Flokkaskipt greinasafn: Sjálfsmynd

Á ég að hrósa barni mínu?

Ég hef lent í ansi skrautlegum rökræðum við fólk um hrós og hvatningu til barna. Sumir eru á því að við hrósum börnum of mikið og fyrir lítið og það hafi letjandi áhrif á börnin. Það getur verið að eitthvað sé til í því. Rannsóknir sýna til dæmis að hrós eru misgóð. Það skiptir máli hvernig við hrósum. Að hrósa barni fyrir eiginleika sem eru nokkuð stöðugir eins og greindarfar getur í sumum tilvikum haft letjandi áhrif meðan það að hrósa fyrir hegðun eða virkni getur haft hvetjandi áhrif. Barn sem fær hvatningu fyrir verknað t.d. fyrir góða virkni í verkefni sem unnið er í skólanum, er líklegra til að reyna meira á sig. Barn sem fær eingöngu hrós fyrir að vera klárt er ekki endilega líklegra til að reyna mikið á sig, það gæti jafnvel reynt að komast undan krefjandi verkefnum af hræðslu við að mistakast.

hurray_1

En hrós eru mikilvæg.

Albert Bandura doktor í sálfræði vakti áhuga fólks á hugtakinu trú á eigin getu (self efficacy). Trú á eigin getu er skilgreint sem mat okkar á eigin færni til að skipuleggja og framkvæma röð aðgerða sem eru nauðsynlegar til að geta framkvæmt ákveðnar tegundir verkefna. Hér er ekki um almenna hæfni að ræða heldur færni í ákveðnum verkefnum eða aðstæðubundið mat á hæfni til að framkvæma afmarkað verkefni. Einstaklingur getur þess vegna verið með nokkuð gott sjálftstraust þótt trú hans á eigin getu í eldhúsinu er ekki mikil. Eins getur einstaklingur verið með lítið sjálfstraust en góða trú á eigin getu þegar kemur að eldamennsku.

Ýmist þættir hafa áhrif á trú okkar á eigin getu t.d. bein reynsla, þ.e. hvernig áður hefur gengið að framkvæma ákveðið verkefni. Ef mér hefur hingað til gengið nokkuð vel að elda góðan mat þá eykur það líkur á því að ég hafi góða trú á eigin getu í eldhúsinu. Óbein reynsla getur líka haft áhrif á mótun trúar á eigin getu. Að fylgjast með öðrum og læra þannig handbrögðin í eldhúsinu eykur líkur á því að ég treysti mér til að gera eins. Lýsandi dæmi um þetta kemur úr heimi íþróttanna. Áður töldu menn að líkamlega ómögulegt væri að hlaupa mílu á innan við fjórum mínútum enda hafði engum tekist það fyrir árið 1954. Það ár braut þó Englendingurinn Roger Bannister fjögurra mínútna múrinn með því að hlaupa fjórar mílur á tímanum 3,59 mínútur. Árangur hans hafði mikil áhrif á aðra hlaupara. Ári síðar náðu 37 hlauparar svipuðum tíma og árið þar á eftir brutu 300 hlauparar fjögurra mínútna múrinn. Ólíklegt er að líkamlegt form hlaupara hafi breyst á svo dramatískan hátt á þessum stutta tíma. Líklegra þykir að hugsunarhátturinn hafi breyst. Með því að sjá aðra framkvæma verkið aukast líkurnar á því að við teljum okkur sjálf geta gert hið sama.

Aðrir þættir hafa áhrif á trú á eigin getu og spilar hvatning þar stórt hlutverk. Skilaboð frá öðrum, hrós og klapp eflir okkur. Að heyra “þú getur þetta” eða “áfram áfram!!” staðfestir hugmynd okkar um getuna og ýtir undir enn betri árangur.

Trú á eigin getu getur haft mikil áhrif á líf okkar. Einstaklingar með góða trú eru til að mynda líklegri til að velja krefjandi og þroskandi verkefni í stað þess að forðast þau og efla þannig ennþá betur færnina. Trú á eigin getu hefur áhrif á hve mikið við leggjum á okkur. Einstaklingur með góða trú sýnir seiglu og gefst síður upp við mótlæti. Góð trú á eigin getu getur líka haft áhrif á sjálfstal. Þeir sem hafa litla trú velta sér meira upp úr mistökum, vanmeta getu sína og þeim líður verr við mótlæti. Ef viðkomandi gerir mistök er hann líklegri til að telja orsökina liggja í skort á getu eða hæfni. Þeir sem hafa góða trú á eigin getu beina athyglinni frekar að verkefninu og mögulegum launsum. Ef gerð eru mistök, eiga þeir það til að telja þau verða vegna þess að þeir lögðu ekki nægilega hart að sér og því líklegri til að reyna betur næst.

