Líkamsmynd og sjálfsmynd

Sjálfsmynd (Self – image) er veigamikill þáttur í andlegri líðan, þar sem hún hefur áhrif á það hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Sjálfsmynd er sú skoðun eða sýn sem við höfum á okkur sjálfum. Þeir sem eru með góða sjálfsmynd eru líklegri til að hafa raunsæja sýn og þekkingu á sjálfa sig en þeir sem eru með slæma sjálfsmynd .

Þegar fjallað er um sjálfsmynd er oft talað um sjálfstraust. Sá sem hefur gott sjálfstraust hefur góða trú á sjálfum sér og hæfileikum sínum. Sá sem er með lítið sjálfstraust hefur oftar en aðrir neikvæða hugmynd um sjálfan sig. Einnig hafa fylgnirannsóknir sýnt að þeir sem eru með gott sjálfstraust ná oft betri árangri í því sem þeir taka sér fyrir hendur, ekki vegna þess að þeir séu hæfari, heldur vegna þess að þeir trúa á sjálfan sig. Einstaklingar með lítið sjálfstraust eiga það til að vanmeta hæfni sína og forðast því að takast á við krefjandi verkefni. Með því að forðast verkefni eða krefjandi aðstæður nær fólk síður að styrkja færni sína og hæfni.

Margir fræðimenn hafa tengt góða sjálfsstjórn við vellíðan, hamingju, góðan námsárangur og bætt samskipti við annað fólk. Góð sjálfstjórn er mikilvæg þegar kemur að því að bæta líðan barna og unglinga og vilja margir meina að sjálfsstjórn sé jafnvel veigameiri þáttur í líðan barna og unglinga en sjálfstraust.

Talið er að sjálfsmynd mótist að mestu í gegnum reynslu og samskipti við aðra og sé því ekki meðfædd. Hún felur í sér bæði sýnileg atriði eins og hæð, þyngd, hárlit og ekki sýnileg, eins og lífsreynslu. Sjálfsmynd tengist einnig því hvernig við tölum við okkur sjálf. Neikvætt sjálfstal ýtir undir vanlíðan og minnkar líkur á því að við treystum okkur til að framkvæma hitt og þetta og prófa eitthvað nýtt. Dæmi um þetta gæti verið á þá leið að drengur með lítið sjálfstraust þorir ekki að taka þátt í áheyrnarprufu fyrir skólaleikrit þar sem hann er viss um að hann kunni ekki leiklist og fái því aldrei hlutverk í leikritinu.

Fólk með lítið sjálfstraust á það einnig til að túlka hluti eða atburði á verri veg en aðrir. Til dæmis eru þeir sem eru með lítið sjálfstraust líklegri en aðrir til að túlka hrós neikvætt og hugsa: „hann er bara að reyna að vera vingjarnlegur“ eða „hver sem er hefði nú getað skorað þetta mark„.

Hegðun okkar og hugsun geta því haft áhrif á sjálfstraust okkar og jafnvel látið okkur líða verr en ella. En hægt er að bæta sjálfstraustið með því að vinna í hugsunum og hegðun. Reyna að stöðva neikvætt sjálfstal, hugsa meira jákvætt og ganga lengra en maður þorir. Ekki láta neikvætt sjálfstal stöðva sig! Drengurinn sem hafði áhuga á leiklistinni hefði t.d. geta látið á leikhæfileika sína reyna og jafnvel fengið hlutverk.  En leiklistarhæfileikar hans eru enn huldir þar sem hann lét aldrei á þá reyna. Hann gefur því sjálfum sér ekki tækifæri til að sjá hvort hann sé raunverulega betri leikari en hann heldur. Það hefði eflaust bætt sjálfstraust hans að láta til skara skríða, en í stað lét hann neikvæðar hugsanir stöðva sig.

Mikilvægt er  að hafa í huga að sjálfsmynd er hugmynd en ekki staðreynd og þarf því engan vegin að endurspegla það sem öðrum finnst um okkur! Einnig er mikilvægt að hafa í huga mikilvægi þess að efla sjálfsstjórn barna og unglinga. Með því geta þau frekar náð markmiðum sínum og látið drauma sína uppfyllast. Það hefur síðan jákvæð áhrif á líðan og sjálfsmynd.

