Greinasafn fyrir merki: námskeið fyrir drengi

Fjársjóðsleitin

JAKE

Undanfarin ár hafa aðstandendur sjálfsmyndarsíðunnar boðið  upp á námskeið (í samvinnu við aðra) fyrir drengi á aldrinum 8-10 ára sem nefnist Fjársjóðsleitin.

Fjársjóðsleitin er námskeið sem ætlað er að bæta sjálfsmynd og líðan barna. Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema og hefur efni þess og verkefni náð einstaklega vel til drengja á þessum aldri.

Námskeiði er kennt einu sinni í viku í fjórar vikur og er farið yfir margt sem tengst sjálfsmynd og líðan. Drengirnir læra að þekkja styrkleika sína, leita að gleðistundum í eigin lífi, setja sér markmið, stíga út fyrir þægindarammann og prufa að gera hluti sem þeir höfðu áður fyrr ekki trú á að þeir gætu.

Meðan á námskeiðinu stendur er farið í fjársjóðsleit, sjóræningjaleiki, spjallað og haft gaman.

Námskeiðið byggir á hugrænni atferlisfræði og eru verkefni og annað sem gert er á námskeiðinu tekið úr þeim fræðum. Tilgangur verkefnanna er að styrkja sjálfsmynd drengjanna og bæta sjálfstjórn og færni þeirra á mismunandi sviðum. Strákarnir vinna með fyrirmyndir í lífinu, markmið, félagsfærni, fjársjóði og fleira skemmtilegt.

Hönnun námskeiðsins hefur hlotið styrk frá Lýðheilsusjóði og er markmiðið að útbúa handbók  fyrir fólk sem vinnur með börnum. Foreldrar gætu þó einnig nýtt sér efni handbókarinnar.

Á næstu mánuðum verður unnið að gerð handbókarinnar og þegar þeirri vinnu er lokið mun handbókin verða kynnt fagfólki skóla. Það er von okkar að sem felstir fái tækifæri til að taka þátt á námskeiðinu þar sem það er einstaklega skemmtilegt og hafa erlendar rannsóknir á þeim verkefnum sem unnin eru á námskeiðinu, sýnt að þau eru sérlega gagnleg þegar kemur að því að bæta líðan og andlega heilsu.

Elva Björk Ágústsdóttir