Flokkaskipt greinasafn: Sjálfsmynd

Sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga – hagnýt verkefni og leiðir til að bæta sjálfsmynd og líðan

Mánudaginn 13. ágúst höldum við námskeið um sjálfsmynd og líkamsmynd í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.

youth-570881_1920 (1)

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Farið verður í þá þætti sem móta sjálfsmyndina, þær breytingar sem verða á unglingsárum og þann kynjamun sem finna má á sjálfsmynd og líkamsmynd unglinga. Unnin verða hagnýt verkefni sem hægt er að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Góð sjálfs- og líkamsmynd hefur jákvæð áhrif á líðan og hegðun barna og unglinga. Rannsóknir sýna að góð sjálfsmynd getur verið verndandi þáttur í þroska barna og minnkað líkur á þróun ýmissa geðraskana, vandamála eins og námsvanda og annarra neikvæðra þátta.

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfs- og líkamsmynd, sjálfstraust, breytingar á unglingsárum, þætti sem hafa áhrif á líðan og þann mun sem finna má á líðan og sjálfsmynd stúlkna og drengja.

Á námskeiðinu verða ýmiskonar verkefni kynnt sem nýta má í starfi sem og í uppeldi. Verkefnin byggja á sálfræðikenningum og benda rannsóknir til þess að verkefnin geti stuðlað að jákvæðri og betri sjálfs- og líkamsmynd.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Þætti sem hafa áhrif á þróun sjálfs- og líkamsmyndar, kynjamun og breytingar.
• Verkefni og verkfæri til að bæta líðan barna og unglinga.

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga.
• Aukinn skilningur á þeim þáttum sem hafa áhrif á líðan barna.
• Að þekkja leiðir til að efla sjálfstraust.
• Að þekkja leiðir og verkefni til að bæta sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Fá tæki og tól til að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Fyrir hverja:

Námskeiðið hentar öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum, t.d. kennurum, námsráðgjöfum, skólasálfræðingum, þroskaþjálfurum, tómstundafræðingum og skólahjúkrunarfræðingum. Námskeiðið hentar einnig foreldrum barna og unglinga.

 

Nánari upplýsingar: http://www.endurmenntun.is/namskeid/stakt-namskeid?courseID=172H18&n=sjalfsmynd-og-likamsmynd-barna-og-unglinga-hagnyt-verkefni-og-leidir-til-ad-baeta-sjalfsmynd-og-lidan&fl=uppeldi-og-kennsla

 

Sjálfstyrkingarverkefni – Verkefnabók

Þann 26.júní var Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)

self esteem
Í tilefni dagsins kynntum við ýmis sjálfstyrkingarverkefni.
Verkefnin voru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Hér má finna verkefnin sem kynnt voru í vikunni ásamt fleiri sjálfstyrkingarverkefnum.

Við hvetjum ykkur til að prófa!

Gangi ykkur vel!!

Sjálfstyrkingarverkefni

 

Sjálfsdagur

self esteem

Þann 26.júní er Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)
Í tilefni dagsins ætlum við að kynna ýmis sjálfstyrkingarverkefni næstu daga á Facebooksíðu okkar :  https://www.facebook.com/sjalfsmyndoglikamsmynd/
Verkefnin eru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Við hvetjum ykkur til að taka þátt og gera eina sjálfstyrkingaræfingu á dag út vikuna.

Í lokin verða verkefnin öll sett saman og hægt að nálgast þau hér á rafrænu formi.

 

Gagnsemi neikvæðra tilfinninga

Neikvæðar tilfinningar geta verið gagnlegar. Kvíði getur t.d aukið nákvæmni okkar, leiði getur verið merki um þörf fyrir tilbreytingu í lífinu og fleiri krefjandi verkefni, öfund og vonbrigði geta verið merki um langanir okkar og óskir.

Diagram of emotions

Allar þessar tilfinningar geta verið mikilvægar.

 

Gott er að velta fyrir sér af hverju er ég svona reið/ur, leið/ur, stressuð/aður?

Einnig getur verið hjálplegt að velta fyrir sér einstökum tilvikum þar sem þú upplifðir neikvæða tilfinningu og hvaða breytingar tilfinningin hafði í för með sér.

Til dæmis:

  • þegar þú varst reið/ur og fékkst kjark til að standa með sjálfri/sjálfum þér
  • þegar þér leiddist og þú tókst þá að þér ögn fleiri krefjandi verkefni en þú taldir þig ráða við
  • þegar þú öfundaðir vin fyrir starfið hans sem hafði þau áhrif að þú sóttir um svipað starf sjálf/ur.