Til að efla sjálfsmynd barna er því mikilvægt að hvetja þau áfram og nota hrós. Við getum bent þeim á fyrri árangur eða notað herminám og sýnt þeim hvernig eigi að gera og hvetja þau áfram þegar þau reyna sjálf.

Elva Björk Ágústsdóttir

Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Gagnleg ráð við kvíða barna

kvíði barn

Á vefsíðunni  PsychCentral má finna gagnlega grein eftir Renee Jain, um það hvað foreldrar geta gert fyrir barn sem upplifir kvíða

Í greininni eru tekin saman gagnreynd ráð sem hafa reynst vel þegar kemur að því að bæta líðan kvíðafullra barna.

Margir þekkja það eflaust að verða pirraðir og að finna fyrir vonleysi yfir kvíða barna sinna t.d þegar barn óttast það að mæta í skólann, í afmæli, til tannlæknis eða að spyrja eftir vini. Augljóslega er ekki til ein töfralausn fyrir alla en hér má finna nokkur atriði sem geta nýst vel:

  1. Hughreysting virkar ekki alltaf

Barn sem hefur áhyggjur af einhverju á erfitt með að meðtaka skilaboð foreldra sinna um að ekkert sé að óttast. Að segja við barn að það sé ekkert að óttast í skólanum, afmælinu, kringlunni eða hvar sem er hjálpar oftast ekkert. Ein af ástæðunum er sú að þegar kvíðinn tekur yfir okkur þá fer heilinn okkar í árásar eða flótta gírinn og rökhugsun minnkar. Það getur því verið afskaplega erfitt fyrir barn að hugsa rökrétt þegar kvíðinn er sem mestur. Það getur því hentað betur að hjálpa barninu að taka pásu og  draga djúpt andann til að róa taugakerfið. Þegar barnið hefur róast er hægt að finna mögulegar lausnir á vandanum.

  1. Áhyggjur geta verið góðar 😉

Sum börn brjóta sig niður fyrir það að hafa áhyggjur og halda að eitthvað sé að þeim. Fyrir þau getur virkað vel að læra um áhyggjur og hvaða gagn við höfum haft af áhyggjum í tímans rás. Gott getur verið að segja frá því þegar forfeður okkar þurftu að vera á varðbergi fyrir hættulegum dýrum. Áhyggjur geta virkað sem tæki til að hjálpa okkur að lifa af, einhvers konar varnarkerfi. Áhyggjurnar kveikja á viðvörunarbjöllum og við reynum að komast úr hættu. En stundum geta bjöllurnar hringt þegar engin hætta steðjar að og mikilvægt er að reyna að minnka slíkar falshringingar.

  1. Leyfum kvíðanum að „lifna við“

Að hunsa kvíða hjálpar sjaldnast. Fyrir börn getur hentað vel að persónugera kvíðann, gera kvíðann að manneskju eða fígúru. Hægt er að fræða barnið um að Kalli kvíði eða Kvíðaormurinn eigi heima í „gamla“ heilanum og átti að hjálpa okkur að lifa af þegar við bjuggum í hellum. Stundum er Kvíðaormurinn aðeins of fjörugur og alltaf að láta vita af sér og er þá mikilvægt að reyna að koma vitinu fyrir hann og róa hann.

  1. Gerumst spæjarar

Gott er fyrir börn að muna það að áhyggjur eru leið heilans til að bjarga okkur ef við erum í einhvers konar hættu. Áhyggjur sjá til þess að við tökum eftir öllu í kringum okkur svo ekkert hættulegt fari fram hjá okkur. Við gerum þó stundum mistök, höldum til dæmis að trjágrein sé snákur. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að prófa að vera spæjari, grípa hugsanirnar þegar þær birtast, finna sönnunargögn, með og á móti og jafnvel fara í rökræðukeppni við Kalla kvíða eða Kvíðaorminn.

