Flokkaskipt greinasafn: Líkamsmynd

Spegill spegill………..

Æfing sem kallast mirror exposure (speglaæfing) er ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota þegar unnið er að bættri líkamsmynd. Rannsóknir hafa sýnt að aðferðin getur bætt líkamsmynd eða sátt við eigin líkama.

Speglaæfingin felst í því að einstaklingur stendur fyrir framan spegil (eins léttklæddur og staður og stund leyfir). Viðkomandi reynir að einblína á einn ákveðinn líkamspart í jafn langa stund í senn t.d:

 • hár
 • húð
 • augu
 • nef
 • varir
 • tennur
 • haka
 • háls
 • axlir
 • handleggir
 • bringa
 • brjóst
 • mitti
 • magi
 • rass
 • læri
 • mjaðmir
 • hné
 • kálfar
 • öklar
 • fætur
 • tær

Ein leið til að framkvæma æfinguna er að nefna ákveðinn fjölda atriða (t.d. þrjú atriði) sem eru jákvæðir um líkamspartinn. T.d. „ég er með sterka handleggi“. Einnig er hægt að nefna jákvæða þætti um líkamspartinn sem tengjast því sem líkamsparturinn gerir. T.d. „þegar ég nota hendur mínar þá get ég prjónað fallega peysu“ eða „ég get gert armbeygjur“ ……

Önnur leið til að framkvæma æfinguna er að nota hlutlausar lýsingar. Það að nefna jákvæða eiginleika getur reynst sumum erfitt. Það getur því verið ráðlegt að taka smærri skref í einu og byrja á því að nefna einungis hlutlausa eiginleika um líkamspartinn. Að nefna hlutlausa eiginleika væri svipað því að lýsa útliti fyrir teiknara sem er að teikna mynd af manni en sér ekki fyrirmyndina.

Speglaæfingin myndar svo kallað hugrænt misræmi hjá þeim sem eru ósáttir við eigin líkama. Hugrænt misræmi felur það í sér að ósamræmanlegar hugsanir skapa óþægindi og streitu. Streitan ýtir undir það að fólk breytir hugsunum eða skoðunum sínum til að auka samræmi milli hugsana og minnka óþægindin. Það að tala fallega um þá líkamsparta sem viðkomandi líkar ekki við getur því með tímanum breytt skoðun hans á líkamspörtunum.

Elva Björk Ágústsdóttir

Slæm líkamsmynd á Íslandi

Slæm líkamsmynd eða óánægja með eigin líkamsvöxt/útlit er mjög algeng meðal fólks, sérstaklega meðal stúlkna.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á tíðni slæmrar líkamsmyndar á Íslandi, hvort sem er meðal barna og unglinga eða fullorðinna. Þó má gera ráð fyrir því að tíðnitölur á Íslandi séu svipaðar og í öðrum vestrænum ríkjum þar sem Íslendingar búa við svipuð samfélagsleg gildi hvað varðar útlit og vaxtarlag. Erlendar rannsóknir sýna að rúmlega helmingur fólks er óánægt með líkamsvöxt sinn og meirihluti kvenna telja sig þurfa að grennast.

Í meistaraverkefni Ernu Matthíasdóttur í lýðheilsufræðum frá árinu 2009 sem byggði á gögnum Lýðheilsustöðvar á spurningakönnun sem ber heitið „Könnun á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007″ kom í ljós að tæplega 43% Íslendinga á aldrinum 18-79 ára voru ósáttir við eigin líkamsþyngd. Um 72% töldu að þeir þyrftu að grennast og gerðu margir tilraunir til þess. Einnig kom fram munur á óánægju með líkamsþyngd milli kynja þar sem konur voru mun ósáttari við þyngd sína en karlmenn, en rúmlega 80% kvenna töldu sig þurfa að grennast á móti tæplega 63% karla (Erna Matthíasdóttir, 2009).

