Flokkaskipt greinasafn: Líkamsmynd

Sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga – hagnýt verkefni og leiðir til að bæta sjálfsmynd og líðan

Mánudaginn 13. ágúst höldum við námskeið um sjálfsmynd og líkamsmynd í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.

youth-570881_1920 (1)

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga. Farið verður í þá þætti sem móta sjálfsmyndina, þær breytingar sem verða á unglingsárum og þann kynjamun sem finna má á sjálfsmynd og líkamsmynd unglinga. Unnin verða hagnýt verkefni sem hægt er að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Góð sjálfs- og líkamsmynd hefur jákvæð áhrif á líðan og hegðun barna og unglinga. Rannsóknir sýna að góð sjálfsmynd getur verið verndandi þáttur í þroska barna og minnkað líkur á þróun ýmissa geðraskana, vandamála eins og námsvanda og annarra neikvæðra þátta.

Á námskeiðinu verður fjallað um sjálfs- og líkamsmynd, sjálfstraust, breytingar á unglingsárum, þætti sem hafa áhrif á líðan og þann mun sem finna má á líðan og sjálfsmynd stúlkna og drengja.

Á námskeiðinu verða ýmiskonar verkefni kynnt sem nýta má í starfi sem og í uppeldi. Verkefnin byggja á sálfræðikenningum og benda rannsóknir til þess að verkefnin geti stuðlað að jákvæðri og betri sjálfs- og líkamsmynd.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Þætti sem hafa áhrif á þróun sjálfs- og líkamsmyndar, kynjamun og breytingar.
• Verkefni og verkfæri til að bæta líðan barna og unglinga.

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á sjálfsmynd og líkamsmynd barna og unglinga.
• Aukinn skilningur á þeim þáttum sem hafa áhrif á líðan barna.
• Að þekkja leiðir til að efla sjálfstraust.
• Að þekkja leiðir og verkefni til að bæta sjálfsmynd og líkamsmynd.
• Fá tæki og tól til að nýta í starfi með börnum og unglingum eða í uppeldi.

Fyrir hverja:

Námskeiðið hentar öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum, t.d. kennurum, námsráðgjöfum, skólasálfræðingum, þroskaþjálfurum, tómstundafræðingum og skólahjúkrunarfræðingum. Námskeiðið hentar einnig foreldrum barna og unglinga.

 

Nánari upplýsingar: http://www.endurmenntun.is/namskeid/stakt-namskeid?courseID=172H18&n=sjalfsmynd-og-likamsmynd-barna-og-unglinga-hagnyt-verkefni-og-leidir-til-ad-baeta-sjalfsmynd-og-lidan&fl=uppeldi-og-kennsla

 

Má ég vera á „ljótunni“?

Ég vaknaði í  morgun á ljótunni……. kannist þið við þá tilfinningu?

joe-bleh2

Í gær var ég þvílíkt sexý, klæddi mig í fallegan kjól, greiddi hárið og valhoppaði um bæinn í opnum sandölum. Ég var fallegri en túristarnir á Laugaveginum og mér fannst líkami minn mun kynþokkafyllri en líkami gínanna í búðargluggunum.

Ég fór sexý að sofa.

Í morgun vaknaði ég ljót. Ég klæddi mig í svörtu rassasíðu heimabuxurnar með hnéförunum og rauða og víða hettupeysu. Ég burstaði tennurnar og greiddi hárið (vildi auðvitað ekki gera öðrum einhvern óleik með andfýlu og hárlykt út um allt). Í dag eru allir sætari en ég og í dag eru allir sexý nema ég. Ég hlakka til að koma heim eftir vinnu og hlamma mér í sófann og „Netflixa“ fram á kvöld.

Ég skammast mín pínu fyrir að líða svona. Ég meina… ég er líkamsvirðingarsinni og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu. Ég held úti fræðslu um sjálfsmynd og mikilvægi þess að þykja vænt um eigin líkama. Má ég vera svona ósátt? Verð ég ekki að vera fyrirmynd og þykja vænt um líkama minn og elska hann alla daga?

