Greinasafn fyrir merki: líðan

Gagnsemi neikvæðra tilfinninga

Neikvæðar tilfinningar geta verið gagnlegar. Kvíði getur t.d aukið nákvæmni okkar, leiði getur verið merki um þörf fyrir tilbreytingu í lífinu og fleiri krefjandi verkefni, öfund og vonbrigði geta verið merki um langanir okkar og óskir.

Diagram of emotions

Allar þessar tilfinningar geta verið mikilvægar.

 

Gott er að velta fyrir sér af hverju er ég svona reið/ur, leið/ur, stressuð/aður?

Einnig getur verið hjálplegt að velta fyrir sér einstökum tilvikum þar sem þú upplifðir neikvæða tilfinningu og hvaða breytingar tilfinningin hafði í för með sér.

Til dæmis:

  • þegar þú varst reið/ur og fékkst kjark til að standa með sjálfri/sjálfum þér
  • þegar þér leiddist og þú tókst þá að þér ögn fleiri krefjandi verkefni en þú taldir þig ráða við
  • þegar þú öfundaðir vin fyrir starfið hans sem hafði þau áhrif að þú sóttir um svipað starf sjálf/ur.

„So the next time you’re feeling a negative emotion, instead of automatically getting even more frustrated or more upset because of it, take several deep, slow breaths, and consider why you might be feeling this way.“

Heimild: https://blogs.psychcentral.com/weightless/2018/06/negative-emotions-are-important-too/

Hvað gerist ef mér mistekst ekki?

?????????????Það er alltaf jafn skemmtilegt þegar fólk hittir naglann  á höfuðið með góðum ráðum, athugasemdum eða spurningum. Í pistli sem Warren Berger skrifaði fyrir Psychology today  kom hann með fimm spurningar sem vert er að spyrja sig.

Þegar kemur að sjálfsmyndinni og bættri líðan getur verið gott að spyrja sig að því hvað myndi ég reyna að gera ef ég vissi að mér gæti ekki mistekist? Þessi spurning hefur lengi verið notuð í ráðgjöf til að hjálpa fólki að komast yfir hræðslu við að gera mistök.

Með því að velta fyrir þér hvað þú myndir vilja reyna að gera eða framkvæma ef þú vissir að allt myndi ganga hnökralaust fyrir sig þá færirðu það „ómögulega“ nær því mögulega.

Hægt er að sjá mál frá nýju sjónarhorni með því að spyrja sig: Hvað gerist ef mér mistekst ekki? 

En enginn er fullkominn og öll gerum við mistök einstöku sinnum 😉 En með því að ímynda sér útkommu án mistaka færum við okkur nær því að hugsa „big and bold“

Warren Berger fjallaði einnig um val okkar eða leiðir í lífinu. Stundum stöndum við á tímamótum og þurfum að velja á milli tveggja kosta. Góð leið til að komast að niðurstöðu er að spyrja: Hvor leiðin eða möguleikinn leiddi til betri lífssögu eða reynslu að fimm árum liðnum?   “No one ever regrets taking the path that leads to a better story.”

Með von um að þessar tvær spurningar hitti naglann á höfuðið 🙂

Elva Björk Ágústsdóttir

Ævisagan mín – Gagnlegt verkefni með börnum

Ævisagan mín er skemmtilegt og um leið gagnlegt verkefni sem hægt er að grípa í þegar unnið er með börnum. Verkefnið getur virkað vel til að styrkja samband ráðgjafans/kennara og barns eða jafnvel sem hluti af ráðgjöf/meðferð. Verkefnið er líka skemmtilegt að vinna með foreldum eða eldri systkinum.

Ævisagan mín getur gefið öðrum góða sýn á hugmyndir, líðan og framtíðardrauma barnsins. Verkefnið er hluti af verkefnabók um hugræna atferlismeðferð fyrir börn. Höfundur verkefnabókarinnar er Dr Gary O’Reilly sem sér um doktorsnám í klíníski sálfræði við UCD (University College Dublin).

Ævisagan mín

 

Að nota Excel til að ná markmiðum sínum

Að setja sér markmið, tímasetja þau og skrá árangur er góð leið til að bæta sjálfstraust. Með því að setja sér markmið komum við í veg fyrir að við festumst í ákveðnu fari sem um leið bætir líf okkar og líðan.

Hér má finna mjög hvetjandi og áhugaverða lesning um hvernig hægt er að ná markmiðum sínum í lífinu með góðri markmiðssetningu og skráningu. Hvetjum alla til að lesa þennan skemmtilega pistil Fjólu Daggar um hvernig Excel hjálpaði henni að ná markmiðum sínum.

http://www.ai-therapy.com/blog/how-excel-can-help-you-achieve-goals/

Samskiptaboðorðin

Okkur langar að benda ykkur á Samskiptaboðorðin. Vefsíðan http://www.samskiptabodordin.is/ er helguð samskiptum, samskiptaháttum, tengslamyndun og áhrifum þeirra á tilveru okkar allra. Markmiðið með síðunni er að skapa lifandi vettvang umræðna um samskipti og samskiptahætti og efla þekkingu almennings á uppbyggjandi, nærandi og eflandi samskiptum. Höfundur samskiptaboðorðanna er Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur.

