Greinasafn fyrir merki: sjálfstraust

„Ég er frábær“ aðferðin

Klukkan er sjö að morgni. Guðrún, sem hefur fundið fyrir minnkandi sjálfstrausti, stendur fyrir framan spegilinn og segir „Ég frábær stelpa“.  Svona hefur hún byrjað alla daga í meira en þrjár vikur eftir að hafa fengið þessar ráðleggingar hjá umhyggjusamri frænku.

Image

Sjálfstraustið hefur þó látið á sér standa. Guðrún er ennþá að brotna saman einkum þegar henni gengur illa í skólanum og þegar krakkar í skólanum segja leiðinlega hluti við hana. Þá á hún það til að brjóta sig niður og staðhæfa að hún sé heimsk og leiðinleg.

Guðrún er í eðli sínu hvatvís og á það til að gera og segja hluti sem hún sér eftir. Með aldrinum hefur hún farið að taka þessi mistök mjög nærri sér. Veltir sér upp úr þeim og telur þau til marks um að hún sé ómerkileg, leiðinleg eða heimsk. Flestir sem þekkja Guðrúnu vita hinsvegar að hún er góð, skemmtileg, fyndin, ákveðin, hugulsöm og hæfileikarík stelpa, auk þess að vera lykilleikmaður í fótboltaliðinu sem hún æfir með. Hún er hinsvegar ekki, frekar en við hin, gallalaus eða þannig að öllum líki vel við hana.

Það má velta fyrir sér afhverju sjálfsstyrkingaraðferð Guðrúnar er ekki að virka – að hamra á því við sjáfa sig að hún sé frábær. Ástæðuna má líklega rekja til þess að það er erfitt fyrir Guðrúnu að halda í þessa hugmynd þegar henni verður á, hún nær ekki markmiðum sínum eða er hafnað af félögum. Sú reynslafer ekki saman við þá hugmynd hennar um að vera frábær manneskja. Annað veldur því einnig að aðferðin styrkir ekki sjálfsmynd hennar: Hún hefur óljósa hugmynd um hvað felst í staðhæfingunni og tilgreinir ekki ástæður fyrir því að hún sjálf sé frábær.

Til þess að sjálfsmynd Guðrúnar batni þarf hún að átta sig á því að hún hefur fjölmarga kosti og styrkleika sem margir vildu gjarnan búa yfir og  sætta sig við að vera ófullkomin manneskja sem gerir mistök eins og allir aðrir. Þá verður hún sáttari í eigin skinni og brotnar síður niður við minnstu mistök og óþægilegar uppákomur. 

Það er á brattann að sækja fyrir börn og unglinga með lítið sjálfstraust að ætla að telja sér trú um að þau séu frábær. Líklegra til árangurs er að aðstoða þau við að taka eftir og læra að meta styrkleika sína og kosti sem þau sannanlega hafa, ásamt því að sættast við veikleika sína og annmarka. Börn með slaka sjálfsmynd þurfa fyrst og fremst að komast á þann stað að upplifa sig engu verri né minna virði en önnur börn. Raunsætt mat á styrkleikum (með áherslu á hvað þau geta frekar en hvað þau geta ekki) er því vænlegra til árangurs en óraunsæ glansmynd af eigin ágæti sem heldur ekki vatni í mótlæti hversdagsins.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

 

 

 

Sumargjöf frá skólanum – jákvæð umsögn, hrós

Þuríður Lilja námsráðgjafi í Oddeyraskóla á Akureyri sendi okkur þessa skemmtilegu hugmynd að hrósleik sem þau í skólanum hafa framkvæmt:

