Greinasafn fyrir merki: líkamsvirðing

Fitutal

Kannist þið við samtal líkt þessu:

Anna: „Ohhh ég er svo feit í þessum buxum? „

Lísa: „Nei hvað er að þér? Þú ert sko ekkert feit! Ef þú er feit, hvað er ég þá? Ég er miklu feitari en þú“

Anna: „Nei Lísa!! Rassinn minn er miklu breiðari en rassinn þinn, ég vildi ég hefði rass eins og þinn“

fat talk

Samtal þessu líkt er ekki óalgengt meðal stúlkna og kvenna. Umræðuefnið getur verið mismunandi en aðalatriðið er hið sama, kvartanir yfir eigin líkamsvexti.

Óánægja með eigin líkamsvöxt er svo algeng í okkar samfélagi að nær eðlilegra þykir að vera ósáttur við vöxt sinn en sáttur, sérstaklega meðal stúlkna. Óánægja með líkamsvöxt eða slæm líkamsmynd er alvarleg í ljósi þess hve mikil áhrif óánægjan hefur á líðan og heilsu fólks. Til að mynda er slæm líkamsmynd og sókn í grannan vöxt mikill áhrifaþáttur í þróun átraskana (Stice, 2001).

Í rannsókn á unglingsstúlkum frá árinu 1994 var hugtak sem nefna má fitutal eða fat talk fyrst reifað. Nichter og Vuckovic (1994) nefndu samræður milli stúlkna, þar sem þær tala neikvætt um líkamsvöxt sinn, fitutal. Fitutal er félagslegt og eru slík samtöl mjög algeng í okkar samfélagi. Fitutalið getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar, sátt við líkamann og líkamsmynd. Að heyra aðra tala neikvætt um eigin líkama getur einnig haft neikvæð áhrif. Fitutal annarra ýtir undir fitutal hjá okkur sjálfum sem hefur síðan slæm áhrif á líkamsmynd og líðan (Salk og Engeln-Maddox, 2011)

Þegar við forðumst að tala illa um líkamsvöxt og neitum að taka þátt í slíkri umræðu þá líður okkur betur. Að eyða umræðuefninu eða draga athygli fólks að öðru umræðuefni getur haft jákvæð áhrif. Fitutal innan hópsins verður fátíðara og áhrif þess minnka.  Góð eða hnyttin mótrök geta jafnvel haft mikil áhrif á það að bæta líkamsmyndina. Mótrökin ættu ekki að vera í þeim dúr að styðja viðkomandi í fitutalinu t.d. með því að svara Önnu líkt og Lísa gerir, þ.e. að sannfæra Önnu um að hún sé ekki feit. Lísa gæti frekar reynt að storka hugmyndum Önnu um hinn „fullkomna líkamsvöxt“ eða gagnrýnt þá hugmynd að útlit okkar hafi mikið með mannkosti okkar og verðleika að gera.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga áhrif fitutals fullorðinna á börn. Möguleiki er á því að Anna líkist móður sinni. Frá því Anna var lítil hefur móðir hennar verið í megrun. Móðir hennar kvartar ítrekað yfir „aukakílóum“ og breiðum rassi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft segir orðatiltækið. Skilaboðin sem Anna fær frá móður sinni eru skýr! Útlit mitt er óæskilegt! Varast skal að líta svona út.

Hlífum börnum fyrir miklu og neikvæðu útlitstali og reynum að bera meiri virðingu fyrir okkur sjálfum í leiðinni.

Elva Björk Ágústsdóttir

 

Heimildir:

Salk, R. H. og Engeln-Maddox, R. (2011). „If you’re fat, than I’m humongous!“ Frequency, content, and impact of fat talk among college women. Psychology of  women quarterly, 35, 18-28.

Stice, E (2001). A prospective test of the dual pathway model of bulimic pathology: Mediating effects of dieting and negative affect. Journal of Abnormal   Psychology, 110, 124-135.

 

 

 

Stríðni vegna holdafars

Ég er námsráðgjafi í grunnskóla. Í skólanum koma oft upp mál er varða til dæmis líðan nemenda, félagstengsl, stríðni og nám. Nýlega vann ég verkefni  í tengslum við stríðni vegna útlits sem mig langar að deila með ykkur.

