Leiðir til að efla jákvæða líkamsmynd barna og unglinga

1header-T-dapbodyimage

Líkamsmynd er sú skoðun eða sýn sem við höfum á útliti okkar. Börn með góða líkamsmynd eru ánægðari með útlit sitt og líklegri til að trúa á sjálfa sig. Börn með góða líkamsmynd eru ólíklegri til að verða upptekin af mat og útliti og líklegri til að eiga í heilbrigðu sambandi við mat.

Leiðir til að efla jákvæða líkamsmynd:

Hvernig er þín eigin líkamsmynd?

Til að byrja með er mikilvægt að við hugum að okkar eigin líkamsmynd.  Veltu fyrir þér þeim skilaboðum sem þú gefur barni þínu. Hvernig talar þú um eigin líkama? Kvartar þú undan þykkum lærum, appelsínuhúð, aukakílóum, grönnum vexti? Ferðu í ræktina til að „eiga inni“ fyrir skyndibita kvöldsins? Talarðu um að fara í megrun til að komast í form fyrir sumarið? Börnin heyra og skynja þessi skilaboð og geta myndað með sér áhyggjur af því hvort þau komist í kjólinn fyrir jólinn.

Heilsa en ekki holdafar

Mikilvægt er að leggja áherslu á heilsu í stað holdafars eða kílóa. Reyndu að hætta að fylgja vigtinni. Spáðu frekar í hollum mat og skemmtilegri hreyfingu með barninu þínu. Börn eiga ekki að æfa til að breyta útliti sínu eða telja hitaeiningar. Þau eiga að hlusta á líkama sinn og viðhalda færni sinni í að borða þegar þau eru svöng og stoppa þegar þau eru södd.

Börn hafa mismikinn áhuga á íþróttum. Sum börn eru hafa mikinn áhuga á að æfa íþróttir og jafnvel margar og ólíkar meðan önnur börn njóta þess síður. Ef þörf er á að auka hreyfistundir barnsins er mikilvægt að finna hreyfingu sem barnið hefur ánægju af t.d göngutúra með nesti, hjólatúra, sund, eða hoppa á trampólíní.

Fögnum fjölbreytileikanum

Ræddu við barnið þitt um að fjölbreytni í líkamsvexti sé eðlilegur og um þau skaðsömu skilaboð sem oft finna má í þáttu, bókum, fjölmiðlum sem beinast að börnum. Segðu barni þínu frá því hve mikið myndir í fjölmiðlum eru breyttar og að alls konar líkamar geta verið góðir og fallegir.

 

Heimild:

https://www.eatright.org/health/weight-loss/your-health-and-your-weight/5-ways-to-promote-a-positive-body-image-for-kids

 

Vertu með raunhæfar væntingar

Vertu  með raunhæfar væntingar

sjalfs2

Alltof háleit markmið eða óraunhæfar væntingar geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd. Hugsun eins og: Ég verð að vera hæst í bekknum mínum annars er ég ömurleg.. ..er dæmi um óraunhæfar væntingar. Þegar væntingarnar eru svona háar og afleiðingarnar við að ná ekki markmiðunum svona neikvæðar getur það haft slæm áhrif á sjálfsmyndina. Til dæmis ef viðkomandi er síðan ekki hæstur í bekknum, heldur þriðji hæstur, þá gefur hann sér ekki tækifæri á að njóta þess og sjá það jákvæða við það, þar sem hann hefur tengt neikvæða afleiðingu þ.e. „ég er ömurlegur“ við það að vera ekki hæstur.

Skoðið því væntingarnar sem þið hafið til ykkar og kannið hvort hægt sé að breyta einhverju og gera markmiðin raunhæfari.

Með raunhæfari væntingum fækkar neikvæðum hugsunum þar sem með raunhæfari markmiðum aukast líkur á því að við náum þeim.