Í kringum sumardaginn fyrsta fá allir nemendur sendingu í pósti frá skólanum. Það er fallegt, plasthúðað skjal þar sem lögð er áhersla á að draga fram jákvæða og sterka þætti hjá hverjum einstaklingi. Nafn viðkomandi er haft upp á töflu eða mynd af honum í einn dag þar sem hrós eða falleg orð bekkjarsystkina eru skráð og kennarinn heldur utan um það. Þessar kveðjur geta verið með ýmsu móti, bæði frá umsjónarkennara, starfsfólki eða bekkjarsystkinum allt í bland og mismunandi hvað skjalið er stórt fer t.d. eftir aldri barnsins hvað á við, unglingum getur t.d. hentað að hafa það í kortastærð þar sem hægt er að hafa umsögnina í kortaveskinu hjá símanum osfrv.
Einnig hefur komið fyrir að stjórnendur hafi gert slíkt hið sama við starfsfólk sitt þ.e. sent heim til þeirra skjal þar sem þeir nefna styrkleika viðkomandi, sem er mjög ánægjulegt.

umslag

Fjársjóðsleitin – sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi

Fjársjóðsleitin – sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi hefst í mars á vegum Klifsins, fræðsluseturs í Garðabæ.

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi þar sem þeir leita að sínum innri fjársjóði og styrkleikum. Námskeiðinu er ætlað að styrkja sjálfsmynd barna og bæta líðan þeirra og velferð.

Markmið námskeiðsins: Að styrkja sjálfsmynd drengja sem gætu notið góðs af því að finna sína eigin styrkleika.

Námskeiðið skiptist í fjóra tíma þar sem strákarnir hittast og hafa gaman saman. Farið er í leiki og verkefni unnin sem styrkja sjálfsmyndina.

Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema þar sem strákarnir eru í fjársjóðsleit. Fjársjóðsleitin táknar leit þeirra að eigin styrkleikum. Undir lok námskeiðisins er markmiðið að bjóða foreldum að koma og sjá afraksturinn.  Námskeiðið byggir á aðferðum úr hugrænni atferlisfræði.

Nánar hér:

http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=219&Itemid=146

 

Góða skemmtun!

Í heimi þar sem góð frammistaða, keppnir og verðlaun eru mikils metin getur kvíði fyrir slakri frammistöðu og mistökum gert vart við sig hjá börnum. Frammistöðuótti, til dæmis gagnvart íþróttakeppnum, prófum eða sviðsframkomu, getur valdið mikilli vanlíðan og haft slæm áhrif á frammistöðu.

Börn búa við skilaboð úr öllum áttum um að mikilvægt sé að standa sig vel – skilaboðin koma úr fjölmiðlum, skóla, tómstundum og heimili. Þeim sem standa sig best er hampað en ekki hinum. Foreldrar hafa oft, með velferð barna sinna í huga, mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir ganga, gefa börnum sínum heilræði og óska þeim góðs gengis fyrir skóladaginn, æfingar og keppnir. Í orðunum „gangi þér vel“ felst þó ákveðin pressa (þó þau séu sett fram sem hvatning og stuðningur). Þetta er ósk foreldranna um að hlutirnir gangi vel hjá barninu, til dæmis á íþróttamóti, en hlutirnir ganga ekki alltaf vel og enginn gerir sitt allra besta alltaf.  Þegar heim er komið mætir börnunum svo gjarnan spurningin „hvernig gekk?“ og ef svarið er „ekki vel“ fá þau hugsanlega viðbrögð eins og „jæja, það gengur  bara betur næst“ – og þá er strax komin pressa fyrir næstu tilraun.

Börn hafa flest hver langa daga og mörg hver jafnvel lengri „vinnudaga” en fullorðið fólk sem vinnur fulla vinnu. Skóli og frístund alla virka daga og auk þess eru hjá flestum tómstundir og íþróttir oft í viku. Síðan er heimanám og oft og tíðum einhverjar skyldur á heimili. Með alla þessa dagskrá getur verið íþyngjandi að þurfa stöðugt að sýna góða frammistöðu og hafa áhyggjur af því að ekki takist vel upp.

Það er því mikilvægt að foreldrar, kennarar og þjálfarar hjálpi börnum að njóta og hafa gaman að því sem þau taka sér fyrir hendur en einblíni ekki á frammistöðu og árangur. Það er ekkert að því og yfirleitt jákvætt merki að börn vilji bæta sig og standa sig vel í því sem þau fást við – en eingöngu upp að vissu marki. Það er ekki jákvætt eða gott fyrir sálartetrið að trúa því að ekkert geti verið skemmtilegt nema að þú sért góður í því.mynd

Töpum því ekki gleðinni, höfum áhuga á skemmtanagildi þess sem börnin okkar fást við. Hvetjum þau til að njóta hlutanna óháð frammistöðu. Það getum við til dæmis gert með því að hvíla hvatninguna „gangi þér vel“ og nota þess í stað setninguna „góða skemmtun!“ áður en barnið tekst á við eitthvað þar sem óvíst er um frammistöðu.