„So the next time you’re feeling a negative emotion, instead of automatically getting even more frustrated or more upset because of it, take several deep, slow breaths, and consider why you might be feeling this way.“

Heimild: https://blogs.psychcentral.com/weightless/2018/06/negative-emotions-are-important-too/

Vertu með raunhæfar væntingar

Vertu  með raunhæfar væntingar

sjalfs2

Alltof háleit markmið eða óraunhæfar væntingar geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd. Hugsun eins og: Ég verð að vera hæst í bekknum mínum annars er ég ömurleg.. ..er dæmi um óraunhæfar væntingar. Þegar væntingarnar eru svona háar og afleiðingarnar við að ná ekki markmiðunum svona neikvæðar getur það haft slæm áhrif á sjálfsmyndina. Til dæmis ef viðkomandi er síðan ekki hæstur í bekknum, heldur þriðji hæstur, þá gefur hann sér ekki tækifæri á að njóta þess og sjá það jákvæða við það, þar sem hann hefur tengt neikvæða afleiðingu þ.e. „ég er ömurlegur“ við það að vera ekki hæstur.

Skoðið því væntingarnar sem þið hafið til ykkar og kannið hvort hægt sé að breyta einhverju og gera markmiðin raunhæfari.

Með raunhæfari væntingum fækkar neikvæðum hugsunum þar sem með raunhæfari markmiðum aukast líkur á því að við náum þeim.

Með því að gera markmiðin raunhæfari náum við þeim oftar og getum klappað okkur á bakið fyrir góðan árangur í stað þess að brjóta okkur niður fyrir enn aðra misheppnuðu tilraunina.

sjalfs1

 

Fjársjóðsleitin – Leið til að bæta sjálfsmyndina og styrkja sjálfstraustið

fjarsj

 

Árið 2010 hófst verkefni ætlað drengjum á aldrinum 7-10 ára sem nefnist Fjársjóðsleitin. Markmiðið með verkefninu var að ná betur til drengja í ráðgjöf innan skólakerfisins. Reynsla margra námsráðgjafa innan veggja grunnskólanna var á þá leið að stúlkur leituðu meira í ráðgjöf en drengir og minna efni var til sem hentaði drengjum.

Hugmyndin með Fjársjóðsleitinni er að efla og bæta sjálfsmynd barna þar sem þemað er á þá leið að  börnin eru í leit að eigin styrkleikum eða fjársjóði. Börnin leika eins konar sjóræningja (góða sjóræningja að sjálfsögðu) og leita að fjársjóði bæði beint og óbeint.

Fjársjóðsleitar verkefnið stækkkaði og árið 2014 var gefin út handbók fyrir starfsfólk skóla sem hefur áhuga á að styðjast við Fjársjóðsleitina. Fjársjóðsleitin er í dag kennd sem nokkurra tíma námskeið þar sem lögð er áhersla á líðan, hegðun og sjálfsmynd. Verkefnin og hugmyndafræðin á námskeiðinu kemur úr hugrænni og atferlislegri nálgun í sálfræði/ráðgjöf. Unnið er að því að efla þekkingu barnanna á eigin sjálfsmynd og  kostum, unnið er með neikvæðar hugsanir, stigið er út fyrir þægindarammann og þjálfuð er ný hegðun með markmiðssetningu. Verkefnin koma úr ýmsum áttum og flest eru þau í anda hugrænnar atferlisfræði. Verkefni úr bókum Dr. Melanie Fennell hjá Oxford Háskóla í Bretlandi eru nýtt sem og önnur tæki og tól sem þekkt eru úr sálfræði og námsráðgjöf.

Þann 25. janúar geta fagaðilar sem hafa áhuga á að kynnast námskeiðinu tekið þátt á leiðbeinendanámskeiði Fjársjóðsleitarinnar og fengið í kjölfarið handbók fyrir fagfólk. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

Einnig er hægt að eignast verkefnabók fyrir fagfólk og foreldra. Verkefnabókin er ætluð börnum og unglinum og byggir á Fjársjóðsleitinni. Til að eignast verkefanbókina er best að hafa samband við höfund á elvabjork@sjalfsmynd.com

Þann 17. janúar hefst næsta námskeið fyrir börn á aldrinum 7-10 ára hjá Klifinu Garðabæ. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

 

 