Með því að gera markmiðin raunhæfari náum við þeim oftar og getum klappað okkur á bakið fyrir góðan árangur í stað þess að brjóta okkur niður fyrir enn aðra misheppnuðu tilraunina.

sjalfs1

 

Má ég vera á „ljótunni“?

Ég vaknaði í  morgun á ljótunni……. kannist þið við þá tilfinningu?

joe-bleh2

Í gær var ég þvílíkt sexý, klæddi mig í fallegan kjól, greiddi hárið og valhoppaði um bæinn í opnum sandölum. Ég var fallegri en túristarnir á Laugaveginum og mér fannst líkami minn mun kynþokkafyllri en líkami gínanna í búðargluggunum.

Ég fór sexý að sofa.

Í morgun vaknaði ég ljót. Ég klæddi mig í svörtu rassasíðu heimabuxurnar með hnéförunum og rauða og víða hettupeysu. Ég burstaði tennurnar og greiddi hárið (vildi auðvitað ekki gera öðrum einhvern óleik með andfýlu og hárlykt út um allt). Í dag eru allir sætari en ég og í dag eru allir sexý nema ég. Ég hlakka til að koma heim eftir vinnu og hlamma mér í sófann og „Netflixa“ fram á kvöld.

Ég skammast mín pínu fyrir að líða svona. Ég meina… ég er líkamsvirðingarsinni og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu. Ég held úti fræðslu um sjálfsmynd og mikilvægi þess að þykja vænt um eigin líkama. Má ég vera svona ósátt? Verð ég ekki að vera fyrirmynd og þykja vænt um líkama minn og elska hann alla daga?

ÉG vera á ljótunni?

Eitt af verkefnum líkamsvirðingarbaráttunnar er að benda á mikilvægi þess að efla jákvæða líkamsmynd fólks og sátt þeirra við eigin líkamsvöxt. Fólk er hvatt til að hugsa jákvætt um líkamsvöxt sinn og byrja að elska hann eins og hann er. Allt er þetta gott og blessað enda þekkt að sátt við eigin líkamsvöxt eykur bæði andlega og líkamlega heilsu.

En.. að elska líkama sinn getur verið ansi „trikkí“. Við búum í samfélagi sem gefur okkur skýr skilaboð um hvað telst vera aðlaðandi og „réttur“ líkami og hvað ekki. Við fáum óteljandi skilaboð um mikilvægi þess að vera grannur og „fit“ og hræðsluáróðurinn í tengslum við fitu er gríðarlega mikill. Við lærum af þessum skilaboðum og förum að trúa þeim. Við förum að trúa því að líkami okkar þurfi að líta út á ákveðinn hátt til að teljast ásættanlegur og við betri manneskjur.

Það getur því verið ansi mikil vinna að ná sátt við eigin líkamsvöxt þegar skilaboðin sem við fáum kenna okkur annað . Að „aflæra“ að líkaminn sé óásættanlegur getur tekið tíma og mikla vinnu. Það er því mikilvægt að átta sig á að það er bara allt í lagi að elska ekki alltaf líkama sinn eða þykja hann ekkert alltaf svakalega sexý og aðlaðandi. Við erum meðvituð um að neikvæðar tilfinningar eins og sorg og depurð geta verið eðlilegar og því er gott að hafa í huga að neikvæðar tilfinningar gagnvart líkamanum geta einnig verið eðlilegar.

Að brjóta sig niður fyrir það að vera ekki sáttur við eigin líkamsvöxt getur bara valdið enn meiri vanlíðan.

Enginn er fullkominn, enginn (eða næstum því) elskar sjálfan sig 100% alla daga. Við höfum tilfinningar sem sveiflast og því ekkert að því að tilfinningarnar gagnvart líkamanum sveiflist með.

Elva Björk

Núvitund og sjálfstraust

Að  lifa í núinu eða að veita hverju augnabliki athygli, viljandi og án þess að taka afstöðu eða dæma getur haft jákvæð áhrif á sjálfstraust barna og unglinga.

buffer

Núvitund snýst um að vera meðvitaður um hugsanir sínar án þess að dæma þær. Að vita hvað er að gerast, þegar það gerist án þess að dæma. Að vera eins og við erum og bara VERA.