María Hrönn Nikulásdóttir

Ævisagan mín – Gagnlegt verkefni með börnum

Ævisagan mín er skemmtilegt og um leið gagnlegt verkefni sem hægt er að grípa í þegar unnið er með börnum. Verkefnið getur virkað vel til að styrkja samband ráðgjafans/kennara og barns eða jafnvel sem hluti af ráðgjöf/meðferð. Verkefnið er líka skemmtilegt að vinna með foreldum eða eldri systkinum.

Ævisagan mín getur gefið öðrum góða sýn á hugmyndir, líðan og framtíðardrauma barnsins. Verkefnið er hluti af verkefnabók um hugræna atferlismeðferð fyrir börn. Höfundur verkefnabókarinnar er Dr Gary O’Reilly sem sér um doktorsnám í klíníski sálfræði við UCD (University College Dublin).

Ævisagan mín

 

Stríðni vegna holdafars

Ég er námsráðgjafi í grunnskóla. Í skólanum koma oft upp mál er varða til dæmis líðan nemenda, félagstengsl, stríðni og nám. Nýlega vann ég verkefni  í tengslum við stríðni vegna útlits sem mig langar að deila með ykkur.

Kennari hafði áhyggjur af stríðni nokkurra nemenda vegna holdafars eins skólafélaga. Stríðnin virtist hafa slæm áhrif á líðan allra sem að málinu komu. Kennarinn óskaði því eftir aðstoð minni og vildi stöðva stríðnina og um leið bæta líðan og líkamsmynd nemenda.

Við fórum af stað með verkefni og fræðslu í bekknum. Nemendur áttu að velta fyrir sér kostum við mismunandi útlit. Ákveðið útlit var tekið fyrir í einu og kostir eða jákvæðir eiginleikar þess útlits kortlagðir til að mynda  kostir þess að vera hávaxinn, lágvaxinn, grannur eða feitur. Þegar nemendur voru búnir að confident kids logonefna marga jákvæða eiginleika eða kosti áttu þeir að nefna fyrirmyndir sem pössuðu inn í hvern flokk. Sem dæmi má nefna það að ef nemendur nefndu að þeir sem væru hávaxnir gætu orðið góðir í körfubolta hentaði vel að nefna góðan körfuboltaleikmann sem fyrirmynd.

Dæmi um verkefni nemenda:

Hávaxinn

Lágvaxinn

Grannur

Feitur

Kostir:

Góður í körfubolta

Góður í fótbolta

Góður í handbolta

Góður í marki

Getur hjálpað öðrum t.d. náð í hluti sem eru hátt uppi

Góður í frjálsum íþróttum

Sterkur

Sér vel á tónleikum

Góður leikari

Góður söngvari

Kostir:

Góður í dansi

Góður í fimleikum

Getur falið sig vel í feluleik

Góður í handbolta

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í ballet

Góður söngvari

Góður leikari

Liðugur

Góð barnapía

Kostir:

Góður í fimleikum

Góður í ballet

Góður í karate

Kemst á milli þröngra staða

Góður í að fela sig í feluleik

Góður í frjálsum íþróttum

Liðugur

Góður í jazzballet

Lipur

Góður söngvari

Góður leikari

Kostir:

Sterkur

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í handbolta

Góður í glímu

Góður í karate

Góður söngvari

Góður leikari

Góður í lyftingum

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í júdó

Góður í boxi

Góður í Taekwondo

Fyrirmyndir:

Ólafur Stefánsson

Nicole Kidman

Uma Thurman

Jón Arnór Stefánsson

Liv Tyler

 

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Bjarki Sigurðsson

Gróttu stelpurnar

Tom Cruise

Johnny Galecki

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Gróttu stelpurnar

Karate Kid

Kári Steinn

Selena Gomez

Fyrirmyndir:

Adele

Ólafur Darri

Margir júdómenn

Auðunn Jóns.

