Greinasafn fyrir merki: ráð

Hjálpum börnum að upplifa sigra

“Glæsilegt hjá þér! Þú ert búinn að baka stóran stafla af vöfflum án nokkurrar hjálpar. Þetta geta nú ekki öll 10 ára börn.” Mamma hans Atla hafði hvatt hann til að reyna að baka vöfflur þar sem von var á gestum í heimsókn. Gestirnir fengu síðan aldeilis að heyra að vöfflurnar væru bakaðar af Atla sem var nokkuð hróðugur með árangurinn.

Að búa til sigra fyrir börn, eins og móðir Atla gerði í framangreindu tilviki er mikilvægt til þess að stuðla að jákvæðu sjálfsmati hjá börnum. Að takast reglulega á við nýjar áskoranir og standast þær, eflir trú á eigin getu, þrautseigju og vilja til þess að takast á við verkefni sem mæta viðkomandi í daglegu lífi. Sérstaklega mikilvægt er að huga að þessu fyrir börn sem standa að einhverju leyti höllum fæti í námi, íþróttum eða félagslega.

Börn með lágt sjálfsmat eiga það til að vera verklítil, koma sér undan áskorunum og fá því síður staðfestingu á því að þeim takist oft og tíðum vel upp. Þannig verður til vítahringur sem viðheldur neikvæðri sýn á eigin getu.

Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barna geta gert margt til þess að stuðla að sigrum hjá börnum. Til dæmis er hægt að fá þeim ýmis konar verkefni sem þau hafa ekki leyst áður eins og að mála, pakka inn gjöfum, skreyta jólatré, elda mat, hringja í verslun og spyrjast fyrir um afgreiðslutíma,  eiga viðskipti í verslun án aðstoðar og klæða yngri systkini í föt,  allt eftir aldri og þroska barnsins. Best er að verkefnin séu viðráðanleg en þó þannig að ekki sé algjörlega sjálfgefið að vel takist til.

Tímataka er einnig gagnleg til þess að búa til sigra. Hana má nota fyrir margs konar færni til að sýna fram á framfarir og bætingu. Hægt er að taka tímann á því hversu lengi barn er að lesa eina blaðsíðu, hlaupa eða hjóla einn hring í nágrenninu, fara með margföldunartöfluna, klæða sig í föt (fyrir þau yngstu), púsla, byggja kastala, halda fótbolta á lofti eða gera annað sem fólki dettur í hug.

Hani Amir

Hani Amir

Fyrir kvíðin börn er einnig mikilvægt að sigrast á ótta sem er til staðar eins og feimni, vatnshræðsla eða myrkfælni.

Það getur verið sigur fyrir sum börn að spyrja eftir nýjum félaga, fara í rennibrautina í sundlauginni, vera ein heima í stutta stund eða vera í sama herbergi og kónguló í fimm mínútur.

Í öllum tilvikum skiptir miklu máli að gera mikið úr árangri og fagna hverjum sigri. Benda börnum á hverju þau hafa áorkað og hvað það segir um þau þ.e. að þau séu dugleg, hugrökk, hugmyndarík, úrræðagóð eða hæfileikarík.

Hrós eitt og sér dugar ekki til að viðhalda sterkri sjálfsmynd ef börn finna það ekki á eigin skinni að þau ráði við hlutina.

María Hrönn Nikulásdóttir

Að læra að meta eiginleika sína

Margir eiga erfitt með að finna jákvæða eiginleika hjá sjálfum sér. Enn fleiri eiga erfitt með að viðurkenna eitthvað jákvætt um sjálfa sig, oft vegna hræðslu um að einhver mótmæli. Einnig óttast sumir það að teljast vera „egoistar“ eða góðir með sig ef þeir tala vel um sjálfa sig.

En það er ekkert endilega samasem merki á milli þess að vera sáttur við sjálfan sig og að vera góður með sig. Rétt sýn á sjálfan sig, bæði þegar kemur að veikleikum og styrkleikum er stór partur af góðu sjálfstrausti. Að hunsa alla jákvæðu eiginleika sína viðheldur aftur á móti slæmu sjálfstrausti.

Sumir eiga mjög auðvelt með að finna jákvæða eiginleika við sjálfa sig. Aðrir geta átt í miklum vanda með það. Í þeim tilvikum getur virkað að leita til náins vinar eða foreldra og kortleggja jákvæðu eiginleikana í samvinnu við aðra. Margir eiga í vanda með að finna styrkleika sína vegna þess þeir eru vanir því að hunsa þá og hugsa frekar um allt það sem miður fer.