  1. Leyfum áhyggjurnar

Að segja barni að hafa engar áhyggjur minnkar oftast ekki áhyggjurnar. Að leyfa barni að hafa áhyggjur og lýsa þeim fyrir foreldrunum í ákveðinn tíma á dag (áhyggjutími) í t.d 10-15 mínútur getur verið hjálplegt. Í áhyggjutímanum tjáir barnið áhyggjur sínar skriflega eða munnlega (getur verið gaman að leyfa barninu að skrá áhyggjur niður á blað og geyma í áhyggjuboxi). Þegar áhyggjutíminn er liðinn er mikilvægt að kveðja áhyggjurnar og halda áfram með daginn. Af eigin reynslu þá hefur þessi aðferð reynst vel. Barn sem hefur miklar áhyggjur yfir daginn og er vant að tjá sig um allt milli himins og jarðar sem veldur því áhyggjum á það til að gleyma „litlum“ áhyggjum þegar loksins er komið að áhyggjutímanum og þannig minnka áhrif kvíðans smátt og smátt.

  1. Færum okkur frá HVAÐ EF yfir í HVAÐ ER

Við eigum það til að velta óorðnum hlutum mikið fyrir okkur t.d hvað gerist ef ég mismæli mig í tíma, hvað gerist ef Anna vill ekki vera með mér í dag…….? Rannsóknir sýna að það að einbeita sér að núinu og því sem raunverulega er að gerast en ekki öllu því sem gæti gerst hefur jákvæð áhrif á líðan. Núvitundaræfingar geta því haft jákvæð áhrif á börn.

  1. Forðumst að forðast 🙂

Þegar börn hræðast eitthvað reyna þau mikið að forðast það sem þau hræðast t.d sleppa æfingu, afmæli, forðast hunda og annað. Mikilvægt er fyrir foreldra að aðstoða börnin við að nálgast það sem þau hræðast. Hægt er að gera það í þrepum svo barnið finni sjálft að það hafi ekkert að hræðast t.d sjá mynd af hundi, horfa á myndband af hundi, svo fara í almenningsgarð þar sem hundar gætu verið ……og að lokum kannski klappa hundi.

  1. Tékklisti

Þrátt fyrir margra ára reynslu fara þjálfaðir flugmenn ávallt í gegnum tékklista þegar eitthvað kemur upp á í flugi, því vitað er að þegar við erum í einhvers konar hættu eða teljum okkur í hættu þá virkar rökhugsun okkar ekki alltaf eins vel og hún getur. Það getur því verið gagnlegt að útbúa einhvers konar tékklista fyrir barn sem finnur fyrir kvíða t.d anda rólega og meta aðstæður.

Hér má finna áhugaverða síðu til að aðstoða börn við að komast yfir kvíða.

Elva Björk Ágústsdóttir

Náms- og starfsráðgjafi, (MS í sálfræði)

Dagur gegn einelti

chf-cartoon-kids

Þann 8. nóvember er dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á einelti og alvarleika þess. Einelti er skilgreint sem endurtekin ótilhlýðleg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Í tilefni dagsins verður fræðsla um einelti á vinnustöðum haldin föstudaginn 7.nóvember:  http://www.gegneinelti.is/frettasafn/nr/105

Á vefsíðunni www.gegneinelti.is er hægt að finna upplýsingar um einelti og um verkefnið. Þar má einnig finna sáttmála um baráttu gegn einelti og hvetjum við alla til að skrifa undir hann: Sáttmáli

Í tilefni dagsins viljum við á Sjálfsmyndarsíðunni vekja athygli á skemmtilegum vinaverkefnum sem finna má í verkfærakistu okkar. Eitt verkefnanna er sérlega skemmtileg en það kallast Vinadagur. Í því verkefni er lögð áhersla á að skoða hvaða góðu eiginleika við sýnum í vináttu og samskiptum. Við hvetjum því námsráðgjafa, kennara og aðra sem starfa með börnum að vinna einhvers konar vina- eða samskiptaverkefni með nemendum sínum í dag.