Christina Aguilera

Lauren í Glee

Út frá verkefninu urðu skemmtilegar umræður. Til að mynda fannst nemendum áhugavert að sjá hve marga góða kosti útlitin áttu sameiginleg t.d. að vera góður í frjálsum íþróttum. Nemendur nefndu að það vera feitur eða grannur hafði lítið um það að segja hvort viðkomandi gæti orðið góður í frjálsum íþróttum. Nemendur voru líka allir meðvitaðir um það að allar tegundir útlits ættu að þykja eðlilegar og fallegar þar sem við fæðumst ólík. Sumir eru dökkhærðir, aðrir ljóshærðir, sumir verða hávaxnir meðan aðrir verða lágvaxnir. Þetta er ómögulegt að breyta og eitthvað sem enginn ætti að stríða öðrum vegna. Nemendur voru sammála um að það sama á við þegar kemur að holdafari.

Ég vil hvetja alla kennara til að prófa verkefnið. Það stuðlar að umræðu meðal nemenda um kosti hvers og eins. Um leið hvetur verkefnið nemendur sem og okkur starfsmenn skólanna til að fagna fjölbreytileikanum.

Elva Björk Ágústsdóttir. Námsráðgjafi/MS í sálfræði

Hjálpum börnum að upplifa sigra

“Glæsilegt hjá þér! Þú ert búinn að baka stóran stafla af vöfflum án nokkurrar hjálpar. Þetta geta nú ekki öll 10 ára börn.” Mamma hans Atla hafði hvatt hann til að reyna að baka vöfflur þar sem von var á gestum í heimsókn. Gestirnir fengu síðan aldeilis að heyra að vöfflurnar væru bakaðar af Atla sem var nokkuð hróðugur með árangurinn.

Að búa til sigra fyrir börn, eins og móðir Atla gerði í framangreindu tilviki er mikilvægt til þess að stuðla að jákvæðu sjálfsmati hjá börnum. Að takast reglulega á við nýjar áskoranir og standast þær, eflir trú á eigin getu, þrautseigju og vilja til þess að takast á við verkefni sem mæta viðkomandi í daglegu lífi. Sérstaklega mikilvægt er að huga að þessu fyrir börn sem standa að einhverju leyti höllum fæti í námi, íþróttum eða félagslega.

Börn með lágt sjálfsmat eiga það til að vera verklítil, koma sér undan áskorunum og fá því síður staðfestingu á því að þeim takist oft og tíðum vel upp. Þannig verður til vítahringur sem viðheldur neikvæðri sýn á eigin getu.

Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barna geta gert margt til þess að stuðla að sigrum hjá börnum. Til dæmis er hægt að fá þeim ýmis konar verkefni sem þau hafa ekki leyst áður eins og að mála, pakka inn gjöfum, skreyta jólatré, elda mat, hringja í verslun og spyrjast fyrir um afgreiðslutíma,  eiga viðskipti í verslun án aðstoðar og klæða yngri systkini í föt,  allt eftir aldri og þroska barnsins. Best er að verkefnin séu viðráðanleg en þó þannig að ekki sé algjörlega sjálfgefið að vel takist til.

Tímataka er einnig gagnleg til þess að búa til sigra. Hana má nota fyrir margs konar færni til að sýna fram á framfarir og bætingu. Hægt er að taka tímann á því hversu lengi barn er að lesa eina blaðsíðu, hlaupa eða hjóla einn hring í nágrenninu, fara með margföldunartöfluna, klæða sig í föt (fyrir þau yngstu), púsla, byggja kastala, halda fótbolta á lofti eða gera annað sem fólki dettur í hug.

Hani Amir

Hani Amir

Fyrir kvíðin börn er einnig mikilvægt að sigrast á ótta sem er til staðar eins og feimni, vatnshræðsla eða myrkfælni.

