Að leyfa börnum að takast á við mótlæti

Vilborg kemur grátandi inn úr dyrunum, tvær vinkonur hennar höfðu stungið hana af eftir skóla. Móðir hennar verður einnig miður sín: „Hvað ertu að segja? Voðalega eru þær ómerkilegar. Við skulum bara gera eitthvað skemmtilegt, fara í ísbúðina og horfa á eitthvað skemmtilegt“. Um kvöldið hringdi móðirin síðan í mömmu annarrar vinkonunnar og biður hana um að ræða þessa uppákomu við dóttur sína þar sem Vilborg hefði verið mjög miður sín.

Það er eðlilegt að foreldrar vilji forða börnum sínum frá öllu óþægilegu og sáru og reyna að taka það á sínar herðar í stað þess að horfa upp á börn sín þjást. Þrátt fyrir að ætlunin sé önnur geta skilaboðin til barnsins orðið: „Þú hefur ekki burði eða kjark til að takast á við þetta“ og „Þetta er hræðilegt, engin furða að þú sért miður þín/hræddur/reiður“.

Þegar foreldrar koma börnum sínum í öruggt skjól við hvert tækifæri og taka sjálfir að sér að greiða úr vanda sem börnin standa frammi fyrir, taka þeir um leið frá þeim tækifærin til að æfa sig í að takast á við erfiðar aðstæður (þ.e. aðstæður sem börnunum þykja erfiðar) og standa sjálf uppi sem sigurvegarar.

Í tilviki Vilborgar hefði hugsanlega verið vænlegra fyrir móðurina að aðstoða hana við að finna út úr því hvernig hún ætlaði sjálf að takast á við þá stöðu sem uppi var og hjálpa henni að sjá hvað þessi uppákoma segði um vinkonurnar og hvað þetta segði eða segði ekki um hana sjálfa. Þannig yrði líklegra að Vilborg gæti tekist á við svipaðar aðstæður í framtíðinni á farsælli hátt og án þess að þær hafi eins neikvæð áhrif á hana.

Fullorðnir þurfa þó oft og tíðum að taka upp hanskann fyrir börn sín eða greiða úr erfiðleikum þeirra þegar miklir eru. En þá er gott að þekkja börn sín vel og gera sér grein fyrir hvaða aðstæður eru þeim ofviða og hvaða aðstæður þau geta tekist á við (jafnvel þó þær valdi þeim óþægindum).

Þegar börn okkar eiga erfitt með ákveðna hluti er ágætt að hafa í huga að þegar þau lærðu að ganga studdum við þau í upphafi, héldum í hendur þeirra, slepptum síðan smám saman og létum þau ganga ein og óstudd. Við þurftum hinsvegar að þola að sjá þau hrasa og meiða sig því annars hefðum við aldrei geta sleppt af þeim takinu.

Foreldrar þurfa að aðstoða börn sín við að standa í eigin fætur, ein og óstudd, svo þau geti tekist á við það sem reynist þeim erfitt, því þannig fá þau trú á eigin getu.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

Auglýsingar

Feimni hjá börnum

300-fjarsjodsleit_617a835c229addb2ea669df37df22e26

Mikil feimni getur haft neikvæð áhrif á líf barna og unglinga. Feimni eða hlédrægni getur haft þau áhrif að barnið missir af mörgum dásamlegum hlutum. Feimið barn getur til að mynda misst af tækifæri til að taka þátt í skólaleikritinu eða að sýna sitt besta í upplestri í kennslustund. Talið er að feimni hafi verið gagnleg áður fyrr og geti jafnvel verið það ennþá þar sem hún leiðir til varkárni í samskiptum. Mikil breidd er í feimni og getur barn til dæmis fundið fyrir örlítilli feimni þegar það er meðal ókunnugra og verið öruggt heima hjá sér eða með vinum sínum. Önnur börn geta þó upplifað mun meiri feimni, verið mjög óörugg meðal fólks og jafnvel þjáðst af félagsfælni.

Oftast birtist feimni hjá ungum börnum með þeim hætti að barnið horfir ekki í augu annarra, talar lágt eða jafnvel ekkert og er niðurlútt. Barnið getur jafnvel
límt sig fast við einhver sem það þekkir. Barnið tjáir síður skoðanir sínar og langanir, miðað við önnur börn.

