Greinasafn fyrir merki: sjálfstraust

Sigrarnir mínir (Ferilskráin)

Fyrir nokkrum árum síðan átti ég mér marga drauma, flestir tengdust fjölskyldulífinu og starfi. Ég lá oft uppi í rúmi og sá fyrir mér hvernig það yrði að ná þessum markmiðum eða að sinna hinu og þessu starfinu. Eitt af því sem ég dreymdi um að upplifa var að vinna að fræðslu og forvörnum, ég dreymdi lengi um að kenna sálfræði í framhaldsskóla, stunda heilsurækt, flytja í ákveðið hverfi í bænum og svo framvegis. Ég lá í rúminu og hugsaði lengi um hve gaman væri að upplifa þetta allt.

Í dag er ég búin að því, ég vinn að fræðslu og forvörnum, ég kenni sálfræði, ég hleyp reglulega og hef mjög gaman af og er flutt í draumahverfið. En einhvers staðar á leiðinni fóru þessir draumir að víkja fyrir öðrum nýjum draumum. Tímarnir breytast, ný reynsla eða nýjar aðstæður kalla á ný markmið. Þetta er eflaust ósköp eðlilegt og eitthvað sem flestir upplifa. Það hefur því reynst mér vel að halda vel utan um sigrana/markmiðin eða draumana sem ég hef fengið að upplifa.

Margir fræðimenn mæla með því að fólk haldi einskonar dagbók eða ferilskrá yfir sigrana sína og bæti við jafnóðum. Á listann má bæta stórum sem smáum sigrum og getur þetta reynst vel í þeirri vinnu að bæta sjálfstraustið (National Association for Self-Esteem).

Ég hvet þig til að setjast niður, rifja upp sigrana þína, stóra sem smáa og skrá niður. Við eigum það nefnilega til að gleyma því hve mikið við hlökkuðum til einhvers um leið og það er liðið t.d. hve mikill áfangi það var að klára stúdentspróf eða að syngja lag á skólaskemmtuninni. En með því að skrá sigrana reglulega niður og minna okkur á þá, þá höldum við ögn meira lífi í draumunum.

Hér er verkefni þessu tengt sem hægt er að styðjast við t.d. í ráðgjöf: Ferilskráin

Image

Hvernig eru draumarnir þínir? Hafa þeir ræst? Eða ertu komin/nn með nýja drauma þar sem aðstæður eða langanir hafa breyst?

 

Elva Björk Ágústsdóttir

Auglýsingar

Einkaspæjarinn – Að gagnrýna neikvæðar hugsanir

Eitt einkenni slæmrar sjálfsmyndar er neikvæð hugsun um sjálfan sig eða að hafa ekki  trú á sjálfum sér. Börn með neikvæða sjálfsmynd hugsa t.d. „ég er heimkur…. ég er leiðinlegur“. Mikilvægt er að vinna með slíkar hugsanir. Ein leið til þess er að gagnrýna þær eða finna sannanir á móti hugsuninni.

Hér má finna verkefni bæði fyrir yngri og eldri krakka, sem gengur út á það að gagnrýna neikvæðar hugsanir. Fyrir yngri börnin er verkefnið sett upp sem leikur þar sem barnið er einskonar einkaspæjari í leit að sönnunum á móti því að það sé heimskt eða leiðinlegt….

Einkaspæjarinn

Þegar ég hugsa neikvætt um sjálfan mig t.d. að ég sé heimskur eða leiðinlegur, þá finnst mér gott að fara í einkaspæjaraleik.einkas

Leikurinn virkar þannig að ég þykist vera einkaspæjari í nokkra daga og finn sannanir Á MÓTI leiðinlegu hugsun minni.

Til dæmis ef ég hugsa að aðrir telja mig leiðinlegan, þá skrifa ég niður fullt af sönnunum sem ég finn sem sýna að ég sé ekki leiðinlegur t.d.

  1. Ari vinur minn hló þegar ég sagði honum brandara í hádeginu í skólanum
  2. Mamma segir að það sé gaman að vera með mér
  3. Ég var með öllum bekkjarfélögunum mínum í afmæli og við skemmtum okkur vel saman.
  4. Andrea vinkona mín spyr eftir mér næstum því daglega, hún myndi örugglega ekki gera það ef henni þætti ég leiðinlegur.
  5. Kári bekkjarbróðir minn vill hafa mig með í leiksýningunni á bekkjarskemmtuninni.

Að gagnrýna neikvæðar hugsanir

Eru aðrar hliðar á málinu?