Sjálfstyrking – Fjársjóðsleitin – Verkefnabók fyrir börn og unglinga

myndin

Elva Björk  höfundur sjálfstyrkingarnámskeiðs sem nefnist Fjársjóðsleitin er að leggja loka hönd á tilraunaútgáfu verkefnabókar fyrir börn og unglinga. Um er að ræða verkefnabók þar sem börn leita að eigin fjársjóði eða styrkleikum. Markmiðið með verkefnunum er að bæta líðan og sjálfsmynd barna, efla jákvætt hugarfar, styrkja jákvæða eiginleika og hvetja börn til að stíga út fyrir þægindaramma sinn, setja sér markmið og ná þeim. Efni bókarinnar byggir á verkefnum og aðferðum úr hugrænni atferlisfræði. Í verkefnabókinni má finna ýmis verkefni sem reynst hafa vel í sjálfsmyndarvinnu með börnum. Einnig má finna lýsingar á verkefnunum fyrir foreldra, kennara, námsráðgjafa og aðra sem vinna með börnum. Áhugasamir geta nálgast tilraunaútgáfu verkefnabókarinnar ódýrt með því að hafa samband við höfund  með því að senda tölvupóst á elvabjork@sjalfsmynd.com.

Elva Björk er sálfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi. Hún hefur lokið MS námi í sálfræði og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf. Elva starfaði sem námsráðgjafi í grunnskóla í 6 ár og kennir sálfræði í framhaldsskóla og er stundakennari í HÍ. Elva hefur haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unga krakka sem nefnist Fjársjóðsleitin í nokkur ár.

Nýtt-Fræðsla um sjálfsmynd fyrir unglinga, foreldra og starfsfólk.

Anna Sigríður, sálfræðingur hefur undanfarin misseri haldið fræðsluerindi og námskeið anna siggaum sjálfsmynd og sjálfstyrkingu fyrir starfsfólk og foreldra í leik- og grunnskólum. Sjálfsmynd er veigamikill þáttur í andlegri líðan og hefur áhrif á hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem við getum gefið börnunum okkar út í lífið. Sjálfsmyndarfræðslan fjallar í stuttu máli um grunnstoðir sjálfsmyndar, helstu áhrifaþætti á sjálfsmynd og hvernig styrkja má sjálfsmyndina. Fræðslan hefur fengið góðar viðtökur og nú í haust bætist við sjálfsmyndarfræðsla fyrir unglinga.

Þrjár útgáfur eru af fræðslunni

1. Námskeið fyrir starfsfólk skóla. Námskeiðið er tvískipt (fyrir og eftir hlé) og fjallar fyrri hlutinn um hvað einkennir sterka sjálfsmynd, hverjir eru grundvallarþættir sjálfsmyndar og hvernig má hafa áhrif á þá þætti. Markmiðið er að auka þekkingu starfsfólks á þróun sjálfsmyndar og efla það í að styðja við aukið sjálfstraust nemenda. Síðari hluti námskeiðsins fjallar um eigin sjálfseflingu með það að markmiði að auka þol í streituvaldandi aðstæðum, vinna úr erfiðri reynslu, nýta betur eigin styrkleika, setja sér markmið í starfi, njóta sem best þess sem starfið felur í sér auk þess sem efnið nýtist hverjum og einum í daglegu lífi. Efnið er brotið upp með umræðum, æfingum og praktískum verkefnum sem henta vel til að nota áfram eftir námskeið, á einstaklingsgrundvelli eða í starfsmannahópum. Námskeiðið tekur um þrjár klukkustundir og kostar 70.000 kr.

2. Fyrirlestur fyrir foreldra. Fjallar um grunnþætti í þróun sjálfsmyndar og hvernig má hafa áhrif á þá þætti. Markmiðið er að fræða foreldra um hvernig vinna má að því að börn virki vel í leik og starfi, líði vel í eigin skinni og meti sig og aðra í sanngjörnu ljósi og efla foreldra í að styrkja sjálfsmynd barna sinna. Fyrirlesturinn tekur um eina klukkustund með umræðum og kostar 50.000kr.

3. Fræðsla fyrir unglinga. Fjallar um grundvallaratriði sterkrar sjálfsmyndar, samspil hugsana, hegðunar og tilfinninga, kenndar aðferðir og unnin verkefni til að efla sjálfsmynd. Markmið er að auka þekkingu á eigin sjálfsmynd og hvernig vinna megi að því að styrkja hana auk þess að dýpka skilning á mismunandi sjálfsmynd annara. Fræðslan tekur um eina klukkustund (æskilegt er að gera ráð fyrir hléi eða að stytta efnið örlítið sé ekki tími fyrir hlé) og kostar 40.000kr.