Rannsóknir á sjálfsmynd eða sjálfstrausti hafa sýnt að stúlkur hafa verri sjálfsmynd en drengir. Þann mun sem finna má á sjálfsmynd kynjanna hefur oftast verið rakinn til þeirrar sýnar sem kynin hafa á útliti sínu eða líkama. Stúlkur hafa að jafnaði verri líkamsmynd en drengir sem getur skýrt þann kynjamun sem finnst á sjálfstrausti eða sjálfsmynd.

 

Líkamsmynd (Body-image) er sú skoðun eða sýn sem við höfum á útliti okkar eða líkamsvexti. Mörg hugtök eða orð hafa verið notuð til að lýsa því hvað felst í hugtakinu líkamsmynd, eins og sátt við eigin þyngd, sátt við eigið útlit og líkamsvirðing. Í megin dráttum þá má segja að því ánægðari eða sáttari sem við erum með eigið útlit því betri er líkamsmyndin.

Margt getur haft áhrif á líkamsmynd okkar. Til að mynda getur það samfélag sem við búum í haft neikvæð áhrif á mótun líkamsmyndar. Mikil áhersla á útlit og ákveðna tegund útlits t.d. granns vaxtarlags getur haft neikvæð áhrif á líkamsmynd okkar, sérstaklega þeirra sem telja sig ekki uppfylla skilyrðin um „hið fallega útlit“ .

Þrýstingur um að líta út á ákveðinn hátt getur einnig haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Stúlkur í dag upplifa mikinn þrýsting um að vera grannar og upplifa því þörf fyrir að breyta líkama sínum. Þrýstingur um ákveðið vaxtarlag getur verið beinn og óbeinn. Dæmi um breinan þrýsting getur verið særandi orð foreldra, vina, kennara eða annarra um vaxtarlag viðkomandi.

Foreldrar geta síðan líka haft óbein áhrif á mótun slæmrar líkamsmyndar með því að tjá áhyggjur af eigin líkamsvexti, tala um ókosti þess að vera með aukakíló og sýna hegðun sem tengist megrun eins og að fylgjast grannt með innbyrðum hitaeiningafjölda. Með þessum hætti myndast óbeinn þrýstingur frá foreldrum um grannan vöxt. Viðhorf foreldra til feits vaxtarlags er þá neikvætt og getur það haft þau áhrif að börn þeirra og unglingar, sem telja sig yfir kjörþyngd, upplifa óánægju foreldranna gagnvart sér. Ef foreldrar hafa áhyggjur af matarvenjum eða hreyfingarleysi barna sinna er mun betra að leggja áherslu á hollan og fjölbreyttan mat og skemmtilega hreyfingu án þess að tengja það við kíló, líkamsvöxt eða útlit.

Annað dæmi um óbeinan þrýsting eru samtöl meðal vina. Samtöl um útlit, líkamsvöxt og mikilvægi þess að vera grannur geta haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Líkamsmynd verður fyrir meiri hnekkjum eftir því sem við tölum oftar um útlit, líkamsvöxt og þyngd við vini og kunningja og því meira sem við samþykkjum það viðhorf að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður.

Þær tilhneigingar að aðhylltast ákveðið vaxtarlag og að bera sig saman við aðra geta einnig haft neikvæð áhrif á líkamsmyndina. Til að mynda má rekja óánægju fjölda stúlkna með eigin líkama til þess hve mikið þær aðhyllast grannan vöxt og hve ólíkur sá vöxtur er raunverulegu vaxtarlagi þeirra. Þar sem fáar stúlkur uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti þeirra beri sig saman við útlit sem fæstar þeirra geta nokkurn tímann öðlast.

Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra og gerum við það oftar en ekki til að mynda okkur skoðun á okkur sjálf. Þetta getur tengst slæmri líkamsmynd þar sem því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni.  Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út en við sjálf.

_______________________________________________________

2 athugasemdir við “Líkamsmynd og sjálfsmynd

  1. Bakvísun: Líkamsmynd og sjálfsmynd – Betri fréttir

  2. Bakvísun: Sjálfsmynd mín – Þórdís Ása Sigurðardóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s