ÉG vera á ljótunni?

Eitt af verkefnum líkamsvirðingarbaráttunnar er að benda á mikilvægi þess að efla jákvæða líkamsmynd fólks og sátt þeirra við eigin líkamsvöxt. Fólk er hvatt til að hugsa jákvætt um líkamsvöxt sinn og byrja að elska hann eins og hann er. Allt er þetta gott og blessað enda þekkt að sátt við eigin líkamsvöxt eykur bæði andlega og líkamlega heilsu.

En.. að elska líkama sinn getur verið ansi „trikkí“. Við búum í samfélagi sem gefur okkur skýr skilaboð um hvað telst vera aðlaðandi og „réttur“ líkami og hvað ekki. Við fáum óteljandi skilaboð um mikilvægi þess að vera grannur og „fit“ og hræðsluáróðurinn í tengslum við fitu er gríðarlega mikill. Við lærum af þessum skilaboðum og förum að trúa þeim. Við förum að trúa því að líkami okkar þurfi að líta út á ákveðinn hátt til að teljast ásættanlegur og við betri manneskjur.

Það getur því verið ansi mikil vinna að ná sátt við eigin líkamsvöxt þegar skilaboðin sem við fáum kenna okkur annað . Að „aflæra“ að líkaminn sé óásættanlegur getur tekið tíma og mikla vinnu. Það er því mikilvægt að átta sig á að það er bara allt í lagi að elska ekki alltaf líkama sinn eða þykja hann ekkert alltaf svakalega sexý og aðlaðandi. Við erum meðvituð um að neikvæðar tilfinningar eins og sorg og depurð geta verið eðlilegar og því er gott að hafa í huga að neikvæðar tilfinningar gagnvart líkamanum geta einnig verið eðlilegar.

Að brjóta sig niður fyrir það að vera ekki sáttur við eigin líkamsvöxt getur bara valdið enn meiri vanlíðan.

Enginn er fullkominn, enginn (eða næstum því) elskar sjálfan sig 100% alla daga. Við höfum tilfinningar sem sveiflast og því ekkert að því að tilfinningarnar gagnvart líkamanum sveiflist með.

Elva Björk

Kynlíf og líkamsmyndin

sec líkams

„Ljósin verða að vera slökkt“, „ég þoli ekki að vera ofan á, þá verður bumban svo áberandi“, „brjóstin mín verða svo ljót þegar ég er ofan á“ eða „ég þoli ekki þegar hann grípur um rassinn minn, því þá finnur hann hvað ég er með mikla appelsínuhúð“.

Þessar setningar eru ekki skáldskapur heldur raunveruleg orð sem við höfum heyrt óteljandi sinnum frá konum í kringum okkur.

Lítið hefur verið rætt um líkamsmynd fullorðinna kvenna. Áherslan hefur lengi verið á unglinga en slæm líkamsmynd er of algeng meðal unglingsstúlkna. Rannsóknir sýna þó að líkamsmyndin er nokkuð stöðug í gegnum lífið ef ekki er unnið í því að bæta hana og geta því fullorðnar konur einnig verið ósáttar við útlit sitt. En það er þó algengt að áhersla á útlit breytist með aldrinum, konur verða meðvitaðri um að enginn er „fullkominn“ og mikilvægi útlits minnkar.

Þegar líkamsmynd fullorðinna kvenna er skoðuð kemur í ljós að slæm líkamsmynd hefur mikil áhrif á kynlífið. Konum með mjög slæma líkamsmynd getur jafnvel þótt kynlíf kvíðavekjandi atburður. Slæm líkamsmynd getur haft mjög neikvæð áhrif á upplifun kvenna af kynlífi.