Feimin börn eiga það til að hafa of miklar áhyggjur af skoðun annarra. Mörg hver telja að mikilvægt sé að vera fullkomin í samskiptum og áhrif minnstu mismæla eða athugasemda eru mikluð. Í samskiptum við annað fólk eiga börnin það til að mikla fyrir sér mikilvægi eigin hegðunar og hugsa mun oftar um það neikvæða en það jákvæða í eigin fari þegar kemur að samskiptum.

Þar sem feimin börn eiga það til að upplifa vanlíðan í margmenni eða meðal ókunnugra eiga mörg þeirra það til að forðast félagsleg samskipti eða mannamót. Tækifærin til að öðlast betri félagsfærni minnkar þar sem þjálfunin í félagslegum samskiptum er minni.

Barn sem er feimið er eðli málsins samkvæmt ekki mikið fyrir að trana sér fram. Erfiðara getur því reynst að ná það besta úr barninu þar sem það forðast að láta ljós sitt skína.

Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd feiminna barna?

Í megin dráttum skiptir mestu máli að sýna barninu umhyggju en um leið festu og aga. Að vera góð fyrirmynd fyrir barnið í samskiptum skiptir einnig miklu máli. Þegar rætt er við barnið er mikilvægt að þrýsta ekki um of á það að barnið svari og gefa barninu rúm og færi á að svara. Oft getur verið gott að byrja á léttum, lokuðum spurningum, þar sem barnið þarf einungis að svara t.d. hver eða hvar, já eða nei, í stað þess að koma með langa lýsingu á atburðum. Taka skal einnig tillit til annarra tjáskipta eins og handahreyfinga eða bendinga.

Ef barnið heyrir ítrekað að það sé feimið fer það sjálft að trúa því og nota það sem afsökun fyrir því að forðast margt. Gott er því að reyna af fremsta megnið að hvetja barnið til að prófa nýja hluti. Í sumum tilfellum þarf ekki nema eina jákvæða reynslu af því að fara út fyrir þægindarammann til að minnka feimnina.

Mikilvægt er að fara ekki of geyst af stað, lítil markmið og lítil skref í einu. Í því samhengi er best að byrja á aðstæðum þar sem feimnin er ekki mikil og jafnvel æfa athafnirnar fyrirfram t.d að biðja um aðstoð kennarans. Að gefa barninu tækifæri á að nálgast markmið sín skref fyrir skref er mikilvægt. Barn sem treystir sér ekki til að halda fyrirlestur fyrir samnemendur sína gæti til að mynda treyst sér til að taka fyrirlesturinn upp á myndbandið og kynna myndbandið fyrir samnemendum sínum. Með því að setja lítil markmið að stóra markmiðinu (t.d. að halda fyrirlestur fyrir framan samnemendur) og aðlaga verkefni og athafnir að barninu getur það skref fyrir skref, sigur eftir sigur, nálgast loka markmiði sitt. Æfing og þjálfun á atburðum eða aðstæðum sem barnið kvíðir getur virkað mjög vel og ýtt enn betur undir góðan árangur.

Gott er að hvetja barnið til að tala við aðra og hrósa barninu fyrir góð samskipti t.d. þegar barnið býður góðan daginn eða heilsar bekkjarfélaga sínum. Hægt er að æfa félagsfærnina markvisst t.d. æfa að heilsa, kveðja, biðja um hjálp, tala við ókunnuga, hrósa, spyrja eftir vinum. Oft þurfa börn sem eru feimin aðstoð við að mynda vinasambönd og hvatningu til að leika við önnur börn. Vinasambandið getur síðan styrkt félagsfærni barnsins.

Fyrir mörg börn getur vinna með tilfinningatjáningu skipt sköpum. Sum feimin börn eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Sjálfsmynd þeirra getur verið slæm og því mikilvægt að styrkja sjálfstraust þeirra. Til að mynda með því að fræða barnið um að það sé ekki eitt í heiminum, mörg önnur börn upplifa svipaða tilfinningu og barnið sjálft. Gott er að gefa barninu tækifæri til að uppgötva og sýna sínu sterku hliðar og auka sátt þess við sérkenni sín.

Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi

Heimildir:

Butt, M., Moosa, S., Ajmal, M. og Rahman, F. (2011). Effects of shyness on the self esteem of 9th grade female students. International Journal of Business and Social Science. 2, 12.

Gréta Júlíusdóttir, Ásta Fr. Reynisdóttir, Hólmfríður B. Pétursdóttir. (2005). Feimni: Er hægt að hjálpa börnum að yfirstíga þá hindrun sem feimnin er og þá hvernig? B.Ed ritgerð:Háskólans á Akureyri, Kennaradeild.

Jakob Smári, Félagsfælni. Persona.is (http://www.persona.is/index.php?action=articles&method=display&aid=13&pid=11)

Kolbrún Baldursdóttir. (2006). Feimni hjá börnum. Uppeldi, 1, 19. árg.

Kynlíf og líkamsmyndin

sec líkams

„Ljósin verða að vera slökkt“, „ég þoli ekki að vera ofan á, þá verður bumban svo áberandi“, „brjóstin mín verða svo ljót þegar ég er ofan á“ eða „ég þoli ekki þegar hann grípur um rassinn minn, því þá finnur hann hvað ég er með mikla appelsínuhúð“.

Þessar setningar eru ekki skáldskapur heldur raunveruleg orð sem við höfum heyrt óteljandi sinnum frá konum í kringum okkur.

Lítið hefur verið rætt um líkamsmynd fullorðinna kvenna. Áherslan hefur lengi verið á unglinga en slæm líkamsmynd er of algeng meðal unglingsstúlkna. Rannsóknir sýna þó að líkamsmyndin er nokkuð stöðug í gegnum lífið ef ekki er unnið í því að bæta hana og geta því fullorðnar konur einnig verið ósáttar við útlit sitt. En það er þó algengt að áhersla á útlit breytist með aldrinum, konur verða meðvitaðri um að enginn er „fullkominn“ og mikilvægi útlits minnkar.

Þegar líkamsmynd fullorðinna kvenna er skoðuð kemur í ljós að slæm líkamsmynd hefur mikil áhrif á kynlífið. Konum með mjög slæma líkamsmynd getur jafnvel þótt kynlíf kvíðavekjandi atburður. Slæm líkamsmynd getur haft mjög neikvæð áhrif á upplifun kvenna af kynlífi.

Rannsóknir á tengslum líkamsmyndar kvenna og kynlífs hafa til að mynda sýnt fram á það að konur með slæma líkamsmynd eru ólíklegri til að tjá langanir sínar og fá fullnægingu. Í rannsókn Dr. Jill Hagen og Thomas F. Cash frá árinu 1991 kom í ljós að 73% kvenna með góða líkamsmynd fengu fullnægingu í samförum en aðeins 42% kvenna með slæma líkamsmynd fengu fullnægingu.

Erfiðleikar við að njóta kynlífs hefur verið tengt við einhvers konar sjálfseftirlit eða spectatoring. Spectatoring er hugtak sem Masters og Johnson, hinir frægu brautryðjendur í kynfræðirannsóknum, komu fram með í kringum árið 1970. Það felur í sér að einstaklingur einblíni á eigin líkama og útlit í kynlífi líkt og hann sé aðili sem fylgist með athöfninni en ekki beinn þátttakandi. Á sama tíma getur viðkomandi átt erfitt með að njóta kynlífsins þar sem hann er upptekinn af því að „fylgjast með“ eigin útlitsgöllum.

Margar konur kannast við áhyggjur þegar kemur að kynlífi. Sumar vilja hafa ljósin slökkt svo makinn sjái ekki líkamann, aðrar velja ákveðnar stellingar eingöngu vegna útlits, þ.e óttast að „útlitsgallar“ sjáist í ákveðnum stellingum, sumar eiga erfitt með að njóta kynlífsins því hugurinn reikar annað og þá oft að útlitinu og hinum meintu göllum og aðrar dreyma um aukið kynlíf þegar „auka“ kílóin eru farin.