Anna Sigríður er sálfræðingur og starfar við greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu bæði á einkastofu og á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Áður starfaði hún í sérfræðiþjónustu við grunnskóla.
Hún stendur, ásamt öðrum fagaðilum, að heimasíðu um sjálfsmynd barna og unglinga, sjalfsmynd.com.

Hægt er að hafa samband við Önnu Sigríði til að panta fræðslu eða fá nánari upplýsingar, með tölvupósti annasiggajokuls@gmail.com eða í síma 693 4712

Að leyfa börnum að takast á við mótlæti

Vilborg kemur grátandi inn úr dyrunum, tvær vinkonur hennar höfðu stungið hana af eftir skóla. Móðir hennar verður einnig miður sín: „Hvað ertu að segja? Voðalega eru þær ómerkilegar. Við skulum bara gera eitthvað skemmtilegt, fara í ísbúðina og horfa á eitthvað skemmtilegt“. Um kvöldið hringdi móðirin síðan í mömmu annarrar vinkonunnar og biður hana um að ræða þessa uppákomu við dóttur sína þar sem Vilborg hefði verið mjög miður sín.

Það er eðlilegt að foreldrar vilji forða börnum sínum frá öllu óþægilegu og sáru og reyna að taka það á sínar herðar í stað þess að horfa upp á börn sín þjást. Þrátt fyrir að ætlunin sé önnur geta skilaboðin til barnsins orðið: „Þú hefur ekki burði eða kjark til að takast á við þetta“ og „Þetta er hræðilegt, engin furða að þú sért miður þín/hræddur/reiður“.

Þegar foreldrar koma börnum sínum í öruggt skjól við hvert tækifæri og taka sjálfir að sér að greiða úr vanda sem börnin standa frammi fyrir, taka þeir um leið frá þeim tækifærin til að æfa sig í að takast á við erfiðar aðstæður (þ.e. aðstæður sem börnunum þykja erfiðar) og standa sjálf uppi sem sigurvegarar.

Í tilviki Vilborgar hefði hugsanlega verið vænlegra fyrir móðurina að aðstoða hana við að finna út úr því hvernig hún ætlaði sjálf að takast á við þá stöðu sem uppi var og hjálpa henni að sjá hvað þessi uppákoma segði um vinkonurnar og hvað þetta segði eða segði ekki um hana sjálfa. Þannig yrði líklegra að Vilborg gæti tekist á við svipaðar aðstæður í framtíðinni á farsælli hátt og án þess að þær hafi eins neikvæð áhrif á hana.

Fullorðnir þurfa þó oft og tíðum að taka upp hanskann fyrir börn sín eða greiða úr erfiðleikum þeirra þegar miklir eru. En þá er gott að þekkja börn sín vel og gera sér grein fyrir hvaða aðstæður eru þeim ofviða og hvaða aðstæður þau geta tekist á við (jafnvel þó þær valdi þeim óþægindum).

Þegar börn okkar eiga erfitt með ákveðna hluti er ágætt að hafa í huga að þegar þau lærðu að ganga studdum við þau í upphafi, héldum í hendur þeirra, slepptum síðan smám saman og létum þau ganga ein og óstudd. Við þurftum hinsvegar að þola að sjá þau hrasa og meiða sig því annars hefðum við aldrei geta sleppt af þeim takinu.

Foreldrar þurfa að aðstoða börn sín við að standa í eigin fætur, ein og óstudd, svo þau geti tekist á við það sem reynist þeim erfitt, því þannig fá þau trú á eigin getu.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

Kynlíf og líkamsmyndin

sec líkams

„Ljósin verða að vera slökkt“, „ég þoli ekki að vera ofan á, þá verður bumban svo áberandi“, „brjóstin mín verða svo ljót þegar ég er ofan á“ eða „ég þoli ekki þegar hann grípur um rassinn minn, því þá finnur hann hvað ég er með mikla appelsínuhúð“.

Þessar setningar eru ekki skáldskapur heldur raunveruleg orð sem við höfum heyrt óteljandi sinnum frá konum í kringum okkur.

Lítið hefur verið rætt um líkamsmynd fullorðinna kvenna. Áherslan hefur lengi verið á unglinga en slæm líkamsmynd er of algeng meðal unglingsstúlkna. Rannsóknir sýna þó að líkamsmyndin er nokkuð stöðug í gegnum lífið ef ekki er unnið í því að bæta hana og geta því fullorðnar konur einnig verið ósáttar við útlit sitt. En það er þó algengt að áhersla á útlit breytist með aldrinum, konur verða meðvitaðri um að enginn er „fullkominn“ og mikilvægi útlits minnkar.

