Greinasafn fyrir merki: unglingar

Virðing í samskiptum við unglinga

Tilfinningasveiflur og mótþrói er eðlilegur hluti unglingsára, enda töluvert álag sem fylgir því að breytast úr barni í fullorðna manneskju.

Á sama tíma og kröfur til unglinga aukast um ábyrga hegðun, nám þyngist og félagsleg samskipti verða flóknari, ganga þeir í gegnum miklar líkamlegar og tilfinningalegar breytingar. Það þarf því ekki að að furða sig á því að þessi tími einkennist ekki af stöðugleika og jafnvægi.

Þrátt fyrir að tilfinningasveiflur séu eðlilegur hluti unglingsáranna geta þær þó reynst foreldrum og öðrum, sem eru í reglulegum samskiptum við unglinga, erfiðar og leitt til erfiðleika í samskiptum. Það þarf þó alls ekki að vera reglan og eitt af því sem getur komið í veg fyrir að samskipti þróist á neikvæðan veg er að bera virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum unglinga. Forðast að gera þeim upp skoðanir eða tilfinningar, jafnvel þó þær séu okkur ekki að skapi eða okkur gruni að skoðun eða tilfinning þeirra sé í raun og veru önnur.

Stressed Schoolboy with Head in Hands

Það hefur ekki góð áhrif á samskipti ef skoðunum unglinga er mætt með viðbrögðum sem gefa til kynna að þær séu ekki teknar gildar eða þær véfengdar, eins og  „Þú segir þetta nú bara til að reyna að stuða okkur“, „Þér finnst þetta ekkert erfitt, þú bara nennir ekki að gera þetta“ eða „Æj þú átt svo margt eftir ólært greyið mitt“.  Það sama gildir um að gera lítið úr óþægilegum tilfinningum þeirra: „þetta er nú ekkert stórmál“, „vertu bara ánægður með það sem þú hefur“ eða „það er bara alveg út í hött að vera í uppnámi yfir þessu“.

Að mæta mótþróafullum skoðunum með mótþróa („þetta er nú meiri vitleysan í þér“) gerir lítið annað en að ýta enn frekar undir mótþróa. Að sama skapi hefur það neikvæð áhrif á tilfinningasveiflur að mæta þeim með tilfinningasemi og ójafnvægi („ég bara trúi því ekki að þú skulir ekki vera ánægður eftir allt sem ég hef gert fyrir þig“).

Foreldrum unglinga þykir gjarnan erfitt þegar börn þeirra draga úr því á þessum árum að deila með þeim því sem þeir eru að hugsa og gera, en ef unglingar mæta ekki skilningi og virðingu þegar þeir tjá sig eykur það hinsvegar líkurnar á að þeir dragi úr samskiptum. Það er mikilvægt fyrir börn á unglingsárum að finna að virðing sé borin fyrir þeim sem einstaklingum og að þau fái svigrúm til að tjá hugmyndir sínar, skoðanir og upplifanir, jafnvel þó þær séu ólíkar því sem tíðkast í fjölskyldu þeirra. Unglingar hafa meiri þörf en yngri börn til að finna að á þau sé litið sem sjálfstæða einstaklinga. Það að gefa til kynna að þau séu ekki fær um að mynda sér sínar eigin skoðanir getur auðveldlega stuðlað að mótþróafullri hegðun og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Mikilvægt er þó að rugla ekki saman hegðun, skoðunum og tilfinningum. Það ætti ekki að samþykkja slæma hegðun hjá unglingum frekar en yngri börnum. Það er vel hægt að gera kröfur um kurteisi og góða hegðun án þess að gera lítið úr tilfinningum. Við getum gert þá kröfu að unglingur heilsi og þakki fyrir sig í heimsókn hjá ættingja, en við getum hinsvegar ekki krafist þess að honum þyki gaman eða sé spenntur yfir heimsókninni. Reiði eða pirringur gefur heldur ekki leyfi til að lemja einhvern eða skemma eitthvað. Slíkri hegðun þurfa að fylgja neikvæðar afleiðingar og skilaboð um að hegðunin sé óásættanleg, þrátt fyrir að tilfinningin sem að baki liggur sé skiljanleg.

