Greinasafn fyrir merki: börn

Á ég að hrósa barni mínu?

Ég hef lent í ansi skrautlegum rökræðum við fólk um hrós og hvatningu til barna. Sumir eru á því að við hrósum börnum of mikið og fyrir lítið og það hafi letjandi áhrif á börnin. Það getur verið að eitthvað sé til í því. Rannsóknir sýna til dæmis að hrós eru misgóð. Það skiptir máli hvernig við hrósum. Að hrósa barni fyrir eiginleika sem eru nokkuð stöðugir eins og greindarfar getur í sumum tilvikum haft letjandi áhrif meðan það að hrósa fyrir hegðun eða virkni getur haft hvetjandi áhrif. Barn sem fær hvatningu fyrir verknað t.d. fyrir góða virkni í verkefni sem unnið er í skólanum, er líklegra til að reyna meira á sig. Barn sem fær eingöngu hrós fyrir að vera klárt er ekki endilega líklegra til að reyna mikið á sig, það gæti jafnvel reynt að komast undan krefjandi verkefnum af hræðslu við að mistakast.

hurray_1

En hrós eru mikilvæg.

Albert Bandura doktor í sálfræði vakti áhuga fólks á hugtakinu trú á eigin getu (self efficacy). Trú á eigin getu er skilgreint sem mat okkar á eigin færni til að skipuleggja og framkvæma röð aðgerða sem eru nauðsynlegar til að geta framkvæmt ákveðnar tegundir verkefna. Hér er ekki um almenna hæfni að ræða heldur færni í ákveðnum verkefnum eða aðstæðubundið mat á hæfni til að framkvæma afmarkað verkefni. Einstaklingur getur þess vegna verið með nokkuð gott sjálftstraust þótt trú hans á eigin getu í eldhúsinu er ekki mikil. Eins getur einstaklingur verið með lítið sjálfstraust en góða trú á eigin getu þegar kemur að eldamennsku.

Ýmist þættir hafa áhrif á trú okkar á eigin getu t.d. bein reynsla, þ.e. hvernig áður hefur gengið að framkvæma ákveðið verkefni. Ef mér hefur hingað til gengið nokkuð vel að elda góðan mat þá eykur það líkur á því að ég hafi góða trú á eigin getu í eldhúsinu. Óbein reynsla getur líka haft áhrif á mótun trúar á eigin getu. Að fylgjast með öðrum og læra þannig handbrögðin í eldhúsinu eykur líkur á því að ég treysti mér til að gera eins. Lýsandi dæmi um þetta kemur úr heimi íþróttanna. Áður töldu menn að líkamlega ómögulegt væri að hlaupa mílu á innan við fjórum mínútum enda hafði engum tekist það fyrir árið 1954. Það ár braut þó Englendingurinn Roger Bannister fjögurra mínútna múrinn með því að hlaupa fjórar mílur á tímanum 3,59 mínútur. Árangur hans hafði mikil áhrif á aðra hlaupara. Ári síðar náðu 37 hlauparar svipuðum tíma og árið þar á eftir brutu 300 hlauparar fjögurra mínútna múrinn. Ólíklegt er að líkamlegt form hlaupara hafi breyst á svo dramatískan hátt á þessum stutta tíma. Líklegra þykir að hugsunarhátturinn hafi breyst. Með því að sjá aðra framkvæma verkið aukast líkurnar á því að við teljum okkur sjálf geta gert hið sama.

Aðrir þættir hafa áhrif á trú á eigin getu og spilar hvatning þar stórt hlutverk. Skilaboð frá öðrum, hrós og klapp eflir okkur. Að heyra “þú getur þetta” eða “áfram áfram!!” staðfestir hugmynd okkar um getuna og ýtir undir enn betri árangur.

Trú á eigin getu getur haft mikil áhrif á líf okkar. Einstaklingar með góða trú eru til að mynda líklegri til að velja krefjandi og þroskandi verkefni í stað þess að forðast þau og efla þannig ennþá betur færnina. Trú á eigin getu hefur áhrif á hve mikið við leggjum á okkur. Einstaklingur með góða trú sýnir seiglu og gefst síður upp við mótlæti. Góð trú á eigin getu getur líka haft áhrif á sjálfstal. Þeir sem hafa litla trú velta sér meira upp úr mistökum, vanmeta getu sína og þeim líður verr við mótlæti. Ef viðkomandi gerir mistök er hann líklegri til að telja orsökina liggja í skort á getu eða hæfni. Þeir sem hafa góða trú á eigin getu beina athyglinni frekar að verkefninu og mögulegum launsum. Ef gerð eru mistök, eiga þeir það til að telja þau verða vegna þess að þeir lögðu ekki nægilega hart að sér og því líklegri til að reyna betur næst.