Lífið er núna, lífið er ekkert annað en núna. En hugur okkar er alltaf á fullu, hann hugsar fram og til baka, hann lætur fortíðina hafa áhrif á núið og getur verið gríðarlega upptekinn af því að skipuleggja framtíðina. Þess vegna eigum við það til að missa af núinu og lifum í raun í fortíð og framtíð en ekki núna.

Ýmsar leiðir eru færar til að þjálfast í því að lifa í núinu:

Æfingar

Skref fyrir skref

Mindful

Fleiri æfingar

Rannsóknir benda til þess að núvitundarnámskeið og jafnvel stuttar núvitundaræfingar geti haft jákvæð áhrif á sjálfstraust barna og unglinga. Núvitundaræfingar geta aukið sjálfsvirðingu og sátt við eigið sjálf. Æfingarnar geta einnig minnkað kvíða í félagslegum aðstæðum og ótta við höfnun frá öðrum.

Heimildir:

Hanna María Guðbjartsdóttir. Hvað er þetta mindfulness og hvernig getur það gagnast okkur? Tekið af: Hjartalíf

Pepping, C. A., O’Donovan, A. og Davis, P. J. (2013). The positive effects of mindfulness on self-esteem. The Journal of positive psychology, vol. 8. pg. 376-386

Randall, C., Pratt, D. og Bucci, S. (2015). Mindfulness and self-esteem: A Systematic Review. Mindfulness, 6. pg 1366-1378

Höfundur: Elva Björk

 

Mín persónulega líkamsvirðingarbarátta

Í dag er Dagur líkamsvirðingar. Mig langar í tilefni dagsins að líta aðeins til baka og tala um mína eigin líkamsvirðingarbaráttu. Það er svo margt sem mig langar að segja að ég veit varla hvar ég á ætti að hefja þessi „hugsa upphátt“ skrif.

Baráttan fyrir líkamsvirðingu getur verið fjölbreytt. Benda má á mikilvægi þess að einblína á heilsu en ekki holdafar einnig má benda á mikilvægi þess að berjast gegn fitufordómum. Þegar mín líkamsvirðingar vegferð hófst hafði ég enga hugmynd um hugmyndafræðina bak við heilsu óháð holdafari. Ég hafði líka mjög sjaldan velt fyrir mér fordómum sem feitir verða fyrir, enda hafði ég persónulega litla sem enga reynslu af því og gat ekki tengt við það mikilvæga málefni.

Nær allt mitt líf hef ég tengt við þá upplifun og líðan að vera með slæma líkamsmynd. Mjög snemma á lífsleiðinni upplifði ég mig feita, þó án þess að vera það (sem er algjört aukaatriði hér) og tengdi það strax við eitthvað neikvætt. Sem lítil stelpa, rúllandi um á hjólaskautum í Horsens í Danmörku með vinkonum mínum, upplifði ég mig sem síðri manneskju af því ég var feitari en vinkonur mínar. Mörgum finnst þetta kannski yfirborðlegt og ómerkilegt umræðuefni, enda útlit ekki allt sem skiptir máli í lífinu. En fyrir ungu stelpuna mig, hafði slæma líkamsmyndin sem var að myndast,  mikil áhrif á andlega líðan og heilsu.

Slæma líkamsmyndin mín myndaelvaðist snemma. Af hverju hún varð slæm veit ég ekki fyrir víst. Ég hafði í fyrsta lagi frekar skakka mynd af sjálfri mér, fannst ég mun feitari en ég var. Eflaust má rekja það til þess að hópurinn sem ég bar mig saman við var í grennri kantinum. Vinkonur mínar voru nettari en ég og notuðu minni fatastærðir. En það er samt ekki aðal atriðið. Aðal atriðið er að ég tengdi aukakíló við eitthvað mjög slæmt.