Til þess að börn læri að tjá tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt, verður að hlusta á þau þegar þau tjá sig, en ekki bíða eftir því að óþægilegar tilfinningar brjótist út í neikvæðu hegðunarmunstri sem síðan kallar fram neikvæð viðbrögð hjá fólki í umhverfinu. Gefum unglingunum því tækifæri til að tjá sig og upplifa skilning á þessum mikilvægu árum á sama tíma og við kennum þeim að sýna góða hegðun þrátt fyrir óþægilegar tilfinningar á köflum.

María Hrönn Nikulásdóttir , sálfræðingur

Áhrif fjölmiðla á líkamsmynd

 Margir upplifa vanlíðan og óánægju með eigið útlit. Þegar litið er yfir rannsóknir á líkamsmynd (þ.e. sú skoðun eða sýn sem fólk hefur á eigið útlit) má sjá að talsverður fjöldi fólks er óánægður með eigið útlit, þótt hlutfall óánægðra breytist yfir tíma og eftir aldri og kyni (Striegel-Moore og Franko, 2002; Thompson o.fl., 1999).

Árið 1998 gerðu Feingold og Mazzella allsherjargreiningu á 222 rannsóknum á kynjamun á útliti og líkamsmynd. Niðurstöður voru  þær að mikil aukning hefur orðið á tíðni slæmrar líkamsmyndar hjá konum á undanförnum 50 árum. Líkamsmynd karla er almennt betri en líkamsmynd kvenna þótt tíðni slæmrar líkamsmyndar hafi einnig aukist hjá þeim. Í rannsókn  Psychology Today sem framkvæmd var frá 1972 til 1997 kom í ljós að óánægja með útlit hjá konum jókst á þessum árum úr 23% upp í 56% en úr 15% í 43% hjá karlmönnum (Garner, 1997). Í öðrum rannsóknum hefur komið í ljós að um  rúmlega helmingur kvenna eru óánægðar með heildarútlit sitt og 43% karlmanna (Garner, 1997). Óánægja með þyngd kemur fram hjá 66% kvenna og eru 71% óánægðar með magasvæðið. Aftur á móti eru rúmlega helmingur karlmanna óánægðir með þyngd sína (Garner, 1997).

Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á líkamsmynd, sjálfsmynd og líðan fólks.

Líkamsmynd mótast að miklu leyti út frá félags-og menningarlegum áhrifum. Þetta má sjá á þeim mun á algengi sem er á slæmri líkamsmynd milli kynja, eftir aldri og ólíkri menningu (Jackson, 2002; Smolak, 2002). Samfélagið  sem við búum í  gefur okkur upplýsingar um hvaða útlit telst aðlaðandi, til dæmis í gegnum fjölmiðla (Smolak, 2002). Það útlit sem samfélagið gefur okkur skilaboð um að sé meira aðlaðandi en annað útlit er oft tengt við heilbrigði (Jackson, 2002). Í vestrænum samfélögum er grannur og hávaxinn líkami kvenna og stæltur líkami karla sá líkamsvöxtur sem þykir eftirsóknarverðastur (Smolak, 2002; Thompson o.fl., 1999). 

Margir tengja grannt vaxtarlag við heilbrigt líferni og feitari vöxt við óheilbrigt líferni (Jackson, 2002). Rannsóknir hafa þó sýnt að grannur vöxtur er ekki ávísun á heilbrigðan líkama (Blair, Kohl, Paffenbarger, Clark, Coooper og Gibbons, 1989). Hollt mataræði, reglubundin hreyfing og aðrir heilsusamlegir þættir hafa jákvæð áhrif á heilsu, óháð vaxtarlagi. Þéttvaxið fólk sem lifir heilbrigðu lífi er því alla jafnan með heilbrigðari líkama en grannir sem lifa óheilbrigðu lífi (Blair o.fl., 1989). Hafa ber í huga að gildi varðandi útlit eru ólík eftir samfélögum. Í löndum þar sem ekki fæst næg fæða eru samfélagsleg viðmið önnur og þar er feitari líkamsvöxtur talinn meira aðlaðandi. Í þess konar samfélögum er feitari líkami frekar tengdur við heilbrigði en grannur (Jackson, 2002).