Það getur verið sigur fyrir sum börn að spyrja eftir nýjum félaga, fara í rennibrautina í sundlauginni, vera ein heima í stutta stund eða vera í sama herbergi og kónguló í fimm mínútur.

Í öllum tilvikum skiptir miklu máli að gera mikið úr árangri og fagna hverjum sigri. Benda börnum á hverju þau hafa áorkað og hvað það segir um þau þ.e. að þau séu dugleg, hugrökk, hugmyndarík, úrræðagóð eða hæfileikarík.

Hrós eitt og sér dugar ekki til að viðhalda sterkri sjálfsmynd ef börn finna það ekki á eigin skinni að þau ráði við hlutina.

María Hrönn Nikulásdóttir

Að læra að meta eiginleika sína

Margir eiga erfitt með að finna jákvæða eiginleika hjá sjálfum sér. Enn fleiri eiga erfitt með að viðurkenna eitthvað jákvætt um sjálfa sig, oft vegna hræðslu um að einhver mótmæli. Einnig óttast sumir það að teljast vera „egoistar“ eða góðir með sig ef þeir tala vel um sjálfa sig.

En það er ekkert endilega samasem merki á milli þess að vera sáttur við sjálfan sig og að vera góður með sig. Rétt sýn á sjálfan sig, bæði þegar kemur að veikleikum og styrkleikum er stór partur af góðu sjálfstrausti. Að hunsa alla jákvæðu eiginleika sína viðheldur aftur á móti slæmu sjálfstrausti.

Sumir eiga mjög auðvelt með að finna jákvæða eiginleika við sjálfa sig. Aðrir geta átt í miklum vanda með það. Í þeim tilvikum getur virkað að leita til náins vinar eða foreldra og kortleggja jákvæðu eiginleikana í samvinnu við aðra. Margir eiga í vanda með að finna styrkleika sína vegna þess þeir eru vanir því að hunsa þá og hugsa frekar um allt það sem miður fer.

Til að brjótast úr viðjum vanans er gott að gera eftirfarandi verkefni:

 • Skrifaðu á blað alla styrkleika þína með því að fylgja neðangreindum positivespurningum:
 1. Hvaða eiginleika hjá sjálfum þér líkar þér vel við? Finndu bæði lítil og stór atriði.
 2. Hvaða jákvæðu eiginleika hefurðu? Nefndu líka eiginleika sem þú sýnir stundum, ekkert endilega alltaf. Vertu sátt/ur við að hafa þann eiginleika í stað þess að hunsa hann alveg þar sem þú sýnir hann ekki fullkomlega alltaf (t.d. ég hjálpa öðrum oft, en ekki alltaf, þannig ég tel mig vera hjálpsama).
 3. Hvaða árangri hefurðu náð í lífinu (stórum og smáum)? Þetta þarf alls ekki að vera einhverjir stórir áfangar eins og að vinna Ólympíu leikana. Vertu sátt/ur við litlu áfangana lífinu líka.
 4. Hvaða erfiðleika hefurðu komist yfir? Hefur þú einhvern tímann þurft að leysa erfitt vandamál, hefur þú þurft að komast yfir einhverja hræðslu? Mundu að það er jákvæður eiginleiki að geta leyst vanda eða að geta unnið á vanda sínum.
 5. Hvaða hæfileika hefurðu? Hvað gerir þú vel? (athugaðu að hér stendur vel, en ekki fullkomlega). Mundu eftir því að nefna litlu atriðin líka og það sem þú gerir oft vel, en ekki endilega alltaf. Þú þarft ekki að vera Beethoven eða Einstein til að teljast vera með hæfileika. Að vera góður í að sjóða egg á unglingsárum eða koma öðrum til að hlæja á alveg heima á lista þínum.
 6. Hvaða færni hefurðu öðlast? Finndu atriði sem þú hefur lært t.d. kanntu að sauma, ertu flink/ur í tölvum? Ertu góð/ur í íþróttum, ensku eða að hlusta á aðra?
 7. Hvað heldur þú að öðrum líki vel við í þínu fari eða telja góða eiginleikar við þig? Hugsaðu t.d. um atvik þar sem einhver þakkaði þér fyrir eitthvað t.d. ef þú aðstoðaðir einhvern. Hefurðu fengið hrós? Fyrir hvað? Kannski ertu ekki dugleg/ur að taka eftir hrósi. Þá er kominn tími til að taka betur eftir og trúa hrósum!
 8. Hvaða eiginleika í öðrum líkar þér? Hefur þú einhverra þessara eiginleika sjálf/ur?  Stundum er auðveldara að sjá jákvæða eiginleika í öðrum en hjá sjálfum sér. Finndu jákvæða eiginleika annarra og íhugaðu hvort þú sjálf/ur hefur sömu eiginleika. Ekki festast í ósanngjörnum samanburði. Ef vinur þinn er bestur í fótboltaliðinu og þú ert ágæt/ur, þá skaltu nefna það. Þú þarft ekki að vera bestur í einhverju til að teljast hafa jákvæðan eiginleika. Þetta gæti verið jákvæður eiginleiki sem þú og vinur þinn eigið sameiginlega, þótt þið séuð missterk á sviðinu.
 9. Hvaða neikvæðu eða slæmu eiginleika hefur þú EKKI? Stundum getur verið erfitt að finna jákvæða eða góða eiginleika við sjálfan sig. Gott er því að hugsa um hvaða slæmu eiginleika þú ert EKKI með (t.d. ég er ekki óheiðarleg/ur, ég er ekki vond/ur við aðra). Þegar þú hefur fundið nokkra slæma eiginleika sem þú hefur EKKI, þá finna andstæða orðið fyrir eiginleikana. T.d. ef þú ert EKKI óheiðarleg/ur, þá ertu heiðarleg/ur ! (Mundu að það er í lagi að nefna atriði sem þú sýnir ekkert endilega alltaf eða öllum stundum).
 10. Hvernig myndi nákomin manneskja lýsa þér?

