“Glæsilegt hjá þér! Þú ert búinn að baka stóran stafla af vöfflum án nokkurrar hjálpar. Þetta geta nú ekki öll 10 ára börn.” Mamma hans Atla hafði hvatt hann til að reyna að baka vöfflur þar sem von var á gestum í heimsókn. Gestirnir fengu síðan aldeilis að heyra að vöfflurnar væru bakaðar af Atla sem var nokkuð hróðugur með árangurinn.
Að búa til sigra fyrir börn, eins og móðir Atla gerði í framangreindu tilviki er mikilvægt til þess að stuðla að jákvæðu sjálfsmati hjá börnum. Að takast reglulega á við nýjar áskoranir og standast þær, eflir trú á eigin getu, þrautseigju og vilja til þess að takast á við verkefni sem mæta viðkomandi í daglegu lífi. Sérstaklega mikilvægt er að huga að þessu fyrir börn sem standa að einhverju leyti höllum fæti í námi, íþróttum eða félagslega.
Börn með lágt sjálfsmat eiga það til að vera verklítil, koma sér undan áskorunum og fá því síður staðfestingu á því að þeim takist oft og tíðum vel upp. Þannig verður til vítahringur sem viðheldur neikvæðri sýn á eigin getu.
Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barna geta gert margt til þess að stuðla að sigrum hjá börnum. Til dæmis er hægt að fá þeim ýmis konar verkefni sem þau hafa ekki leyst áður eins og að mála, pakka inn gjöfum, skreyta jólatré, elda mat, hringja í verslun og spyrjast fyrir um afgreiðslutíma, eiga viðskipti í verslun án aðstoðar og klæða yngri systkini í föt, allt eftir aldri og þroska barnsins. Best er að verkefnin séu viðráðanleg en þó þannig að ekki sé algjörlega sjálfgefið að vel takist til.
Tímataka er einnig gagnleg til þess að búa til sigra. Hana má nota fyrir margs konar færni til að sýna fram á framfarir og bætingu. Hægt er að taka tímann á því hversu lengi barn er að lesa eina blaðsíðu, hlaupa eða hjóla einn hring í nágrenninu, fara með margföldunartöfluna, klæða sig í föt (fyrir þau yngstu), púsla, byggja kastala, halda fótbolta á lofti eða gera annað sem fólki dettur í hug.
Fyrir kvíðin börn er einnig mikilvægt að sigrast á ótta sem er til staðar eins og feimni, vatnshræðsla eða myrkfælni.
Það getur verið sigur fyrir sum börn að spyrja eftir nýjum félaga, fara í rennibrautina í sundlauginni, vera ein heima í stutta stund eða vera í sama herbergi og kónguló í fimm mínútur.
Í öllum tilvikum skiptir miklu máli að gera mikið úr árangri og fagna hverjum sigri. Benda börnum á hverju þau hafa áorkað og hvað það segir um þau þ.e. að þau séu dugleg, hugrökk, hugmyndarík, úrræðagóð eða hæfileikarík.
Hrós eitt og sér dugar ekki til að viðhalda sterkri sjálfsmynd ef börn finna það ekki á eigin skinni að þau ráði við hlutina.
María Hrönn Nikulásdóttir