Tilfinningasveiflur og mótþrói er eðlilegur hluti unglingsára, enda töluvert álag sem fylgir því að breytast úr barni í fullorðna manneskju.
Á sama tíma og kröfur til unglinga aukast um ábyrga hegðun, nám þyngist og félagsleg samskipti verða flóknari, ganga þeir í gegnum miklar líkamlegar og tilfinningalegar breytingar. Það þarf því ekki að að furða sig á því að þessi tími einkennist ekki af stöðugleika og jafnvægi.
Þrátt fyrir að tilfinningasveiflur séu eðlilegur hluti unglingsáranna geta þær þó reynst foreldrum og öðrum, sem eru í reglulegum samskiptum við unglinga, erfiðar og leitt til erfiðleika í samskiptum. Það þarf þó alls ekki að vera reglan og eitt af því sem getur komið í veg fyrir að samskipti þróist á neikvæðan veg er að bera virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum unglinga. Forðast að gera þeim upp skoðanir eða tilfinningar, jafnvel þó þær séu okkur ekki að skapi eða okkur gruni að skoðun eða tilfinning þeirra sé í raun og veru önnur.

Það hefur ekki góð áhrif á samskipti ef skoðunum unglinga er mætt með viðbrögðum sem gefa til kynna að þær séu ekki teknar gildar eða þær véfengdar, eins og „Þú segir þetta nú bara til að reyna að stuða okkur“, „Þér finnst þetta ekkert erfitt, þú bara nennir ekki að gera þetta“ eða „Æj þú átt svo margt eftir ólært greyið mitt“. Það sama gildir um að gera lítið úr óþægilegum tilfinningum þeirra: „þetta er nú ekkert stórmál“, „vertu bara ánægður með það sem þú hefur“ eða „það er bara alveg út í hött að vera í uppnámi yfir þessu“.
Að mæta mótþróafullum skoðunum með mótþróa („þetta er nú meiri vitleysan í þér“) gerir lítið annað en að ýta enn frekar undir mótþróa. Að sama skapi hefur það neikvæð áhrif á tilfinningasveiflur að mæta þeim með tilfinningasemi og ójafnvægi („ég bara trúi því ekki að þú skulir ekki vera ánægður eftir allt sem ég hef gert fyrir þig“).
Foreldrum unglinga þykir gjarnan erfitt þegar börn þeirra draga úr því á þessum árum að deila með þeim því sem þeir eru að hugsa og gera, en ef unglingar mæta ekki skilningi og virðingu þegar þeir tjá sig eykur það hinsvegar líkurnar á að þeir dragi úr samskiptum. Það er mikilvægt fyrir börn á unglingsárum að finna að virðing sé borin fyrir þeim sem einstaklingum og að þau fái svigrúm til að tjá hugmyndir sínar, skoðanir og upplifanir, jafnvel þó þær séu ólíkar því sem tíðkast í fjölskyldu þeirra. Unglingar hafa meiri þörf en yngri börn til að finna að á þau sé litið sem sjálfstæða einstaklinga. Það að gefa til kynna að þau séu ekki fær um að mynda sér sínar eigin skoðanir getur auðveldlega stuðlað að mótþróafullri hegðun og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra.
Mikilvægt er þó að rugla ekki saman hegðun, skoðunum og tilfinningum. Það ætti ekki að samþykkja slæma hegðun hjá unglingum frekar en yngri börnum. Það er vel hægt að gera kröfur um kurteisi og góða hegðun án þess að gera lítið úr tilfinningum. Við getum gert þá kröfu að unglingur heilsi og þakki fyrir sig í heimsókn hjá ættingja, en við getum hinsvegar ekki krafist þess að honum þyki gaman eða sé spenntur yfir heimsókninni. Reiði eða pirringur gefur heldur ekki leyfi til að lemja einhvern eða skemma eitthvað. Slíkri hegðun þurfa að fylgja neikvæðar afleiðingar og skilaboð um að hegðunin sé óásættanleg, þrátt fyrir að tilfinningin sem að baki liggur sé skiljanleg.
Til þess að börn læri að tjá tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt, verður að hlusta á þau þegar þau tjá sig, en ekki bíða eftir því að óþægilegar tilfinningar brjótist út í neikvæðu hegðunarmunstri sem síðan kallar fram neikvæð viðbrögð hjá fólki í umhverfinu. Gefum unglingunum því tækifæri til að tjá sig og upplifa skilning á þessum mikilvægu árum á sama tíma og við kennum þeim að sýna góða hegðun þrátt fyrir óþægilegar tilfinningar á köflum.
María Hrönn Nikulásdóttir , sálfræðingur