Margar telja lausnina vera að breyta útlitinu. Eru vissar um að kynlífið verði betra þegar “auka”kílóin eru farin eða maginn orðinn stinnari. Í einhverju tilvikum getur það átt við en vitað er að konur geta upplifa óánægju með útlit sitt óháð því hvernig þær líta út. Slæm líkamsmynd finnst hjá grönnum konum sem og feitum, hjá brjóstalitlum konum sem og hjá þeim sem eru með stór brjóst.  Það er því betra að einbeita sér að því að bæta líkamsmyndina en að vera í endalausri vinnu við það að breyta útlitinu.

sex líkamsynd mynd

Að bæta líkamsmyndina felur meðal annars í sér að einblína ekki á óraunhæfar fyrirmyndir eins og „fótósjoppaðar“ fyrirsætur og hætta að horfa á eigin líkama í gegnum linsu þröngra útlitsviðmiða. Einnig má vinna með neikvæðar hugsanir um eigið útlit, til dæmis með jákvæðu sjálfstali eða hreinlega með því að ræða við makann um áhyggjurnar. Yfirleitt eru áhyggjur kvenna af því hvað elskhuganum finnst um líkamann ekki á rökum reistar. Sumum reynist vel að ná sátt við líkama sinn með því að hugsa vel um hann og einblína á heilsu umfram holdafar.  Með því að sjá fegurðina í fjölbreyttum líkamsgerðum má bæta líkamsmyndina og þar með kynlífið.

Elva Björk Ágústsdóttir og Sólrún Ósk Lárusdóttir sálfræðimenntaðir líkamsvirðingarsinnar 🙂

Heimildir:

Alvear, M. 2013. Is your body image getting in the way of your sex life? Huffington Post. (http://www.huffingtonpost.com/mike-alvear/is-your-body-image-gettin_b_3230731.html)

Cash, T. F. 2009. The body image workbook. An eight-step program for learning to like your looks. (2. útgáfa). Oakland: New Harbinger Puplications, Inc.

Faith, M.S.,  og Schare, M. L. 1993. The role of body image in sexually avoidant behavior. Archives of sexual behavoir. (22), 4.

Pujols, Y., Meston, C. M., og Seal, B. N. 2009. The association between sexual satisfaction and body image in women. The journal of sexual medicine. Útg. 7. Issue 2.

Tiggemann, M. 2004. Body image across the adult life span: stability and change. Body Image, útg. 1. (1).

Á ég að hrósa barni mínu?

Ég hef lent í ansi skrautlegum rökræðum við fólk um hrós og hvatningu til barna. Sumir eru á því að við hrósum börnum of mikið og fyrir lítið og það hafi letjandi áhrif á börnin. Það getur verið að eitthvað sé til í því. Rannsóknir sýna til dæmis að hrós eru misgóð. Það skiptir máli hvernig við hrósum. Að hrósa barni fyrir eiginleika sem eru nokkuð stöðugir eins og greindarfar getur í sumum tilvikum haft letjandi áhrif meðan það að hrósa fyrir hegðun eða virkni getur haft hvetjandi áhrif. Barn sem fær hvatningu fyrir verknað t.d. fyrir góða virkni í verkefni sem unnið er í skólanum, er líklegra til að reyna meira á sig. Barn sem fær eingöngu hrós fyrir að vera klárt er ekki endilega líklegra til að reyna mikið á sig, það gæti jafnvel reynt að komast undan krefjandi verkefnum af hræðslu við að mistakast.

hurray_1

En hrós eru mikilvæg.

Albert Bandura doktor í sálfræði vakti áhuga fólks á hugtakinu trú á eigin getu (self efficacy). Trú á eigin getu er skilgreint sem mat okkar á eigin færni til að skipuleggja og framkvæma röð aðgerða sem eru nauðsynlegar til að geta framkvæmt ákveðnar tegundir verkefna. Hér er ekki um almenna hæfni að ræða heldur færni í ákveðnum verkefnum eða aðstæðubundið mat á hæfni til að framkvæma afmarkað verkefni. Einstaklingur getur þess vegna verið með nokkuð gott sjálftstraust þótt trú hans á eigin getu í eldhúsinu er ekki mikil. Eins getur einstaklingur verið með lítið sjálfstraust en góða trú á eigin getu þegar kemur að eldamennsku.