Á myndinni má sjá mig, til miðju, halda inni maganum í myndatöku.

Ég var ekki alin upp af foreldrum með mikla fitufordóma og það voru ekki áberandi pælingar um útlit og holdafar á mínu heimili, langt frá því. En skilaboðin um að það að vera feitur væri slæmt og að vera grannur væri gott, komu einhvers staðar frá. Eflaust frá fjölmiðlum og samskiptum mínum við jafnaldra.

Skilaboðin sem við fáum eru stundum svo „ósýnileg“ og því erfitt að átta sig á þeim og áhrifum þeirra. Skilaboðin birtast oft í teiknimyndum og sögum ætlaðar börnum og unglingum. Skilaboðin birtast í neikvæðu og frekjulegu myndinni af feita barninu í teiknimyndum, feita kettinum sem er latur og gráðugur, óvinsælu feitu stelpunni í unglingaskólanum og fyndnu, feitu, óheppnu og vandræðilegu vinkonunni sem kemur sætu vinkonunni á séns.

fita 3

Við hlæjum að feita gráðuga kettinum, okkur finnst feiti frekjulegi (ofast rauðhærði) krakkinn pirrandi og við kippum okkur lítið upp við þá neikvæðu mynd sem við fáum af feitu manneskjunni í bíómyndum. Þetta er náttúrulega bara allt grín er það ekki? Má ekki gera grín að neinu lengur?fita1

En….. ómeðvitað (ef við viljum vera svolítið Freudísk) þá sígur þetta inn og hefur áhrif. Við erum t.d. líklegri til að kaupa Pepsí í hléi í bíó ef Pepsí birtist á skjánum,  þótt við teljum okkur alls ekki hafa séð Pepsí og munum ekkert eftir því í myndinni. Þetta sísast allt saman inn – við tökum bara ekkert alltaf eftir því.

Þannig að veðurfréttabörnin sem voru minnkuð í veðurfréttunum á sínum tíma, Klói köttur á kókómjólkinni sem fór í megrun og „köttaði“ sig niður, lati feiti og fyndni kötturinn Grettir og fyndna feita konan í bíómyndinni sem er alltaf í aukahlutverki og fær aldrei draumaprinsinn eða draumastarfið skipta máli. Þessi „fyndnu“ skilaboð hafa neikvæð áhrif á okkur, þótt við áttum okkur ekki á því.

Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir

Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Fjársjóðsleitin – Leið til að bæta sjálfsmyndina og styrkja sjálfstraustið

fjarsj

 

Árið 2010 hófst verkefni ætlað drengjum á aldrinum 7-10 ára sem nefnist Fjársjóðsleitin. Markmiðið með verkefninu var að ná betur til drengja í ráðgjöf innan skólakerfisins. Reynsla margra námsráðgjafa innan veggja grunnskólanna var á þá leið að stúlkur leituðu meira í ráðgjöf en drengir og minna efni var til sem hentaði drengjum.

Hugmyndin með Fjársjóðsleitinni er að efla og bæta sjálfsmynd barna þar sem þemað er á þá leið að  börnin eru í leit að eigin styrkleikum eða fjársjóði. Börnin leika eins konar sjóræningja (góða sjóræningja að sjálfsögðu) og leita að fjársjóði bæði beint og óbeint.

Fjársjóðsleitar verkefnið stækkkaði og árið 2014 var gefin út handbók fyrir starfsfólk skóla sem hefur áhuga á að styðjast við Fjársjóðsleitina. Fjársjóðsleitin er í dag kennd sem nokkurra tíma námskeið þar sem lögð er áhersla á líðan, hegðun og sjálfsmynd. Verkefnin og hugmyndafræðin á námskeiðinu kemur úr hugrænni og atferlislegri nálgun í sálfræði/ráðgjöf. Unnið er að því að efla þekkingu barnanna á eigin sjálfsmynd og  kostum, unnið er með neikvæðar hugsanir, stigið er út fyrir þægindarammann og þjálfuð er ný hegðun með markmiðssetningu. Verkefnin koma úr ýmsum áttum og flest eru þau í anda hugrænnar atferlisfræði. Verkefni úr bókum Dr. Melanie Fennell hjá Oxford Háskóla í Bretlandi eru nýtt sem og önnur tæki og tól sem þekkt eru úr sálfræði og námsráðgjöf.

