Greinasafn fyrir merki: sjálfsmynd

Sjálfstyrkingarverkefni – Verkefnabók

Þann 26.júní var Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)

self esteem
Í tilefni dagsins kynntum við ýmis sjálfstyrkingarverkefni.
Verkefnin voru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Hér má finna verkefnin sem kynnt voru í vikunni ásamt fleiri sjálfstyrkingarverkefnum.

Við hvetjum ykkur til að prófa!

Gangi ykkur vel!!

Sjálfstyrkingarverkefni

 

Sjálfsdagur

self esteem

Þann 26.júní er Alþjóðlegur dagur sjálfstrausts eða International self-esteem day (Selfday)
Í tilefni dagsins ætlum við að kynna ýmis sjálfstyrkingarverkefni næstu daga á Facebooksíðu okkar :  https://www.facebook.com/sjalfsmyndoglikamsmynd/
Verkefnin eru hagnýt og einföld og henta fólki á öllum aldri.
Við hvetjum ykkur til að taka þátt og gera eina sjálfstyrkingaræfingu á dag út vikuna.

Í lokin verða verkefnin öll sett saman og hægt að nálgast þau hér á rafrænu formi.

 

Gagnleg ráð við kvíða barna

kvíði barn

Á vefsíðunni  PsychCentral má finna gagnlega grein eftir Renee Jain, um það hvað foreldrar geta gert fyrir barn sem upplifir kvíða

Í greininni eru tekin saman gagnreynd ráð sem hafa reynst vel þegar kemur að því að bæta líðan kvíðafullra barna.

Margir þekkja það eflaust að verða pirraðir og að finna fyrir vonleysi yfir kvíða barna sinna t.d þegar barn óttast það að mæta í skólann, í afmæli, til tannlæknis eða að spyrja eftir vini. Augljóslega er ekki til ein töfralausn fyrir alla en hér má finna nokkur atriði sem geta nýst vel:

  1. Hughreysting virkar ekki alltaf

Barn sem hefur áhyggjur af einhverju á erfitt með að meðtaka skilaboð foreldra sinna um að ekkert sé að óttast. Að segja við barn að það sé ekkert að óttast í skólanum, afmælinu, kringlunni eða hvar sem er hjálpar oftast ekkert. Ein af ástæðunum er sú að þegar kvíðinn tekur yfir okkur þá fer heilinn okkar í árásar eða flótta gírinn og rökhugsun minnkar. Það getur því verið afskaplega erfitt fyrir barn að hugsa rökrétt þegar kvíðinn er sem mestur. Það getur því hentað betur að hjálpa barninu að taka pásu og  draga djúpt andann til að róa taugakerfið. Þegar barnið hefur róast er hægt að finna mögulegar lausnir á vandanum.

  1. Áhyggjur geta verið góðar 😉

Sum börn brjóta sig niður fyrir það að hafa áhyggjur og halda að eitthvað sé að þeim. Fyrir þau getur virkað vel að læra um áhyggjur og hvaða gagn við höfum haft af áhyggjum í tímans rás. Gott getur verið að segja frá því þegar forfeður okkar þurftu að vera á varðbergi fyrir hættulegum dýrum. Áhyggjur geta virkað sem tæki til að hjálpa okkur að lifa af, einhvers konar varnarkerfi. Áhyggjurnar kveikja á viðvörunarbjöllum og við reynum að komast úr hættu. En stundum geta bjöllurnar hringt þegar engin hætta steðjar að og mikilvægt er að reyna að minnka slíkar falshringingar.

  1. Leyfum kvíðanum að „lifna við“

Að hunsa kvíða hjálpar sjaldnast. Fyrir börn getur hentað vel að persónugera kvíðann, gera kvíðann að manneskju eða fígúru. Hægt er að fræða barnið um að Kalli kvíði eða Kvíðaormurinn eigi heima í „gamla“ heilanum og átti að hjálpa okkur að lifa af þegar við bjuggum í hellum. Stundum er Kvíðaormurinn aðeins of fjörugur og alltaf að láta vita af sér og er þá mikilvægt að reyna að koma vitinu fyrir hann og róa hann.

  1. Gerumst spæjarar

Gott er fyrir börn að muna það að áhyggjur eru leið heilans til að bjarga okkur ef við erum í einhvers konar hættu. Áhyggjur sjá til þess að við tökum eftir öllu í kringum okkur svo ekkert hættulegt fari fram hjá okkur. Við gerum þó stundum mistök, höldum til dæmis að trjágrein sé snákur. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að prófa að vera spæjari, grípa hugsanirnar þegar þær birtast, finna sönnunargögn, með og á móti og jafnvel fara í rökræðukeppni við Kalla kvíða eða Kvíðaorminn.