Vinadagur 

Opið bréf til Þjóðleikhússtjóra, Íþróttaálfsins og höfunda Ævintýris í Latabæ

Á sunnudaginn var fór ég á sýningu um ævintýrið í Latabæ með sonum mínum. Eftir sýninguna fór ég að velta fyrir mér þeim skilaboðum sem börnin fengu og tel ég margt í sýningunni alls ekki stuðla að heilbrigðum lífsvenjum þegar haft er í huga ýmsir andlegi þættir sem geta haft áhrif á sjálfsmynd og líkamsmynd barna. Ég sendi því í kjölfarið Þjóðleikhússtjóra opið bréf til hennar og höfunda verksins. Það hljómar svona:

Kæri Þjóðleikhússtjóri, Íþróttaálfur og höfundar Ævintýris í Latabæ

Á sunnudaginn síðasta fór ég í Þjóðleikhúsið á sýninguna um Ævintýrið í Latabæ með strákunum mínum tveimur,  4 og 10 ára. Þeir skemmtu sér konunglega og nutu dagsins en ég varð aftur á móti mjög leið yfir nokkrum atriðum í sýningunni.

Þegar kemur að heilsu og líðan barna okkar er mikilvægt að gæta hófs , gæta hófs í óhollustu sem og öðru. Skilaboð Íþróttaálfsins um mikilvægi þess að hreyfa sig og borða hollan og fjölbreyttan mat eru góð og gild en einnig er mikilvægt að hafa í huga hvernig þessi skilaboð eru borin fram.

Skilaboðin sem börnin okkar fá frá Íþróttaálfinum í leiksýningunni eru rosalega ýkt og bera lítil sem engin merki um einhvers konar hófsemi í hegðun. Til að mynda virðist himin og jörð vera að farast þegar Stína símalína fær sér lítinn kanilsnúð og það að Stína þurfi að fela snúðinn sinn fyrir öðrum eru ekki góð skilaboð þar sem krakkarnir læra að smá sætindi séu algjörlega bönnuð og fela þurfi sætindaþarfir. Ennþá ýktari skilaboð um skaðsemi sætinda komu fram þegar Íþróttaálfurinn hreinlega fellur í dá við það eitt að bíta í sykrað epli. Það er síðan í höndum krakkanna í Latabæ að bjarga honum og vekja hann úr dáinu með því að gefa honum grænmeti.

Ég veit! Þetta hljómar eins og í lygasögu.. en svona er söguþráðurinn, þetta horfði ég á með sonum mínum síðasta sunnudag.

Mér var síðan nóg boðið þegar bæjarstjórinn tekur Stínu símalínu í fangið (sem er bæði búin að yngjast og grennast frá því á síðustu leiksýningu Latabæjar fyrir einhverjum árum síðan). Bæjarstjórinn lyftir henni upp og hrósar henni fyrir að líta vel út og spyr hvort hún sé búin að grennast. Stína segist þá vera á einhvers konar megrunarkúr.

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst algjör óþarfi að litlu drengirnir mínir læri að eitthvað sé til sem heitir megrunarkúr og að einhver líti mun betur út eftir að hafa misst nokkur kíló.

Eins og ég sagði í upphafi bréfsins þá skemmtu strákarnir sér vel! og er fræðsla um fjölbreytt mataræði og hreyfingu góð og gild. En þegar fræðslan fer út í einhvers konar hræðsluáróður þar sem einn kanilsnúður verður að bannvöru (úff hver kannast ekki við það að vilja miklu frekar það sem er bannað? Að finna mestu nammiþörfina þegar maður hefur ákveðið að fara í nammibindindi?) og þeir sem fá sér bita af einhverju sætu megi skammast sín, þá erum við ekki að styrkja börnin okkar og hvetja þau til þess að tileinka sér heilbrigðar lífsvenjur. Að skammast sín fyrir einn sykurmola eða að tengja neikvæða og slæma þætti við ákveðið útlit eru ekki góð skilaboð.

Og hvað er málið með það að eina barnið sem vill nammi er Siggi sæti og hann er alltaf látinn vera með bumbu? Er enginn sem sér hversu „absúrd“ það er?

Líkt og ég nefndi þá þóttu drengjunum mínum sýningin mjög skemmtileg og nutu þess innilega að koma í heimsókn í Þjóðleikhúsið. Það er von mín að þessar hugleiðingar mínar verði skoðaðar, jafnvel með það í huga að sleppa megrunarskilaboðunum næst.

Með bestu kveðju

Elva Björk Ágústsdóttir

Sálfræðikennari/Námsráðgjafi

 

Uppfært: Það er með gleði og von í hjarta sem ég tilkynni að Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri tók mjög jákvætt í athugasemdirnar sem komu fram í bréfinu og hefur í hyggju að ræða við höfunda leikritsins varðandi mögulegar breytingar. Húrra!!