Til að brjótast úr viðjum vanans er gott að gera eftirfarandi verkefni:

 • Skrifaðu á blað alla styrkleika þína með því að fylgja neðangreindum positivespurningum:
 1. Hvaða eiginleika hjá sjálfum þér líkar þér vel við? Finndu bæði lítil og stór atriði.
 2. Hvaða jákvæðu eiginleika hefurðu? Nefndu líka eiginleika sem þú sýnir stundum, ekkert endilega alltaf. Vertu sátt/ur við að hafa þann eiginleika í stað þess að hunsa hann alveg þar sem þú sýnir hann ekki fullkomlega alltaf (t.d. ég hjálpa öðrum oft, en ekki alltaf, þannig ég tel mig vera hjálpsama).
 3. Hvaða árangri hefurðu náð í lífinu (stórum og smáum)? Þetta þarf alls ekki að vera einhverjir stórir áfangar eins og að vinna Ólympíu leikana. Vertu sátt/ur við litlu áfangana lífinu líka.
 4. Hvaða erfiðleika hefurðu komist yfir? Hefur þú einhvern tímann þurft að leysa erfitt vandamál, hefur þú þurft að komast yfir einhverja hræðslu? Mundu að það er jákvæður eiginleiki að geta leyst vanda eða að geta unnið á vanda sínum.
 5. Hvaða hæfileika hefurðu? Hvað gerir þú vel? (athugaðu að hér stendur vel, en ekki fullkomlega). Mundu eftir því að nefna litlu atriðin líka og það sem þú gerir oft vel, en ekki endilega alltaf. Þú þarft ekki að vera Beethoven eða Einstein til að teljast vera með hæfileika. Að vera góður í að sjóða egg á unglingsárum eða koma öðrum til að hlæja á alveg heima á lista þínum.
 6. Hvaða færni hefurðu öðlast? Finndu atriði sem þú hefur lært t.d. kanntu að sauma, ertu flink/ur í tölvum? Ertu góð/ur í íþróttum, ensku eða að hlusta á aðra?
 7. Hvað heldur þú að öðrum líki vel við í þínu fari eða telja góða eiginleikar við þig? Hugsaðu t.d. um atvik þar sem einhver þakkaði þér fyrir eitthvað t.d. ef þú aðstoðaðir einhvern. Hefurðu fengið hrós? Fyrir hvað? Kannski ertu ekki dugleg/ur að taka eftir hrósi. Þá er kominn tími til að taka betur eftir og trúa hrósum!
 8. Hvaða eiginleika í öðrum líkar þér? Hefur þú einhverra þessara eiginleika sjálf/ur?  Stundum er auðveldara að sjá jákvæða eiginleika í öðrum en hjá sjálfum sér. Finndu jákvæða eiginleika annarra og íhugaðu hvort þú sjálf/ur hefur sömu eiginleika. Ekki festast í ósanngjörnum samanburði. Ef vinur þinn er bestur í fótboltaliðinu og þú ert ágæt/ur, þá skaltu nefna það. Þú þarft ekki að vera bestur í einhverju til að teljast hafa jákvæðan eiginleika. Þetta gæti verið jákvæður eiginleiki sem þú og vinur þinn eigið sameiginlega, þótt þið séuð missterk á sviðinu.
 9. Hvaða neikvæðu eða slæmu eiginleika hefur þú EKKI? Stundum getur verið erfitt að finna jákvæða eða góða eiginleika við sjálfan sig. Gott er því að hugsa um hvaða slæmu eiginleika þú ert EKKI með (t.d. ég er ekki óheiðarleg/ur, ég er ekki vond/ur við aðra). Þegar þú hefur fundið nokkra slæma eiginleika sem þú hefur EKKI, þá finna andstæða orðið fyrir eiginleikana. T.d. ef þú ert EKKI óheiðarleg/ur, þá ertu heiðarleg/ur ! (Mundu að það er í lagi að nefna atriði sem þú sýnir ekkert endilega alltaf eða öllum stundum).
 10. Hvernig myndi nákomin manneskja lýsa þér?

Elva Björk Ágústsdóttir

Að standa með sjálfum sér

Anna stendur nálægt körfuboltavellinum í frímínútum. Hún horfir á bekkjarfélaga sína spila körfubolta og langar mikið að vera með. Anna er þó ekki viss um hvort bekkjarfélagar hennar munu leyfa henni að vera með eða hvort þeim muni líka það að hafa hana með. Hún fylgist döpur með leik krakkanna, hún er leið yfir því að vera skilin útundan. Í stað þess að taka áhættuna og kanna hvort hún megi vera með þá stendur hún kyrr, dag eftir dag, og fylgist með körfuboltaleik þeirra og sannfærist meira og meira um það að hún sé skilin útundan.

Lísa hefur einnig mikinn áhuga á körfubolta og langar mikið að vera með bekkjarfélögum sínum í leiknum. Hún, líkt og Anna, þorir ekki heldur að taka áhættuna og óttast það að fá ekki að vera með ef krakkarnir fá tækifæri til að segja nei. Í stað þess að standa hjá og fylgjast með eða spyrja kurteisislega hvort hún megi vera með, ryðst hún inn á völlinn og heimtar að fá að vera með.