Ýmist þættir hafa áhrif á trú okkar á eigin getu t.d. bein reynsla, þ.e. hvernig áður hefur gengið að framkvæma ákveðið verkefni. Ef mér hefur hingað til gengið nokkuð vel að elda góðan mat þá eykur það líkur á því að ég hafi góða trú á eigin getu í eldhúsinu. Óbein reynsla getur líka haft áhrif á mótun trúar á eigin getu. Að fylgjast með öðrum og læra þannig handbrögðin í eldhúsinu eykur líkur á því að ég treysti mér til að gera eins. Lýsandi dæmi um þetta kemur úr heimi íþróttanna. Áður töldu menn að líkamlega ómögulegt væri að hlaupa mílu á innan við fjórum mínútum enda hafði engum tekist það fyrir árið 1954. Það ár braut þó Englendingurinn Roger Bannister fjögurra mínútna múrinn með því að hlaupa fjórar mílur á tímanum 3,59 mínútur. Árangur hans hafði mikil áhrif á aðra hlaupara. Ári síðar náðu 37 hlauparar svipuðum tíma og árið þar á eftir brutu 300 hlauparar fjögurra mínútna múrinn. Ólíklegt er að líkamlegt form hlaupara hafi breyst á svo dramatískan hátt á þessum stutta tíma. Líklegra þykir að hugsunarhátturinn hafi breyst. Með því að sjá aðra framkvæma verkið aukast líkurnar á því að við teljum okkur sjálf geta gert hið sama.

Aðrir þættir hafa áhrif á trú á eigin getu og spilar hvatning þar stórt hlutverk. Skilaboð frá öðrum, hrós og klapp eflir okkur. Að heyra “þú getur þetta” eða “áfram áfram!!” staðfestir hugmynd okkar um getuna og ýtir undir enn betri árangur.

Trú á eigin getu getur haft mikil áhrif á líf okkar. Einstaklingar með góða trú eru til að mynda líklegri til að velja krefjandi og þroskandi verkefni í stað þess að forðast þau og efla þannig ennþá betur færnina. Trú á eigin getu hefur áhrif á hve mikið við leggjum á okkur. Einstaklingur með góða trú sýnir seiglu og gefst síður upp við mótlæti. Góð trú á eigin getu getur líka haft áhrif á sjálfstal. Þeir sem hafa litla trú velta sér meira upp úr mistökum, vanmeta getu sína og þeim líður verr við mótlæti. Ef viðkomandi gerir mistök er hann líklegri til að telja orsökina liggja í skort á getu eða hæfni. Þeir sem hafa góða trú á eigin getu beina athyglinni frekar að verkefninu og mögulegum launsum. Ef gerð eru mistök, eiga þeir það til að telja þau verða vegna þess að þeir lögðu ekki nægilega hart að sér og því líklegri til að reyna betur næst.

Til að efla sjálfsmynd barna er því mikilvægt að hvetja þau áfram og nota hrós. Við getum bent þeim á fyrri árangur eða notað herminám og sýnt þeim hvernig eigi að gera og hvetja þau áfram þegar þau reyna sjálf.

Elva Björk Ágústsdóttir

Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Fræðsla um sjálfsmynd fyrir foreldra og starfsfólk skóla

Við hjá sjálfsmyndarsíðunni viljum vekja athygli á fræðslu sem Anna Sigríður Jökulsdóttir sálfræðingur býður upp á.

chf-cartoon-kids

Anna Sigríður býður upp á fræðslu um sjálfsmynd barna og unglinga. Fræðslan hentar starfsfólki og foreldrum á grunn- og leikskólastigi. Í erindinu er fjallað um hvað einkennir sterka sjálfsmynd, hverjir eru grundvallarþættir sjálfsmyndar og hvernig má hafa áhrif á þá þætti. Einnig hvernig vinna má að því að börnin okkar virki vel í leik og starfi, líði vel í eigin skinni og meti sig og aðra í sanngjörnu ljósi. Sjálfsmynd er veigamikill þáttur í andlegri líðan og hefur áhrif á hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem við getum gefið börnunum okkar út í lífið.