Slæm líkamsmynd er algeng meðal stúlkna og kvenna í vestrænum samfélögum. Að miklu leyti er það vegna þeirrar óhóflegu áherslu sem lögð er á grannan vöxt, hve ólíkt það vaxtarlag er raunverulegum vexti stúlkna og þeirra ókosta sem oft eru tengdir við aukakíló  (Thompson o.fl., 1999; Wilfley og Rodin, 1995). Mikilvægt er fyrir flesta að hafa heilbrigðan líkama. Þar sem grannur vöxtur stúlkna og kvenna er hylltur í vestrænum samfélögum og oftast tengdur við heilbrigði hefur það áhrif á viðhorf þeirra til vaxtarlags (Jackson, 2002). Líkt og fram hefur komið sýna fjölmiðlar grannan vöxt sem hinn fullkomna líkama. Konur og stúlkur verða endurtekið fyrir áhrifum fjölmiðla og getur það leitt til þess að þær meðtaki og samþykki þá ímynd sem er af hinu fullkomna útliti (Thompson o.fl., 1999). Það hve mikið fólk samþykkir það útlit sem hyllt er í samfélaginu, hefur áhrif á líkamsmynd  (Garner, 2002; Jones, Vigfúsdóttir og Lee, 2008).

Rannsóknir á áhættuþáttum slæmrar líkamsmyndar hafa sýnt að margir þættir, eins og líkamsþyngdarstuðull og stríðni, hafa áhrif á líkamsmynd í gegnum þriðju breytu. Þriðja breytan er það hve mikið fólk samþykkir það viðhorf að grannur vöxtur sé fýsilegri en annars konar vaxtarlag (Jones o.fl., 2008). Rekja má óánægju stúlkna og kvenna með eigin líkama til þess hve mikið þær aðhyllast grannan vöxt og hve ólíkur sá vöxtur er raunverulegu vaxtarlagi kvenna. Þar sem fáar konur uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti kvenna beri sig saman við útlit sem fæstar þeirra geta nokkurntíman öðlast (Stice o.fl., 1998; Stice og Shaw, 2002; Tiggemann, 2002).

Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra (Van den Berg og Thompson, 2007). Því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni (Jackson, 2002; Smolak, 2002).Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út en við sjálf (Van den Berg og Thompson, 2007).

Í kringum 1950 var talið mjög aðlaðandi að vera með mjúkar línur og uppfylltu þá fleiri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða líkama (Jackson, 2002; Smolak, 2002).  Í rannsókn frá árinu 1980 á þeim breytingum  sem hafa orðið á fegurðarviðmiðum kvenna yfir 20 ára tímabil, frá 1959 til 1978, kom fram að á meðan fyrirsætur í Playboy og keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ameríka  höfðu grennst töluvert yfir tímabilið hafði líkamsþyngd bandarískra kvenna aukist á sama tíma (Garner, Garfinkel, Schwartz og Thompson, 1980). Ímynd hins fullkomna líkama kvenna hefur því breyst frá því að vera í mýkra laginu, yfir í það að vera mjög grannur og uppfylla þá færri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt (Tiggemann, 2002). Tíðni slæmrar líkamsmyndar stúlkna og kvenna hefur aukist á undanförnum áratugum þar sem bilið milli raunverulegs vaxtarlags og eftirsóknarverðs vaxtarlags hefur aukist (Stice og Shaw, 2002).

Skilaboð fjölmiðla um hvaða vaxtarlag er talið fallegast ná ekki einungis til fullorðinna heldur einnig til  barna og unglinga. Til dæmis koma leikfangaauglýsingar og barnasjónvarpsefni skilaboðum um útlit  áleiðis til barna(Smolak, 2002). Útlit leikfanga og sögupersóna í barnaefni getur haft áhrif á mótun líkamsmyndar þar sem börn og unglingar bera sig saman við þær persónur (Smolak, 2002). Útlit þessara persóna er ólíkt útliti flestra, til að mynda eiga mjög margar stúlkur á barnsaldri Barbie dúkku en telja má nær ómögulegt fyrir þær að líta út líkt og Barbie dúkka. Svipað má segja um bardagamennina sem drengir jafnan leika sér með og áhrif þeirra á líkamsmynd drengja (Smolak, 2002).

