Greinasafn fyrir merki: foreldrar

Varanlegt eða tímabundið?

Þegar Sigga vildi ekki koma með Önnu vinkonu sinni í snú snú varð Anna sár og reið. Hún sagðist ekki hafa áhuga á að gera neitt annað og stóð ein eftir þegar Sigga og vinkonur hennar fóru í eltingaleik. Þegar kennari kom að henni grét Anna og sagðist ætla að hætta að vera vinkona Siggu þar sem Sigga væri svo leiðinleg, vildi ALDREI gera það sama og hún. Kennarinn aðstoðaði Önnu við að fá hugmyndir að öðrum leikjum og bjóða Siggu að vera með í þeim leikjum en Önnu leið illa og var ekki til í að leika við Siggu þann daginn.sippa

Anna, líkt og mörg önnur börn, á erfitt með að sjá ólíkar hliðar á málum. Börn sem eru að takast á við einhvern vanda eiga það stundum til að sjá atburði sem varanlega atburði (permanent) í stað þess að líta á þá sem tímabundna atburði. Slæmir atburðir eða neikvæðar tilfinningar eru þá oft túlkaðar sem varanlegar eða endanlegar, en ekki tímabundið ástand sem muni líða hjá. Um er að er að ræða ákveðinn skýringarstíl eða hugsanastíl sem getur verið niðurdrepandi og einkennir hann frekar svartsýn börn en bjartsýn.

Að aðstoða börn við það að sjá að flest allar aðstæður, flestir atburðir og flestar tilfinningar eru tímabundnar en ekki varanlegar, getur haft jákvæð áhrif á líðan þeirra, félagsfærni og sjálfsmynd. Þegar börn átta sig í því, að möguleiki til breytinga er til staðar, því líklegri eru þau til þess að reyna að vinna úr sínum málum.

Ef Anna hefði getað séð aðra hliðar á vandanum, áttað sig á að Sigga hafði bara ekki áhuga á að fara í snú snú þann daginn og væri ekki að hafna Önnu sem vinkonu og áttað sig á að Sigga væri ekki ALLTAF leiðinlegt eða ALLTAF að hafna Önnu, því meiri líkur væru á því að Anna gæti tekið þátt í leik stúlknanna í frímínútum og liði betur en ella.

Ýmis verkefni er hægt að nýta til að þjálfa börn í því að átta sig á að margt er tímabundið meðan annað er varanlegt.

Þetta skemmtilega verkefni má finna í bókinni: Therapeutic Exercises for Children: Guided Self-Discovery Using Cognitive-Behavioral Techniquies eftir Friedberg, Friedberg og Friedberg (2001).

Varanlegt v.s. tímabundið

 

Sjálfsmynd barna (fræðsla fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri)

Við hjá sjálfsmyndarvefsíðunni erum farnar af stað með fræðslu fyrir foreldra barna á leik- og grunnskólaaldri. Fjallað er um hvernig stuðla megi að sterkri sjálfsmynd hjá börnum, farið í helstu þætti sem hafa áhrif á sjálfsmynd og hvernig uppalendur geta haft áhrif á þessa þætti til að bæta sjálfsmynd barna sinna.

Picture1

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í þeim birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun (www.menntamalaraduneyti.is)

Fræðsla um sjálfsmynd barna tengist flestum ef ekki öllum þessum þáttum og samræmist vel áherslu á sanngirni, samvinnu, líðan og heilsu og að styrkja börn í að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Leikskólar, grunnskólar, foreldrafélög eða aðrir geta óskað eftir fræðslu með því að hafa samband við Maríu, Önnu Siggu eða Elvu á sjalfsmynd@gmail.com

„Ég er frábær“ aðferðin

Klukkan er sjö að morgni. Guðrún, sem hefur fundið fyrir minnkandi sjálfstrausti, stendur fyrir framan spegilinn og segir „Ég frábær stelpa“.  Svona hefur hún byrjað alla daga í meira en þrjár vikur eftir að hafa fengið þessar ráðleggingar hjá umhyggjusamri frænku.

Image

Sjálfstraustið hefur þó látið á sér standa. Guðrún er ennþá að brotna saman einkum þegar henni gengur illa í skólanum og þegar krakkar í skólanum segja leiðinlega hluti við hana. Þá á hún það til að brjóta sig niður og staðhæfa að hún sé heimsk og leiðinleg.