Þegar líkamsmynd fullorðinna kvenna er skoðuð kemur í ljós að slæm líkamsmynd hefur mikil áhrif á kynlífið. Konum með mjög slæma líkamsmynd getur jafnvel þótt kynlíf kvíðavekjandi atburður. Slæm líkamsmynd getur haft mjög neikvæð áhrif á upplifun kvenna af kynlífi.

Rannsóknir á tengslum líkamsmyndar kvenna og kynlífs hafa til að mynda sýnt fram á það að konur með slæma líkamsmynd eru ólíklegri til að tjá langanir sínar og fá fullnægingu. Í rannsókn Dr. Jill Hagen og Thomas F. Cash frá árinu 1991 kom í ljós að 73% kvenna með góða líkamsmynd fengu fullnægingu í samförum en aðeins 42% kvenna með slæma líkamsmynd fengu fullnægingu.

Erfiðleikar við að njóta kynlífs hefur verið tengt við einhvers konar sjálfseftirlit eða spectatoring. Spectatoring er hugtak sem Masters og Johnson, hinir frægu brautryðjendur í kynfræðirannsóknum, komu fram með í kringum árið 1970. Það felur í sér að einstaklingur einblíni á eigin líkama og útlit í kynlífi líkt og hann sé aðili sem fylgist með athöfninni en ekki beinn þátttakandi. Á sama tíma getur viðkomandi átt erfitt með að njóta kynlífsins þar sem hann er upptekinn af því að „fylgjast með“ eigin útlitsgöllum.

Margar konur kannast við áhyggjur þegar kemur að kynlífi. Sumar vilja hafa ljósin slökkt svo makinn sjái ekki líkamann, aðrar velja ákveðnar stellingar eingöngu vegna útlits, þ.e óttast að „útlitsgallar“ sjáist í ákveðnum stellingum, sumar eiga erfitt með að njóta kynlífsins því hugurinn reikar annað og þá oft að útlitinu og hinum meintu göllum og aðrar dreyma um aukið kynlíf þegar „auka“ kílóin eru farin.

Margar telja lausnina vera að breyta útlitinu. Eru vissar um að kynlífið verði betra þegar “auka”kílóin eru farin eða maginn orðinn stinnari. Í einhverju tilvikum getur það átt við en vitað er að konur geta upplifa óánægju með útlit sitt óháð því hvernig þær líta út. Slæm líkamsmynd finnst hjá grönnum konum sem og feitum, hjá brjóstalitlum konum sem og hjá þeim sem eru með stór brjóst.  Það er því betra að einbeita sér að því að bæta líkamsmyndina en að vera í endalausri vinnu við það að breyta útlitinu.

sex líkamsynd mynd

Að bæta líkamsmyndina felur meðal annars í sér að einblína ekki á óraunhæfar fyrirmyndir eins og „fótósjoppaðar“ fyrirsætur og hætta að horfa á eigin líkama í gegnum linsu þröngra útlitsviðmiða. Einnig má vinna með neikvæðar hugsanir um eigið útlit, til dæmis með jákvæðu sjálfstali eða hreinlega með því að ræða við makann um áhyggjurnar. Yfirleitt eru áhyggjur kvenna af því hvað elskhuganum finnst um líkamann ekki á rökum reistar. Sumum reynist vel að ná sátt við líkama sinn með því að hugsa vel um hann og einblína á heilsu umfram holdafar.  Með því að sjá fegurðina í fjölbreyttum líkamsgerðum má bæta líkamsmyndina og þar með kynlífið.

Elva Björk Ágústsdóttir og Sólrún Ósk Lárusdóttir sálfræðimenntaðir líkamsvirðingarsinnar 🙂

Heimildir:

Alvear, M. 2013. Is your body image getting in the way of your sex life? Huffington Post. (http://www.huffingtonpost.com/mike-alvear/is-your-body-image-gettin_b_3230731.html)

Cash, T. F. 2009. The body image workbook. An eight-step program for learning to like your looks. (2. útgáfa). Oakland: New Harbinger Puplications, Inc.

Faith, M.S.,  og Schare, M. L. 1993. The role of body image in sexually avoidant behavior. Archives of sexual behavoir. (22), 4.

Pujols, Y., Meston, C. M., og Seal, B. N. 2009. The association between sexual satisfaction and body image in women. The journal of sexual medicine. Útg. 7. Issue 2.

Tiggemann, M. 2004. Body image across the adult life span: stability and change. Body Image, útg. 1. (1).