Þann 25. janúar geta fagaðilar sem hafa áhuga á að kynnast námskeiðinu tekið þátt á leiðbeinendanámskeiði Fjársjóðsleitarinnar og fengið í kjölfarið handbók fyrir fagfólk. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

Einnig er hægt að eignast verkefnabók fyrir fagfólk og foreldra. Verkefnabókin er ætluð börnum og unglinum og byggir á Fjársjóðsleitinni. Til að eignast verkefanbókina er best að hafa samband við höfund á elvabjork@sjalfsmynd.com

Þann 17. janúar hefst næsta námskeið fyrir börn á aldrinum 7-10 ára hjá Klifinu Garðabæ. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

 

 

Sjálfstyrking – Fjársjóðsleitin – Verkefnabók fyrir börn og unglinga

myndin

Elva Björk  höfundur sjálfstyrkingarnámskeiðs sem nefnist Fjársjóðsleitin er að leggja loka hönd á tilraunaútgáfu verkefnabókar fyrir börn og unglinga. Um er að ræða verkefnabók þar sem börn leita að eigin fjársjóði eða styrkleikum. Markmiðið með verkefnunum er að bæta líðan og sjálfsmynd barna, efla jákvætt hugarfar, styrkja jákvæða eiginleika og hvetja börn til að stíga út fyrir þægindaramma sinn, setja sér markmið og ná þeim. Efni bókarinnar byggir á verkefnum og aðferðum úr hugrænni atferlisfræði. Í verkefnabókinni má finna ýmis verkefni sem reynst hafa vel í sjálfsmyndarvinnu með börnum. Einnig má finna lýsingar á verkefnunum fyrir foreldra, kennara, námsráðgjafa og aðra sem vinna með börnum. Áhugasamir geta nálgast tilraunaútgáfu verkefnabókarinnar ódýrt með því að hafa samband við höfund  með því að senda tölvupóst á elvabjork@sjalfsmynd.com.

Elva Björk er sálfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi. Hún hefur lokið MS námi í sálfræði og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf. Elva starfaði sem námsráðgjafi í grunnskóla í 6 ár og kennir sálfræði í framhaldsskóla og er stundakennari í HÍ. Elva hefur haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unga krakka sem nefnist Fjársjóðsleitin í nokkur ár.

Nýtt-Fræðsla um sjálfsmynd fyrir unglinga, foreldra og starfsfólk.

Anna Sigríður, sálfræðingur hefur undanfarin misseri haldið fræðsluerindi og námskeið anna siggaum sjálfsmynd og sjálfstyrkingu fyrir starfsfólk og foreldra í leik- og grunnskólum. Sjálfsmynd er veigamikill þáttur í andlegri líðan og hefur áhrif á hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem við getum gefið börnunum okkar út í lífið. Sjálfsmyndarfræðslan fjallar í stuttu máli um grunnstoðir sjálfsmyndar, helstu áhrifaþætti á sjálfsmynd og hvernig styrkja má sjálfsmyndina. Fræðslan hefur fengið góðar viðtökur og nú í haust bætist við sjálfsmyndarfræðsla fyrir unglinga.