  1. Leyfum áhyggjurnar

Að segja barni að hafa engar áhyggjur minnkar oftast ekki áhyggjurnar. Að leyfa barni að hafa áhyggjur og lýsa þeim fyrir foreldrunum í ákveðinn tíma á dag (áhyggjutími) í t.d 10-15 mínútur getur verið hjálplegt. Í áhyggjutímanum tjáir barnið áhyggjur sínar skriflega eða munnlega (getur verið gaman að leyfa barninu að skrá áhyggjur niður á blað og geyma í áhyggjuboxi). Þegar áhyggjutíminn er liðinn er mikilvægt að kveðja áhyggjurnar og halda áfram með daginn. Af eigin reynslu þá hefur þessi aðferð reynst vel. Barn sem hefur miklar áhyggjur yfir daginn og er vant að tjá sig um allt milli himins og jarðar sem veldur því áhyggjum á það til að gleyma „litlum“ áhyggjum þegar loksins er komið að áhyggjutímanum og þannig minnka áhrif kvíðans smátt og smátt.

  1. Færum okkur frá HVAÐ EF yfir í HVAÐ ER

Við eigum það til að velta óorðnum hlutum mikið fyrir okkur t.d hvað gerist ef ég mismæli mig í tíma, hvað gerist ef Anna vill ekki vera með mér í dag…….? Rannsóknir sýna að það að einbeita sér að núinu og því sem raunverulega er að gerast en ekki öllu því sem gæti gerst hefur jákvæð áhrif á líðan. Núvitundaræfingar geta því haft jákvæð áhrif á börn.

  1. Forðumst að forðast 🙂

Þegar börn hræðast eitthvað reyna þau mikið að forðast það sem þau hræðast t.d sleppa æfingu, afmæli, forðast hunda og annað. Mikilvægt er fyrir foreldra að aðstoða börnin við að nálgast það sem þau hræðast. Hægt er að gera það í þrepum svo barnið finni sjálft að það hafi ekkert að hræðast t.d sjá mynd af hundi, horfa á myndband af hundi, svo fara í almenningsgarð þar sem hundar gætu verið ……og að lokum kannski klappa hundi.

  1. Tékklisti

Þrátt fyrir margra ára reynslu fara þjálfaðir flugmenn ávallt í gegnum tékklista þegar eitthvað kemur upp á í flugi, því vitað er að þegar við erum í einhvers konar hættu eða teljum okkur í hættu þá virkar rökhugsun okkar ekki alltaf eins vel og hún getur. Það getur því verið gagnlegt að útbúa einhvers konar tékklista fyrir barn sem finnur fyrir kvíða t.d anda rólega og meta aðstæður.

Hér má finna áhugaverða síðu til að aðstoða börn við að komast yfir kvíða.

Elva Björk Ágústsdóttir

Náms- og starfsráðgjafi, (MS í sálfræði)

How to make and keep friends

Við hjá sjálfsmyndarsíðunni getum ekki annað en mælt með bókinni How to make and keep friends: Tips for kids to overcome 50 common social challenges. 

Mynd - sjálfsmynd

Höfundar bókarinnar eru þær Donna Shea og Nadine Briggs sem hafa í mörg ár unnið með börnum sem geta notið góðs af aukinni færni í félagslegum samskiptum.

Í bókinni má finna hagnýt ráð fyrir krakka sem tengjast t.d því að eignast nýja vini, hvatvísi, hópavinnu, einelti, reiði og fleira.

Sjálfsábyrgð

1947843_626016364151025_1687281632_n

Eitt af því sem einkennir fólk sem er hamingjusamt og með góða sjálfsmynd er sjálfsábyrgð. Það tekur ábyrgð á eigin líðan og vellíðan, það tekur af skarið, framkvæmir hluti og tekur ábyrgð á gerðum sínum. Þessir einstaklingar bíða ekki endalaust eftir því að aðrir komi og breyti lífi þeirra. Ef þeir gera mistök þá festast þeir ekki í ásökunum heldur velta freka fyrir sér mögulegum lausnum eða breytingum.

Börn með slæma sjálfsmynd eiga það til að kenna öðrum um mistök sín og eiga þá erfitt með að líta í eigin barm og leita lausna. Hið andstæða er þó einnig algengt, að telja sig bera ábyrgð á of mörgum atriðum, eins og líðan annarra.