Elva Björk Ágústsdóttir

Að sættast við sjálfan sig

Margir eiga það til að tengja gott sjálfstraust eða góða sjálfsmynd við ákveðið útlit, vinsældir, líkamsvöxt eða það að hafa náð merkilegum árangri. Margir telja þessa þætti skipta miklu máli þegar kemur að því að byggja upp gott sjálfstraust.

En þetta þarf ekki að vera svona flókið, við þurfum ekki að vera með hinn fullkomna líkama, fallegt hár eða vera með doktorsgráðu til að vera með gott sjálfstraust. Gott sjálfstraust felst í rauninni í því að kunna að meta sjálfan sig eins og maður er, með þeim kostum og göllum sem maður hefur. Munurinn á þeim sem eru með gott sjálfstraust og þeim sem eru með lítið sjálfstraust er ekki  geta eða hæfileiki, heldur þekkingin sem viðkomandi hefur á styrkleikum sínum og veikleikum og hve sáttur hann er við sína eiginleika, lífið og tilveruna.

Það sem einkennir oft fólk með góða sjálfsmynd er hversu fært það er í því að vera sátt við sjálft sig, hve vel það kann að meta eiginleika sína og afrek. Fólk með góða sjálfsmynd er þó einnig meðvitað um að það er ekki fullkomið og hafi ýmsa veikleika en leyfa ekki veikleikum sínum eða göllum að skipa stóran sess í lífi þeirra eða sjálfsmynd.

Þegar unnið er í því að bæta sjálfsmyndina getur sjálfskoðun verið góður upphafspunktur. Að þekkja eigin óraunhæfar hugsanir og hugsanavillur er mikilvægt. Margir með lítið sjálfstraust eiga það til að hugsa: „ég er ömurlegur, ég get ekkert, ég er slæm manneskja“ og fleira í þeim dúr. Að átta sig á svona hugsunum og reyna að vinna með þær er mikilvægt skref í átt að bættri sjálfsmynd.