Hvað gerist ef mér mistekst ekki?

?????????????Það er alltaf jafn skemmtilegt þegar fólk hittir naglann  á höfuðið með góðum ráðum, athugasemdum eða spurningum. Í pistli sem Warren Berger skrifaði fyrir Psychology today  kom hann með fimm spurningar sem vert er að spyrja sig.

Þegar kemur að sjálfsmyndinni og bættri líðan getur verið gott að spyrja sig að því hvað myndi ég reyna að gera ef ég vissi að mér gæti ekki mistekist? Þessi spurning hefur lengi verið notuð í ráðgjöf til að hjálpa fólki að komast yfir hræðslu við að gera mistök.

Með því að velta fyrir þér hvað þú myndir vilja reyna að gera eða framkvæma ef þú vissir að allt myndi ganga hnökralaust fyrir sig þá færirðu það „ómögulega“ nær því mögulega.

Hægt er að sjá mál frá nýju sjónarhorni með því að spyrja sig: Hvað gerist ef mér mistekst ekki? 

En enginn er fullkominn og öll gerum við mistök einstöku sinnum 😉 En með því að ímynda sér útkommu án mistaka færum við okkur nær því að hugsa „big and bold“

Warren Berger fjallaði einnig um val okkar eða leiðir í lífinu. Stundum stöndum við á tímamótum og þurfum að velja á milli tveggja kosta. Góð leið til að komast að niðurstöðu er að spyrja: Hvor leiðin eða möguleikinn leiddi til betri lífssögu eða reynslu að fimm árum liðnum?   “No one ever regrets taking the path that leads to a better story.”

Með von um að þessar tvær spurningar hitti naglann á höfuðið 🙂

Elva Björk Ágústsdóttir

Fjársjóðleitin – Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur og stráka

300-fjarsjodsleit_617a835c229addb2ea669df37df22e26

Ný námskeið hefjast 1. október

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir krakka þar sem þátttakendur leita að sínum innri fjársjóði og styrkleikum. Námskeiðinu er ætlað að styrkja sjálfsmynd barna og bæta líðan þeirra og velferð.

Markmið námskeiðsins: Að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust krakka sem gætu notið góðs af því að finna sína eigin styrkleika með skemmtilegum leikjum og verkefnum. Verkefnin byggja á aðferðum úr hugrænni atferlisfræði til að mynda úr verkefnabók eftir Melanie Fennell sem nefnast Overcoming low self-esteem (Melanie Fennell, 2006) og hugrænni atferlismeðferðar verkefnabók ætluð börnum eftir Dr. Gary O‘Reilly.

Námskeiðið skiptist í fjóra tíma þar sem þátttakendur hittast og hafa gaman saman. Farið er í leiki og verkefni unnin sem styrkja sjálfsmyndina.

Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema þar sem þátttakendur eru í fjársjóðsleit. Fjársjóðsleitin táknar leit þeirra að eigin styrkleikum. Námskeiðið hentar einstaklega vel krökkum á aldrinum 8-10 ára.

Sjá nánar hér:

Fjársjóðsleit fyrir stúlkur

Fjársjóðsleit fyrir drengi

 

Veikindi barna eða nánustu fjölskyldu og aðrir erfiðleikar

Veikindi og aðrir erfiðleikar geta haft veruleg áhrif á sjálfsmynd barna. Það er IMG_1016mismunandi eftir þroska, reynslu og persónuleika hvernig börn bregðast við erfiðleikum.

Börn sem eru undir miklu álagi geta verið viðkvæm, pirruð, uppstökk, niðurdregin og óákveðin auk þess sem svefn og matarlyst getur raskast. Fram geta komið erfiðleikar með einbeitingu, minni og viðbragð, félagsfærni getur dalað og orðið tímabundin afturför í tilteknum þroskaskrefum. Börnin geta þá upplifað sig minni máttar, að verkefni séu þeim ofviða og trú þeirra á eigin getu minnkað.

Þá gildir að gefa barninu tíma, sýna skilning, stuðning og hvatningu og gæta þess að kröfur séu raunhæfar, að barnið geti uppfyllt þær. Þannig ætti að laga kröfur að aðstæðum en ekki að sleppa öllum kröfum. Það er í lagi að þeirra besta sé ekki eins og venjulega en það er styrkjandi fyrir sjálfsmyndina að standa sig vel, líka í erfiðum aðstæðum.