Kennari hafði áhyggjur af stríðni nokkurra nemenda vegna holdafars eins skólafélaga. Stríðnin virtist hafa slæm áhrif á líðan allra sem að málinu komu. Kennarinn óskaði því eftir aðstoð minni og vildi stöðva stríðnina og um leið bæta líðan og líkamsmynd nemenda.

Við fórum af stað með verkefni og fræðslu í bekknum. Nemendur áttu að velta fyrir sér kostum við mismunandi útlit. Ákveðið útlit var tekið fyrir í einu og kostir eða jákvæðir eiginleikar þess útlits kortlagðir til að mynda  kostir þess að vera hávaxinn, lágvaxinn, grannur eða feitur. Þegar nemendur voru búnir að confident kids logonefna marga jákvæða eiginleika eða kosti áttu þeir að nefna fyrirmyndir sem pössuðu inn í hvern flokk. Sem dæmi má nefna það að ef nemendur nefndu að þeir sem væru hávaxnir gætu orðið góðir í körfubolta hentaði vel að nefna góðan körfuboltaleikmann sem fyrirmynd.

Dæmi um verkefni nemenda:

Hávaxinn

Lágvaxinn

Grannur

Feitur

Kostir:

Góður í körfubolta

Góður í fótbolta

Góður í handbolta

Góður í marki

Getur hjálpað öðrum t.d. náð í hluti sem eru hátt uppi

Góður í frjálsum íþróttum

Sterkur

Sér vel á tónleikum

Góður leikari

Góður söngvari

Kostir:

Góður í dansi

Góður í fimleikum

Getur falið sig vel í feluleik

Góður í handbolta

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í ballet

Góður söngvari

Góður leikari

Liðugur

Góð barnapía

Kostir:

Góður í fimleikum

Góður í ballet

Góður í karate

Kemst á milli þröngra staða

Góður í að fela sig í feluleik

Góður í frjálsum íþróttum

Liðugur

Góður í jazzballet

Lipur

Góður söngvari

Góður leikari

Kostir:

Sterkur

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í handbolta

Góður í glímu

Góður í karate

Góður söngvari

Góður leikari

Góður í lyftingum

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í júdó

Góður í boxi

Góður í Taekwondo

Fyrirmyndir:

Ólafur Stefánsson

Nicole Kidman

Uma Thurman

Jón Arnór Stefánsson

Liv Tyler

 

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Bjarki Sigurðsson

Gróttu stelpurnar

Tom Cruise

Johnny Galecki

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Gróttu stelpurnar

Karate Kid

Kári Steinn

Selena Gomez

Fyrirmyndir:

Adele

Ólafur Darri

Margir júdómenn

Auðunn Jóns.

Christina Aguilera

Lauren í Glee

Út frá verkefninu urðu skemmtilegar umræður. Til að mynda fannst nemendum áhugavert að sjá hve marga góða kosti útlitin áttu sameiginleg t.d. að vera góður í frjálsum íþróttum. Nemendur nefndu að það vera feitur eða grannur hafði lítið um það að segja hvort viðkomandi gæti orðið góður í frjálsum íþróttum. Nemendur voru líka allir meðvitaðir um það að allar tegundir útlits ættu að þykja eðlilegar og fallegar þar sem við fæðumst ólík. Sumir eru dökkhærðir, aðrir ljóshærðir, sumir verða hávaxnir meðan aðrir verða lágvaxnir. Þetta er ómögulegt að breyta og eitthvað sem enginn ætti að stríða öðrum vegna. Nemendur voru sammála um að það sama á við þegar kemur að holdafari.

Ég vil hvetja alla kennara til að prófa verkefnið. Það stuðlar að umræðu meðal nemenda um kosti hvers og eins. Um leið hvetur verkefnið nemendur sem og okkur starfsmenn skólanna til að fagna fjölbreytileikanum.

Elva Björk Ágústsdóttir. Námsráðgjafi/MS í sálfræði