Til að efla sjálfsmynd barna er því mikilvægt að hvetja þau áfram og nota hrós. Við getum bent þeim á fyrri árangur eða notað herminám og sýnt þeim hvernig eigi að gera og hvetja þau áfram þegar þau reyna sjálf.

Elva Björk Ágústsdóttir

Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Sjálfsábyrgð

1947843_626016364151025_1687281632_n

Eitt af því sem einkennir fólk sem er hamingjusamt og með góða sjálfsmynd er sjálfsábyrgð. Það tekur ábyrgð á eigin líðan og vellíðan, það tekur af skarið, framkvæmir hluti og tekur ábyrgð á gerðum sínum. Þessir einstaklingar bíða ekki endalaust eftir því að aðrir komi og breyti lífi þeirra. Ef þeir gera mistök þá festast þeir ekki í ásökunum heldur velta freka fyrir sér mögulegum lausnum eða breytingum.

Börn með slæma sjálfsmynd eiga það til að kenna öðrum um mistök sín og eiga þá erfitt með að líta í eigin barm og leita lausna. Hið andstæða er þó einnig algengt, að telja sig bera ábyrgð á of mörgum atriðum, eins og líðan annarra.

Mikilvægt er að vinna að raunhæfu sjónarmiði þar sem börnin læra að þekkja hverju þau geta haft stjórn á og hverju ekki. Ef barn á það til að taka líðan annarra inn á sig og telja sig bera ábyrgð á flestu sem gerist í lífi þess er mikilvægt að efla sjálfsvitund barnsins eða þekkingu á getu þess og hæfni. Ef María telur til dæmis rigninguna sem fellur á gesti í afmælisveislu hennar vera henni sjálfri að kenna er mikilvægt að vinna með þá miklu ábyrgð sem hún telur hvíla á herðum sínum.

Á hinn bóginn eiga sum börn erfiðara með að bera ábyrgð á hlutum og venja sig á að kenna öðrum um ófarir sínar. Þetta gerir þeim erfiðara fyrir þegar kemur að því að bæta stöðuna, þar sem í þeirra huga er ábyrgðin ávallt annarra. Ef María mætir oft seint í tíma fær hún áminningu frá kennara sínum. María er orðin pirruð og fúl út í kennara sinn og viðhorf hennar til skólans versnar. Með því að taka ekki ábyrgð á eigin hegðun heldur yfirfæra hana á kennarann sinn batnar staðan ekki. María mætir áfram seint, fær reglulega áminningu frá kennaranum og líðan í skólanum versnar.

Það getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan barns að þurfa að bera ábyrgð á hlutum sem eru raunhæf og viðeigandi fyrir aldur og getu barnsins. Það að setja sér markmið og leggja eitthvað af mörkum til að ná markmiðunum getur bætt líðan. Það getur því hjálpað börnum að æfa sig í að bera ábyrgð á verkefnum sem hentar aldri. Bæði getur það aðstoðað börn sem eiga það til að telja sig bera ábyrgð á öllum  heimsins vandamálum, að sjá að sumu geta þau stjórnað og öðru ekki, sem og getur aukin ábyrgðartilfinning hjálpað börnum sem eiga það til að kenna öðrum um ófarir sínar í stað þess að líta í eigin barm og leita lausna.

Elva Björk Ágústsdóttir Námsráðgjafi og sálfræðikennari

Samvinnu/félagsfærniverkefni

Samvinnu- eða félagsfærniverkefnið Að búa til land má finna í sjálfsstyrkingar og félagsfærniverkefnabók Alanna Jones frá árinu 1998. Bókin getur nýst vel í kennslu eða ráðgjöf með börnum. bók

Verkefnið Að búa til land er einstaklega skemmtilegt og styrkir samvinnu og félagsfærni nemenda. Verkefnið gengur út á það að nemendur vinna saman að því að búa til land, þeir þurfa að komast að samkomulagi um ýmis atriði eins og fána landsins og lög. Eftir verkefnið er mikilvægt að ræða hvernig til tókst í samvinnunni og hvað þarf að bæta.

Verkefnalýsing – Að búa til land:

Það þarf mikla samvinnu í að mynda nýja þjóð og er markmið verkefnisins að fá nemendur til að vinna vel saman, deila verkefnum og sjá til þess að rödd allra fái að heyrast.

