilsu og líðan barna og unglinga. Með því að stíla allar aðgerðir til að bæta heilsu á feit börn, þá stuðlum við ekki að heilbrigði allra hinna barnanna sem eru í kjörþyngd eða jafnvel undir kjörþyngd. Þau börn geta ekkert síður verið óheilbrigð og lifað óheilsusamlegu lífi, þar sem það er ekkert alltaf bein tenging á milli óheilbrigðs lífernis og kílóatölunnar. Ef niðurstöður margra rannsókn á áhrifum þess að þykja vænt um eigin líkama er höfð til hliðsjónar, þá er ljóst að þegar kemur að heilsuátökum eða inngripum til að bæta heilsu feitra barna og unglinga tel ég ákjósanlegast að hjálpa þeim að þykja vænt um eigin líkama og sjá jákvæðu eiginleika sína í stað þess að hjálpa þeim við að fylgjast með tölunni á vigtinni.

Elva Björk Ágústsdóttir

Rannsóknir sem vísað var í:

Kelly, A. M., Wall, M.,  Eisenberg, M. E., Story, M. og Neumark-Sztainer, D. (2005).  Adolescent girls with high body satisfaction: who are they and whatcan they teach us? Journal of Adolescent Health 37, 391–396.

van den Berg, P. og Neumark-Sztainer, D. (2007). Fat ‘n Happy 5 Years Later: Is It Bad for Overweight Girls to LikeTheir Bodies? Journal of Adolescent Health 41, 415–417

Flottar myndir – Gott að hafa í huga :)

Love your body dagurinn í dag – 17. október

Í dag, þann 17. október er Love your body dagurinn.

Á hverjum degi fáum við skilaboð um hvernig við eigum að líta út, hvaða líkami eða hvaða útlit er ásættanlegt og fallegt. Hið „fullkomna“ útlit er síðan tengt við hið „fullkomna“ líf, þar sem prinsinn á hvíta hestinum birtist ef við bara léttumst um 15 kíló eða við fáum draumastarfið ef við bara værum fallegri, grennri, brjóstastærri – já eða minni og svona mætti lengi telja.

Við hvetjum alla til að sættast við eigin líkama, læra að meta hann og sjá það fallega við hann.

Á vefsíðunni adiosbarbie.com eru nefndar nokkrar góðar leiðir til að styrkja líkamsmyndina. http://www.adiosbarbie.com/2012/10/five-lessons-in-loving-your-body/

 

 

Við hvetjum ykkur einnig til að lesa ykkur til um daginn í dag hér: http://loveyourbody.nowfoundation.org/index.html

Elva Björk Ágústsdóttir

 

„Ég er feit, garðsláttuvélin segir það!“

Fyrir marga er baðvogin veigamikill þáttur í lífinu. Vigtin getur haft áhrif á hvort dagurinn verði góður eða slæmur. Sumir vigta sig jafnvel oft á dag, á mismunandi stöðum, taka af sér hringa og aðra skartgripi, snúa hægri og vinstri, til að fá betri tölu. Ófáir kannast eflaust við þetta, sérstaklega þeir sem eru ósáttir með eigin líkama.

Fyrir marga með slæma líkamsmynd hefur reynst vel að minnka vægi vigtarinnar. Gera töluna hlutlausa eða hreinlega sleppa því að stíga á vigtina (nema af nauðsyn t.d. hjá lækni).

Þennan skemmtilega texta má finna á erlendri vefsíðu um líkamsmynd og átraskanir. Við viljum hvetja alla til að lesa textann á myndinni þar sem um góða áminningu er að ræða 🙂

Færum fyrirmyndir nær okkur

Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli þess hve mikið stelpur skoða tísku/heilsu tímarit, myndir af fyrirsætum og horfa á tónlistarmyndbönd og hve óánægðar þær eru með sjálfar sig.

Það er því mikilvægt að hvetja stúlkur til að gagnrýna það sem þær sjá í sumum fjölmiðlum og átta sig á að ekki er allt sem sýnist. Stúlkur þurfa að vita að myndir af fyrirsætum eða öðrum í tímaritum eru oftast lagaðar til, jafnvel falsaðar eða manneskjan sem er á myndinni er ekki til.