Rannsóknir á tengslum líkamsmyndar kvenna og kynlífs hafa til að mynda sýnt fram á það að konur með slæma líkamsmynd eru ólíklegri til að tjá langanir sínar og fá fullnægingu. Í rannsókn Dr. Jill Hagen og Thomas F. Cash frá árinu 1991 kom í ljós að 73% kvenna með góða líkamsmynd fengu fullnægingu í samförum en aðeins 42% kvenna með slæma líkamsmynd fengu fullnægingu.

Erfiðleikar við að njóta kynlífs hefur verið tengt við einhvers konar sjálfseftirlit eða spectatoring. Spectatoring er hugtak sem Masters og Johnson, hinir frægu brautryðjendur í kynfræðirannsóknum, komu fram með í kringum árið 1970. Það felur í sér að einstaklingur einblíni á eigin líkama og útlit í kynlífi líkt og hann sé aðili sem fylgist með athöfninni en ekki beinn þátttakandi. Á sama tíma getur viðkomandi átt erfitt með að njóta kynlífsins þar sem hann er upptekinn af því að „fylgjast með“ eigin útlitsgöllum.

Margar konur kannast við áhyggjur þegar kemur að kynlífi. Sumar vilja hafa ljósin slökkt svo makinn sjái ekki líkamann, aðrar velja ákveðnar stellingar eingöngu vegna útlits, þ.e óttast að „útlitsgallar“ sjáist í ákveðnum stellingum, sumar eiga erfitt með að njóta kynlífsins því hugurinn reikar annað og þá oft að útlitinu og hinum meintu göllum og aðrar dreyma um aukið kynlíf þegar „auka“ kílóin eru farin.

Margar telja lausnina vera að breyta útlitinu. Eru vissar um að kynlífið verði betra þegar “auka”kílóin eru farin eða maginn orðinn stinnari. Í einhverju tilvikum getur það átt við en vitað er að konur geta upplifa óánægju með útlit sitt óháð því hvernig þær líta út. Slæm líkamsmynd finnst hjá grönnum konum sem og feitum, hjá brjóstalitlum konum sem og hjá þeim sem eru með stór brjóst.  Það er því betra að einbeita sér að því að bæta líkamsmyndina en að vera í endalausri vinnu við það að breyta útlitinu.

sex líkamsynd mynd

Að bæta líkamsmyndina felur meðal annars í sér að einblína ekki á óraunhæfar fyrirmyndir eins og „fótósjoppaðar“ fyrirsætur og hætta að horfa á eigin líkama í gegnum linsu þröngra útlitsviðmiða. Einnig má vinna með neikvæðar hugsanir um eigið útlit, til dæmis með jákvæðu sjálfstali eða hreinlega með því að ræða við makann um áhyggjurnar. Yfirleitt eru áhyggjur kvenna af því hvað elskhuganum finnst um líkamann ekki á rökum reistar. Sumum reynist vel að ná sátt við líkama sinn með því að hugsa vel um hann og einblína á heilsu umfram holdafar.  Með því að sjá fegurðina í fjölbreyttum líkamsgerðum má bæta líkamsmyndina og þar með kynlífið.

Elva Björk Ágústsdóttir og Sólrún Ósk Lárusdóttir sálfræðimenntaðir líkamsvirðingarsinnar 🙂

Heimildir:

Alvear, M. 2013. Is your body image getting in the way of your sex life? Huffington Post. (http://www.huffingtonpost.com/mike-alvear/is-your-body-image-gettin_b_3230731.html)

Cash, T. F. 2009. The body image workbook. An eight-step program for learning to like your looks. (2. útgáfa). Oakland: New Harbinger Puplications, Inc.

Faith, M.S.,  og Schare, M. L. 1993. The role of body image in sexually avoidant behavior. Archives of sexual behavoir. (22), 4.

Pujols, Y., Meston, C. M., og Seal, B. N. 2009. The association between sexual satisfaction and body image in women. The journal of sexual medicine. Útg. 7. Issue 2.

Tiggemann, M. 2004. Body image across the adult life span: stability and change. Body Image, útg. 1. (1).