Það getur hentað mörgum að kortleggja sína veikleika og styrkleika. Skrá niður á blað eiginleikana, helst 10 af hvorum. Ef það gengur erfiðlega að finna 10 styrkleika er gott að reyna að rifja upp hvað aðrir hafa sagt við mann og hvernig hrós maður hefur fengið frá öðrum. Með því að kortleggja eiginleikana er hægt að fá góða mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálf, hvaða styrkleika við áttum okkur á og hvaða veikleika við erum meðvituð um. Suma veikleika er hægt að vinna með og reyna að bæta úr en aðra verðum við hreinlega að sætta okkur við og reyna að minnka það vægi sem veikleikarnir hafa á sjálfsmynd okkar.

Elva Björk Ágústsdóttir

Mikilvægi reynslu og minninga til að bæta sjálfsálit

Lágt sjálfsálit er oft eitt af einkennum raskana eins og þunglyndis, átraskana og sumra persónuleikaraskana. Lágt sálfsálit getur spáð fyrir um bakslög og er áhættuþáttur hvað varðar sjálfskaða og sjálfsvígshegðun.

Í sumum meðferðarformum er ekki unnið sérstaklega með sjálfsálit heldur búist við að sjálfsmat batni samhliða því að önnur einkenni réni. Lágt sjálfsálit getur verið í formi hugsana um mann sjálfan, aðra og heiminn. Til dæmis „ég er misheppnuð“, „fólk dæmir mig“ og „heimurinn er slæmur“. Oft er unnið með slíkar hugsanaskekkjur í meðferð, sérstaklega í hugrænni atferlismeðferð og lærir fólk þá að þróa með sér rökréttari hugmyndir eins og „mér tekst margt sem ég geri“, „sumt fólk dæmir mig kannski “ og svo framvegis.

Ýmislegt bendir til að fleira þurfi til að virkilega breyta sjálfsálitinu. Það er grundvallaratriði fyrir þann sem hugsar á neikvæðan hátt um sjálfan sig að vita að hugsunin er ekki alsendis rétt. En þó fólk viti að það hafi ýmsa kosti og geti gert margt vel þá líður því oft ekki þannig þrátt fyrir allt. Það sem virðist vanta uppá er tilfinningin um að vera fær, duglegur, góður. „Ég veit ég er í grundvallaratriðum nokkuð góð en mér líður ekki þannig“. Það sem vantar er að finnast það. Þá komum við að kjarna málsins, reynslu og minningum. Minningum um að hafa gert sitt besta, tekist vel upp og þar fram eftir götum.

Öll erum við þannig gerð að okkur gengur stundum vel í því sem við erum að gera og stundum ekki eins vel eða jafnvel illa. Í huga þeirra sem hafa lágt sjálfsálit virðast minningar um slæmt gengi vera tiltækari en minningar um það sem hefur gengið vel. Hvað segir þetta okkur? Jú, það er mikilvægt fyrir alla að eiga minningar um að ráða vel við verkefni og að búa yfir styrkleikum sem nýtast í daglegum athöfnum. Því fleiri og sterkari sem þær minningar eru því líklegar er að þær verði tiltækari í huga okkar en minningar um slæmt gengi.

Að læra með því að gera er mikilvægt í þessu samhengi. Til að byggja upp gott sjálfsálit barna er því áríðandi að búa þeim umhverfi þar sem þau fá færi á að upplifað sig sem sterka einstaklinga sem geta og gera vel. Þannig er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem eiga hlutdeild að heimi barnsins hafi sem skýrustu mynd af getu, styrkleikum og áhuga barnsins og búi því tækifæri til að finna og upplifa sjálft að því takist vel til. Að sama skapi er mikilvægt að skoða hvort barnið lendi oft í því að ráða ekki við aðstæður, upplifi vanmátt og leitast við að fækka þeim tilfellum.

Öllum gengur stundum illa í einhverju. Það er mikilvægt að börn læri að það er eðlilegt að takast misvel upp og að það eigi við um okkur öll. Þegar börnunum okkar finnst þau ekki standa sig vel er mikilvægt að setja athygli á þá þætti sem vel hafa gengið, minna á það sem þau hafa gert vel í fortíðinni og stuðla að væntingum um tækifæri til að ganga vel á eftir, á morgun, í framtíðinni.

Anna Sigríður Jökulsdóttir

Heimildir: Kees Korrelboom, COMET for low self-esteem