Tengsl þyngdar og líkamsmyndar

Þar sem grannur líkamsvöxtur er sá vöxtur sem talinn er ímynd hins fullkomna líkama ríkir neikvætt samband milli líkamsþyngdar kvenna og ánægju með líkamsvöxt (Field o.fl., 2004; Jones o.fl., 2008).    Þetta skýrist af því að þeir sem eru yfir kjörþyngd eru fjarri þeirri ímynd sem höfð er um hið fullkomna útlit í vestrænu samfélagi (Thompson o.fl., 1999).  Samkvæmt Smolak (2002) þá eykst tíðni slæmrar líkamsmyndar stúlkna á kynþroskaskeiði. Talið er að breyting á líkamsþyngdarstuðli (BMI) geti orsakað aukna tíðni slæmrar líkamsmyndar á þessum árum. Líkamsþyngdarstuðull er mælikvarði á þyngd miðað við hæð og gefur til kynna hvort viðkomandi sé í kjörþyngd eður ei. Niðurstöður margra rannsókna á líkamsmynd sýna að því hærri sem líkamsþyngdarstuðullinn er því verri er líkamsmyndin (Garner, 1997; Smolak, 2002). Þótt tengsl virðast vera á milli líkamsþyngdarstuðuls og líkamsmyndar eru eðli þeirra ekki ljós. Margir telja að þessi tengsl verði  fyrir áhrifum félagssálfræðilegra  þátta eins og viðhorfa (Schwartz og Brownell, 2002; Smolak, 2002).  Á leikskólaaldri eru börn til að mynda meðvituð um neikvæða sýn samfélagsins til þeirra sem eru yfir kjörþyngd. Börn sem eru yfir kjörþyngd finna fyrir þessum viðhorfum (Musher-Eizenman, Holub, Miller, Goldstein og Edwards, Leeper, 2004). Við upphaf skólagöngu nefna til dæmis börn sem eru yfir kjörþyngd að þau séu óánægð með líkama sinn og vilja verða grennri (Smolak, 2002). Tengsl líkamsþyngdarstuðuls og slæmrar líkamsmyndar getur því myndast vegna þriðju breytu, eins og félagslegs viðhorfs til feitra (Smolak, 2002).

Í rannsókn Vander Wal og Thelen frá árinu 2000 kom fram að tengsl líkamsþyngdarstuðuls og slæmrar líkamsmyndar  urðu fyrir áhrifum annarra þátta eins og stríðni, útlitssamanburðar og þrýstings frá öðrum um grannan vöxt. Thompson, Coovert, Richards, Johnson og Cattarin (1995) rannsökuðu áhrif stríðni, vitsmunaþroska og offitu á mótun líkamsmyndar. Þau komu fram með líkan þar sem þau mátu áhrif offitu og stríðni á líkamsmynd. Þar hafði offita ekki bein áhrif á líkamsmynd heldur mynduðust tengsl milli offitu og slæmrar líkamsmyndar vegna þriðju breytu, stríðni.  Í rannsókn þeirra reyndist líkamsmynd einungis vera slæm meðal þeirra þéttvöxnu barna sem höfðu orðið fyrir stríðni vegna útlits.

Á unglingsárum hafa félagsleg viðhorf og þrýstingur um grannan vöxt, mikil áhrif á líkamsmynd unglinga (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002).  Á kynþroskaskeiði bæta stúlkur að jafnaði á sig kílóum vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað á líkama þeirra. Þessar eðlilegu breytingar á útliti kvenna fjarlægir þær meira frá þeirri ímynd sem  ríkir um aðlaðandi útlit í vestrænum samfélögum. Þyngdaraukningin getur því haft neikvæð áhrif á líkamsmynd stúlkna á unglingsárum (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002).  Langtímarannsóknir á líkamsmynd stúlkna styðja þetta þar sem tíðni slæmrar líkamsmyndar eykst töluvert snemma á unglingsárum eða í kringum 12-15 ára. Það er þó mikilvægt að taka fram að þetta gerist vegna áhrifa þriðja þáttar eins og félagslegra viðhorfa um líkamsvöxt eða að þykja grannur líkamsvöxtur eftirsóknarverður (Jones o.fl., 2004; Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Öfugt við þessa þróun, þá breytist líkami drengja á kynþroskaskeiðinu á þá leið að þeir nálgast ímynd um aðlaðandi karlmannslíkama. Líkamsbygging sem felur í sér breiðar axlir og að  vera hávaxinn og vöðvastæltur telst vera aðlaðandi og færir kynþroskinn oft drengi nær þeim vexti (Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Þegar þróun slæmrar líkamsmyndar er skoðuð má sjá að óánægja með eigin  líkamsvöxt meðal unglingsstúlkna getur myndast óháð raunverulegri líkamsþyngd eða líkamslögun (Smolak og Levine, 2002).