Guðrún er í eðli sínu hvatvís og á það til að gera og segja hluti sem hún sér eftir. Með aldrinum hefur hún farið að taka þessi mistök mjög nærri sér. Veltir sér upp úr þeim og telur þau til marks um að hún sé ómerkileg, leiðinleg eða heimsk. Flestir sem þekkja Guðrúnu vita hinsvegar að hún er góð, skemmtileg, fyndin, ákveðin, hugulsöm og hæfileikarík stelpa, auk þess að vera lykilleikmaður í fótboltaliðinu sem hún æfir með. Hún er hinsvegar ekki, frekar en við hin, gallalaus eða þannig að öllum líki vel við hana.

Það má velta fyrir sér afhverju sjálfsstyrkingaraðferð Guðrúnar er ekki að virka – að hamra á því við sjáfa sig að hún sé frábær. Ástæðuna má líklega rekja til þess að það er erfitt fyrir Guðrúnu að halda í þessa hugmynd þegar henni verður á, hún nær ekki markmiðum sínum eða er hafnað af félögum. Sú reynslafer ekki saman við þá hugmynd hennar um að vera frábær manneskja. Annað veldur því einnig að aðferðin styrkir ekki sjálfsmynd hennar: Hún hefur óljósa hugmynd um hvað felst í staðhæfingunni og tilgreinir ekki ástæður fyrir því að hún sjálf sé frábær.

Til þess að sjálfsmynd Guðrúnar batni þarf hún að átta sig á því að hún hefur fjölmarga kosti og styrkleika sem margir vildu gjarnan búa yfir og  sætta sig við að vera ófullkomin manneskja sem gerir mistök eins og allir aðrir. Þá verður hún sáttari í eigin skinni og brotnar síður niður við minnstu mistök og óþægilegar uppákomur. 

Það er á brattann að sækja fyrir börn og unglinga með lítið sjálfstraust að ætla að telja sér trú um að þau séu frábær. Líklegra til árangurs er að aðstoða þau við að taka eftir og læra að meta styrkleika sína og kosti sem þau sannanlega hafa, ásamt því að sættast við veikleika sína og annmarka. Börn með slaka sjálfsmynd þurfa fyrst og fremst að komast á þann stað að upplifa sig engu verri né minna virði en önnur börn. Raunsætt mat á styrkleikum (með áherslu á hvað þau geta frekar en hvað þau geta ekki) er því vænlegra til árangurs en óraunsæ glansmynd af eigin ágæti sem heldur ekki vatni í mótlæti hversdagsins.

María Hrönn Nikulásdóttir sálfræðingur

 

 

 

Áhugaverð síða-Response to Intervention

Okkur hjá sjálfsmyndarsíðunni langar að benda ykkur á áhugaverða síðu: www.interventioncentral.org –  

Image

 

Á síðunni má finna alls kyns ráð og ábendingar fyrir kennara og þá sem vinna með börnum. Margt af þessu er vel rannsakað og tengist námi, líðan og hegðun barna og unglinga og eru þetta allt liðir í því í að stuðla að bættri sjálfsmynd þeirra.

Mikil áhersla er lögð á RTI (Response to Intervention) en með RTI er lögð áhersla á forvarnir fyrr en seinna, reglubundnar og örar mælingar á árangri og vel rannsakaðar leiðir og verkefni til að ná til barna sem eiga erfitt uppdráttar í námi. 

 

 

Áhugaverð verkefni og verkfæri fyrir börn

Bryndís Guðmundsdóttir þroskaþjálfi benti okkur á þessa áhugaverðu heimasíðu: http://www.senteacher.org. Hér er hægt að prenta út verkefni:http://www.senteacher.org/Print/Other/
feelings

sen<a

Á síðunni má finna skemmtileg og áhugaverð verkefni og verkfæri til að nota í vinnu með börnum t.d. í tilfinningavinnu, félagsfærnivinnu og sjálfsmyndarvinnu.
Við hvetjum alla til að kíkja á síðuna og kanna hvort þar megi finna verkefni sem gæti nýst ykkur vel í starfi/uppeldi.