 

 

 

Jákvætt sjálfstal

Að tala fallega um sjálfan sig, hvort sem það er upphátt eða við aðra, getur haft jákvæð áhrif. Margir eiga það til að efast um eigin getu og gagnrýna það sem þeir gera og geta. Það getur haft neikvæð áhrif á sjálfstraust. Með því að æfa sig í jákvæðu sjálfstali má koma í veg fyrir þetta.

Hér má finna einfalt verkefni fyrir börn þar sem þau kortleggja styrkleika sína, breyta neikvæðu sjálfstali í jákvætt og auka færni sína í að leysa ágreining og komast að farsælli niðurstöðu.

Jákvætt sjálfstal

Elva Björk Ágústsdóttir

„Ég er feit, garðsláttuvélin segir það!“

Fyrir marga er baðvogin veigamikill þáttur í lífinu. Vigtin getur haft áhrif á hvort dagurinn verði góður eða slæmur. Sumir vigta sig jafnvel oft á dag, á mismunandi stöðum, taka af sér hringa og aðra skartgripi, snúa hægri og vinstri, til að fá betri tölu. Ófáir kannast eflaust við þetta, sérstaklega þeir sem eru ósáttir með eigin líkama.

Fyrir marga með slæma líkamsmynd hefur reynst vel að minnka vægi vigtarinnar. Gera töluna hlutlausa eða hreinlega sleppa því að stíga á vigtina (nema af nauðsyn t.d. hjá lækni).

Þennan skemmtilega texta má finna á erlendri vefsíðu um líkamsmynd og átraskanir. Við viljum hvetja alla til að lesa textann á myndinni þar sem um góða áminningu er að ræða 🙂

Spegill spegill………..

Æfing sem kallast mirror exposure (speglaæfing) er ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota þegar unnið er að bættri líkamsmynd. Rannsóknir hafa sýnt að aðferðin getur bætt líkamsmynd eða sátt við eigin líkama.

Speglaæfingin felst í því að einstaklingur stendur fyrir framan spegil (eins léttklæddur og staður og stund leyfir). Viðkomandi reynir að einblína á einn ákveðinn líkamspart í jafn langa stund í senn t.d:

  • hár
  • húð
  • augu
  • nef
  • varir
  • tennur
  • haka
  • háls
  • axlir
  • handleggir
  • bringa
  • brjóst
  • mitti
  • magi
  • rass
  • læri
  • mjaðmir
  • hné
  • kálfar
  • öklar
  • fætur
  • tær

Ein leið til að framkvæma æfinguna er að nefna ákveðinn fjölda atriða (t.d. þrjú atriði) sem eru jákvæðir um líkamspartinn. T.d. „ég er með sterka handleggi“. Einnig er hægt að nefna jákvæða þætti um líkamspartinn sem tengjast því sem líkamsparturinn gerir. T.d. „þegar ég nota hendur mínar þá get ég prjónað fallega peysu“ eða „ég get gert armbeygjur“ ……

Önnur leið til að framkvæma æfinguna er að nota hlutlausar lýsingar. Það að nefna jákvæða eiginleika getur reynst sumum erfitt. Það getur því verið ráðlegt að taka smærri skref í einu og byrja á því að nefna einungis hlutlausa eiginleika um líkamspartinn. Að nefna hlutlausa eiginleika væri svipað því að lýsa útliti fyrir teiknara sem er að teikna mynd af manni en sér ekki fyrirmyndina.

Speglaæfingin myndar svo kallað hugrænt misræmi hjá þeim sem eru ósáttir við eigin líkama. Hugrænt misræmi felur það í sér að ósamræmanlegar hugsanir skapa óþægindi og streitu. Streitan ýtir undir það að fólk breytir hugsunum eða skoðunum sínum til að auka samræmi milli hugsana og minnka óþægindin. Það að tala fallega um þá líkamsparta sem viðkomandi líkar ekki við getur því með tímanum breytt skoðun hans á líkamspörtunum.

Elva Björk Ágústsdóttir

Fleiri verkefni sem styrkja líkamsmynd

Í bókinni Healthy Body Image: Teaching kids to eat and love their bodies too! eftir Kathy Kater má finna mörg skemmtileg verkefni sem styrkja líkamsmynd. Eitt verkefnanna felur í sér skemmtilega æfingu með spilastokk.

Markmiðið með verkefninu er að börn og unglingar átti sig á fjölbreyttum eiginleikum sínum og leggi minni áherslu á þátt útlits í sjálfsmynd þeirra. Spilastokkurinn

Verkefni sem styrkja sjálfsmynd

Í vinnu með börnum og unglingum skiptir máli að mynda gott ráðgjafasamband. Gagnkvæm virðing og traust eru nauðsynlegir þættir í góðu meðferðarstarfi. Það er því mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að kynnast og byggja upp gott ráðgjafasamband. Í vinnu með ungum skjólstæðingum getur skemmtileg verkefnavinna bæði gert tímann skemmtilegri og gefið skýrari mynd af stöðu barnsins. Hér birtast verkefni sem gott er að nýta í upphafi ráðgjafavinnunnar.

Þetta er ég

Hver er ég?- fjölskyldan

Vinahringur

Söguverkefni

Fjölskyldan mín

Kynning á mér