 Fitufordómar

Líkt og fram hefur komið er tíðni slæmrar líkamsmyndar hærri meðal þeirra sem eru of þungir en þeirra sem eru það ekki (Thompson o.fl., 1999). Þótt viðkomandi skynji sjálfur að líkami hans sé ólíkur þeim líkama sem talinn er eftirsóknarverðastur þá eru það oft neikvæð viðhorf annarra sem ýta enn frekar undir slæma líkamsmynd (Brownell og Puhl, 2003; Smolak, 2002; Smolak og Levine, 2002). Neikvæð viðhorf þurfa ekki að vera áberandi, líkt og stríðni og neikvæðar athugasemdir. Líkamsmynd manneskju sem ekki telst aðlaðandi samkvæmt gildum samfélagsins getur orðið fyrir hnekkjum, vegna neikvæðra viðhorfa annarra, þótt enginn hafi tjáð skoðun sína á beinan hátt (Jackson, 2002).

Samkvæmt kenningu um félagslegar væntingar þá getur útlit haft áhrif á mótun líkamsmyndar á þá leið að væntingar okkar til aðlaðandi fólks og óaðlaðandi eru ólíkar. Við fáum upplýsingar til dæmis frá fjölmiðlum um hvaða útlit aðlaðandi í okkar samfélagi. Vegna ólíkra væntinga þá högum við okkur mismunandi gagnvart þeim sem eru aðlaðandi en gagnvart þeim sem eru óaðlaðandi. Þessi munur  á hegðun orsakar mun á sjálfsskynjun fólks (Jackson, 2002). Niðurstöður rannsókna á viðhorfum hafa sýnt að þeir sem eru aðlaðandi eru taldir vera góðir, áhugaverðir, hlýir, opnir og félagslega virkir. En  þeir sem ekki uppfylla skilyrðin  um aðlaðandi líkama eru taldir vera latir, þunglyndir, óhamingjusamir, óvinsælir, óáhugaverðir og agalausir (Brownell og Puhl, 2003; Hogg og Vaughan, 2008; Latner og Stunkard, 2003;  Penny og  Haddock, 2007).

Skilaboð sem  fólk  fær frá fjölmiðlum eða öðrum geta haft þau áhrif að  það sér að grannur vöxtur er ímynd hins fullkomna líkama og þeirra eigin vöxtur er ekki ásættanlegur. Viðkomandi upplifir því þrýsting um grannan vöxt og þörf fyrir að breyta eigin líkamsvexti (Stice, 2001; Stice og Whitenton, 2002). Þrýstingur um grannan vöxt getur líka verið óbeinn (Stice og Whitenton, 2002). Viðhorf annarra til vaxtarlags sem ekki telst aðlaðandi samkvæmt gildum samfélagsins getur verið dæmi um þrýsting um grannan vöxt. Foreldrar geta til að mynda haft áhrif á mótun slæmrar líkamsmyndar með því að tjá áhyggjur af eigin líkamsvexti, tala um ókosti þess að vera með aukakíló og sýna hegðun sem tengist megrun  eins og að fylgjast grannt með innbyrðum hitaeiningafjölda (Kearney-Cooke, 2002; Smolak, 2002). Með þessum hætti myndast óbeinn þrýstingur frá foreldrum um grannan vöxt. Viðhorf foreldra til feits vaxtarlags er þá neikvætt og getur það haft þau áhrif að börn þeirra og unglingar, sem telja sig yfir kjörþyngd, upplifa óánægju foreldranna gagnvart sér. Annað dæmi um óbeinan þrýsting eru samtöl meðal vina. Samtöl um útlit, líkamsvöxt og mikilvægi þess að vera grannur geta haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Líkamsmynd verður fyrir meiri hnekkjum eftir því sem við tölum oftar um útlit, líkamsvöxt og þyngd við vini og kunningja og því meira sem við samþykkjum það viðhorf að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður (Jones o.fl., 2004).