Fjársjóðsleitin – SJÁLFSTYRKINGARNÁMSKEIÐ FYRIR DRENGI

Fjársjóðsleitin er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir drengi þar sem þeir leita að sínum innri fjársjóði og styrkleikum. Námskeiðinu er ætlað að styrkja sjálfsmynd barna og bæta líðan þeirra og velferð.

Markmið námskeiðsins: Að styrkja sjálfsmynd drengja sem gætu notið góðs af því að finna sína eigin styrkleika.

Námskeiðið skiptist í fjóra tíma þar sem strákarnir hittast og hafa gaman saman. Farið er í leiki og verkefni unnin sem styrkja sjálfsmyndina.JAKE]

Þema námskeiðsins er sjóræningjaþema þar sem strákarnir eru í fjársjóðsleit. Fjársjóðsleitin táknar leit þeirra að eigin styrkleikum. Undir lok námskeiðisins er markmiðið að bjóða foreldum að koma og sjá afraksturinn. Námskeiðið byggir á aðferðum úr hugrænni atferlisfræði.

V132801 miðvikudaga kl. 16:00 – 17:00 – FULLT
V132802 miðvikudaga kl. 17:15 – 18:15 – LAUS PLÁSS

Skráning hér: http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=219&Itemid=146

Góða skemmtun!

Í heimi þar sem góð frammistaða, keppnir og verðlaun eru mikils metin getur kvíði fyrir slakri frammistöðu og mistökum gert vart við sig hjá börnum. Frammistöðuótti, til dæmis gagnvart íþróttakeppnum, prófum eða sviðsframkomu, getur valdið mikilli vanlíðan og haft slæm áhrif á frammistöðu.

Börn búa við skilaboð úr öllum áttum um að mikilvægt sé að standa sig vel – skilaboðin koma úr fjölmiðlum, skóla, tómstundum og heimili. Þeim sem standa sig best er hampað en ekki hinum. Foreldrar hafa oft, með velferð barna sinna í huga, mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir ganga, gefa börnum sínum heilræði og óska þeim góðs gengis fyrir skóladaginn, æfingar og keppnir. Í orðunum „gangi þér vel“ felst þó ákveðin pressa (þó þau séu sett fram sem hvatning og stuðningur). Þetta er ósk foreldranna um að hlutirnir gangi vel hjá barninu, til dæmis á íþróttamóti, en hlutirnir ganga ekki alltaf vel og enginn gerir sitt allra besta alltaf.  Þegar heim er komið mætir börnunum svo gjarnan spurningin „hvernig gekk?“ og ef svarið er „ekki vel“ fá þau hugsanlega viðbrögð eins og „jæja, það gengur  bara betur næst“ – og þá er strax komin pressa fyrir næstu tilraun.

Börn hafa flest hver langa daga og mörg hver jafnvel lengri „vinnudaga” en fullorðið fólk sem vinnur fulla vinnu. Skóli og frístund alla virka daga og auk þess eru hjá flestum tómstundir og íþróttir oft í viku. Síðan er heimanám og oft og tíðum einhverjar skyldur á heimili. Með alla þessa dagskrá getur verið íþyngjandi að þurfa stöðugt að sýna góða frammistöðu og hafa áhyggjur af því að ekki takist vel upp.

Það er því mikilvægt að foreldrar, kennarar og þjálfarar hjálpi börnum að njóta og hafa gaman að því sem þau taka sér fyrir hendur en einblíni ekki á frammistöðu og árangur. Það er ekkert að því og yfirleitt jákvætt merki að börn vilji bæta sig og standa sig vel í því sem þau fást við – en eingöngu upp að vissu marki. Það er ekki jákvætt eða gott fyrir sálartetrið að trúa því að ekkert geti verið skemmtilegt nema að þú sért góður í því.mynd

Töpum því ekki gleðinni, höfum áhuga á skemmtanagildi þess sem börnin okkar fást við. Hvetjum þau til að njóta hlutanna óháð frammistöðu. Það getum við til dæmis gert með því að hvíla hvatninguna „gangi þér vel“ og nota þess í stað setninguna „góða skemmtun!“ áður en barnið tekst á við eitthvað þar sem óvíst er um frammistöðu.

María Hrönn Nikulásdóttir

Virðing í samskiptum við unglinga

Tilfinningasveiflur og mótþrói er eðlilegur hluti unglingsára, enda töluvert álag sem fylgir því að breytast úr barni í fullorðna manneskju.