Börn sem eiga í vanda með sjálfsmynd sína eða finna fyrir vanlíðan eiga það oft til að eigna sér ýmis vandamál þ.e. telja orsök ýmissa vanda liggja hjá sér en ekki í ytri þáttum. Börnin eiga það til að festast í þröngum hugsanahætti og telja ákveðinn atburð einungis eiga eina orsök og að mati barnsins liggur orsökin hjá því sjálfu. Um er að ræða svokallaða „tunnel vision“ eða þröngt sjónarhorn þar sem aðrar mögulegar leiðir eða orsakir ýmissa vandamála eða atburða eru hunsaðar.

Ýmis verkefni geta aukið færni barna í að sjá aðrar hliðar á málum og finna að ?????????????orsakir liggja ekkert alltaf hjá þeim.

Hér má finna skemmtilegt verkefni sem nefnist Hvað er að gerast?

Hvað er að gerast?

Elva Björk Ágústsdóttir

„Ég er frábær“ aðferðin

Klukkan er sjö að morgni. Guðrún, sem hefur fundið fyrir minnkandi sjálfstrausti, stendur fyrir framan spegilinn og segir „Ég frábær stelpa“.  Svona hefur hún byrjað alla daga í meira en þrjár vikur eftir að hafa fengið þessar ráðleggingar hjá umhyggjusamri frænku.

Image

Sjálfstraustið hefur þó látið á sér standa. Guðrún er ennþá að brotna saman einkum þegar henni gengur illa í skólanum og þegar krakkar í skólanum segja leiðinlega hluti við hana. Þá á hún það til að brjóta sig niður og staðhæfa að hún sé heimsk og leiðinleg.

Guðrún er í eðli sínu hvatvís og á það til að gera og segja hluti sem hún sér eftir. Með aldrinum hefur hún farið að taka þessi mistök mjög nærri sér. Veltir sér upp úr þeim og telur þau til marks um að hún sé ómerkileg, leiðinleg eða heimsk. Flestir sem þekkja Guðrúnu vita hinsvegar að hún er góð, skemmtileg, fyndin, ákveðin, hugulsöm og hæfileikarík stelpa, auk þess að vera lykilleikmaður í fótboltaliðinu sem hún æfir með. Hún er hinsvegar ekki, frekar en við hin, gallalaus eða þannig að öllum líki vel við hana.

Það má velta fyrir sér afhverju sjálfsstyrkingaraðferð Guðrúnar er ekki að virka – að hamra á því við sjáfa sig að hún sé frábær. Ástæðuna má líklega rekja til þess að það er erfitt fyrir Guðrúnu að halda í þessa hugmynd þegar henni verður á, hún nær ekki markmiðum sínum eða er hafnað af félögum. Sú reynslafer ekki saman við þá hugmynd hennar um að vera frábær manneskja. Annað veldur því einnig að aðferðin styrkir ekki sjálfsmynd hennar: Hún hefur óljósa hugmynd um hvað felst í staðhæfingunni og tilgreinir ekki ástæður fyrir því að hún sjálf sé frábær.

Til þess að sjálfsmynd Guðrúnar batni þarf hún að átta sig á því að hún hefur fjölmarga kosti og styrkleika sem margir vildu gjarnan búa yfir og  sætta sig við að vera ófullkomin manneskja sem gerir mistök eins og allir aðrir. Þá verður hún sáttari í eigin skinni og brotnar síður niður við minnstu mistök og óþægilegar uppákomur. 

Það er á brattann að sækja fyrir börn og unglinga með lítið sjálfstraust að ætla að telja sér trú um að þau séu frábær. Líklegra til árangurs er að aðstoða þau við að taka eftir og læra að meta styrkleika sína og kosti sem þau sannanlega hafa, ásamt því að sættast við veikleika sína og annmarka. Börn með slaka sjálfsmynd þurfa fyrst og fremst að komast á þann stað að upplifa sig engu verri né minna virði en önnur börn. Raunsætt mat á styrkleikum (með áherslu á hvað þau geta frekar en hvað þau geta ekki) er því vænlegra til árangurs en óraunsæ glansmynd af eigin ágæti sem heldur ekki vatni í mótlæti hversdagsins.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

 

 

 

Sumargjöf frá skólanum – jákvæð umsögn, hrós

Þuríður Lilja námsráðgjafi í Oddeyraskóla á Akureyri sendi okkur þessa skemmtilegu hugmynd að hrósleik sem þau í skólanum hafa framkvæmt:

Í kringum sumardaginn fyrsta fá allir nemendur sendingu í pósti frá skólanum. Það er fallegt, plasthúðað skjal þar sem lögð er áhersla á að draga fram jákvæða og sterka þætti hjá hverjum einstaklingi. Nafn viðkomandi er haft upp á töflu eða mynd af honum í einn dag þar sem hrós eða falleg orð bekkjarsystkina eru skráð og kennarinn heldur utan um það. Þessar kveðjur geta verið með ýmsu móti, bæði frá umsjónarkennara, starfsfólki eða bekkjarsystkinum allt í bland og mismunandi hvað skjalið er stórt fer t.d. eftir aldri barnsins hvað á við, unglingum getur t.d. hentað að hafa það í kortastærð þar sem hægt er að hafa umsögnina í kortaveskinu hjá símanum osfrv.
Einnig hefur komið fyrir að stjórnendur hafi gert slíkt hið sama við starfsfólk sitt þ.e. sent heim til þeirra skjal þar sem þeir nefna styrkleika viðkomandi, sem er mjög ánægjulegt.

umslag

Fjársjóðsleitin – sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi

Fjársjóðsleitin – sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi hefst í mars á vegum Klifsins, fræðsluseturs í Garðabæ.

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi þar sem þeir leita að sínum innri fjársjóði og styrkleikum. Námskeiðinu er ætlað að styrkja sjálfsmynd barna og bæta líðan þeirra og velferð.

Markmið námskeiðsins: Að styrkja sjálfsmynd drengja sem gætu notið góðs af því að finna sína eigin styrkleika.

Námskeiðið skiptist í fjóra tíma þar sem strákarnir hittast og hafa gaman saman. Farið er í leiki og verkefni unnin sem styrkja sjálfsmyndina.

Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema þar sem strákarnir eru í fjársjóðsleit. Fjársjóðsleitin táknar leit þeirra að eigin styrkleikum. Undir lok námskeiðisins er markmiðið að bjóða foreldum að koma og sjá afraksturinn.  Námskeiðið byggir á aðferðum úr hugrænni atferlisfræði.

Nánar hér:

http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=219&Itemid=146

 

Góða skemmtun!

Í heimi þar sem góð frammistaða, keppnir og verðlaun eru mikils metin getur kvíði fyrir slakri frammistöðu og mistökum gert vart við sig hjá börnum. Frammistöðuótti, til dæmis gagnvart íþróttakeppnum, prófum eða sviðsframkomu, getur valdið mikilli vanlíðan og haft slæm áhrif á frammistöðu.

Börn búa við skilaboð úr öllum áttum um að mikilvægt sé að standa sig vel – skilaboðin koma úr fjölmiðlum, skóla, tómstundum og heimili. Þeim sem standa sig best er hampað en ekki hinum. Foreldrar hafa oft, með velferð barna sinna í huga, mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir ganga, gefa börnum sínum heilræði og óska þeim góðs gengis fyrir skóladaginn, æfingar og keppnir. Í orðunum „gangi þér vel“ felst þó ákveðin pressa (þó þau séu sett fram sem hvatning og stuðningur). Þetta er ósk foreldranna um að hlutirnir gangi vel hjá barninu, til dæmis á íþróttamóti, en hlutirnir ganga ekki alltaf vel og enginn gerir sitt allra besta alltaf.  Þegar heim er komið mætir börnunum svo gjarnan spurningin „hvernig gekk?“ og ef svarið er „ekki vel“ fá þau hugsanlega viðbrögð eins og „jæja, það gengur  bara betur næst“ – og þá er strax komin pressa fyrir næstu tilraun.

Börn hafa flest hver langa daga og mörg hver jafnvel lengri „vinnudaga” en fullorðið fólk sem vinnur fulla vinnu. Skóli og frístund alla virka daga og auk þess eru hjá flestum tómstundir og íþróttir oft í viku. Síðan er heimanám og oft og tíðum einhverjar skyldur á heimili. Með alla þessa dagskrá getur verið íþyngjandi að þurfa stöðugt að sýna góða frammistöðu og hafa áhyggjur af því að ekki takist vel upp.

Það er því mikilvægt að foreldrar, kennarar og þjálfarar hjálpi börnum að njóta og hafa gaman að því sem þau taka sér fyrir hendur en einblíni ekki á frammistöðu og árangur. Það er ekkert að því og yfirleitt jákvætt merki að börn vilji bæta sig og standa sig vel í því sem þau fást við – en eingöngu upp að vissu marki. Það er ekki jákvætt eða gott fyrir sálartetrið að trúa því að ekkert geti verið skemmtilegt nema að þú sért góður í því.mynd

Töpum því ekki gleðinni, höfum áhuga á skemmtanagildi þess sem börnin okkar fást við. Hvetjum þau til að njóta hlutanna óháð frammistöðu. Það getum við til dæmis gert með því að hvíla hvatninguna „gangi þér vel“ og nota þess í stað setninguna „góða skemmtun!“ áður en barnið tekst á við eitthvað þar sem óvíst er um frammistöðu.

María Hrönn Nikulásdóttir