Slæm líkamsmynd unglingsstúlku yfir kjörþyngd gæti því mótast vegna  væntinga annarra til hennar og þrýsting sem hún upplifir um að breyta líkamsvexti sínum. Þar sem stúlkan er alin upp í samfélagi þar sem grannur líkami er talinn fallegri en feitari hafa aðrir ákveðnar væntingar til hennar. Hún  upplifir neikvæðari hegðun annarra gagnvart sjálfri sér og gæti fundið fyrir því að aðrir teldu hana lata og agalausa, sem hefur þau áhrif að hún fer að líta neikvæðari augum á sjálfa sig (Jackson, 2002). Verri líkamsmynd getur síðan haft enn verri áhrif á heilsu hennar á þann hátt að líkur á átröskunum aukast, líðan verður verri og minni líkur á því að stúlkan hugsi vel um líkama sinn.

Greinin byggir á MS ritgerð Elvu Bjarkar í sálfræði, hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar og heimildir í ritgerðina sjálfa.

Elva Björk Ágústsdóttir. (2011). Líkamsmyndarnámskeiðið Body Project: Rannsókn á árangri forvarnarnámskeiðs gegn átröskunum. MS-ritgerð: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindadeild.

Elva Björk Ágústsdóttir

Samskiptaboðorðin

Okkur langar að benda ykkur á Samskiptaboðorðin. Vefsíðan http://www.samskiptabodordin.is/ er helguð samskiptum, samskiptaháttum, tengslamyndun og áhrifum þeirra á tilveru okkar allra. Markmiðið með síðunni er að skapa lifandi vettvang umræðna um samskipti og samskiptahætti og efla þekkingu almennings á uppbyggjandi, nærandi og eflandi samskiptum. Höfundur samskiptaboðorðanna er Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur.

 

 

 

Spegill spegill………..

Æfing sem kallast mirror exposure (speglaæfing) er ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota þegar unnið er að bættri líkamsmynd. Rannsóknir hafa sýnt að aðferðin getur bætt líkamsmynd eða sátt við eigin líkama.

Speglaæfingin felst í því að einstaklingur stendur fyrir framan spegil (eins léttklæddur og staður og stund leyfir). Viðkomandi reynir að einblína á einn ákveðinn líkamspart í jafn langa stund í senn t.d:

  • hár
  • húð
  • augu
  • nef
  • varir
  • tennur
  • haka
  • háls
  • axlir
  • handleggir
  • bringa
  • brjóst
  • mitti
  • magi
  • rass
  • læri
  • mjaðmir
  • hné
  • kálfar
  • öklar
  • fætur
  • tær

Ein leið til að framkvæma æfinguna er að nefna ákveðinn fjölda atriða (t.d. þrjú atriði) sem eru jákvæðir um líkamspartinn. T.d. „ég er með sterka handleggi“. Einnig er hægt að nefna jákvæða þætti um líkamspartinn sem tengjast því sem líkamsparturinn gerir. T.d. „þegar ég nota hendur mínar þá get ég prjónað fallega peysu“ eða „ég get gert armbeygjur“ ……

Önnur leið til að framkvæma æfinguna er að nota hlutlausar lýsingar. Það að nefna jákvæða eiginleika getur reynst sumum erfitt. Það getur því verið ráðlegt að taka smærri skref í einu og byrja á því að nefna einungis hlutlausa eiginleika um líkamspartinn. Að nefna hlutlausa eiginleika væri svipað því að lýsa útliti fyrir teiknara sem er að teikna mynd af manni en sér ekki fyrirmyndina.

Speglaæfingin myndar svo kallað hugrænt misræmi hjá þeim sem eru ósáttir við eigin líkama. Hugrænt misræmi felur það í sér að ósamræmanlegar hugsanir skapa óþægindi og streitu. Streitan ýtir undir það að fólk breytir hugsunum eða skoðunum sínum til að auka samræmi milli hugsana og minnka óþægindin. Það að tala fallega um þá líkamsparta sem viðkomandi líkar ekki við getur því með tímanum breytt skoðun hans á líkamspörtunum.