Fögnum fjölbreytileikanum

Margar stúlkur og konur upplifa þrýsting um að losna við „auka“kílóin eftir barnsburð og reyna af fremsta megni að ná fyrrum vexti. Til allrar hamingju erum við jafn ólíkar og við erum margar og er það mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum.

ImageLjósmyndarinn Ashlee Wells Jackson vinnur að ljósmyndaverkefni þar sem hún fagnar fjölbreytileika og fegurð líkama kvenna eftir barnsburð. Hún vill með verkefninu sýna hvernig konur líta út eftir barnsburð og hversu fallegur líkaminn er óhæð stærð og lögun. Ljósmyndirnar má nálgast hér: http://4thtrimesterbodies.com/gallery/

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur 13-16 ára

Þann 14. október hefst sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur á aldrinum 13-16 ára hjá Klifinu. Kennari námskeiðsins er Elva Björk (Námsráðgjafi/MS í sálfræði).

Markmið námskeiðsins er að styrkja sjálfsmynd og líkamsmynd unglingsstúlkna. Þátttakendur á námskeiðinu hittast þrisvar sinnum yfir eina viku. Farið er yfir fegurðarviðmið nútímans, áhrif fjölmiðla og annarra þátta á sjálfsmynd okkar og fyrirmyndir. Unnið er að því að finna styrkleika stúlknanna og að efla gagnrýna hugsun. Notaðar eru aðferðir úr hugrænni atferlisfræði þar sem þátttakendur taka mikinn þátt með verkefnum, leikjum og  vinnubók

Við hvetjum áhugasama endilega til að kynna sér námskeiðið frekar á heimasíðu klifsins: http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=267&Itemid=146

Body Project – Leiðbeinendanámskeið

barbí

Okkur langar að vekja athygli ykkar á Body Project leiðbeinendanámskeiði sem haldið verður þann 14. ágúst næstkomandi. Námskeiðið er fyrir kennara, námsráðgjafa, skólasálfræðinga, skólahjúkrunarfræðinga og annað fagfólk skóla og félagsmiðstöðva til þess að kenna líkamsmyndarnámskeiðið Body Project. Námskeiðið er ætlað fyrir unglingsstúlkur og byggir á því að efla gagnrýna hugsun gagnvart áreitum í samfélaginu sem hafa neikvæð áhrif á líkamsmynd þeirra. Námskeiðið er vel rannsakað og hefur borið góðan árangur við að bæta líkamsmynd og líðan stúlkna og draga úr hættu á átröskunum.

Í viðhenginu má finna frekari upplýsingar og hvetjum við áhugasama eindregið til að skrá sig á námskeiðið.
Body Project auglysing leidbeinendanamskeid_agust2013 (1)

Fitutal

Kannist þið við samtal líkt þessu:

Anna: „Ohhh ég er svo feit í þessum buxum? „

Lísa: „Nei hvað er að þér? Þú ert sko ekkert feit! Ef þú er feit, hvað er ég þá? Ég er miklu feitari en þú“

Anna: „Nei Lísa!! Rassinn minn er miklu breiðari en rassinn þinn, ég vildi ég hefði rass eins og þinn“

fat talk

Samtal þessu líkt er ekki óalgengt meðal stúlkna og kvenna. Umræðuefnið getur verið mismunandi en aðalatriðið er hið sama, kvartanir yfir eigin líkamsvexti.

Óánægja með eigin líkamsvöxt er svo algeng í okkar samfélagi að nær eðlilegra þykir að vera ósáttur við vöxt sinn en sáttur, sérstaklega meðal stúlkna. Óánægja með líkamsvöxt eða slæm líkamsmynd er alvarleg í ljósi þess hve mikil áhrif óánægjan hefur á líðan og heilsu fólks. Til að mynda er slæm líkamsmynd og sókn í grannan vöxt mikill áhrifaþáttur í þróun átraskana (Stice, 2001).

