Greinasafn fyrir merki: einelti

Dagur gegn einelti

chf-cartoon-kids

Þann 8. nóvember er dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á einelti og alvarleika þess. Einelti er skilgreint sem endurtekin ótilhlýðleg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Í tilefni dagsins verður fræðsla um einelti á vinnustöðum haldin föstudaginn 7.nóvember:  http://www.gegneinelti.is/frettasafn/nr/105

Á vefsíðunni www.gegneinelti.is er hægt að finna upplýsingar um einelti og um verkefnið. Þar má einnig finna sáttmála um baráttu gegn einelti og hvetjum við alla til að skrifa undir hann: Sáttmáli

Í tilefni dagsins viljum við á Sjálfsmyndarsíðunni vekja athygli á skemmtilegum vinaverkefnum sem finna má í verkfærakistu okkar. Eitt verkefnanna er sérlega skemmtileg en það kallast Vinadagur. Í því verkefni er lögð áhersla á að skoða hvaða góðu eiginleika við sýnum í vináttu og samskiptum. Við hvetjum því námsráðgjafa, kennara og aðra sem starfa með börnum að vinna einhvers konar vina- eða samskiptaverkefni með nemendum sínum í dag.

Vinadagur 

Að sjá það jákvæða í fari annarra: sagan af Jeremiah

Jeremiah, framhaldsskólanemi í Bandaríkjunum, ákvað að leggja sitt af mörkum til að bæta andrúmsloftið í skólanum sínum og berjast gegn einelti. Hann opnaði jeremiahsíðu (https://twitter.com/westhighbros) á Twitter þaðan sem hann „tístir“ hrósi til samnemenda sinna, til dæmis að þeir séu fyndnir, traustir vinir, góðir leiðtogar eða góðir í íþróttum eða tónlist, svo fátt eitt sé nefnt. Twitter-síða Jeremiah hefur fengið góð viðbrögð, bæði innan skólans og utan, og fleiri hafa fylgt fordæmi hans og opnað eigin vefsíður til að hrósa skólafélögum sínum. Það er sannarlega ástæða til að fyllast bjartsýni yfir hugvitssemi og jákvæðni þessa unga manns, og því að aðrir hafi fetað í fótspor hans. Það væri ekki úr vegi að segja íslenskum nemendum frá þessari síðu og jafnvel að vinna einhvers konar verkefni úr þessari hugmynd. Ef við kennum börnum að sjá það jákvæða bæði í eigin fari og annarra höfum við stigið stórt skref í átt til þess að gera heiminn að betri stað.“
Hér má sjá myndband um verkefni Jeremiah
Bergljót Gyða Guðmundsdóttir

Dagur gegn einelti

Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga  8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti.  Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn árið 2011 og  markmiðið með deginum er  að vekja sérstaka athygli  á málefninu. Undirritun fulltrúa félaga, samtaka og opinberra stofnana á þjóðarsáttmála gegn einelti var þar einn liður. Sáttmálinn er einnig grunnur að frekari vinnu, við hann má bæta og miða í þeim efnum við þarfir þeirra fjölmörgu félaga, samtaka og stofnanna er undirrituð sáttmálann í Höfða í fyrra. Sáttmálan má því  útfæra enn frekar með undirmarkmiðum og fjölbreyttum verkefnum.
Við hvetjum ykkur til að skrifa undir sáttmálann hér: http://www.gegneinelti.is/sattmalinn/

Einnig hvetjum við ykkur til að horfa á flott myndband sem stúlkurnar í kvennalandsliðinu í fótbolta útbjuggu, um það að fagna fjölbreytileikanum:http://www.youtube.com/watch?v=B3Y-UXX3rWc

 

 

 

 

Fögnum fjölbreytileikanum – frábært framtak hjá íslenska kvennalandsliðinu

Okkur langar að benda ykkur á þetta frábæra framtak hjá stelpunum í landsliðinu í fótbolta.

Þær vilja vekja athygli á einelti og mikilvægi þess fagna fjölbreytileikanum.

https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=B3Y-UXX3rWc

Texti lagsins:

Ég kem heim úr skólanum, mér líður ekki vel

lít í spegilinn og átta mig ekki á því hver ég er.

Ég er ekki eins og hinir, ég lít öðruvísi út,

hegða mér á annan hátt, en samt er staðreyndin þó sú

að ég er bara ég, þarf ég að breyta hver ég er?

til þess eins að fitta inn og fá að vera með.

Hvað sem ég geri sjá þau flísina í auga mínu

en ekkert þeirra tekur eftir bjálkanum í sínu.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp

og þeir sem rífa þig niður.

Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp

og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.

Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.

Það dýrmætasta sem ég á

er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.

Þegar á endann er kominn vinna þeir sem breyta rétt.

Þú sérð samt fljótt að þessi leið er ekki alltaf létt.

Sá sem ranglæti mætir ekki, fylgir alltaf hinum.

Hjálpar ekk’ og stendur ekki upp á móti vinum.

Mótlæti myndar manninn, sýnir úr hverju hann er gerður.

Ekki gefast upp þó heimurinn sé stundum harður.

Bítt’í skjaldarrendur og treystu eigin hjarta

fyrr en varir muntu sjá að þú átt framtíðina bjarta.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp

og þeir sem rífa þig niður.

Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp

og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.

Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.

Það dýrmætasta sem ég á

er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.

Lag flutt af Mist Edvardsdóttur og Rakel Hönnudóttur. Textinn er eftir Katrínu Ómarsdóttur

Einelti og sjálfsmynd

Einelti getur haft langvarandi áhrif á sjálfsmynd barna og unglinga. Í rannsókn Boulton og Hawker frá árinu 2000 kom fram að þolendur eineltis upplifa mun meiri neikvæð áhrif og neikvæðari hugsanir um sjálfa sig en þau börn sem ekki hafa orðið fyrir einelti. Þetta á sérstaklega við ef barnið fær ekki aðstoð við lausn vandans eða nær ekki að tileinka sér betri og fjölbreyttari leiðir til að takast á við eineltið.

Ástæða þess hve mikil áhrif einelti getur haft á sjálfsmynd okkar og líðan liggur í því hvernig sjálfsmynd þróast. Sjálfsmynd okkar mótast nefnilega af fyrri reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri. Áhrif neikvæðrar reynslu geta varað lengi og eru oft enn til staðar seinna á lífsleiðinni.  Áhrifin eru oft meiri þegar við upplifum neikvæða reynslu sem börn því á þeim árum eru bæði sjálfsmyndin og viðhorfin að mótast.

Í ritgerð Lilju Bjargar Ingibergsdóttur um áhrif eineltis á sjálfsmynd barna kemur fram að sjálfsmynd ásamt félagslegum tengslum fórnarlamba eineltis verður fyrir skaða. Þau eru hrædd um að vera hafnað af félögunum og gefast fljótt upp á því að hitta önnur börn vegna skammar og niðurlægingar.

Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd þeirra sem lent hafa í einelti?

Hvernig fórnarlömbum eineltis tekst að kljást við langtímaáhrif eineltis hefur meira að segja en birtingarform eineltisins. Sá sem lagður er í einelti hefur yfir langan tíma heyrt neikvæðar athugasemdir og verið hafnað af öðrum og er því að einhverju leyti eins og brennimerktur og hugsanirnar halda áfram að einkennast af neikvæðni og viðhalda þannig áfram neikvæðri sjálfsmynd þrátt fyrir að aðstæður hafi breyst og eineltinu sé löngu hætt. Mikilvægt er að upplýsa fórnarlambið um þau tengsl sem eru milli fyrri reynslu og hugsana. Neikvæðar hugsanir ýta undir slæma sjálfsmynd.

Ákveðinn hugsunarháttur getur haft neikvæðari áhrif á sjálfsmynd en annar hugsunarháttur. Þeir sem telja sig gallaða eða misheppnaða eiga erfiðara með að takast á við eineltið, heldur en börn sem læra að vandamálið liggi hjá gerandanum eða í úrræðaleysi skólans. Að benda börnum á að vandinn liggi hjá geranda eða umhverfinu sjálfu í stað þess að barnið líti á sig sem vandamál getur að einhverju leyti bætt þann skaða sem eineltið veldur.

Að átta sig á að sú skoðun sem við höfum um okkur sjálf er komin vegna reynslu okkar í barnæsku getur haft jákvæð áhrif. Að skilja það að þessi sýn á okkur sjálf á kannski engan veginn við í dag og hún er í raun ákveðin barnahugsun sem við höfum um okkur, er mikilvægt skref í því að bæta sjálfsmynd þeirra sem lent hafa í einelti.

Að vinna að bættri félagsfærni barnanna er þó einnig nauðsynlegur þáttur í því að bæta líðan þeirra, þar sem þeirri færni getur hrakað eftir síendurtekna höfnun jafningjanna og minnkandi félagssamskipti.

Við hvetjum ykkur til að skoða eftirfarandi vefsíður og rannsóknir. Einnig hvetjum við ykkur til að skrifa undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti:

http://gegneinelti.is/ + þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti

http://regnbogaborn.is/

http://olweus.is/

http://www2.lydheilsustod.is/lydheilsustod/gedraekt/vinir-zippy

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10846/version5/skolavarda_greinGG.pdf

Boulton, J. M. og Hawker, D. S. J. 2000. Research on Peer Victimization and Psychosocial Maladjusment: A Meta-analytic Review of Cross-sectional Studies. The Journal of Child Psychology and Psychiatry and Allied Disciplines. Tölublað 4. Cambridge University.

Lilja Björg Ingibergsdóttir. 2010. Ég er frábær eins og ég er: hver eru áhrif eineltis á sjálfsmynd barna? Lokaverkefni til B.Ed -gráðu í Grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands.

Elva Björk Ágústsdóttir

Fleiri verkefni um fyrirmyndir

Verkefnið sem birtist hér er ætlað yngri börnum en það verkefni sem fjallað var um í síðasta pistli.

Markmiðið með verkefninu er að skoða fyrirmyndir barnsins. Kanna í sameiningu hvaða góðu eiginleika fyrirmyndin hefur og hvort barnið hafi sömu góðu eiginleika. Gott er að biðja barnið um að koma með dæmi er tengjast þeim eiginleikum sem talað er um. Verkefnið hefur reynst vel í vinnu með drengjum og stúlkum og börnum með ADHD.

Fyrirmyndir