Greinasafn fyrir merki: fræðsla

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur 13-16 ára

Þann 14. október hefst sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur á aldrinum 13-16 ára hjá Klifinu. Kennari námskeiðsins er Elva Björk (Námsráðgjafi/MS í sálfræði).

Markmið námskeiðsins er að styrkja sjálfsmynd og líkamsmynd unglingsstúlkna. Þátttakendur á námskeiðinu hittast þrisvar sinnum yfir eina viku. Farið er yfir fegurðarviðmið nútímans, áhrif fjölmiðla og annarra þátta á sjálfsmynd okkar og fyrirmyndir. Unnið er að því að finna styrkleika stúlknanna og að efla gagnrýna hugsun. Notaðar eru aðferðir úr hugrænni atferlisfræði þar sem þátttakendur taka mikinn þátt með verkefnum, leikjum og  vinnubók

Við hvetjum áhugasama endilega til að kynna sér námskeiðið frekar á heimasíðu klifsins: http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=267&Itemid=146

Sjálfsmynd barna (fræðsla fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri)

Við hjá sjálfsmyndarvefsíðunni erum farnar af stað með fræðslu fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri. Fjallað er um hvernig stuðla megi að sterkri sjálfsmynd hjá börnum, farið í helstu þætti sem hafa áhrif á sjálfsmynd og hvernig uppalendur geta haft áhrif á þessa þætti til að bæta sjálfsmynd barna sinna.

Picture1

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í þeim birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun (www.menntamalaraduneyti.is)

Fræðsla um sjálfsmynd barna tengist flestum ef ekki öllum þessum þáttum og samræmist vel áherslu á sanngirni, samvinnu, líðan og heilsu og að styrkja börn í að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Leikskólar, grunnskólar, foreldrafélög eða aðrir geta óskað eftir fræðslu með því að hafa samband við Maríu, Önnu Siggu eða Elvu á sjalfsmynd@gmail.com

Fræðsla um sjálfsmynd og líkamsmynd

mynd

Fræðsla um sjálfsmynd og líkamsmynd

Fyrir stúlkur í 8. 9. og 10. bekk

 

Margar stúlkur hafa ekki mikla trú á sjálfum sér. Þær eiga í vanda með að finna styrkleika sína og nýta þá í daglegu lífi. Einnig hafa margar stúlkur áhyggjur af líkama sínum og útliti og finnast þær þurfa að breytast til þess að líða betur með sjálfar sig. Slæm líkamsmynd getur haft mikil áhrif á líf stúlkna svo sem ýtt undir þunglyndi, kvíða og átraskanir. Tíðni slæmrar líkamsmyndar meðal unglingsstúlkna er há og því mikilvægt að stuðla að bættri líðan þeirra.

Fyrir þremur árum síðan fór Elva Björk af stað með fyrirlestur um líkamsmynd, sjálfsmynd og fegurðarviðmið. Fjallað er um hvað hefur áhrif á sjálfsmynd og líkamsmynd stúlkna, tískutímarit, photoshop, fyrirmyndir og heilsu óháð holdafari. Farið er í hagnýtar leiðir til að bæta sjálfsmynd og líkamsmynd stúlknanna.

Í boði er fyrirlestur í skólum fyrir um 30 stúlkur í senn.

  • Fyrirlesturinn tekur c.a. 70 mínútur
  • Verð: 20.000 kr.

 

Elva Björk Ágústsdóttir er náms- og starfsráðgjafi og kennari og starfar í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Elva Björk hefur lokið meistaranámið í sálfræði með áherslu á forvarnir gegn átröskunum og slæmri líkamsmynd. Undanfarin fjögur ár hefur Elva Björk, ásamt öðrum,  unnið að forvörnum gegn átröskunum og slæmri líkamsmynd og sjálfsmynd.

 

Hægt er að hafa samband við Elvu Björk til að fá nánari upplýsingar eða panta fyrirlestur í síma: 862 – 9999 eða senda tölvupóst á elvabjork@sjalfsmynd.com