Flokkaskipt greinasafn: Verkefni sem styrkja sjálfsmynd

Sjálfstyrkingarverkefni – Verkefnabók

Þann 26.júní var Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)

self esteem
Í tilefni dagsins kynntum við ýmis sjálfstyrkingarverkefni.
Verkefnin voru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Hér má finna verkefnin sem kynnt voru í vikunni ásamt fleiri sjálfstyrkingarverkefnum.

Við hvetjum ykkur til að prófa!

Gangi ykkur vel!!

Sjálfstyrkingarverkefni

 

Fjársjóðsleitin – Leið til að bæta sjálfsmyndina og styrkja sjálfstraustið

fjarsj

 

Árið 2010 hófst verkefni ætlað drengjum á aldrinum 7-10 ára sem nefnist Fjársjóðsleitin. Markmiðið með verkefninu var að ná betur til drengja í ráðgjöf innan skólakerfisins. Reynsla margra námsráðgjafa innan veggja grunnskólanna var á þá leið að stúlkur leituðu meira í ráðgjöf en drengir og minna efni var til sem hentaði drengjum.

Hugmyndin með Fjársjóðsleitinni er að efla og bæta sjálfsmynd barna þar sem þemað er á þá leið að  börnin eru í leit að eigin styrkleikum eða fjársjóði. Börnin leika eins konar sjóræningja (góða sjóræningja að sjálfsögðu) og leita að fjársjóði bæði beint og óbeint.

Fjársjóðsleitar verkefnið stækkkaði og árið 2014 var gefin út handbók fyrir starfsfólk skóla sem hefur áhuga á að styðjast við Fjársjóðsleitina. Fjársjóðsleitin er í dag kennd sem nokkurra tíma námskeið þar sem lögð er áhersla á líðan, hegðun og sjálfsmynd. Verkefnin og hugmyndafræðin á námskeiðinu kemur úr hugrænni og atferlislegri nálgun í sálfræði/ráðgjöf. Unnið er að því að efla þekkingu barnanna á eigin sjálfsmynd og  kostum, unnið er með neikvæðar hugsanir, stigið er út fyrir þægindarammann og þjálfuð er ný hegðun með markmiðssetningu. Verkefnin koma úr ýmsum áttum og flest eru þau í anda hugrænnar atferlisfræði. Verkefni úr bókum Dr. Melanie Fennell hjá Oxford Háskóla í Bretlandi eru nýtt sem og önnur tæki og tól sem þekkt eru úr sálfræði og námsráðgjöf.

Þann 25. janúar geta fagaðilar sem hafa áhuga á að kynnast námskeiðinu tekið þátt á leiðbeinendanámskeiði Fjársjóðsleitarinnar og fengið í kjölfarið handbók fyrir fagfólk. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

Einnig er hægt að eignast verkefnabók fyrir fagfólk og foreldra. Verkefnabókin er ætluð börnum og unglinum og byggir á Fjársjóðsleitinni. Til að eignast verkefanbókina er best að hafa samband við höfund á elvabjork@sjalfsmynd.com

Þann 17. janúar hefst næsta námskeið fyrir börn á aldrinum 7-10 ára hjá Klifinu Garðabæ. Skráning fer fram hér: www.klifid.is

 

 

Sjálfstyrking – Fjársjóðsleitin – Verkefnabók fyrir börn og unglinga

myndin

Elva Björk  höfundur sjálfstyrkingarnámskeiðs sem nefnist Fjársjóðsleitin er að leggja loka hönd á tilraunaútgáfu verkefnabókar fyrir börn og unglinga. Um er að ræða verkefnabók þar sem börn leita að eigin fjársjóði eða styrkleikum. Markmiðið með verkefnunum er að bæta líðan og sjálfsmynd barna, efla jákvætt hugarfar, styrkja jákvæða eiginleika og hvetja börn til að stíga út fyrir þægindaramma sinn, setja sér markmið og ná þeim. Efni bókarinnar byggir á verkefnum og aðferðum úr hugrænni atferlisfræði. Í verkefnabókinni má finna ýmis verkefni sem reynst hafa vel í sjálfsmyndarvinnu með börnum. Einnig má finna lýsingar á verkefnunum fyrir foreldra, kennara, námsráðgjafa og aðra sem vinna með börnum. Áhugasamir geta nálgast tilraunaútgáfu verkefnabókarinnar ódýrt með því að hafa samband við höfund  með því að senda tölvupóst á elvabjork@sjalfsmynd.com.