Það sem þessar stúlkur eiga sameiginlegt er ósk þeirra um að vera með bekkjarfélögum sínum og fá samþykki þeirra. Hegðun þeirra er þó ólík, önnur virðist aðgerðalaus og óörugg meðan hin er í raun of ákveðin, jafnvel ýtin.

Börn sem ná að fara milliveginn í samskiptum, tjá sig en um leið virða skoðanir annarra, virðast ná betri árangri í samskiptum. Börn sem eru ákveðin eiga auðveldara með að standa með sjálfum sér. Þau tjá tilfinningar sínar, þarfir og skoðanir án þess að hunsa eða gera lítið úr skoðunum, tilfinningum eða þörfum annarra.

Börn með slæma sjálfsmynd eiga mörg hver í vanda með að vera ákveðin. Ótti við höfnun eða að líta illa út í augum annara hefur áhrif á getu þeirra til að vera ákveðin og að tjá skoðun sína, sérstaklega ef skoðun þeirra stangast á við skoðun annarra. Sum börn þurfa þjálfun í því að vera ákveðin. Mestu máli skiptir að hvetja börn til að tjá skoðanir sínar, tilfinningar og þarfir en um leið virða skoðanir, tilfinningar og þarfir annarra.

Barn sem lendir í þeirri aðstöðu að samnemandi heimtar að fá bókina sem barnið er að lesa getur tjáð sig á mismunandi hátt. Barn sem á erfitt með að tjá skoðanir sínar og er aðgerðalaust myndi eflaust segja eitthvað í þessum dúr: „þú mátt alveg fá bókina mína, ég þarf hana hvort sem er ekkert„. Barn sem er frekar ýtið og jafnvel árásargjarnt myndi kannski segja eitthvað eins og „ef þú tekur bókina þá lem ég þig„. Barn sem er ákveðið en um leið virðir óskir samnemanda síns gæti sagt eitthvað á þessa leið „Ég er að lesa þessa bók núna, en ég get lánað þér hana þegar ég er búin með hana“. Hér er barnið að nota svokallaða „ég“ setningu.

Að nota „ég“ setningar færir áhersluna á barnið sjálft, ekki samnemandann. Barn sem er ákveðið og vill lýsa óánægju sinni með hegðun samnemanda síns gæti sagt: „Ég varð reið þegar þú heimtaðir að fá bókina mína þar sem ég kem ekki svona illa fram við þig“ Með því að nota „ég“ setningar getur barnið lýst tilfinningum sínum og skoðunum án þess að dæma eða sýna óvirðingu.

Hægt er að þjálfa börn í að nota „ég“ setningar og lýsa tilfinningum sínum í stað þess að dæma aðra. Gott er að nota dæmi: Óli sagði kennaranum að Ari hefði svindlað á prófinu, sem hann gerði ekki. Fyrstu viðbrögð Ara voru að segja við Óla: „Þú ert ömurlegur og algjör lygari, ég svindlaði ekkert!!“ Í stað þess að dæma og nota „þú“ setningar gæti Ari notað „ég“ setningu með því að segja: „Mér leið mjög illa þegar ég frétti að þú sagðir kennaranum að ég svindlaði á prófinu þar sem ég myndi aldrei búa til svona lygasögu um þig“.

Foreldrar, ráðgjafar eða kennarar geta leiðbeint barninu og hvatt það til að tjá sig á hreinskilinn máta án þess að dæma eða sýna öðrum óvirðingu. Hægt er að þjálfa Önnu í góðum leiðum til að komast inn í leik skólasystkina sinna með því að æfa ýmsar góðar setningar til að segja við bekkjarfélagana. Sömuleiðis er hægt að þjálfa Lísu í jákvæðari leiðum til að komast inn í leikinn.

Elva Björk Ágústsdóttir

Heimildir:

Schab, L. M. (2009). Cool, Calm and confident: A workbook to help kids learn assertiveness skills.

Tartakovsky, M. (2012). Raising Assertive Kids. Psych Central. November 21, 2012, from http://psychcentral.com/lib/2012/raising-assertive-kids/

Að takast á við feimni, skref fyrir skref

Mikil feimni getur haft neikvæð áhrif á líf barna og unglinga. Feimni eða hlédrægni getur haft þau áhrif að barnið missir af mörgum dásamlegum hlutum. Feimið barn getur til að mynda misst af tækifæri til að taka þátt í skólaleikritinu eða að sýna sitt besta í upplestri í kennslustund. Talið er að feimni hafi verið gagnleg áður fyrr og geti jafnvel verið það ennþá þar sem hún leiðir til varkárni í samskiptum. Mikil breidd er í feimni og getur barn til dæmis fundið fyrir örlítilli feimni þegar það er meðal ókunnugra og verið öruggt heima hjá sér eða með vinum sínum. Önnur börn geta þó upplifað mun meiri feimni, verið mjög óörugg meðal fólks og jafnvel þjáðst af félagsfælni.