Mikil óánægja með þyngd virðist hrjá unglinga sem og fullorðna á Íslandi. Í rannsókn Þórdísar Rúnarsdóttur frá árinu 2008, um óánægju kvenna með eigin líkama, kom fram að 76% kvenna og stúlkna á aldrinum 13-24 ára voru óánægðar eða mjög óánægðar með líkama sinn. Óánægjan kom fram óháð því hvort þær voru í kjörþyngd eða ekki (Þórdís Rúnarsdóttir, 2008). Í rannsókn Sigrúnar Daníelsdóttur og félaga, frá árinu 2007 kom fram að þriðjungur þátttakenda hafði farið í megrun að minnsta kosti einu sinni yfir árið. Meðal þeirra voru stúlkur í miklum meirihluta eða 79%. Rannsóknin var unnin úr gögnum könnunar Rannsókna og greiningar ehf., „Ungt fólk 2000“ og náði til 6.346 nemenda í 9.-10. bekk í öllum grunnskólum á Íslandi. Helmingur stúlkna í rannsókninni höfðu farið í megrun og jókst tíðni megrunar  hjá stúlkum úr 9. bekk upp í 10. bekk en ekki hjá drengjum.

Óánægja með þyngd, slæm líkamsmynd og megrun finnast einnig hjá yngri börnum. Afgerandi meirihluti of þungra barna hefur farið í megrun, sem og börn og unglingar sem telja sig vera of þung, óháð því hvort þau eru það eður ei (Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björg Ómarsdóttir, 2008).

Í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar og Guðrúnar Kristinsdóttur frá árinu 2006 á líkamsmynd unglinga í 9. og 10. bekk kom fram að birtingarmynd óánægju með eigin líkama var ólík milli kynja. Niðurstöður voru þær að líkamsmynd stúlkna var mun verri en líkamsmynd drengja og birtist á ólíkan hátt. Það að vera grannur eða grönn tengdist lakari líkamsmynd hjá drengjum en betri líkamsmynd hjá stúlkum. Þessar niðurstöður eru í takt við erlendar rannsóknir á kynjamun á líkamsmynd.

Af niðurstöðum þessara rannsókna má sjá að tíðni megrunar, óánægju með líkamsvöxt og slæmrar líkamsmyndar er há á Íslandi. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er hærri meðal stúlkna en drengja og virðist óánægja með líkamsvöxt vera reglan frekar en undantekningin meðal stúlkna. Það er síðan áhyggjuefni að aldur stúlkna sem telja sig þurfa að grennast fer sífellt lækkandi.

Heimildir:

Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björk Ómarsdóttir. (2008). Ofþyngd, fæðuvenjur, megrunarhegðun og sjálfsmynd meðal barna og unglinga í 6. og 8. bekk í grunnskólum á Íslandi. BS ritgerð: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið

Erna Matthíasdóttir. (2009). Sátt Íslendinga á aldrinum 18-79 ára við eigin líkamsþyngd. Meistaraverkefni: Háskólinn í Reykjavík, Kennslu og lýðheilsudeild

Rúnar Vilhjálmsson og Guðrún Kristjánsdóttir. (2006). Líkamleg frávik og líkamsímynd unglinga: Niðurstöður landskönnunar í níunda og tíunda bekk. Ágrip erindis (nr. E-108) á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum, haldinni í Öskju 4. og 5. janúar 2007. Læknablaðið, fylgirit 53, desember 2006. Sótt 9. mars 2009 af http://www.laeknabladid.is/fylgirit/53/agrip-erinda

Sigrún Daníelsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jakob Smári. (2007). Megrun meðal íslenskra unglinga og tengsl við líkamsmynd, sjálfsvirðingu og átröskunareinkenni. Sálfræðiritið, 12, 85-100

Þórdís Rúnarsdóttir. (2008). Konur í kjörþyngd telja sig of þungar. Sótt 10. Janúar 2011 af:  http://www.hi.is/is/frettir/konur_i_kjorthyngd_telja_sig_of_thungar

Fleiri verkefni sem styrkja líkamsmynd

Í bókinni Healthy Body Image: Teaching kids to eat and love their bodies too! eftir Kathy Kater má finna mörg skemmtileg verkefni sem styrkja líkamsmynd. Eitt verkefnanna felur í sér skemmtilega æfingu með spilastokk.