Efni – Arkir og litir

Lýsing – Þið hafið fundið eyju sem enginn býr á, eða á. Þið hafið verið valin í nýja ríkisstjórn og þurfið að taka ákvarðanir og klára þessi verkefni:

  1. Nefna landið
  2. Gælunafn á landið
  3. Búa til fána
  4. Finna þjóðarfugl – koma með fugla bók
  5. Finna þjóðarblóm – koma með blómabók
  6. Búa til texta við þjóðarsöng
  7. Búa til mikilvæg lög í landinu
  8. Búa til ríkisstjórn
  9. Finna störf í landinu
  10. …..annað mikilvægt

Hver hópur kynnir sitt verkefni.

 

 

 

Fitutal

Kannist þið við samtal líkt þessu:

Anna: „Ohhh ég er svo feit í þessum buxum? „

Lísa: „Nei hvað er að þér? Þú ert sko ekkert feit! Ef þú er feit, hvað er ég þá? Ég er miklu feitari en þú“

Anna: „Nei Lísa!! Rassinn minn er miklu breiðari en rassinn þinn, ég vildi ég hefði rass eins og þinn“

fat talk

Samtal þessu líkt er ekki óalgengt meðal stúlkna og kvenna. Umræðuefnið getur verið mismunandi en aðalatriðið er hið sama, kvartanir yfir eigin líkamsvexti.

Óánægja með eigin líkamsvöxt er svo algeng í okkar samfélagi að nær eðlilegra þykir að vera ósáttur við vöxt sinn en sáttur, sérstaklega meðal stúlkna. Óánægja með líkamsvöxt eða slæm líkamsmynd er alvarleg í ljósi þess hve mikil áhrif óánægjan hefur á líðan og heilsu fólks. Til að mynda er slæm líkamsmynd og sókn í grannan vöxt mikill áhrifaþáttur í þróun átraskana (Stice, 2001).

Í rannsókn á unglingsstúlkum frá árinu 1994 var hugtak sem nefna má fitutal eða fat talk fyrst reifað. Nichter og Vuckovic (1994) nefndu samræður milli stúlkna, þar sem þær tala neikvætt um líkamsvöxt sinn, fitutal. Fitutal er félagslegt og eru slík samtöl mjög algeng í okkar samfélagi. Fitutalið getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar, sátt við líkamann og líkamsmynd. Að heyra aðra tala neikvætt um eigin líkama getur einnig haft neikvæð áhrif. Fitutal annarra ýtir undir fitutal hjá okkur sjálfum sem hefur síðan slæm áhrif á líkamsmynd og líðan (Salk og Engeln-Maddox, 2011)

Þegar við forðumst að tala illa um líkamsvöxt og neitum að taka þátt í slíkri umræðu þá líður okkur betur. Að eyða umræðuefninu eða draga athygli fólks að öðru umræðuefni getur haft jákvæð áhrif. Fitutal innan hópsins verður fátíðara og áhrif þess minnka.  Góð eða hnyttin mótrök geta jafnvel haft mikil áhrif á það að bæta líkamsmyndina. Mótrökin ættu ekki að vera í þeim dúr að styðja viðkomandi í fitutalinu t.d. með því að svara Önnu líkt og Lísa gerir, þ.e. að sannfæra Önnu um að hún sé ekki feit. Lísa gæti frekar reynt að storka hugmyndum Önnu um hinn „fullkomna líkamsvöxt“ eða gagnrýnt þá hugmynd að útlit okkar hafi mikið með mannkosti okkar og verðleika að gera.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga áhrif fitutals fullorðinna á börn. Möguleiki er á því að Anna líkist móður sinni. Frá því Anna var lítil hefur móðir hennar verið í megrun. Móðir hennar kvartar ítrekað yfir „aukakílóum“ og breiðum rassi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft segir orðatiltækið. Skilaboðin sem Anna fær frá móður sinni eru skýr! Útlit mitt er óæskilegt! Varast skal að líta svona út.

Hlífum börnum fyrir miklu og neikvæðu útlitstali og reynum að bera meiri virðingu fyrir okkur sjálfum í leiðinni.

Elva Björk Ágústsdóttir

 

Heimildir:

Salk, R. H. og Engeln-Maddox, R. (2011). „If you’re fat, than I’m humongous!“ Frequency, content, and impact of fat talk among college women. Psychology of  women quarterly, 35, 18-28.

Stice, E (2001). A prospective test of the dual pathway model of bulimic pathology: Mediating effects of dieting and negative affect. Journal of Abnormal   Psychology, 110, 124-135.

 

 

 

Eru aðrar hliðar á málinu?