Oftast birtist feimni hjá ungum börnum með þeim hætti að barnið horfir ekki í augu annarra, talar lágt eða jafnvel ekkert og er niðurlútt. Barnið getur jafnvel
límt sig fast við einhver sem það þekkir. Barnið tjáir síður skoðanir sínar og langanir, miðað við önnur börn.

Feimin börn eiga það til að hafa of miklar áhyggjur af skoðun annarra. Mörg hver telja að mikilvægt sé að vera fullkomin í samskiptum og áhrif minnstu mismæla eða athugasemda eru mikluð. Í samskiptum við annað fólk eiga börnin það til að mikla fyrir sér mikilvægi eigin hegðunar og hugsa mun oftar um það neikvæða en það jákvæða í eigin fari þegar kemur að samskiptum.

Þar sem feimin börn eiga það til að upplifa vanlíðan í margmenni eða meðal ókunnugra eiga mörg þeirra það til að forðast félagsleg samskipti eða mannamót. Tækifærin til að öðlast betri félagsfærni minnkar þar sem þjálfunin í félagslegum samskiptum er minni.

Barn sem er feimið er eðli málsins samkvæmt ekki mikið fyrir að trana sér fram. Erfiðara getur því reynst að ná það besta úr barninu þar sem það forðast að láta ljós sitt skýna.

Hvernig getum við styrkt sjálfsmynd feiminna barna?

Í megin dráttum skiptir mestu máli að sýna barninu umhyggju en um leið festu og aga. Að vera góð fyrirmynd fyrir barnið í samskiptum skiptir einnig miklu máli. Þegar rætt er við barnið er mikilvægt að þrýsta ekki um of á það að barnið svari og  gefa barninu rúm og færi á að svara. Oft getur verið gott að byrja á léttum, lokuðum spurningum, þar sem barnið þarf einungis að svara t.d. hver eða hvar, já eða nei, í stað þess að koma með langa lýsingu á atburðum. Taka skal einnig tillit til annarra tjáskipta eins og handahreyfinga eða bendinga.

Ef barnið heyrir ítrekað að það sé feimið fer það sjáft að trúa því og nota það sem afsökun fyrir því að forðast margt. Gott er því að reyna af fremsta megnið að hvetja barnið til að prófa nýja hluti. Í sumum tilfellum þarf ekki nema eina jákvæða reynslu af því að fara út fyrir þægindarammann til að minnka feimnina.

Mikilvægt er að fara ekki of geyst af stað, lítil markmið og lítil skref í einu. Í því samhengi er best að byrja á aðstæðum þar sem feimnin er ekki mikil og jafnvel æfa athafnirnar fyrirfram t.d að biðja um aðstoð kennarans. Að gefa barninu tækifæri á að nálgast markmið sín skref fyrir skref er mikilvægt. Barn sem treystir sér ekki til að halda fyrirlestur fyrir samnemendur sína gæti til að mynda treyst sér til að taka fyrirlesturinn upp á myndbandið og kynna myndbandið fyrir samnemendum sínum. Með því að setja lítil markmið að stóra markmiðinu (t.d. að halda fyrirlestur fyrir framan samnemendur) og aðlaga verkefni og athafnir að barninu getur það skref fyrir skref, sigur eftir sigur, nálgast loka markmiði sitt. Æfing og þjálfun á atburðum eða aðstæðum sem barnið kvíðir getur virkað mjög vel og ýtt enn betur undir góðan árangur.

Gott er að hvetja barnið til að tala við aðra og hrósa barninu fyrir góð samskipti t.d. þegar barnið býður góðan daginn eða heilsar bekkjarfélaga sínum. Hægt er að æfa félagsfærnina markvisst t.d. æfa að heilsa, kveðja, biðja um hjálp, tala við ókunnuga, hrósa, spyrja eftir vinum. Oft þurfa börn sem eru feimin aðstoð við að mynda vinasambönd og hvatningu til að leika við önnur börn. Vinasambandið getur síðan styrkt félagsfærni barnsins.

Fyrir mörg börn getur vinna með tilfinningatjáningu skipt sköpum. Sum feimin börn eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar. Sjálfsmynd þeirra getur verið slæm og því mikilvægt að styrkja sjálfstraust þeirra. Til að mynda með því að fræða barnið um að það sé ekki eitt í heiminum, mörg önnur börn upplifa svipaða tilfinningu og barnið sjálft. Gott er að gefa barninu tækifæri til að uppgötva og sýna sínu sterku hliðar og auka sátt þess við sérkenni sín.

Elva Björk Ágústsdóttir

Heimildir:

Butt, M., Moosa, S., Ajmal, M. og Rahman, F. (2011).  Effects of shyness on the self esteem of 9th grade female students. International Journal of Business and Social Science. 2, 12.