Markmiðið með verkefninu er að börn og unglingar átti sig á fjölbreyttum eiginleikum sínum og leggi minni áherslu á þátt útlits í sjálfsmynd þeirra. Spilastokkurinn

Verkefni sem styrkja líkamsmynd

Kathy Kater er félagsráðgjafi sem hefur sérhæft sig í líkamsmynd, átröskunum og heilsu í 30 ár.

Hún telur upp 10 atriði sem mikilvægt er að hafa í huga þegar kemur að því að styrkja líkamsmyndina. Hún nefnir að nauðsynlegt sé að átta sig á þeim þáttum sem við höfum litla sem enga stjórn á . Hafa þarf þá í huga þátt gena í líkamsvexti og hve erfitt er að plata hungrið. Hún talar síðan um að mun betra sé að leggja áherslu á þætti sem við getum stjórnað að einhverju leyti eins og hreyfingu.

Hvet alla til að skoða punktana frá Kathy:  Ten tips (1)

Líkamsmynd – Gott að hafa í huga

Margir upplifa mikla óánægju með líkamsvöxt eða útlit sitt. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er mjög há, sérstaklega meðal stúlkna. Slæm líkamsmynd getur haft mikil áhrif á daglegt líf. Til að mynda getur slæm líkamsmynd haft þau áhrif að við forðumst að taka þátt í félagslífi vegna óánægju með útlit. Slæm líkamsmynd getur einnig valdið vanlíðan, ýtt undir megrun, ofát og átraskanir. Það er því mikilvægt að stuðla að bættri líkamsmynd barna og unglinga. Til eru erlendar bækur sem stuðla að bættri líkamsmynd. Okkur langar að hvetja ykkur til að skoða bækur eins og:

Health at every size: The surprising truth about your weight, eftir Lindu Bacon (http://www.lindabacon.org/)

Healthy body image: Teaching kids to eat and love their bodies too, eftir Kathy Kater (http://www.bodyimagehealth.org/)

Í bók Kathy Kater kemur fram að mikilvægt sé að leggja áherslu á heilbrigt líferni og vellíðan í stað líkamsvaxtar og þyngdar. Í meðfylgjandi skjali má finna nokkra punkta sem Kathy Kater telur mikilvægt að þekkja og fræða börn og unglinga um. Einnig má finna sömu upplýsingar á ensku.

Punktar frá Kathy Kater

Real Kids, shifting the weight paradigm

Af hverju sjálfsmynd og líkamsmynd?

Sjálfsmynd og líkamsmynd eru veigamiklir þættir í andlegri líðan okkar. Góð sjálfsmynd/líkamsmynd getur haft verndandi áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega og andlega. Lítið sjálfstraust eða slæm líkamsmynd hefur til dæmis verið tengd við þunglyndi, kvíða, átraskanir, vímuefnanotkun og ofbeldi.  Það er því ljóst að mikilvægt  er að skilja þróun sjálfsmyndar og finna leiðir til að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga.

Á heimasíðu Landlæknis má finna fróðlegar greinar um bæði sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Í grein um líkamsmynd eru nefnd sjö góð ráð til að efla líkamsmynd barna eins og að kenna þeim að elska líkama sinn og að efla gagnrýna hugsun  http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/gedraekt/greinar/grein/item15495/Likamsmynd-barna-

Í annarri grein er fjallað um sjálfsmynd barna og eru þar taldir upp ýmsir styrkjandi þættir eins og áhugamál og fyrirmyndir http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/gedraekt/greinar/grein/item15494/Sjalfsmynd-barna

Upplýsingasíða um sjálfsmynd

Góðan dag

Þessi heimasíða er samstarfsverkefni námsráðgjafa, kennara og sálfræðinga. Á þessari heimasíðu munu birtast upplýsingar um sjálfsmynd og líkamsmynd. Hagnýt ráð og skemmtileg verkefni sem hægt er að nýta í vinnu með börnum og unglingum munu einnig birtast innan skamms.