Anna Sigríður býður einnig upp á lengra fræðsluerindi ætlað starfsmönnum þar sem farið er dýpra í efnið, farið í verkfæri sem hægt er að nýta með börnum og erindið brotið upp með sjálfseflandi verkefni fyrir þátttakendur og umræðum um eigin sjálfseflingu í starfi og leik. Sjálfsefling starfsmanna, til að mynda hvernig hægt er að auka eigið þol gagnvart streituvaldandi aðstæðum, er þannig fléttuð við efni um sjálfsmynd barna og unglinga og sjálfsmynd almennt.

Við hvetjum áhugasama til að hafa samband við Önnu Sigríði með tölvupósti  annasiggajokuls@gmail.com eða hringja í síma: 693 4712.

Gagnleg ráð við kvíða barna

kvíði barn

Á vefsíðunni  PsychCentral má finna gagnlega grein eftir Renee Jain, um það hvað foreldrar geta gert fyrir barn sem upplifir kvíða

Í greininni eru tekin saman gagnreynd ráð sem hafa reynst vel þegar kemur að því að bæta líðan kvíðafullra barna.

Margir þekkja það eflaust að verða pirraðir og að finna fyrir vonleysi yfir kvíða barna sinna t.d þegar barn óttast það að mæta í skólann, í afmæli, til tannlæknis eða að spyrja eftir vini. Augljóslega er ekki til ein töfralausn fyrir alla en hér má finna nokkur atriði sem geta nýst vel:

  1. Hughreysting virkar ekki alltaf

Barn sem hefur áhyggjur af einhverju á erfitt með að meðtaka skilaboð foreldra sinna um að ekkert sé að óttast. Að segja við barn að það sé ekkert að óttast í skólanum, afmælinu, kringlunni eða hvar sem er hjálpar oftast ekkert. Ein af ástæðunum er sú að þegar kvíðinn tekur yfir okkur þá fer heilinn okkar í árásar eða flótta gírinn og rökhugsun minnkar. Það getur því verið afskaplega erfitt fyrir barn að hugsa rökrétt þegar kvíðinn er sem mestur. Það getur því hentað betur að hjálpa barninu að taka pásu og  draga djúpt andann til að róa taugakerfið. Þegar barnið hefur róast er hægt að finna mögulegar lausnir á vandanum.

  1. Áhyggjur geta verið góðar 😉

Sum börn brjóta sig niður fyrir það að hafa áhyggjur og halda að eitthvað sé að þeim. Fyrir þau getur virkað vel að læra um áhyggjur og hvaða gagn við höfum haft af áhyggjum í tímans rás. Gott getur verið að segja frá því þegar forfeður okkar þurftu að vera á varðbergi fyrir hættulegum dýrum. Áhyggjur geta virkað sem tæki til að hjálpa okkur að lifa af, einhvers konar varnarkerfi. Áhyggjurnar kveikja á viðvörunarbjöllum og við reynum að komast úr hættu. En stundum geta bjöllurnar hringt þegar engin hætta steðjar að og mikilvægt er að reyna að minnka slíkar falshringingar.

  1. Leyfum kvíðanum að „lifna við“

Að hunsa kvíða hjálpar sjaldnast. Fyrir börn getur hentað vel að persónugera kvíðann, gera kvíðann að manneskju eða fígúru. Hægt er að fræða barnið um að Kalli kvíði eða Kvíðaormurinn eigi heima í „gamla“ heilanum og átti að hjálpa okkur að lifa af þegar við bjuggum í hellum. Stundum er Kvíðaormurinn aðeins of fjörugur og alltaf að láta vita af sér og er þá mikilvægt að reyna að koma vitinu fyrir hann og róa hann.

  1. Gerumst spæjarar

Gott er fyrir börn að muna það að áhyggjur eru leið heilans til að bjarga okkur ef við erum í einhvers konar hættu. Áhyggjur sjá til þess að við tökum eftir öllu í kringum okkur svo ekkert hættulegt fari fram hjá okkur. Við gerum þó stundum mistök, höldum til dæmis að trjágrein sé snákur. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að prófa að vera spæjari, grípa hugsanirnar þegar þær birtast, finna sönnunargögn, með og á móti og jafnvel fara í rökræðukeppni við Kalla kvíða eða Kvíðaorminn.