Á sama tíma og kröfur til unglinga aukast um ábyrga hegðun, nám þyngist og félagsleg samskipti verða flóknari, ganga þeir í gegnum miklar líkamlegar og tilfinningalegar breytingar. Það þarf því ekki að að furða sig á því að þessi tími einkennist ekki af stöðugleika og jafnvægi.

Þrátt fyrir að tilfinningasveiflur séu eðlilegur hluti unglingsáranna geta þær þó reynst foreldrum og öðrum, sem eru í reglulegum samskiptum við unglinga, erfiðar og leitt til erfiðleika í samskiptum. Það þarf þó alls ekki að vera reglan og eitt af því sem getur komið í veg fyrir að samskipti þróist á neikvæðan veg er að bera virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum unglinga. Forðast að gera þeim upp skoðanir eða tilfinningar, jafnvel þó þær séu okkur ekki að skapi eða okkur gruni að skoðun eða tilfinning þeirra sé í raun og veru önnur.

Stressed Schoolboy with Head in Hands

Það hefur ekki góð áhrif á samskipti ef skoðunum unglinga er mætt með viðbrögðum sem gefa til kynna að þær séu ekki teknar gildar eða þær véfengdar, eins og  „Þú segir þetta nú bara til að reyna að stuða okkur“, „Þér finnst þetta ekkert erfitt, þú bara nennir ekki að gera þetta“ eða „Æj þú átt svo margt eftir ólært greyið mitt“.  Það sama gildir um að gera lítið úr óþægilegum tilfinningum þeirra: „þetta er nú ekkert stórmál“, „vertu bara ánægður með það sem þú hefur“ eða „það er bara alveg út í hött að vera í uppnámi yfir þessu“.

Að mæta mótþróafullum skoðunum með mótþróa („þetta er nú meiri vitleysan í þér“) gerir lítið annað en að ýta enn frekar undir mótþróa. Að sama skapi hefur það neikvæð áhrif á tilfinningasveiflur að mæta þeim með tilfinningasemi og ójafnvægi („ég bara trúi því ekki að þú skulir ekki vera ánægður eftir allt sem ég hef gert fyrir þig“).

Foreldrum unglinga þykir gjarnan erfitt þegar börn þeirra draga úr því á þessum árum að deila með þeim því sem þeir eru að hugsa og gera, en ef unglingar mæta ekki skilningi og virðingu þegar þeir tjá sig eykur það hinsvegar líkurnar á að þeir dragi úr samskiptum. Það er mikilvægt fyrir börn á unglingsárum að finna að virðing sé borin fyrir þeim sem einstaklingum og að þau fái svigrúm til að tjá hugmyndir sínar, skoðanir og upplifanir, jafnvel þó þær séu ólíkar því sem tíðkast í fjölskyldu þeirra. Unglingar hafa meiri þörf en yngri börn til að finna að á þau sé litið sem sjálfstæða einstaklinga. Það að gefa til kynna að þau séu ekki fær um að mynda sér sínar eigin skoðanir getur auðveldlega stuðlað að mótþróafullri hegðun og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Mikilvægt er þó að rugla ekki saman hegðun, skoðunum og tilfinningum. Það ætti ekki að samþykkja slæma hegðun hjá unglingum frekar en yngri börnum. Það er vel hægt að gera kröfur um kurteisi og góða hegðun án þess að gera lítið úr tilfinningum. Við getum gert þá kröfu að unglingur heilsi og þakki fyrir sig í heimsókn hjá ættingja, en við getum hinsvegar ekki krafist þess að honum þyki gaman eða sé spenntur yfir heimsókninni. Reiði eða pirringur gefur heldur ekki leyfi til að lemja einhvern eða skemma eitthvað. Slíkri hegðun þurfa að fylgja neikvæðar afleiðingar og skilaboð um að hegðunin sé óásættanleg, þrátt fyrir að tilfinningin sem að baki liggur sé skiljanleg.

Til þess að börn læri að tjá tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt, verður að hlusta á þau þegar þau tjá sig, en ekki bíða eftir því að óþægilegar tilfinningar brjótist út í neikvæðu hegðunarmunstri sem síðan kallar fram neikvæð viðbrögð hjá fólki í umhverfinu. Gefum unglingunum því tækifæri til að tjá sig og upplifa skilning á þessum mikilvægu árum á sama tíma og við kennum þeim að sýna góða hegðun þrátt fyrir óþægilegar tilfinningar á köflum.