Elva Björk er sálfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi. Hún hefur lokið MS námi í sálfræði og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf. Elva starfaði sem námsráðgjafi í grunnskóla í 6 ár og kennir sálfræði í framhaldsskóla og er stundakennari í HÍ. Elva hefur haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unga krakka sem nefnist Fjársjóðsleitin í nokkur ár.

How to make and keep friends

Við hjá sjálfsmyndarsíðunni getum ekki annað en mælt með bókinni How to make and keep friends: Tips for kids to overcome 50 common social challenges. 

Mynd - sjálfsmynd

Höfundar bókarinnar eru þær Donna Shea og Nadine Briggs sem hafa í mörg ár unnið með börnum sem geta notið góðs af aukinni færni í félagslegum samskiptum.

Í bókinni má finna hagnýt ráð fyrir krakka sem tengjast t.d því að eignast nýja vini, hvatvísi, hópavinnu, einelti, reiði og fleira.

Skemmtilegt lego verkefni sem þjálfar athygli og hlustun

Á vefsíðunni stories and children má finna mörg áhugaverð verkefni fyrir börn, þar á meðal þetta einfalda lego verkefni sem þjálfar bæði athygli og hlustun.

legogame1

Markmiðið með verkefninu er að ná að raða legokubbum á sama veg og annar þátttakandi, án þess að fá að sjá hvernig sá aðili raðaði sínum kubbum. Einungis má treysta á munnleg fyrirmæli frá þeim sem er að raða kubbunum sínum.

Gott er að nota seríos eða kornflex pakka til að mynda vegg á milli þátttakenda. Mikilvægt er að báðir þátttakendur fái eins kubba og jafn marga og annar aðilinn byrjar á því að stjórna leiknum með því að lýsa fyrir hinum hvernig hann raðar kubbum sínum t.d með fyrirmælum eins og „settu hvíta stóra kubbinn í efra hægra hornið“. Þegar þátttakendur hafa raðað öllum kubbunum má færa „vegginn“ frá og bera  verkin saman. Svo skipta þátttakendur um hlutverk og næsti verður stjórnandi.

legogame2legogame3

 

Verkefnið lítur út fyrir að vera mjög einfalt en getur verið ansi flókið. Verkefnið þjálfar vel hlustun og einbeitingu þátttakenda sem og færni stjórnandans í að koma frá sér skilaboðum á einfaldan og skýran máta.

Hvert get ég leitað?

Flest börn vita að þau geta leitað til foreldra sinna, kennara, vina eða annarra þegar þeim líður illa eða þegar þau þurfa aðstoð. Sum eiga þó erfitt með að leita til annarra. Í einhverjum tilvikum finnst þeim erfitt að biðja um aðstoð í öðrum tilvikum vita þau ekki hvern hægt er að leita til. ?????????????

Í ráðgjöf með börnum eða í spjalli heima getur verið gott að kortleggja betur leiðir barnsins til að bæta líðan sína. Það getur verið gagnlegt að skoða ólíkar aðstæður og hvetja barnið til að nefna einhvern sem það getur leitað til við mismunandi aðstæður eða aðferðir sem barnið sjálft getur nýtt sér til að leysa vandann eða bætt líðan.

Hér má finna skemmtilegt verkefnablað sem nýtist vel í spjalli með börnum:

Hvert get ég leitað

Elva Björk Ágústsdóttir (Námsráðgjafi/MS í sálfræði)

Eru aðrar hliðar á málinu?

Börn sem eiga í vanda með sjálfsmynd sína eða finna fyrir vanlíðan eiga það oft til að eigna sér ýmis vandamál þ.e. telja orsök vandamála liggja hjá sér en ekki í ytri þáttum. Börnin eiga það til að festast í þröngum hugsanahætti og telja ákveðinn atburð einungis eiga eina orsök og að mati barnsins liggur orasakavaldurinn hjá því sjálfu. Um er að ræða svokallaða „tunnel vision“ eða þröngt sjónarhorn þar sem aðrar mögulegar leiðir eða orsakir vandamála eða atburða eru hunsaðar.

Ýmis verkefni geta aukið færni barna í að sjá aðrar hliðar á málum og finna að orsakir liggja ekkert alltaf hjá þeim.