Börn sem eiga í vanda með sjálfsmynd sína eða finna fyrir vanlíðan eiga það oft til að eigna sér ýmis vandamál þ.e. telja orsök ýmissa vanda liggja hjá sér en ekki í ytri þáttum. Börnin eiga það til að festast í þröngum hugsanahætti og telja ákveðinn atburð einungis eiga eina orsök og að mati barnsins liggur orsökin hjá því sjálfu. Um er að ræða svokallaða „tunnel vision“ eða þröngt sjónarhorn þar sem aðrar mögulegar leiðir eða orsakir ýmissa vandamála eða atburða eru hunsaðar.

Ýmis verkefni geta aukið færni barna í að sjá aðrar hliðar á málum og finna að ?????????????orsakir liggja ekkert alltaf hjá þeim.

Hér má finna skemmtilegt verkefni sem nefnist Hvað er að gerast?

Hvað er að gerast?

Elva Björk Ágústsdóttir

Varanlegt eða tímabundið?

Þegar Sigga vildi ekki koma með Önnu vinkonu sinni í snú snú varð Anna sár og reið. Hún sagðist ekki hafa áhuga á að gera neitt annað og stóð ein eftir þegar Sigga og vinkonur hennar fóru í eltingaleik. Þegar kennari kom að henni grét Anna og sagðist ætla að hætta að vera vinkona Siggu þar sem Sigga væri svo leiðinleg, vildi ALDREI gera það sama og hún. Kennarinn aðstoðaði Önnu við að fá hugmyndir að öðrum leikjum og bjóða Siggu að vera með í þeim leikjum en Önnu leið illa og var ekki til í að leika við Siggu þann daginn.sippa

Anna, líkt og mörg önnur börn, á erfitt með að sjá ólíkar hliðar á málum. Börn sem eru að takast á við einhvern vanda eiga það stundum til að sjá atburði sem varanlega atburði (permanent) í stað þess að líta á þá sem tímabundna atburði. Slæmir atburðir eða neikvæðar tilfinningar eru þá oft túlkaðar sem varanlegar eða endanlegar, en ekki tímabundið ástand sem muni líða hjá. Um er að er að ræða ákveðinn skýringarstíl eða hugsanastíl sem getur verið niðurdrepandi og einkennir hann frekar svartsýn börn en bjartsýn.

Að aðstoða börn við það að sjá að flest allar aðstæður, flestir atburðir og flestar tilfinningar eru tímabundnar en ekki varanlegar, getur haft jákvæð áhrif á líðan þeirra, félagsfærni og sjálfsmynd. Þegar börn átta sig í því, að möguleiki til breytinga er til staðar, því líklegri eru þau til þess að reyna að vinna úr sínum málum.

Ef Anna hefði getað séð aðra hliðar á vandanum, áttað sig á að Sigga hafði bara ekki áhuga á að fara í snú snú þann daginn og væri ekki að hafna Önnu sem vinkonu og áttað sig á að Sigga væri ekki ALLTAF leiðinlegt eða ALLTAF að hafna Önnu, því meiri líkur væru á því að Anna gæti tekið þátt í leik stúlknanna í frímínútum og liði betur en ella.

Ýmis verkefni er hægt að nýta til að þjálfa börn í því að átta sig á að margt er tímabundið meðan annað er varanlegt.

Þetta skemmtilega verkefni má finna í bókinni: Therapeutic Exercises for Children: Guided Self-Discovery Using Cognitive-Behavioral Techniquies eftir Friedberg, Friedberg og Friedberg (2001).

Varanlegt v.s. tímabundið

 

Sjálfsmynd barna (fræðsla fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri)

Við hjá sjálfsmyndarvefsíðunni erum farnar af stað með fræðslu fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri. Fjallað er um hvernig stuðla megi að sterkri sjálfsmynd hjá börnum, farið í helstu þætti sem hafa áhrif á sjálfsmynd og hvernig uppalendur geta haft áhrif á þessa þætti til að bæta sjálfsmynd barna sinna.

Picture1

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í þeim birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun (www.menntamalaraduneyti.is)

Fræðsla um sjálfsmynd barna tengist flestum ef ekki öllum þessum þáttum og samræmist vel áherslu á sanngirni, samvinnu, líðan og heilsu og að styrkja börn í að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Leikskólar, grunnskólar, foreldrafélög eða aðrir geta óskað eftir fræðslu með því að hafa samband við Maríu, Önnu Siggu eða Elvu á sjalfsmynd@gmail.com

„Ég er frábær“ aðferðin

Klukkan er sjö að morgni. Guðrún, sem hefur fundið fyrir minnkandi sjálfstrausti, stendur fyrir framan spegilinn og segir „Ég frábær stelpa“.  Svona hefur hún byrjað alla daga í meira en þrjár vikur eftir að hafa fengið þessar ráðleggingar hjá umhyggjusamri frænku.