Þarfir barnsins fyrir umhyggju og öryggi geta aukist og mikilvægt er að mæta þeim. Draga ætti úr óþarfa álagi, reyna að halda föstum skorðum á daglegu lífi án þess þó að gleyma að skemmta sér. Gott er að finna tíma til að vera með hverju barni í einrúmi daglega, þó ekki sé nema 10 mínútur.

Viðbrögð og viðhorf sem börn mæta í umhverfinu hafa áhrif á sjálfsmynd þeirra. Það er því mikilvægt að þeir sem umgangast barnið mest séu upplýstir um hvernig hægt er að koma á móts við þarfir barnsins og fjölskyldunnar. Miðað við þroska og aðstæður ætti að hafa barnið sjálft með í ráðum eins og hægt er, upplýsa það um hvað öðrum er sagt um erfiðleikana og aðstoða það við að búa sig undir hvernig það vill svara spurningum frá öðrum. Mikilvægt er að setja viðeigandi orð á veikindi eða erfiðleika svo auðveldara sé fyrir barnið að tala um þá og bregðast við þegar aðrir tala um þá. Þannig er hægt að stuðla að auknu öryggi hjá barninu í samskiptum við aðra, skapa umhverfi sem gerir nauðsynlegar en raunhæfar kröfur til barnsins og auka um leið skilning allra á að við höfum ólíkar þarfir.

Það er nauðsynlegt fyrir börn að upplifa stundir þar sem þau geta gleymt erfiðleikum og önnur viðfangsefni átt hug þeirra allan. Þegar um veikindi eða sorg er að ræða getur nægt að fullvissa barnið um að það verði alltaf látið vita ef eitthvað alvarlegt er að gerast. Að segja barninu sannleikann skapar og viðheldur trausti. Það þarf ekki að segja barninu allt en segja því nóg til að seðja þörf þess fyrir upplýsingar og til að sefa ótta og áhyggjur sem upp geta komið.

Eitt af grundvallaratriðum þess að þroska með sér sterka sjálfsmynd er að börn finni að þau geti talað um líðan sína. Að áhyggjur og líðan séu tekin gild, hlustað sé á þau og brugðist við í rökréttu samræmi. Það er mikilvægt að börnin viti að það er eðlilegt og algengt að erfiðar tilfinningar og áhyggjur geri vart við sig í erfiðum aðstæðum. Stundum minnkar ótti með því einu að tala um hann. Stundum byggist ótti á misskilningi og þá má sefa hann með því að segja barninu að ótti þess sé skiljanlegur og útskýra svo staðreyndir á einfaldan hátt.

Ein aðferð til að vinna úr erfiðum tilfinningum er að beina athygli einnig að kostunum sem aðstæður hafa í för með sér. Ekki gera lítið úr erfiðleikunum en muna að sjá björtu hliðarnar. Það getur hjálpað að líta á erfiðleika sem tækifæri til að þroskast og læra. Það getur verið góð leið að kenna barninu hvetjandi sjálfstal, til dæmis að segja aftur og aftur „ég held ég geti þetta“. Það getur einnig hjálpað barninu að orða áhyggjur sínar og setja þær til hliðar á táknrænan hátt.

Það er mikilvægt að barnið finni að það má alltaf spyrja og að það er hvatt til að ræða málin þó við höfum ekki alltaf fullnægjandi svör. Þó barnið hafi ekki þörf eða vilja til að ræða vandann í dag getur verið að þau vilji það síðar. Það er hægt að hvetja börn til að tala um líðan sína með því að nota ýmislegt í umhverfinu, til dæmis aðstæður sem koma upp, leik sem þau eru í, mynd sem þau teikna eða sjónvarpsefni sem þið eruð að horfa á. Hér gildir að bjóða barninu upp á að tala opinskátt um áhyggjur sínar en um leið gefa því það svigrúm sem það þarf og leyfa því að gleyma sér og njóta líðandi stundar.