Í rannsókn á unglingsstúlkum frá árinu 1994 var hugtak sem nefna má fitutal eða fat talk fyrst reifað. Nichter og Vuckovic (1994) nefndu samræður milli stúlkna, þar sem þær tala neikvætt um líkamsvöxt sinn, fitutal. Fitutal er félagslegt og eru slík samtöl mjög algeng í okkar samfélagi. Fitutalið getur haft neikvæð áhrif á líðan okkar, sátt við líkamann og líkamsmynd. Að heyra aðra tala neikvætt um eigin líkama getur einnig haft neikvæð áhrif. Fitutal annarra ýtir undir fitutal hjá okkur sjálfum sem hefur síðan slæm áhrif á líkamsmynd og líðan (Salk og Engeln-Maddox, 2011)

Þegar við forðumst að tala illa um líkamsvöxt og neitum að taka þátt í slíkri umræðu þá líður okkur betur. Að eyða umræðuefninu eða draga athygli fólks að öðru umræðuefni getur haft jákvæð áhrif. Fitutal innan hópsins verður fátíðara og áhrif þess minnka.  Góð eða hnyttin mótrök geta jafnvel haft mikil áhrif á það að bæta líkamsmyndina. Mótrökin ættu ekki að vera í þeim dúr að styðja viðkomandi í fitutalinu t.d. með því að svara Önnu líkt og Lísa gerir, þ.e. að sannfæra Önnu um að hún sé ekki feit. Lísa gæti frekar reynt að storka hugmyndum Önnu um hinn „fullkomna líkamsvöxt“ eða gagnrýnt þá hugmynd að útlit okkar hafi mikið með mannkosti okkar og verðleika að gera.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga áhrif fitutals fullorðinna á börn. Möguleiki er á því að Anna líkist móður sinni. Frá því Anna var lítil hefur móðir hennar verið í megrun. Móðir hennar kvartar ítrekað yfir „aukakílóum“ og breiðum rassi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft segir orðatiltækið. Skilaboðin sem Anna fær frá móður sinni eru skýr! Útlit mitt er óæskilegt! Varast skal að líta svona út.

Hlífum börnum fyrir miklu og neikvæðu útlitstali og reynum að bera meiri virðingu fyrir okkur sjálfum í leiðinni.

Elva Björk Ágústsdóttir

 

Heimildir:

Salk, R. H. og Engeln-Maddox, R. (2011). „If you’re fat, than I’m humongous!“ Frequency, content, and impact of fat talk among college women. Psychology of  women quarterly, 35, 18-28.

Stice, E (2001). A prospective test of the dual pathway model of bulimic pathology: Mediating effects of dieting and negative affect. Journal of Abnormal   Psychology, 110, 124-135.

 

 

 

Leiðbeinendanámskeið – The Body Project

Body Project auglysing leidbeinendanamskeid

Okkur langar að benda á leiðbeinendanámskeið fyrir líkamsmyndarnámskeiðið Body Project

The Body Project
~ líkamsmyndarnámskeið ~

barbí

Dagana 11. og 12. mars nk. verður boðið upp á leiðbeinendanámskeið fyrir kennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðinga og annað fagfólk skóla og félagsmiðstöðva til þess að kenna líkamsmyndarnámskeiðið Body Project. Body Project námskeiðið er ætlað fyrir unglingsstúlkur á aldrinum 15-19 ára og byggir á því að efla gagnrýna hugsun gagnvart áreitum í samfélaginu sem hafa neikvæð áhrif á líkamsmynd þeirra, svo sem ströngum útlitsviðmiðum fjölmiðla og tísku. Líkamsmynd er einn sterkasti áhættuþáttur átraskana og sýna íslenskar rannsóknir að meirihluti unglingsstúlkna er ósáttur við líkama sinn auk þess sem 15% framhaldsskólastúlkna hafa einkenni sem benda til átröskunar. Mikilvægt er að bregðast við þessum vanda með því að bjóða upp á öflugar forvarnir í skólum landsins en flest átröskunartilfelli greinast á aldrinum 14-18 ára. Námskeiðið sem hér um ræðir hefur verið mikið rannsakað erlendis og reynst bera góðan árangur við að bæta líkamsmynd og líðan stúlna og draga úr hættu á átröskunum meðal þeirra. Námskeiðið hefur einnig verið árangursmetið í tveimur rannsóknum hér á landi og gefa niðurstöður til kynna að þátttaka á námskeiðinu dragi marktækt úr aðdáun á grönnum vexti, slæmri líkamsmynd, megrunarhegðun og átröskunareinkennum meðal íslenskra unglingsstúlkna.

