Reynsla og minningar sem bæta sjálfsálit

Lágt sjálfsálit er oft eitt af einkennum raskana eins og þunglyndis, átraskana og sumra persónuleikaraskana. Lágt sálfsálit getur spáð fyrir um bakslög og er áhættuþáttur hvað varðar sjálfskaða og sjálfsvígshegðun.

Í sumum meðferðarformum er ekki unnið sérstaklega með sjálfsálit heldur búist við að sjálfsmat batni samhliða því að önnur einkenni réni. Lágt sjálfsálit getur verið í formi hugsana um mann sjálfan, aðra og heiminn. Til dæmis „ég er misheppnuð“, „fólk dæmir mig“ og „heimurinn er slæmur“. Oft er unnið með slíkar hugsanaskekkjur í meðferð, sérstaklega í hugrænni atferlismeðferð og lærir fólk þá að þróa með sér rökréttari hugmyndir eins og „mér tekst margt sem ég geri“, „sumt fólk dæmir mig kannski “ og svo framvegis.

Ýmislegt bendir til að fleira þurfi til að virkilega breyta sjálfsálitinu. Það er grundvallaratriði fyrir þann sem hugsar á neikvæðan hátt um sjálfan sig að vita að hugsunin er ekki alsendis rétt. En þó fólk viti að það hafi ýmsa kosti og geti gert margt vel þá líður því oft ekki þannig þrátt fyrir allt. Það sem virðist vanta uppá er tilfinningin um að vera fær, duglegur, góður. „Ég veit ég er í grundvallaratriðum nokkuð góð en mér líður ekki þannig“. Það sem vantar er að finnast það. Þá komum við að kjarna málsins, reynslu og minningum. Minningum um að hafa gert sitt besta, tekist vel upp og þar fram eftir götum.

Öll erum við þannig gerð að okkur gengur stundum vel í því sem við erum að gera og stundum ekki eins vel eða jafnvel illa.

Í huga þeirra sem hafa lágt sjálfsálit virðast minningar um slæmt gengi vera tiltækari en minningar um það sem hefur gengið vel.

Hvað segir þetta okkur? Jú, það er mikilvægt fyrir alla að eiga minningar um að ráða vel við verkefni og að búa yfir styrkleikum sem nýtast í daglegum athöfnum. Því fleiri og sterkari sem þær minningar eru því líklegar er að þær verði tiltækari í huga okkar en minningar um slæmt gengi.

Að læra með því að gera er mikilvægt í þessu samhengi.

Til að byggja upp gott sjálfsálit barna er því áríðandi að búa þeim umhverfi þar sem þau fá færi á að upplifað sig sem sterka einstaklinga sem geta og gera vel.

Þannig er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem eiga hlutdeild að heimi barnsins hafi sem skýrustu mynd af getu, styrkleikum og áhuga barnsins og búi því tækifæri til að finna og upplifa sjálft að því takist vel til. Að sama skapi er mikilvægt að skoða hvort barnið lendi oft í því að ráða ekki við aðstæður, upplifi vanmátt og leitast við að fækka þeim tilfellum.

Öllum gengur stundum illa í einhverju.

Það er mikilvægt að börn læri að það er eðlilegt að takast misvel upp og að það eigi við um okkur öll.

Þegar börnunum okkar finnst þau ekki standa sig vel er mikilvægt að setja athygli á þá þætti sem vel hafa gengið, minna á það sem þau hafa gert vel í fortíðinni og stuðla að væntingum um tækifæri til að ganga vel á eftir, á morgun, í framtíðinni.

Anna Sigríður Jökulsdóttir sálfræðingur

Heimildir: Kees Korrelboom, COMET for low self-esteem

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s