Þrjár útgáfur eru af fræðslunni

1. Námskeið fyrir starfsfólk skóla. Námskeiðið er tvískipt (fyrir og eftir hlé) og fjallar fyrri hlutinn um hvað einkennir sterka sjálfsmynd, hverjir eru grundvallarþættir sjálfsmyndar og hvernig má hafa áhrif á þá þætti. Markmiðið er að auka þekkingu starfsfólks á þróun sjálfsmyndar og efla það í að styðja við aukið sjálfstraust nemenda. Síðari hluti námskeiðsins fjallar um eigin sjálfseflingu með það að markmiði að auka þol í streituvaldandi aðstæðum, vinna úr erfiðri reynslu, nýta betur eigin styrkleika, setja sér markmið í starfi, njóta sem best þess sem starfið felur í sér auk þess sem efnið nýtist hverjum og einum í daglegu lífi. Efnið er brotið upp með umræðum, æfingum og praktískum verkefnum sem henta vel til að nota áfram eftir námskeið, á einstaklingsgrundvelli eða í starfsmannahópum. Námskeiðið tekur um þrjár klukkustundir og kostar 70.000 kr.

2. Fyrirlestur fyrir foreldra. Fjallar um grunnþætti í þróun sjálfsmyndar og hvernig má hafa áhrif á þá þætti. Markmiðið er að fræða foreldra um hvernig vinna má að því að börn virki vel í leik og starfi, líði vel í eigin skinni og meti sig og aðra í sanngjörnu ljósi og efla foreldra í að styrkja sjálfsmynd barna sinna. Fyrirlesturinn tekur um eina klukkustund með umræðum og kostar 50.000kr.

3. Fræðsla fyrir unglinga. Fjallar um grundvallaratriði sterkrar sjálfsmyndar, samspil hugsana, hegðunar og tilfinninga, kenndar aðferðir og unnin verkefni til að efla sjálfsmynd. Markmið er að auka þekkingu á eigin sjálfsmynd og hvernig vinna megi að því að styrkja hana auk þess að dýpka skilning á mismunandi sjálfsmynd annara. Fræðslan tekur um eina klukkustund (æskilegt er að gera ráð fyrir hléi eða að stytta efnið örlítið sé ekki tími fyrir hlé) og kostar 40.000kr.

Anna Sigríður er sálfræðingur og starfar við greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu bæði á einkastofu og á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Áður starfaði hún í sérfræðiþjónustu við grunnskóla.
Hún stendur, ásamt öðrum fagaðilum, að heimasíðu um sjálfsmynd barna og unglinga, sjalfsmynd.com.

Hægt er að hafa samband við Önnu Sigríði til að panta fræðslu eða fá nánari upplýsingar, með tölvupósti annasiggajokuls@gmail.com eða í síma 693 4712

Að leyfa börnum að takast á við mótlæti

Vilborg kemur grátandi inn úr dyrunum, tvær vinkonur hennar höfðu stungið hana af eftir skóla. Móðir hennar verður einnig miður sín: „Hvað ertu að segja? Voðalega eru þær ómerkilegar. Við skulum bara gera eitthvað skemmtilegt, fara í ísbúðina og horfa á eitthvað skemmtilegt“. Um kvöldið hringdi móðirin síðan í mömmu annarrar vinkonunnar og biður hana um að ræða þessa uppákomu við dóttur sína þar sem Vilborg hefði verið mjög miður sín.

Það er eðlilegt að foreldrar vilji forða börnum sínum frá öllu óþægilegu og sáru og reyna að taka það á sínar herðar í stað þess að horfa upp á börn sín þjást. Þrátt fyrir að ætlunin sé önnur geta skilaboðin til barnsins orðið: „Þú hefur ekki burði eða kjark til að takast á við þetta“ og „Þetta er hræðilegt, engin furða að þú sért miður þín/hræddur/reiður“.

Þegar foreldrar koma börnum sínum í öruggt skjól við hvert tækifæri og taka sjálfir að sér að greiða úr vanda sem börnin standa frammi fyrir, taka þeir um leið frá þeim tækifærin til að æfa sig í að takast á við erfiðar aðstæður (þ.e. aðstæður sem börnunum þykja erfiðar) og standa sjálf uppi sem sigurvegarar.