Hvert námskeið stendur í einn dag frá frá kl. 8:00-15:00. Kennt verður í Stapa (gömlu Félagsstofnun stúdenta) og verður kennt á ensku þar sem erlendur höfundur námskeiðsins verður viðstaddur. Af þeim sökum verður gefinn helmingsafsláttur af þátttökugjaldi, sem verður nú aðeins 10.000 kr.

Námskeiðsgögn eru innifalin en fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Áhugasamir eru því hvattir til þess skrá sig sem allra fyrst með því að senda tölvupóst á sigrun.daniels@gmail.com.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru:

Sigrún Daníelsdóttir, Cand.Psych
Sálfræðingur

Elva Björk Ágústsdóttir, M.Sc.
Framhaldsskólakennari
Náms- og starfsráðgjafi

Fræðsla um sjálfsmynd og líkamsmynd

mynd

Fræðsla um sjálfsmynd og líkamsmynd

Fyrir stúlkur í 8. 9. og 10. bekk

 

Margar stúlkur hafa ekki mikla trú á sjálfum sér. Þær eiga í vanda með að finna styrkleika sína og nýta þá í daglegu lífi. Einnig hafa margar stúlkur áhyggjur af líkama sínum og útliti og finnast þær þurfa að breytast til þess að líða betur með sjálfar sig. Slæm líkamsmynd getur haft mikil áhrif á líf stúlkna svo sem ýtt undir þunglyndi, kvíða og átraskanir. Tíðni slæmrar líkamsmyndar meðal unglingsstúlkna er há og því mikilvægt að stuðla að bættri líðan þeirra.

Fyrir þremur árum síðan fór Elva Björk af stað með fyrirlestur um líkamsmynd, sjálfsmynd og fegurðarviðmið. Fjallað er um hvað hefur áhrif á sjálfsmynd og líkamsmynd stúlkna, tískutímarit, photoshop, fyrirmyndir og heilsu óháð holdafari. Farið er í hagnýtar leiðir til að bæta sjálfsmynd og líkamsmynd stúlknanna.

Í boði er fyrirlestur í skólum fyrir um 30 stúlkur í senn.

  • Fyrirlesturinn tekur c.a. 70 mínútur
  • Verð: 20.000 kr.

 

Elva Björk Ágústsdóttir er náms- og starfsráðgjafi og kennari og starfar í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Elva Björk hefur lokið meistaranámið í sálfræði með áherslu á forvarnir gegn átröskunum og slæmri líkamsmynd. Undanfarin fjögur ár hefur Elva Björk, ásamt öðrum,  unnið að forvörnum gegn átröskunum og slæmri líkamsmynd og sjálfsmynd.

 

Hægt er að hafa samband við Elvu Björk til að fá nánari upplýsingar eða panta fyrirlestur í síma: 862 – 9999 eða senda tölvupóst á elvabjork@sjalfsmynd.com

 

 

 

 

 

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu

Við megum til með að hvetja ykkur til að kynna ykkur janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu á bloggsíðu og facebook síðu líkamsvirðingar: http://blog.pressan.is/likamsvirding/2013/01/18/januaratak-samtaka-um-likamsvirdingu/Við viljum hvetja ykkur til að deila janúarátakinu með öðrum.