Fyrir barnið er gott að velta upp þeirri spurningu hvað sé raunverulega að gerast. Hvernig við útskýrum hitt og þetta getur haft áhrif á hvernig okkur líður. Þegar ég reyni til dæmis að skilja af hverju vinur minn leyfir mér ekki að vera með í fótbolta þá er gott að ég spyrji sjálfa mig að því hvað sé raunverulega að gerast? Það fer svo eftir því hvernig ég svara þessari spurningu, hvernig mér líður. Ef ég svara oftast á þá leið að vinur minn vill ekki vera með mér eða að ég sé ekki góð í fótbolta og þess vegna fæ ég ekki að vera með, þá líður mér ekki vel. Þegar mér líður ekki vel þá á ég stundum erfitt með að finna aðrar mögulegar ástæður bak við vandann. Ég gæti átt erfitt með að finna aðrar ástæður fyrir því að vinur minn leyfir mér ekki að vera með í fótbolta.

Gott getur verið að vinna verkefni þar sem börnin æfa sig í því að finna margar mögulegar orsakir á ýmsum vandamálum, því það getur hjálpað til við að bæta líðan.

Dæmi um verkefni:

Getur þú hjálpað mér að finna myndtvær eða fleiri ástæður fyrir vanda mínum?  Ég er búinn að finna mína ástæðu en vantar hjálp við að finna aðrar mögulegar ástæður.

Þetta er vandinn minn: Mér er illt í maganum og það eru skrýtin hljóð að koma frá maganum mínum. Þetta hlýtur að þýða að eitthvað slæmt er að mér.

Hverjar geta aðrar mögulegar ástæður  verið?

Barnið kemur með fleiri möguleg svör t.d.:

  • Þú ert svangur
  • Maginn er að melta matinn sem þú fékk í hádeginu

Fleiri dæmi: Tveir krakkar í bekknum eru að hvíslast á og horfa á mig. Þetta þýðir pottþétt að þau eru að tala illa um mig.

Geturðu hjálpað mér að finna aðrar mögulegar hliðar á málinu?:

  • …….
  • …….
  • ..

Hér má finna ítarlegra verkefni:Eru aðrar hliðar á málinu

Þetta skemmtilega verkefni má finna í bókinni: Therapeutic Exercises for Children: Guided Self-Discovery Using Cognitive-Behavioral Techniquies eftir Friedberg, Friedberg og Friedberg (2001).

Elva Björk Ágústsdóttir Námsráðgjafi/kennari

Verkefnablöð í ráðgjöf

 

Vicious_Flower_Formulation1x1Okkur langar að benda ykkur á gagnlegar vefsíður sem geyma verkefnablöð til að nota í ráðgjöf. Um er að ræða verkefnablöð sem byggja á hugrænni atferlisfræði, þar sem unnið er með hugsanir, tilfinningar og hegðun.

http://www.psychologytools.org/cbt.html

http://www.getselfhelp.co.uk/freedownloads2.htm

 

Að nota grín gegn stríðni

laughing-clipart

Í starfi mínu sem námsráðgjafi í grunnskóla hef ég fengið inn á borð til mín ýmiskonar samskiptamál. Hvernig skuli bregðast við stríðni eða neikvæðum athugasemdum annarra er algeng fyrirspurn og er reynslan mín sú að oft getur verið ansi gagnlegt að nota kímnigáfu.

Ég tek það fram að nauðsynlegt er að vinna með öllum sem  koma að málinu, þeim sem eru að stríða öðrum, þeim sem verða fyrir stríðninni, jafnvel stærri hópi og foreldrum.

En þeir nemendur sem náðu að temja sér ákveðið fyndið viðhorf gegn stríðninni virtust vegna betur en þeir sem svöruðu mjög neikvætt eða jafnvel svöruðu með hnefanum.

Hér má finna skemmtilegt verkefni til að vinna með nemendum þar sem nemendur æfa sig í skemmtilegum og fyndnum athugasemdum og læra að greina á milli slíkra viðbragða og neikvæðra viðbragða:

Að nota grín gegn stríðni

Elva Björk Ágústsdóttir (Námsráðgjafi og sálfræðikennari)

Vinaáætlun

Vinaáætlun er verkefni sem hefur það markmið að efla jákvæða eiginleika barna og unglinga t.d. í samskiptum við fólk. Verkefnið byggir á því að barnið setji sér markmið í þrepum, finni leiðir til að ná markmiðum sínum, vinnur með það sem gæti haft neikvæð áhrif á framför og að lokum metur barnið árangurinn.

myndir

Þetta verkefni hefur virkað einstaklega vel í ráðgjöf með börnum og unglingum sem eru að vinna í því að bæta eða efla félagsfærni sína. Viðkomandi vinnur markvisst með eiginleika sem gott væri að bæta eins og skap, reiði, fýlu eða annað. Við hvetjum ykkur eindregið til að skoða verkefnið.

Vinaáætlun

Elva Björk Ágústsdóttir