Mikilvægt er að vinna að raunhæfu sjónarmiði þar sem börnin læra að þekkja hverju þau geta haft stjórn á og hverju ekki. Ef barn á það til að taka líðan annarra inn á sig og telja sig bera ábyrgð á flestu sem gerist í lífi þess er mikilvægt að efla sjálfsvitund barnsins eða þekkingu á getu þess og hæfni. Ef María telur til dæmis rigninguna sem fellur á gesti í afmælisveislu hennar vera henni sjálfri að kenna er mikilvægt að vinna með þá miklu ábyrgð sem hún telur hvíla á herðum sínum.

Á hinn bóginn eiga sum börn erfiðara með að bera ábyrgð á hlutum og venja sig á að kenna öðrum um ófarir sínar. Þetta gerir þeim erfiðara fyrir þegar kemur að því að bæta stöðuna, þar sem í þeirra huga er ábyrgðin ávallt annarra. Ef María mætir oft seint í tíma fær hún áminningu frá kennara sínum. María er orðin pirruð og fúl út í kennara sinn og viðhorf hennar til skólans versnar. Með því að taka ekki ábyrgð á eigin hegðun heldur yfirfæra hana á kennarann sinn batnar staðan ekki. María mætir áfram seint, fær reglulega áminningu frá kennaranum og líðan í skólanum versnar.

Það getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan barns að þurfa að bera ábyrgð á hlutum sem eru raunhæf og viðeigandi fyrir aldur og getu barnsins. Það að setja sér markmið og leggja eitthvað af mörkum til að ná markmiðunum getur bætt líðan. Það getur því hjálpað börnum að æfa sig í að bera ábyrgð á verkefnum sem hentar aldri. Bæði getur það aðstoðað börn sem eiga það til að telja sig bera ábyrgð á öllum  heimsins vandamálum, að sjá að sumu geta þau stjórnað og öðru ekki, sem og getur aukin ábyrgðartilfinning hjálpað börnum sem eiga það til að kenna öðrum um ófarir sínar í stað þess að líta í eigin barm og leita lausna.

Elva Björk Ágústsdóttir Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Hvert get ég leitað?

Flest börn vita að þau geta leitað til foreldra sinna, kennara, vina eða annarra þegar þeim líður illa eða þegar þau þurfa aðstoð. Sum eiga þó erfitt með að leita til annarra. Í einhverjum tilvikum finnst þeim erfitt að biðja um aðstoð í öðrum tilvikum vita þau ekki hvern hægt er að leita til. ?????????????

Í ráðgjöf með börnum eða í spjalli heima getur verið gott að kortleggja betur leiðir barnsins til að bæta líðan sína. Það getur verið gagnlegt að skoða ólíkar aðstæður og hvetja barnið til að nefna einhvern sem það getur leitað til við mismunandi aðstæður eða aðferðir sem barnið sjálft getur nýtt sér til að leysa vandann eða bætt líðan.

Hér má finna skemmtilegt verkefnablað sem nýtist vel í spjalli með börnum:

Hvert get ég leitað

Elva Björk Ágústsdóttir (Námsráðgjafi/MS í sálfræði)

Þegar hrósið dugar skammt

Áður en ég kem mér að efninu vil ég taka það fram að það að hrósa börnum á markvissan hátt getur haft mjög góð áhrif á mótun sjálfsmyndar þeirra. Það að fá hrós og finna fyrir jákvæðu viðhorfi gagnvart manni sjálfum getur skipt sköpum þegar kemur að líðan.

hurray_1Ég tel að öll börn hafi marga góða en ólíka kosti að bera. Sum vita af styrkleikum sínum og jafnvel njóta þess að láta ljós sitt skína og finna fyrir sigrum, stórum sem smáum á hverjum degi. Önnur börn eiga erfiðara með að átta sig á styrkleikum sínum, brjóta sig jafnvel niður þegar illa gengur og taka lítið eftir eigin afrekum. Mikilvægt er því að benda börnum á þá flottu eiginlega sem þau hafa að bera, hvort sem það er að reima á sig skóna, vera dugleg að læra eða vera hjálpsöm á heimilinu.

En sum börn upplifa sjaldan eða jafnvel aldrei sigra í lífinu þrátt fyrir góðan stuðning og hrós frá foreldrum og öðrum, til dæmis kennurum.

Sonur minn er 9 ára. Hann er klár og yndislegur strákur. Hann á erfitt með að einbeita sér í skólanum og félagslega getur hann lent í vandræðum. Hann er stundum skilinn útundan en á það líka til að túlka aðstæður neikvæðari en þær í raun eru, þá rýkur hann burt í fýlu og finnst hann vera einn og yfirgefinn.