En eins og fram kemur á bloggsíðunni þá  „er janúar mánuður átaka. Þetta er sá tími þegar fólk setur sér markmið og strengir þess heit að gera betur á nýju ári. Eitt algengasta áramótaheitið er að koma sér í form og er það eflaust eitt það besta sem fólk getur gert fyrir sjálft sig. Ef þau fjölþættu og jákvæðu áhrif hreyfingar á líkamsstarfsemina væri hægt að fá í lyfjaformi, þá væri þetta lyf gefið öllum, hvort sem þeir væru veikir eða heilsuhraustir, á hvaða aldri sem er, og bæði sem forvörn og meðferð. Allir hafa gott af hreyfingu og hún bætir ekki aðeins heilsufar heldur líka andlega líðan, minnkar streitu og vinnur gegn þunglyndi. Hreyfing bætir, hressir og kætir.

Mynd1

Það sorglega er þó að margir þeirra sem stefna að því að komast í form á nýju ári eru lítið með hugann við þetta heldur einblína fyrst og fremst á þær mikilfenglegu breytingar á útliti og þyngd sem hreyfingin á að framkalla. Fólk lofar sjálfu sér að það muni verða grennra, stæltara, flottara og fittara en í fyrra, eða eins og segir í líkamsræktarauglýsingunni, verða betri útgáfa af sjálfu sér. Maður kemst ekki hjá því að greina dapurlegan tón í svona loforðum. Þetta er andstæðan við að lifa sáttur í eigin skinni. Ef við trúum því að til þess að vera í lagi þurfum við að verða öðruvísi – eða að minnsta kosti betri útgáfa af okkur – þá þýðir það að okkur finnst við ekki í lagi eins og við erum. Þennan hugsunarhátt fóðrar megrunar-líkamsræktar-fegrunarmaskínan með endalausum flaumi auglýsinga sem segja allar það sama: Þú ert ömó. Breyttu þér!

Þetta er ekki góður grunnur til að byggja á. Það er ekki hægt að hlúa að líkama sínum og hata hann um leið. Hreyfing hefur endalausa kosti og hún mun hafa jákvæð áhrif á alla sem hana stundar af skynsemi, en hreyfing mun ekki gera okkur öll grönn. Það er ekki öllum ætlað að vera grannir. Breytingar á holdafari er það sem er erfiðast að ná fram og viðhalda í líkamsrækt en samt er þetta það markmið sem flestir einblína á. Vísindin segja okkur að fæstum þeirra, sem setja sér markmið um þyngdartap nú í byrjun árs, mun takast ætlunarverk sitt. Og það sem verra er, af því markmiðið var fyrst og fremst að breyta holdafari en ekki að bæta heilsu og vellíðan, þá munu flestir smám saman hætta að hreyfa sig þegar þeir komast að því hvað það er erfitt að grennast til langframa. Þetta er uppskrift að uppgjöf og vonleysi.

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu snýst um dálítið annað. Við viljum koma þeirri hugsun áleiðis að hreyfing sé eitt það besta sem þú getur gert fyrir líkama þinn og hreyfing hefur gildi í sjálfri sér. Hún er ekki leið að öðru markmiði, hún er markmiðið. Hreyfing mun gera líf þitt betra, þú verður sterkari, hraustari, liðugri, úthaldsmeiri, hressari, glaðari og kraftmeiri manneskja. Þú munt sofa betur og þér mun líða betur. Hún er ókeypis í þokkabót og stendur öllum til boða hvenær sem er. Allir geta fundið hreyfingu við hæfi, hvernig sem þeir eru vaxnir, í hvernig formi sem þeir eru, hvernig sem heilsufari þeirra er háttað og sama á hvaða aldri þeir eru.

Hreyfing er ekki bara fyrir þá sem eru grannir eða ætla sér að verða grannir. Hreyfing er fyrir alla og hraustir líkamar eru af öllum stærðum og gerðum. Koma svo! (Tekið af: http://blog.pressan.is/likamsvirding)

 

mynd10

mynd3

mynd8

 

mynd5

mynd6