Image

Sjálfstraustið hefur þó látið á sér standa. Guðrún er ennþá að brotna saman einkum þegar henni gengur illa í skólanum og þegar krakkar í skólanum segja leiðinlega hluti við hana. Þá á hún það til að brjóta sig niður og staðhæfa að hún sé heimsk og leiðinleg.

Guðrún er í eðli sínu hvatvís og á það til að gera og segja hluti sem hún sér eftir. Með aldrinum hefur hún farið að taka þessi mistök mjög nærri sér. Veltir sér upp úr þeim og telur þau til marks um að hún sé ómerkileg, leiðinleg eða heimsk. Flestir sem þekkja Guðrúnu vita hinsvegar að hún er góð, skemmtileg, fyndin, ákveðin, hugulsöm og hæfileikarík stelpa, auk þess að vera lykilleikmaður í fótboltaliðinu sem hún æfir með. Hún er hinsvegar ekki, frekar en við hin, gallalaus eða þannig að öllum líki vel við hana.

Það má velta fyrir sér afhverju sjálfsstyrkingaraðferð Guðrúnar er ekki að virka – að hamra á því við sjáfa sig að hún sé frábær. Ástæðuna má líklega rekja til þess að það er erfitt fyrir Guðrúnu að halda í þessa hugmynd þegar henni verður á, hún nær ekki markmiðum sínum eða er hafnað af félögum. Sú reynslafer ekki saman við þá hugmynd hennar um að vera frábær manneskja. Annað veldur því einnig að aðferðin styrkir ekki sjálfsmynd hennar: Hún hefur óljósa hugmynd um hvað felst í staðhæfingunni og tilgreinir ekki ástæður fyrir því að hún sjálf sé frábær.

Til þess að sjálfsmynd Guðrúnar batni þarf hún að átta sig á því að hún hefur fjölmarga kosti og styrkleika sem margir vildu gjarnan búa yfir og  sætta sig við að vera ófullkomin manneskja sem gerir mistök eins og allir aðrir. Þá verður hún sáttari í eigin skinni og brotnar síður niður við minnstu mistök og óþægilegar uppákomur. 

Það er á brattann að sækja fyrir börn og unglinga með lítið sjálfstraust að ætla að telja sér trú um að þau séu frábær. Líklegra til árangurs er að aðstoða þau við að taka eftir og læra að meta styrkleika sína og kosti sem þau sannanlega hafa, ásamt því að sættast við veikleika sína og annmarka. Börn með slaka sjálfsmynd þurfa fyrst og fremst að komast á þann stað að upplifa sig engu verri né minna virði en önnur börn. Raunsætt mat á styrkleikum (með áherslu á hvað þau geta frekar en hvað þau geta ekki) er því vænlegra til árangurs en óraunsæ glansmynd af eigin ágæti sem heldur ekki vatni í mótlæti hversdagsins.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

 

 

 

Áhugaverð síða-Response to Intervention

Okkur hjá sjálfsmyndarsíðunni langar að benda ykkur á áhugaverða síðu: www.interventioncentral.org –  

Image

 

Á síðunni má finna alls kyns ráð og ábendingar fyrir kennara og þá sem vinna með börnum. Margt af þessu er vel rannsakað og tengist námi, líðan og hegðun barna og unglinga og eru þetta allt liðir í því í að stuðla að bættri sjálfsmynd þeirra.

Mikil áhersla er lögð á RTI (Response to Intervention) en með RTI er lögð áhersla á forvarnir fyrr en seinna, reglubundnar og örar mælingar á árangri og vel rannsakaðar leiðir og verkefni til að ná til barna sem eiga erfitt uppdráttar í námi. 

 

 

Áhugaverð verkefni og verkfæri fyrir börn

Bryndís Guðmundsdóttir þroskaþjálfi benti okkur á þessa áhugaverðu heimasíðu: http://www.senteacher.org. Hér er hægt að prenta út verkefni:http://www.senteacher.org/Print/Other/
feelings

sen<a

Á síðunni má finna skemmtileg og áhugaverð verkefni og verkfæri til að nota í vinnu með börnum t.d. í tilfinningavinnu, félagsfærnivinnu og sjálfsmyndarvinnu.
Við hvetjum alla til að kíkja á síðuna og kanna hvort þar megi finna verkefni sem gæti nýst ykkur vel í starfi/uppeldi.