Í tilviki Vilborgar hefði hugsanlega verið vænlegra fyrir móðurina að aðstoða hana við að finna út úr því hvernig hún ætlaði sjálf að takast á við þá stöðu sem uppi var og hjálpa henni að sjá hvað þessi uppákoma segði um vinkonurnar og hvað þetta segði eða segði ekki um hana sjálfa. Þannig yrði líklegra að Vilborg gæti tekist á við svipaðar aðstæður í framtíðinni á farsælli hátt og án þess að þær hafi eins neikvæð áhrif á hana.

Fullorðnir þurfa þó oft og tíðum að taka upp hanskann fyrir börn sín eða greiða úr erfiðleikum þeirra þegar miklir eru. En þá er gott að þekkja börn sín vel og gera sér grein fyrir hvaða aðstæður eru þeim ofviða og hvaða aðstæður þau geta tekist á við (jafnvel þó þær valdi þeim óþægindum).

Þegar börn okkar eiga erfitt með ákveðna hluti er ágætt að hafa í huga að þegar þau lærðu að ganga studdum við þau í upphafi, héldum í hendur þeirra, slepptum síðan smám saman og létum þau ganga ein og óstudd. Við þurftum hinsvegar að þola að sjá þau hrasa og meiða sig því annars hefðum við aldrei geta sleppt af þeim takinu.

Foreldrar þurfa að aðstoða börn sín við að standa í eigin fætur, ein og óstudd, svo þau geti tekist á við það sem reynist þeim erfitt, því þannig fá þau trú á eigin getu.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

Feimni hjá börnum

300-fjarsjodsleit_617a835c229addb2ea669df37df22e26

Mikil feimni getur haft neikvæð áhrif á líf barna og unglinga. Feimni eða hlédrægni getur haft þau áhrif að barnið missir af mörgum dásamlegum hlutum. Feimið barn getur til að mynda misst af tækifæri til að taka þátt í skólaleikritinu eða að sýna sitt besta í upplestri í kennslustund. Talið er að feimni hafi verið gagnleg áður fyrr og geti jafnvel verið það ennþá þar sem hún leiðir til varkárni í samskiptum. Mikil breidd er í feimni og getur barn til dæmis fundið fyrir örlítilli feimni þegar það er meðal ókunnugra og verið öruggt heima hjá sér eða með vinum sínum. Önnur börn geta þó upplifað mun meiri feimni, verið mjög óörugg meðal fólks og jafnvel þjáðst af félagsfælni.

Oftast birtist feimni hjá ungum börnum með þeim hætti að barnið horfir ekki í augu annarra, talar lágt eða jafnvel ekkert og er niðurlútt. Barnið getur jafnvel
límt sig fast við einhver sem það þekkir. Barnið tjáir síður skoðanir sínar og langanir, miðað við önnur börn.

Feimin börn eiga það til að hafa of miklar áhyggjur af skoðun annarra. Mörg hver telja að mikilvægt sé að vera fullkomin í samskiptum og áhrif minnstu mismæla eða athugasemda eru mikluð. Í samskiptum við annað fólk eiga börnin það til að mikla fyrir sér mikilvægi eigin hegðunar og hugsa mun oftar um það neikvæða en það jákvæða í eigin fari þegar kemur að samskiptum.

Þar sem feimin börn eiga það til að upplifa vanlíðan í margmenni eða meðal ókunnugra eiga mörg þeirra það til að forðast félagsleg samskipti eða mannamót. Tækifærin til að öðlast betri félagsfærni minnkar þar sem þjálfunin í félagslegum samskiptum er minni.

Barn sem er feimið er eðli málsins samkvæmt ekki mikið fyrir að trana sér fram. Erfiðara getur því reynst að ná það besta úr barninu þar sem það forðast að láta ljós sitt skína.

Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd feiminna barna?

