Greinasafn fyrir merki: kynímynd

Strákar í kjólum

12Genderless1-articleLarge

Í heimi rótgróinna kynjahlutverka og kynímynda getur verið erfitt að vera karlkyns en hafa gaman af því sem fyrirfram hefur verið skilgreint „kvenkyns“, „stelpu-“ eða „kerlingarlegt“, eða öfugt. Strákar sem halda upp á bleikan, finnst gaman að leika sér með „stelpudót“ eða klæðast „stelpufötum“ verða oft fyrir stríðni og jafnvel einelti. Tilveran er síst auðveldari ef kynvitund og líffræðilegt kyn barnsins stangast á. Í rannsókn Grossman og D’Augelli (2007) kom til dæmis fram að um helmingur transgender barna og unglinga sem tóku þátt hafði glímt við alvarlegar sjálfsvígshugsanir, og fjórðungur hafði gert sjálfsvígstilraun. Þó margt hafi áunnist í mannréttindabaráttu síðustu ára virðist samfélagið síður en svo alltaf tilbúið að samþykkja hegðun sem fer út fyrir mörk þess sem telst „við hæfi“.

Í þessari frétt http://abcnews.go.com/Health/gender-conforming-boys-camp/story?id=19735461 er birt myndband um Toni, unga konu sem fæddist í líkama karlmanns, sem þurfti að leita réttar síns til að fá að klæðast því sem hana langaði á skólaballi. Skólayfirvöld ætluðu sem sagt að banna henni að klæðast samkvæmiskjól á grundvelli þess að líffræðilega væri hún karlmaður – hún ætti því að klæðast smóking. Í sömu frétt er fjallað um sumarbúðir fyrir drengi sem hafa meðal annars gaman af því að mála sig, klæðast kjólum, pilsum og háum hælum. Foreldrar þeirra tóku sig saman og komu sumarbúðunum á fót með það að markmiði að gefa börnum sínum tækifæri til að tjá sig, vera þau sjálf og kynnast öðrum börnum með svipuð áhugamál, í friði fyrir stríðni, einelti og fordómum.

Markmið skólakerfisins er að stuðla að velferð allra barna og búa þeim námsumhverfi þar sem þau njóta virðingar og fá að blómstra á eigin forsendum, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð, kynímynd, uppruna, holdafari, heilsu, fötlun, stétt, trúarbrögðum og öllu því sem greinir okkur að. Þegar sjálft skólakerfið bregst þessu hlutverki sínu, eins og í tilfelli Toni, er ósköp skiljanlegt að foreldrum barna í þessum sporum finnist þeir knúnir til að setja af stað sérstakar sumarbúðir fyrir börn sín, svo þau geti notið sín og verið þau sjálf, laus við stríðni og einelti. Auk þess er nauðsynlegt fyrir börnin að kynnast öðrum börnum með svipaða reynslu og áhugamál og rjúfa þannig þá félagslegu einangrun sem þessi börn búa oft við. Sumarbúðirnar eru því í sjálfu sér af hinu góða. Samt er eitthvað við þetta sem stingur.

Í fréttinni er nöfnum sumarbúðanna og fjölskyldnanna haldið leyndum, af virðingu við börnin og fjölskyldur þeirra. Er ekki eitthvað bogið við það að foreldrunum finnist þeir hálfpartinn þurfa að „fela“ börnin í sérsumarbúðum? Ef fjölskyldurnar sjá sig knúnar til að óska nafnleyndar er samfélagið greinilega ekki í stakk búið til að taka börnunum eins og þau eru. Hvenær ætli börn sem gangast ekki við hefðbundnum kynjahlutverkum geti farið áhyggjulaus í almennar sumarbúðir, án þess óttast viðbrögð annarra? Vonandi er þessi myndaþáttur merki um að eitthvað sé að breytast til betri vegar.

 http://www.slate.com/blogs/behold/2013/07/15/_you_are_you_looks_at_a_gender_nonconforming_camp_for_boys_photos.html

Grossman, A. H. og D’Augelli, A. R. (2007). Transgender youth and life-threatening behaviors. Suicide and Life-Threatening Behavior, 37(5), 527-537.

Gyða Guðmundsdóttir