Þegar erfiðleikar steðja að er mikilvægt að leggja ríka áherslu á það sem barnið getur, hefur gagn af, dreymir um og þykir skemmtilegt. Er eitthvað sem barninu hefur langað að gera en ekki framkvæmt? Nú gæti verið rétti tíminn til að afla nýrra jákvæðra minninga og byggja upp jákvæða reynslu. Erfiðleikar geta dregið fram veikleika í fari barna líkt og fullorðinna. Því er sérstaklega mikilvægt að rækta styrkleika þeirra, finna nýja styrkleika og uppgötva ný áhugasvið. Ekki gleyma að hafa gaman og nota húmor. Það er ótrúlega losandi að hleypa fram af sér beislinu, hlægja, láta eins og fífl og skemmta sér.

Skemmtilegt og gagnlegt er að halda upp á velgengni í stóru sem smáu. Þannig fá börnin viðurkenningu á að verkefni þeirra séu ögrandi um leið og ýtt er undir sjálfstraust þeirra til að takast á við þau. Eitt af því besta sem hægt er að gefa börnunum er ekki vernd fyrir breytingum, missi eða erfiðleikum heldur sjálfstraust og verkfæri til að bjarga sér og þroskast í öllum aðstæðum sem þau rata í á lífsleiðinni. Í gegnum erfiðleika er hægt að kenna börnum lífsleikni og viðhorf sem gagnast þeim þegar á móti blæs. Þegar börn finna leiðir framhjá takmörkunum læra þau m.a. sveigjanleika, þolinmæði, sjálfstæði, umburðarlyndi og samvinnu.

Á erfiðum tímum er mikilvægt að huga að líðan allra í fjölskyldunni. Það er nauðsynlegt að sinna eigin þörfum. Öðruvísi er erfitt að styðja aðra til lengdar. Það er því mikilvægt að þiggja hjálp og leita hjálpar. Gera ráðstafanir til að fá reglulega hvíld frá ábyrgð og alvöru og gæta þess að klára ekki orkubyrgðirnar. Það er í lagi að börnin sjái að fullorðna fólkið getur ekki gert allt. Ofurforeldrar eru ekki til í alvörunni.

Undir álagi geta allir gert mistök. Verið uppstökkir, brugðist illa við og svo framvegis. Það er allt í lagi að gera mistök. Það er það sem fólk gerir eftir mistök sem segir mest til um hvort reynslan styrki það. Það er öllum hollt að læra að sætta sig við takmarkanir sínar og að fyrirgefa sjálfum sér mistök. Gagnlegt viðhorf er að við erum ekki fullkomin og það gerir ekkert til. Að við reynum okkar besta en meira getum við ekki gert. Stundum er okkar besta ekki alveg frábært en það gerir heldur ekkert til.

Ef barn virðist ekki vera að jafna sig eftir áfall eða erfiðleika, heldur áfram að vera áhyggjufullt, óttaslegið eða sýnir önnur einkenni kvíða eða depurðar getur verið nauðsynlegt að fá aðstoð sálfræðings eða annars fagaðila til að hjálpa barninu að vinna úr erfiðum tilfinningum. Alltaf ætti að hafa samband við fagmann ef viðvarandi áhyggjur eru af þroska, líðan eða hegðun barna.

Anna Sigríður Jökulsdóttir, sálfræðingur hjá Krafti og sjálfstætt starfandi að Laugavegi 13.

Alþjóðlegur hamingjudagur í dag

 

Í dag, 20 mars er alþjóðlegi hamingjudagurinn haldinn hátíðlegur. Dagurinn er haldinn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og er markmiðið með honum að vekja athygli á hamingju sem mikilvægu takmarki fyrir einstaklinga og stjórnvöld.

Events-International-Happiness-Day.200-200x150

Í tilefni dagsins verður haldið opið málþing um hagsæld og hamingju í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14–16. Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Ruut Veenhoven, sem er virtur hollenskur vísindamaður í hamingjurannsóknum. Hann mun halda erindi um hvernig samfélag hefur áhrif á hamingju íbúa en hann hefur verið kallaður ,,guðfaðir hamingjurannsókna“.

Dagskrá málþingsins má nálgast hér: http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item22667/Hagsaeld-og-hamingja-%E2%80%93-Malthing-20–mars-2014

Hvetjum alla til að mæta!

Sjálfsábyrgð

1947843_626016364151025_1687281632_n

Eitt af því sem einkennir fólk sem er hamingjusamt og með góða sjálfsmynd er sjálfsábyrgð. Það tekur ábyrgð á eigin líðan og vellíðan, það tekur af skarið, framkvæmir hluti og tekur ábyrgð á gerðum sínum. Þessir einstaklingar bíða ekki endalaust eftir því að aðrir komi og breyti lífi þeirra. Ef þeir gera mistök þá festast þeir ekki í ásökunum heldur velta freka fyrir sér mögulegum lausnum eða breytingum.