Gréta Júlíusdóttir, Ásta Fr. Reynisdóttir, Hólmfríður B. Pétursdóttir.  (2005). Feimni: Er hægt að hjálpa börnum að yfirstíga þá hindrun sem feimnin er og þá hvernig? B.Ed ritgerð:Háskólans á Akureyri, Kennaradeild.

Jakob Smári, Félagsfælni. Persona.is (http://www.persona.is/index.php?action=articles&method=display&aid=13&pid=11)

Kolbrún Baldursdóttir. (2006). Feimni hjá börnum.  Uppeldi, 1, 19. árg.

Bea and Mr. Jones

Í síðasta pistli var fjallað um mikilvægi þess að feit börn þyki vænt um líkama sinn. Börn og unglingar sem ekki uppfylli skilyrðin um hinn „flotta“ líkama (grannar stelpur, stæltir strákar) fá ítrekað neikvæð skilaboð, bæði beint og óbeint. Dæmi um bein skilaboð er t.d. útlitsstríðni í skóla eða megrunarráð. Dæmi um óbein skilaboð er t.d. fitutal fullorðinna, hræðsla annarra við aukakíló og umræða um mikilvægi þess að vera án aukakílóa.

Sum börn eru frá náttúrunnar hendi feitari en önnur börn, líkt og sum börn eru frá náttúrunnar hendi hávaxin. Þessu getur verið nær ómögulegt að breyta og það bætir ekki úr ef barnið hefur óbeit á eigin líkamsvexti.

Til að styrkja barnið er mikilvægt að einblína á kosti þess og benda á að allir líkamar eru eðlilegir. Oft reynist vel að láta barnið finna flottar fyrirmyndir sem barnið líkist.

Börn fá sjaldan að heyra og sjá gleðilegar og ævintýralegar sögur um börn sem eru feit. Börn, alveg niður í leikskólaaldur, tengja feitt vaxtarlag við eitthvað neikvætt. Það viðhorf getur haft slæm áhrif á þau. Það er því mikilvægt að miðla sögum, myndum eða öðru skemmtilegu efni til barna sem sýna börn í öllum stærðum og gerðum.

Okkur langar því að benda áhugasömum, sem vinna með ung börn eða eiga ung börn, á þessa skemmtilegu bók sem fjallar um Bea og föður hennar. Bea er orðin leið á því að vera á leikskólanum sínum. Hún vill skipta um líf við pabba sinn og fá að mæta til vinnu í stað þess að vera á leikskólanum. Faðir hennar er einnig orðinn leiður á því að mæta til vinnu alla morgna og tekur því vel í hugmyndina og þau skipta um hlutverk. Það sem gerir þessa barnasögu skemmtilega og ólíka öðrum sögum er að bæði Bea og faðir hennar eru ekki grönn. Þau eru smá þétt og eru teiknuð þannig í raun af engri sérstakri ástæðu –  nema kannski af þeirri einu ástæðu, að börn sem eru feit sjái einstaka sinnum skemmtilegar og jákvæðar persónur í bókum eða myndum sem þau geta samsamað sig við.

http://www.amazon.com/Bea-Mr-Jones-Amy-Schwartz/dp/B0058M7QH0/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1350993933&sr=8-1&keywords=Bea+and+Mr.+Jones

Að hugsa eins og Fjóla :)

Fjóla Dögg Helgadóttir sálfræðingur hjá Oxford Háskóla skrifaði skemmtilegan pistil um daginn á bloggi sínu sem fjallar um kvíðameðferð (http://www.ai-therapy.com/blog/cbt-tip-think-like-leslie-knope-for-a-day-and-tell-us-about-it/). Pistilinn ber heitið: Hugsaðu eins og Leslie Knope í einn dag og segðu okkur svo frá því!

Í pistlinum segir hún frá því að margir hafa líkt henni við sjónvarpspersónuna Leslie Knope úr þáttunum Parks and Recreation sem leikonan Amy Poehler leikur. Leslie er jákvæður karakter, úrræðagóð, atorkusöm og dugleg. Ég þekki Fjólu persónulega og get staðfest það að þær Leslie eiga margt sameiginlegt 🙂

Seeing the world through other people‘s eyes eða að sjá heiminn með augum annarra er aðferð sem hægt er að nýta til að bæta líðan og sjálfsmynd.

Allir þekkja einhverja persónu, ýmist raunverulega eða ekki, sem hefur skemmtilega sýn á heiminn, er jákvæð, segir frá öllu því skemmtilega og áhugaverða sem hún lendir í og er sátt við lífið og tilveruna. En hve frábært væri það ef við gætum fengið hugsunarhátt þessarar persónu lánaðan í einn dag?