Elva Björk Ágústsdóttir

Slæm líkamsmynd á Íslandi

Slæm líkamsmynd eða óánægja með eigin líkamsvöxt/útlit er mjög algeng meðal fólks, sérstaklega meðal stúlkna.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á tíðni slæmrar líkamsmyndar á Íslandi, hvort sem er meðal barna og unglinga eða fullorðinna. Þó má gera ráð fyrir því að tíðnitölur á Íslandi séu svipaðar og í öðrum vestrænum ríkjum þar sem Íslendingar búa við svipuð samfélagsleg gildi hvað varðar útlit og vaxtarlag. Erlendar rannsóknir sýna að rúmlega helmingur fólks er óánægt með líkamsvöxt sinn og meirihluti kvenna telja sig þurfa að grennast.

Í meistaraverkefni Ernu Matthíasdóttur í lýðheilsufræðum frá árinu 2009 sem byggði á gögnum Lýðheilsustöðvar á spurningakönnun sem ber heitið „Könnun á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007″ kom í ljós að tæplega 43% Íslendinga á aldrinum 18-79 ára voru ósáttir við eigin líkamsþyngd. Um 72% töldu að þeir þyrftu að grennast og gerðu margir tilraunir til þess. Einnig kom fram munur á óánægju með líkamsþyngd milli kynja þar sem konur voru mun ósáttari við þyngd sína en karlmenn, en rúmlega 80% kvenna töldu sig þurfa að grennast á móti tæplega 63% karla (Erna Matthíasdóttir, 2009).

Mikil óánægja með þyngd virðist hrjá unglinga sem og fullorðna á Íslandi. Í rannsókn Þórdísar Rúnarsdóttur frá árinu 2008, um óánægju kvenna með eigin líkama, kom fram að 76% kvenna og stúlkna á aldrinum 13-24 ára voru óánægðar eða mjög óánægðar með líkama sinn. Óánægjan kom fram óháð því hvort þær voru í kjörþyngd eða ekki (Þórdís Rúnarsdóttir, 2008). Í rannsókn Sigrúnar Daníelsdóttur og félaga, frá árinu 2007 kom fram að þriðjungur þátttakenda hafði farið í megrun að minnsta kosti einu sinni yfir árið. Meðal þeirra voru stúlkur í miklum meirihluta eða 79%. Rannsóknin var unnin úr gögnum könnunar Rannsókna og greiningar ehf., „Ungt fólk 2000“ og náði til 6.346 nemenda í 9.-10. bekk í öllum grunnskólum á Íslandi. Helmingur stúlkna í rannsókninni höfðu farið í megrun og jókst tíðni megrunar  hjá stúlkum úr 9. bekk upp í 10. bekk en ekki hjá drengjum.

Óánægja með þyngd, slæm líkamsmynd og megrun finnast einnig hjá yngri börnum. Afgerandi meirihluti of þungra barna hefur farið í megrun, sem og börn og unglingar sem telja sig vera of þung, óháð því hvort þau eru það eður ei (Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björg Ómarsdóttir, 2008).

Í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar og Guðrúnar Kristinsdóttur frá árinu 2006 á líkamsmynd unglinga í 9. og 10. bekk kom fram að birtingarmynd óánægju með eigin líkama var ólík milli kynja. Niðurstöður voru þær að líkamsmynd stúlkna var mun verri en líkamsmynd drengja og birtist á ólíkan hátt. Það að vera grannur eða grönn tengdist lakari líkamsmynd hjá drengjum en betri líkamsmynd hjá stúlkum. Þessar niðurstöður eru í takt við erlendar rannsóknir á kynjamun á líkamsmynd.

Af niðurstöðum þessara rannsókna má sjá að tíðni megrunar, óánægju með líkamsvöxt og slæmrar líkamsmyndar er há á Íslandi. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er hærri meðal stúlkna en drengja og virðist óánægja með líkamsvöxt vera reglan frekar en undantekningin meðal stúlkna. Það er síðan áhyggjuefni að aldur stúlkna sem telja sig þurfa að grennast fer sífellt lækkandi.