Börn með slæma sjálfsmynd eiga það til að kenna öðrum um mistök sín og eiga þá erfitt með að líta í eigin barm og leita lausna. Hið andstæða er þó einnig algengt, að telja sig bera ábyrgð á of mörgum atriðum, eins og líðan annarra.

Mikilvægt er að vinna að raunhæfu sjónarmiði þar sem börnin læra að þekkja hverju þau geta haft stjórn á og hverju ekki. Ef barn á það til að taka líðan annarra inn á sig og telja sig bera ábyrgð á flestu sem gerist í lífi þess er mikilvægt að efla sjálfsvitund barnsins eða þekkingu á getu þess og hæfni. Ef María telur til dæmis rigninguna sem fellur á gesti í afmælisveislu hennar vera henni sjálfri að kenna er mikilvægt að vinna með þá miklu ábyrgð sem hún telur hvíla á herðum sínum.

Á hinn bóginn eiga sum börn erfiðara með að bera ábyrgð á hlutum og venja sig á að kenna öðrum um ófarir sínar. Þetta gerir þeim erfiðara fyrir þegar kemur að því að bæta stöðuna, þar sem í þeirra huga er ábyrgðin ávallt annarra. Ef María mætir oft seint í tíma fær hún áminningu frá kennara sínum. María er orðin pirruð og fúl út í kennara sinn og viðhorf hennar til skólans versnar. Með því að taka ekki ábyrgð á eigin hegðun heldur yfirfæra hana á kennarann sinn batnar staðan ekki. María mætir áfram seint, fær reglulega áminningu frá kennaranum og líðan í skólanum versnar.

Það getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan barns að þurfa að bera ábyrgð á hlutum sem eru raunhæf og viðeigandi fyrir aldur og getu barnsins. Það að setja sér markmið og leggja eitthvað af mörkum til að ná markmiðunum getur bætt líðan. Það getur því hjálpað börnum að æfa sig í að bera ábyrgð á verkefnum sem hentar aldri. Bæði getur það aðstoðað börn sem eiga það til að telja sig bera ábyrgð á öllum  heimsins vandamálum, að sjá að sumu geta þau stjórnað og öðru ekki, sem og getur aukin ábyrgðartilfinning hjálpað börnum sem eiga það til að kenna öðrum um ófarir sínar í stað þess að líta í eigin barm og leita lausna.

Elva Björk Ágústsdóttir Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur og leiðbeinendanámskeið á Selfossi

Við viljum vekja athygli á því að þann 24. mars hefst námskeið fyrir stúlkur sem nefnist Fjársjóðsleitin. 

Image

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur þar sem þær leita að sínum innri fjársjóði og styrkleikum. Námskeiðinu er ætlað að styrkja sjálfsmynd barna og bæta líðan þeirra og velferð.

Markmið námskeiðsins: Að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust stúlkna sem gætu notið góðs af því að finna sína eigin styrkleika með skemmtilegum leikjum og verkefnum. Verkefnin byggja á aðferðum úr hugrænni atferlisfræði til að mynda úr verkefnabók eftir Melanie Fennell sem nefnast Overcoming low self-esteem (Melanie Fennell, 2006) og hugrænni atferlismeðferðar verkefnabók ætluð börnum eftir Dr. Gary O‘Reilly.

Námskeiðið skiptist í fjóra tíma þar sem stúlkurnar hittast og hafa gaman saman. Farið er í leiki og verkefni unnin sem styrkja sjálfsmyndina.

Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema þar sem stúlkurnar eru í fjársjóðsleit. Fjársjóðsleitin táknar leit þeirra að eigin styrkleikum. Námskeiðið hentar einstaklega vel stúlkum á aldrinum 8-10 ára.

Námskeiðstími:  Mánudaga kl. 16:00 – 17:00

Sjá nánar hér:http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=315&Itemid=146

Einnig viljum við vekja athygli á leiðbeinendanámskeiði fyrir fagfólk sem vinnur með börnum, sem haldið verður á Selfossi þann 8. apríl. Sjá nánar hér: http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=316&Itemid=159