Í megin dráttum skiptir mestu máli að sýna barninu umhyggju en um leið festu og aga. Að vera góð fyrirmynd fyrir barnið í samskiptum skiptir einnig miklu máli. Þegar rætt er við barnið er mikilvægt að þrýsta ekki um of á það að barnið svari og gefa barninu rúm og færi á að svara. Oft getur verið gott að byrja á léttum, lokuðum spurningum, þar sem barnið þarf einungis að svara t.d. hver eða hvar, já eða nei, í stað þess að koma með langa lýsingu á atburðum. Taka skal einnig tillit til annarra tjáskipta eins og handahreyfinga eða bendinga.

Ef barnið heyrir ítrekað að það sé feimið fer það sjálft að trúa því og nota það sem afsökun fyrir því að forðast margt. Gott er því að reyna af fremsta megnið að hvetja barnið til að prófa nýja hluti. Í sumum tilfellum þarf ekki nema eina jákvæða reynslu af því að fara út fyrir þægindarammann til að minnka feimnina.

Mikilvægt er að fara ekki of geyst af stað, lítil markmið og lítil skref í einu. Í því samhengi er best að byrja á aðstæðum þar sem feimnin er ekki mikil og jafnvel æfa athafnirnar fyrirfram t.d að biðja um aðstoð kennarans. Að gefa barninu tækifæri á að nálgast markmið sín skref fyrir skref er mikilvægt. Barn sem treystir sér ekki til að halda fyrirlestur fyrir samnemendur sína gæti til að mynda treyst sér til að taka fyrirlesturinn upp á myndbandið og kynna myndbandið fyrir samnemendum sínum. Með því að setja lítil markmið að stóra markmiðinu (t.d. að halda fyrirlestur fyrir framan samnemendur) og aðlaga verkefni og athafnir að barninu getur það skref fyrir skref, sigur eftir sigur, nálgast loka markmiði sitt. Æfing og þjálfun á atburðum eða aðstæðum sem barnið kvíðir getur virkað mjög vel og ýtt enn betur undir góðan árangur.

Gott er að hvetja barnið til að tala við aðra og hrósa barninu fyrir góð samskipti t.d. þegar barnið býður góðan daginn eða heilsar bekkjarfélaga sínum. Hægt er að æfa félagsfærnina markvisst t.d. æfa að heilsa, kveðja, biðja um hjálp, tala við ókunnuga, hrósa, spyrja eftir vinum. Oft þurfa börn sem eru feimin aðstoð við að mynda vinasambönd og hvatningu til að leika við önnur börn. Vinasambandið getur síðan styrkt félagsfærni barnsins.

Fyrir mörg börn getur vinna með tilfinningatjáningu skipt sköpum. Sum feimin börn eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Sjálfsmynd þeirra getur verið slæm og því mikilvægt að styrkja sjálfstraust þeirra. Til að mynda með því að fræða barnið um að það sé ekki eitt í heiminum, mörg önnur börn upplifa svipaða tilfinningu og barnið sjálft. Gott er að gefa barninu tækifæri til að uppgötva og sýna sínu sterku hliðar og auka sátt þess við sérkenni sín.

Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi

Heimildir:

Butt, M., Moosa, S., Ajmal, M. og Rahman, F. (2011). Effects of shyness on the self esteem of 9th grade female students. International Journal of Business and Social Science. 2, 12.

Gréta Júlíusdóttir, Ásta Fr. Reynisdóttir, Hólmfríður B. Pétursdóttir. (2005). Feimni: Er hægt að hjálpa börnum að yfirstíga þá hindrun sem feimnin er og þá hvernig? B.Ed ritgerð:Háskólans á Akureyri, Kennaradeild.

Jakob Smári, Félagsfælni. Persona.is (http://www.persona.is/index.php?action=articles&method=display&aid=13&pid=11)

Kolbrún Baldursdóttir. (2006). Feimni hjá börnum. Uppeldi, 1, 19. árg.