Heimildir:

Erla Björk Sigurðardóttir og Rósa Björk Ómarsdóttir. (2008). Ofþyngd, fæðuvenjur, megrunarhegðun og sjálfsmynd meðal barna og unglinga í 6. og 8. bekk í grunnskólum á Íslandi. BS ritgerð: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið

Erna Matthíasdóttir. (2009). Sátt Íslendinga á aldrinum 18-79 ára við eigin líkamsþyngd. Meistaraverkefni: Háskólinn í Reykjavík, Kennslu og lýðheilsudeild

Rúnar Vilhjálmsson og Guðrún Kristjánsdóttir. (2006). Líkamleg frávik og líkamsímynd unglinga: Niðurstöður landskönnunar í níunda og tíunda bekk. Ágrip erindis (nr. E-108) á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum, haldinni í Öskju 4. og 5. janúar 2007. Læknablaðið, fylgirit 53, desember 2006. Sótt 9. mars 2009 af http://www.laeknabladid.is/fylgirit/53/agrip-erinda

Sigrún Daníelsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jakob Smári. (2007). Megrun meðal íslenskra unglinga og tengsl við líkamsmynd, sjálfsvirðingu og átröskunareinkenni. Sálfræðiritið, 12, 85-100

Þórdís Rúnarsdóttir. (2008). Konur í kjörþyngd telja sig of þungar. Sótt 10. Janúar 2011 af:  http://www.hi.is/is/frettir/konur_i_kjorthyngd_telja_sig_of_thungar

Ítarleg verkefni sem styrkja sjálfsmynd

Þegar gott samband hefur verið náð milli barnsins/unglingsins og ráðgjafans getur hentað vel að vinna með gleði- og leiknidagbækur til að bæta sjálfsmynd barnsins/unglingsins.

Hér er um dagbókarverkefni að ræða þar sem barnið kortleggur gleðistundir sínar yfir vikuna og síðar leiknistundir sínar. Einstaklingar með slæma sjálfsmynd eiga það til að taka síður eftir gleðilegum stundum í lífi sínu en aðrir. Einnig eiga þeir það til að gera lítið úr afrekum sínum, eða hreinlega taka ekki eftir þeim. Fyrsta skrefið í að læra að meta hvern dag er að fá skýra mynd af því hvernig viðkomandi ver deginum sínum, hve sáttur hann er við eigin athafnir og hve vel hann tekur eftir gleðistundum og afrekum (leiknistundum). Með því að styðjast við gleði- og leiknidagbækur er hægt að kortleggja betur daglegt líf skjólstæðingsins. Dagbókin er sett upp líkt og skólastundatafla þar sem hver klukkustund er skráð. Dagbókin getur ýtt undir það að börn og unglingar taki betur eftir jákvæðum atburðum í lífi þeirra og nýtist vel þegar kemur að því að skoða hvað hægt er að breyta til að gera daginn betri.

Í meðfylgjandi skjali fylgir lýsing á verkefninu og tvær útgáfur af því svo verkefnið henti börnum og unglingum á öllum aldri.

Gleði- og leiknidagbækur

Líkamsmynd – Gott að hafa í huga

Margir upplifa mikla óánægju með líkamsvöxt eða útlit sitt. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er mjög há, sérstaklega meðal stúlkna. Slæm líkamsmynd getur haft mikil áhrif á daglegt líf. Til að mynda getur slæm líkamsmynd haft þau áhrif að við forðumst að taka þátt í félagslífi vegna óánægju með útlit. Slæm líkamsmynd getur einnig valdið vanlíðan, ýtt undir megrun, ofát og átraskanir. Það er því mikilvægt að stuðla að bættri líkamsmynd barna og unglinga. Til eru erlendar bækur sem stuðla að bættri líkamsmynd. Okkur langar að hvetja ykkur til að skoða bækur eins og:

Health at every size: The surprising truth about your weight, eftir Lindu Bacon (http://www.lindabacon.org/)

Healthy body image: Teaching kids to eat and love their bodies too, eftir Kathy Kater (http://www.bodyimagehealth.org/)

Í bók Kathy Kater kemur fram að mikilvægt sé að leggja áherslu á heilbrigt líferni og vellíðan í stað líkamsvaxtar og þyngdar. Í meðfylgjandi skjali má finna nokkra punkta sem Kathy Kater telur mikilvægt að þekkja og fræða börn og unglinga um. Einnig má finna sömu upplýsingar á ensku.

Punktar frá Kathy Kater

Real Kids, shifting the weight paradigm