  1. Leyfum áhyggjurnar

Að segja barni að hafa engar áhyggjur minnkar oftast ekki áhyggjurnar. Að leyfa barni að hafa áhyggjur og lýsa þeim fyrir foreldrunum í ákveðinn tíma á dag (áhyggjutími) í t.d 10-15 mínútur getur verið hjálplegt. Í áhyggjutímanum tjáir barnið áhyggjur sínar skriflega eða munnlega (getur verið gaman að leyfa barninu að skrá áhyggjur niður á blað og geyma í áhyggjuboxi). Þegar áhyggjutíminn er liðinn er mikilvægt að kveðja áhyggjurnar og halda áfram með daginn. Af eigin reynslu þá hefur þessi aðferð reynst vel. Barn sem hefur miklar áhyggjur yfir daginn og er vant að tjá sig um allt milli himins og jarðar sem veldur því áhyggjum á það til að gleyma „litlum“ áhyggjum þegar loksins er komið að áhyggjutímanum og þannig minnka áhrif kvíðans smátt og smátt.

  1. Færum okkur frá HVAÐ EF yfir í HVAÐ ER

Við eigum það til að velta óorðnum hlutum mikið fyrir okkur t.d hvað gerist ef ég mismæli mig í tíma, hvað gerist ef Anna vill ekki vera með mér í dag…….? Rannsóknir sýna að það að einbeita sér að núinu og því sem raunverulega er að gerast en ekki öllu því sem gæti gerst hefur jákvæð áhrif á líðan. Núvitundaræfingar geta því haft jákvæð áhrif á börn.

  1. Forðumst að forðast 🙂

Þegar börn hræðast eitthvað reyna þau mikið að forðast það sem þau hræðast t.d sleppa æfingu, afmæli, forðast hunda og annað. Mikilvægt er fyrir foreldra að aðstoða börnin við að nálgast það sem þau hræðast. Hægt er að gera það í þrepum svo barnið finni sjálft að það hafi ekkert að hræðast t.d sjá mynd af hundi, horfa á myndband af hundi, svo fara í almenningsgarð þar sem hundar gætu verið ……og að lokum kannski klappa hundi.

  1. Tékklisti

Þrátt fyrir margra ára reynslu fara þjálfaðir flugmenn ávallt í gegnum tékklista þegar eitthvað kemur upp á í flugi, því vitað er að þegar við erum í einhvers konar hættu eða teljum okkur í hættu þá virkar rökhugsun okkar ekki alltaf eins vel og hún getur. Það getur því verið gagnlegt að útbúa einhvers konar tékklista fyrir barn sem finnur fyrir kvíða t.d anda rólega og meta aðstæður.

Hér má finna áhugaverða síðu til að aðstoða börn við að komast yfir kvíða.

Elva Björk Ágústsdóttir

Náms- og starfsráðgjafi, (MS í sálfræði)

Dagur gegn einelti

chf-cartoon-kids

Þann 8. nóvember er dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á einelti og alvarleika þess. Einelti er skilgreint sem endurtekin ótilhlýðleg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Í tilefni dagsins verður fræðsla um einelti á vinnustöðum haldin föstudaginn 7.nóvember:  http://www.gegneinelti.is/frettasafn/nr/105

Á vefsíðunni www.gegneinelti.is er hægt að finna upplýsingar um einelti og um verkefnið. Þar má einnig finna sáttmála um baráttu gegn einelti og hvetjum við alla til að skrifa undir hann: Sáttmáli

Í tilefni dagsins viljum við á Sjálfsmyndarsíðunni vekja athygli á skemmtilegum vinaverkefnum sem finna má í verkfærakistu okkar. Eitt verkefnanna er sérlega skemmtileg en það kallast Vinadagur. Í því verkefni er lögð áhersla á að skoða hvaða góðu eiginleika við sýnum í vináttu og samskiptum. Við hvetjum því námsráðgjafa, kennara og aðra sem starfa með börnum að vinna einhvers konar vina- eða samskiptaverkefni með nemendum sínum í dag.

Vinadagur