Sonur minn hefur marga góða kosti og er hann minntur á þá oft á dag. Gallinn er bara sá að hann trúir ekki foreldrum sínum. Honum finnst hann ekki klár, duglegur, skemmtilegur, fyndinn, hjálpsamur eða hvað sem nefnt er. Það virðist því ekki gagnast honum mikið að heyra foreldra sína hrósa honum í tíma og ótíma fyrir góða eiginleika sem hann telur sig sjálfan ekki bera.

Fyrir hann gæti aukin sjálfsstjórn og bætt færni á hinum ýmsu sviðum því verið mikilvægari þáttur í því að styrkja sjálfsmynd hans. Mögulegt er að hann fái þau skilaboð frá umhverfi að hann sé ekki klár eða skemmtilegur. Hann nær til að mynda ekki vel fyrirmælum í skólanum, nær ekki að klára verkefnin eins fljótt og vel og aðrir og lendir stundum í því að fá ekki að vera með í leikjum þar sem hann er orðinn fúll eða reiður yfir ákveðnum leikreglum eða samskiptum.

Mikilvægt er að hafa í huga að sumir krakkar þurfa aukna leiðsögn og aðstoð þegar kemur að samskiptum, námi, leik eða öðru. Með því að efla færni þeirra á þeim sviðum sem þjálfa má, aukast líkur á því að þau upplifi sig sem sigurvegara.

Verum því dugleg að hrósa og leiðbeina 😉

Elva Björk Ágústsdóttir (Námsráðgafi/MS í sálfræði)

ADHD og sjálfsmynd

jumping-silhouettes-wallpapers_12598_1600x1200

Góð sjálfsmynd er mikilvæg. Börn með góða sjálfsmynd hafa góða sýn á styrkleikum sínum og geta unnið að því að bæta færni sína á hinum ýmsum sviðum.

Athyglisbrestur með ofvirkni eða ADHD hefur oft verið tengt við slæma sjálfsmynd. Börn með ADHD geta til dæmis átt í erfiðleikum með félagsleg samskipti og upplifa mörg hver ósigra á mismunandi vígstöðum, sem getur haft áhrif á þróun sjálfsmyndarinnar.

Fræðimenn eru þó ekki sammála um tengsl ADHD og sjálfsmyndar. Niðurstöður rannsókna sýna að börn með ADHD eru jafnvel með mjög góða sjálfsmynd og að þau eigi það jafnvel til að ofmeta færni sína. Rannsóknir á drengjum með ADHD hafa til að mynda sýnt að þeir ofmeta færni sína í námi,hegðun og félagslegum samskiptum. Þetta á þó ekki við um alla drengi með ADHD. Drengir sem sýna einkenni ofvirknis og hvatvísi meta færni sína oft betur en drengir sem sýna einkenni athyglisbrests. Drengir sem greinast með aðrar raskanir með ADHD eða finna fyrir þunglyndi og kvíða virðast hafa verri sjálfsmynd en drengir án þeirra einkenna.

Rétt er að börn með ADHD lenda stundum á vegg, upplifa ósigra, finna sig ekki í félagslegum samskiptum og ná oft ekki því sem fram fer í kennslustund eða í samtölum við aðra. Mikilvægi góðrar sjálfsmyndar er því augljós til að auka líkur á því að barnið gefist ekki upp, setji sér markmið og vinni markvisst að því að ná þeim. Bent hefur verið á að góð sjálfsmynd barna með ADHD geti því verið eins konar vörn, þar sem börnin upplifa oft fleiri ósigra en önnur börn.

Heimildir:

Diener, M. B., & Milich, R. (1997). Effects of positive feedback on the social interactions of boys with attention deficit hyperactivity disorder: A test of the self-protective hypothesis. Journal of Clinical Child Psychology, 26, 256-265.

Owens, J.S.og Hoza,B. (2003). The role of inattention and hyperactivity/impulsivity in the positive illusory bias. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 71(4), 680-691.

Elva Björk Ágústsdóttir, Námsráðgjafi, (MS í sálfræði)

Að velja sér viðhorf – Myndband

site-logo

Okkur langar að benda ykkur á stutt, skemmtilegt og gagnlegt myndband þar sem Ásgeir Jónsson markþjálfi fjalla um að velja sér viðhorf. Hann fjallar um mikilvægi þess að temja sér rétt viðhorf í lífinu og að hugsa jákvætt.

Endilega skoðið:

http://www.fyrirlestrar.is/fyrirlestrar/ad-velja-vidhorfid

 

Mynd

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10. okt

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10. okt

Viljum minna á geðorðin tíu. Sígild og góð