Fyrirsætan Heidi Klum sagði frá því í viðtali að þegar hún var að byrja að vinna sem fyrirsæta tók hún þátt í myndatöku fyrir baðföt. Hún var spennt og hlakkaði til að sjá myndirnar þegar þær kæmu í tískublaðið. Ekki varð hún sátt þegar hún sá myndirnar í blaðinu þar sem þetta var bara ALLS ekki hún. Þegar hún fór að grennslast fyrir um þennan rugling kom  í ljós að 7 stúlkur voru boðaðar í myndatökuna. Þegar myndin birtist í tískublaðinu var búið að breyta myndinni á þann veg að brjóstin hennar Heidi Klum voru notuð og hárið, meðan magi af annarri stúlku var notaður, augu þeirrar þriðju, fætur af þeirri fjórðu og svo framvegis. Þannig að fyrirsætan á myndinni var hreinlega ekki til!!

Vinsæla verslunarkeðjan H&M var uppvís að svipuðu atferli fyrir stuttu síðan þegar bikiníauglýsing birtist með tilbúnum líkama og andlit mismunandi stúlkna bætt inn á myndirnar.

Stór þáttur í því að vinna gegn þessu er í raun að kaupa þetta ekki. Kaupa ekki það sem við sjáum og kaupa ekki blöðin. Með því móti getum við minnkað  áreitið og minnkað það að vera ávallt að bera okkur saman við aðra.

Einnig hefur það reynst mörgum stúlkum vel að finna sér aðrar fyrirmyndir. Stelpur sem eru óánægðar með eitthvað við eigið útlit t.d. nefið, maga, brjóst, hæð, geta notið góðs af því að færa fyrirmyndir nær sér. Þær geta leitað að fyrirmyndum sem hafa sama „útlitsgalla“ og þær telja sig hafa. Til dæmis leitað að fyrirsætum með nef sem líkist þeirra, maga, bjóst eða hæð sem svipar til þeirra.

Að bera sig saman við einhvern sem samkvæmt ríkjandi fegurðarviðmiðum er flottari en maður sjálfur getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmatið. Það getur því haft jákvæð áhrif að bera sig saman við einhvern sem líkist manni. Stelpur sem eru ekki grannar ættu til að mynda frekar að skoða myndir af flottum konur sem eru ekki grannar og bera sig saman við þær í stað þess að bera sig saman við grannar fyrirsætur. Auðvitað væri bara lang best að stelpur væru ekki að bera sig saman við aðra. En…. við gerum það.. og því mun betra að bera okkur saman við eitthvað sem líkist okkur.

Stúkur sem eiga það til að bera sig saman við fyrirsætur hafa talað um jákvæð áhrif þess að vinna eftirfarandi æfingu:

1. Skrifaðu niður hvað það er við útlit þitt sem þér líkar ekki við

2. „Googlaðu“ eða skoðaðu tímarit og blöð með það að markmiði að finna konur með þá eiginleika sem þú nefndir hér að ofan. Til dæmis, ef þú nefnir að þér líkar ekki við að vera lágvaxin/dökkhærð/þybbin, þá leitar þú að konum sem þér líkar við sem eru lágvaxnar/dökkhærðar/þybbnar.

3. Klipptu út myndir af konunum og útbúðu möppu með flottum fyrirmyndum sem líkjast þér – skoðaðu möppuna reglulega. Best er þó ef stúlkurnar finna fyrirmyndir sem þær geta litið upp til vegna annarra þátta en útlitsþátta. Til dæmis hafa myndir af Vigdísi Finnbogadóttur, Oprah Winfrey og íþróttakonum oft ratað í möppur stúlknanna.

Allir að taka þátt!

Margir eiga í fórum sínum gott efni og fróðleik sem tengjast sjálfsmynd barna og unglinga.

Við viljum hvetja fólk sem lumar á skemmtilegum verkefnum, hugmyndum, ráðum eða fróðleik sem tengist líkamsmynd eða sjálfsmynd að deila því með okkur hér á heimasíðunni. Endilega hafið samband við okkur með því að senda póst á elvabjork@sjalfsmynd.com

Einnig þætti okkur vænt um að heyra hvaða verkefni hafa nýst ykkur vel. Bæði hægt að senda póst þess efnis eða kvitta í athugasemdakerfinu fyrir neðan hvern pistil.