Að hugsa eins og einhver annar er ákveðin aðferð sem oft er notuð í hugrænni atferlismeðferð til að bæta líðan. Verkefni dagsins er því á þá leið að við finnum persónu (t.d. vin, ættingja, sjónvarpspersónu eða teiknimyndapersónu) sem hefur skemmtilega og jákvæða sýn á lífið. Finnum einhvern sem er almennt séð sáttur við lífið og tilveruna, hamingjusamur og líður vel. Reynum að fá hugsunarhátt viðkomandi lánaðan. Þegar við lendum í erfiðum, kvíðafullum eða leiðinlegum aðstæðum eða atburðum sem gera okkur t.d. reið, leið eða kvíðin þá ætlum við að reyna að hugsa eins og þessi tiltekna persóna. Hvaða sýn hefði hún á þennan atburð, hvaða hugsanir myndu koma fram í huga hennar?

Fjóla hvetur fólk til að prufa þessa aðferð og láta sig vita hvernig til tókst með því að senda email á fjola@ai-therapy.com.

Ég ætla persónulega að prufa að hugsa eins og Fjóla í einn dag! Reyna að lifa lífinu, sjá jákvæðar hliðar á flest öllu, vera orkumikil og sjá til þess að ég upplifi öll ævintýrin sem lífið hefur upp á að bjóða.

Elva Björk Ágústsdóttir

Mikilvægi reynslu og minninga til að bæta sjálfsálit

Lágt sjálfsálit er oft eitt af einkennum raskana eins og þunglyndis, átraskana og sumra persónuleikaraskana. Lágt sálfsálit getur spáð fyrir um bakslög og er áhættuþáttur hvað varðar sjálfskaða og sjálfsvígshegðun.

Í sumum meðferðarformum er ekki unnið sérstaklega með sjálfsálit heldur búist við að sjálfsmat batni samhliða því að önnur einkenni réni. Lágt sjálfsálit getur verið í formi hugsana um mann sjálfan, aðra og heiminn. Til dæmis „ég er misheppnuð“, „fólk dæmir mig“ og „heimurinn er slæmur“. Oft er unnið með slíkar hugsanaskekkjur í meðferð, sérstaklega í hugrænni atferlismeðferð og lærir fólk þá að þróa með sér rökréttari hugmyndir eins og „mér tekst margt sem ég geri“, „sumt fólk dæmir mig kannski “ og svo framvegis.

Ýmislegt bendir til að fleira þurfi til að virkilega breyta sjálfsálitinu. Það er grundvallaratriði fyrir þann sem hugsar á neikvæðan hátt um sjálfan sig að vita að hugsunin er ekki alsendis rétt. En þó fólk viti að það hafi ýmsa kosti og geti gert margt vel þá líður því oft ekki þannig þrátt fyrir allt. Það sem virðist vanta uppá er tilfinningin um að vera fær, duglegur, góður. „Ég veit ég er í grundvallaratriðum nokkuð góð en mér líður ekki þannig“. Það sem vantar er að finnast það. Þá komum við að kjarna málsins, reynslu og minningum. Minningum um að hafa gert sitt besta, tekist vel upp og þar fram eftir götum.

Öll erum við þannig gerð að okkur gengur stundum vel í því sem við erum að gera og stundum ekki eins vel eða jafnvel illa. Í huga þeirra sem hafa lágt sjálfsálit virðast minningar um slæmt gengi vera tiltækari en minningar um það sem hefur gengið vel. Hvað segir þetta okkur? Jú, það er mikilvægt fyrir alla að eiga minningar um að ráða vel við verkefni og að búa yfir styrkleikum sem nýtast í daglegum athöfnum. Því fleiri og sterkari sem þær minningar eru því líklegar er að þær verði tiltækari í huga okkar en minningar um slæmt gengi.

Að læra með því að gera er mikilvægt í þessu samhengi. Til að byggja upp gott sjálfsálit barna er því áríðandi að búa þeim umhverfi þar sem þau fá færi á að upplifað sig sem sterka einstaklinga sem geta og gera vel. Þannig er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem eiga hlutdeild að heimi barnsins hafi sem skýrustu mynd af getu, styrkleikum og áhuga barnsins og búi því tækifæri til að finna og upplifa sjálft að því takist vel til. Að sama skapi er mikilvægt að skoða hvort barnið lendi oft í því að ráða ekki við aðstæður, upplifi vanmátt og leitast við að fækka þeim tilfellum.

Öllum gengur stundum illa í einhverju. Það er mikilvægt að börn læri að það er eðlilegt að takast misvel upp og að það eigi við um okkur öll. Þegar börnunum okkar finnst þau ekki standa sig vel er mikilvægt að setja athygli á þá þætti sem vel hafa gengið, minna á það sem þau hafa gert vel í fortíðinni og stuðla að væntingum um tækifæri til að ganga vel á eftir, á morgun, í framtíðinni.

Anna Sigríður Jökulsdóttir

Heimildir: Kees Korrelboom, COMET for low self-esteem

6h.is

Heilsuvefurinn http://www.6H.is  er samstarfsverkefni  Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Barnaspítala Hringsins og Embætti landlæknis. Markmið með þessum heilsuvef er að útvega áreiðanlegar upplýsingar frá fagfólki um heilsutengda þætti fyrir börn, unglinga og foreldra. Sex hugtök sem byrja öll á H mynda umgjörð 6H heilsunnar þetta eru hugtökin: hollusta, hreyfing, hamingja, hugrekki, hvíld og hreinlæti. Sjöunda hugtakið sem er kynþroski hefur síðan skírskotun til tölustafsins 6. Að lokum eru slysavarnir og neytendaheilsa efnisflokkar sem ganga þvert á hina sjö efnisflokkana.  Við gerð fræðsluefnisins voru eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi:

 • Börnin átti sig á ákveðinni heildarmynd heilbrigðs lífsstíls:  6H heilsunnar
 • Skýr markmið sett fram með hverri fræðslu.
 • Áhersla á jákvæðar og styrkjandi leiðbeiningar.
 • Áhersla á gagnvirkan vef.
 • Áhersla á að þjóna hverjum markhópi fyrir sig, þ,e, börnum, unglingum og foreldrum.

 Á vefsíðunni má finna hagnýtar upplýsingar um sjálfsmynd. Þar má einnig finna nokkur skref í að styrkja sjálfsmyndina sem tengjast orðinu SJÁLF:

Skref til að styrkja sjálfsmyndina:

Sátt við sjálfa(n) þig

 • Það er enginn fullkominn og því skaltu ekki reyna að vera það. Gerðu frekar eins vel og þú telur þig geta og vertu sátt(ur) við það.
 • Lærðu á mistökum þínum. Viðukenndu að þú hafir gert mistök því allir gera mistök á lífsleiðinni. Þau eru hluti af þroska þínum.
 • Hugsaðu um hverju þú getur breytt og hverju ekki. Ef þú vilt breyta einhverju, byrjaðu þá strax. En ef það er eitthvað sem þú getur ekki breytt (t.d. hæð þín), sættu þig þá við það og lærðu að meta það.  

Jákvæð hugsun

 • Hugsaðu jákvætt um sjálfa(n) þig. Ef þú finnur fyrir neikvæðum hugsunum um sjálfa(n) þig reyndu þá meðvitað að stoppa það t.d. með því að segja eitthvað jákvætt upphátt. Einnig er gott ráð að skrifa niður 3 jákvæð atriði um þig á hverjum degi.

Ánægja með lífið

 • Prófaðu nýja hluti, þú gætir fundið dulda hæfileika.
 • Hafðu trú á þér og skoðunum þínum. Láttu ljós þitt skína.
 • Skemmtu þér. Njóttu þess að vera með vinum þínum og fjölskyldu. Ekki bíða eftir að hlutirnir gerist, hafðu frumkvæði á samskiptum. 

Láttu vita ef þér líður illa

 • Leitaðu til þeirra sem þér þykir vænt um, það er oft gott að tala við einhvern.
 • Vertu hjálpsamur við vini og fjölskyldu. Vinsemd og hjálpsemi í garð annarra styrkir sjálfsmynd þína.

Finndu styrkleika þína og þekktu veikleika þína

 • Allir hafa einhverja styrkleika. Þú þarft að finna þína og mundu að hæfileikarnir styrkjast og þróast með þér.
 • Hugsaðu um styrkleika þína og láttu drauma þína rætast. 
 • Settu þér markmið og hvernig þú ætlar að ná þeim. Reyndu að halda þeim markmiðum sem þú setur þér.

  Mundu að það er aldrei of seint að styrkja sjálfsmyndina.
  Sterk sjálfmynd er lykill að góðri og gæfuríkri framtíð.

 Við hvetjum alla til að kynna sér vefsíðuna www.6h.is
 
 

Væntingar og kröfur til barna

Gunnar komst ekki í úrslit í langstökki eins og hann ætlaði sér, Kristín fékk ekki nema fjóra á samræmdum prófum í stærðfræði og Jóhann, leikarasonurinn, var ekki valinn í stórt hlutverk í skólaleikritinu. Þetta geta allt verið dæmi um frammistöðu sem er verri en lagt var upp með, því getur fylgt vonbrigði bæði hjá börnunum sjálfum og foreldrum þeirra.

Copyright (c) <a href='http://www.123rf.com'>123RF Stock Photos</a>

Copyright (c) 123RF Stock Photos

Foreldrar vilja að sjálfsögðu að börnum þeirra vegni vel í því sem þau taka sér fyrir hendur og að hæfileikar þeirra og styrkleikar fái notið sín. Oft eru foreldrar með ákveðnar væntingar og hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að ganga, hvort sem um ræðir árangur í skóla og tómstundum eða um hegðun frá degi til dags. Þegar frammistaða er síðan ekki í samræmi við væntingar getur það reynst foreldrum erfitt.

Ef börn hinsvegar upplifa oft að þau geti ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra getur það leitt til uppgjafar og neikvæðrar sjálfsmyndar.  Þegar barn hefur nokkrum sinnum lagt sig allt fram um að standa sig og uppfylla væntingar foreldra sinna (eða kennara) en ekki tekist það, getur það komist að þeirri niðurstöðu að það skipti engu hvað það reyni, það getur aldrei uppfyllt kröfurnar og því gagnslaust að reyna. Þannig  geta óraunhæfar væntingar valdið vítahring þar sem barnið hættir að leggja sig fram, árangurinn verður verri en ella og foreldrar missa jafnvel trúnna á barnið.

Við það verður til annað vandamál eða –  of litlar væntingar og kröfur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að foreldrar og aðrir umönnunaraðilar hafi trú á þeim, geri kröfur og vænti góðrar frammistöðu. Slíkt stuðlar að bættum árangri og betri sjálfsmynd. Þegar börn upplifa að fullorðnir hafa trú á að þau geti eitthvað eru meiri líkur á að þau leggi sig fram. Kennarar sem hafa trú á getu nemenda sinna ná til dæmis fram betri námsárangri en þeir sem ekki hafa þá trú.

Hinn gullni meðalvegur getur verið vandrataður í þessu eins og öðru. En um leið og við reynum að vera raunsæ en jafnframt bjartsýn er gott að hafa í huga þroska og getu barnsins og hvaða framförum það hefur áður náð.  Þegar árangur hjá börnum er metinn þarf fyrst og fremst að hafa í huga fyrri getu þess og hvort framfarir hafi orðið, en forðast að bera frammistöðu saman við frammistöðu annarra barna, óháð því hvort barnið kemur vel eða illa út úr þeim samanburði.

Börn eru einnig líklegri til að leggja sig meira fram ef þau setja sér sjálf markmið. Því getur verið gott fyrir fullorðna að aðstoða börn við að orða sjálf markmið sín og að hafa þau raunhæf og skýr. Börn eiga sér oft stóra og háleita drauma og er engin ástæða til að gera lítið úr þeim (þrátt fyrir að foreldrum kunni að þykja þeir óraunhæfir) það sem skiptir máli er að aðstoða barnið við að stefna í rétta átt, gleðjast yfir öllum framförum og gera sér grein fyrir að mörg lítil og raunhæf markmið er leiðin að stórum draumum. Auk þess sem miklvægt er að aðstoða börn við að taka eftir framförum sínum þarf einnig að kenna þeim að taka mistökum. Sjá mistök sem tækifæri til að læra, til dæmis hvað maður getur gert öðruvísi næst og sem eðlilegan hluta af mannlegri hegðun.

Það er gott að hræðast ekki mistök um of og hafa áhuga á að ná árangri. Það byggir upp sterka sjálfsmynd hjá börnum að ná markmiðum sínum og finna að foreldrar þeirra taki eftir og kunni að meta árangurinn, en séu ekki miður sín eða í uppnámi yfir því að þau hafi ekki gert enn betur.

María Hrönn Nikulásdóttir

Að læra að leysa vanda sjálf

Í pistlinum um mótlæti barna kom fram hve mikilvægt það er að gefa börnum tækifæri til að leysa vanda sjálf.

Hér má finna hagnýta og skemmtilega aðferð til að þjálfa börn og unglinga í að leysa vanda sjálf.

Getty Images

Getty Images

Aðferðin felur í sér fjögur þrep í að leysa vanda. Þrepin eiga að þjóna því hlutverki að fá viðkomandi til að hinkra við og hugsa málið áður en hann fer í hnút. Einnig þjóna þrepin því hlutverki að þeir fullorðnu hinkri við og velti fyrir sér ólíkum hliðum málsins áður en þeir byrja á að ávíta, skammast, rífast sem kemur börnum þeirra oft einungis í varnarstöðu. Með þessari aðferð fá börnin einnig tækifæri til að skoða málin í víðara samhengi í stað þess að einblína einungis á eigin afstöðu. Í samræðunum við börnin er mikilvægt að taka vel á móti hugmyndum þeirra, dæma ekki svör þeirra sem rétt eða röng.

Þegar börn hafa fengið þjálfun í að fylgja þrepunum með því að leysa ímyndaðan vanda úr klípusögum eiga þau auðveldara með að fylgja þrepunum þegar upp kemur vandi hjá þeim sjálfum. Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um þessi þrep til að leiðbeina börnunum þegar upp kemur vandi í stað þess að leysa vandann fyrir þau.

Að leysa vanda

Að leysa vanda pdf skjal

Heimildir:

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Árný Elíasdóttir (2008). Samvera: Verum Vinir.  Reykjavík:Námsgagnastofnun.

Sigrún Aðalbjarnardóttir (2007). Virðing og umhyggja. Ákall 21. aldar.  Reykjavík:Heimskringla

Elva Björk Ágústsdóttir