María Hrönn Nikulásdóttir , sálfræðingur

Ævisagan mín – Gagnlegt verkefni með börnum

Ævisagan mín er skemmtilegt og um leið gagnlegt verkefni sem hægt er að grípa í þegar unnið er með börnum. Verkefnið getur virkað vel til að styrkja samband ráðgjafans/kennara og barns eða jafnvel sem hluti af ráðgjöf/meðferð. Verkefnið er líka skemmtilegt að vinna með foreldum eða eldri systkinum.

Ævisagan mín getur gefið öðrum góða sýn á hugmyndir, líðan og framtíðardrauma barnsins. Verkefnið er hluti af verkefnabók um hugræna atferlismeðferð fyrir börn. Höfundur verkefnabókarinnar er Dr Gary O’Reilly sem sér um doktorsnám í klíníski sálfræði við UCD (University College Dublin).

Ævisagan mín

 

Stríðni vegna holdafars

Ég er námsráðgjafi í grunnskóla. Í skólanum koma oft upp mál er varða til dæmis líðan nemenda, félagstengsl, stríðni og nám. Nýlega vann ég verkefni  í tengslum við stríðni vegna útlits sem mig langar að deila með ykkur.

Kennari hafði áhyggjur af stríðni nokkurra nemenda vegna holdafars eins skólafélaga. Stríðnin virtist hafa slæm áhrif á líðan allra sem að málinu komu. Kennarinn óskaði því eftir aðstoð minni og vildi stöðva stríðnina og um leið bæta líðan og líkamsmynd nemenda.

Við fórum af stað með verkefni og fræðslu í bekknum. Nemendur áttu að velta fyrir sér kostum við mismunandi útlit. Ákveðið útlit var tekið fyrir í einu og kostir eða jákvæðir eiginleikar þess útlits kortlagðir til að mynda  kostir þess að vera hávaxinn, lágvaxinn, grannur eða feitur. Þegar nemendur voru búnir að confident kids logonefna marga jákvæða eiginleika eða kosti áttu þeir að nefna fyrirmyndir sem pössuðu inn í hvern flokk. Sem dæmi má nefna það að ef nemendur nefndu að þeir sem væru hávaxnir gætu orðið góðir í körfubolta hentaði vel að nefna góðan körfuboltaleikmann sem fyrirmynd.

Dæmi um verkefni nemenda:

Hávaxinn

Lágvaxinn

Grannur

Feitur

Kostir:

Góður í körfubolta

Góður í fótbolta

Góður í handbolta

Góður í marki

Getur hjálpað öðrum t.d. náð í hluti sem eru hátt uppi

Góður í frjálsum íþróttum

Sterkur

Sér vel á tónleikum

Góður leikari

Góður söngvari

Kostir:

Góður í dansi

Góður í fimleikum

Getur falið sig vel í feluleik

Góður í handbolta

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í ballet

Góður söngvari

Góður leikari

Liðugur

Góð barnapía

Kostir:

Góður í fimleikum

Góður í ballet

Góður í karate

Kemst á milli þröngra staða

Góður í að fela sig í feluleik

Góður í frjálsum íþróttum

Liðugur

Góður í jazzballet

Lipur

Góður söngvari

Góður leikari

Kostir:

Sterkur

Góður í fótbolta

Góður í marki

Góður í handbolta

Góður í glímu

Góður í karate

Góður söngvari

Góður leikari

Góður í lyftingum

Góður í frjálsum íþróttum

Góður í júdó

Góður í boxi

Góður í Taekwondo

Fyrirmyndir:

Ólafur Stefánsson

Nicole Kidman

Uma Thurman

Jón Arnór Stefánsson

Liv Tyler

 

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Bjarki Sigurðsson

Gróttu stelpurnar

Tom Cruise

Johnny Galecki

Fyrirmyndir:

Justin Bieber

Gróttu stelpurnar

Karate Kid

Kári Steinn

Selena Gomez

Fyrirmyndir:

Adele

Ólafur Darri

Margir júdómenn

Auðunn Jóns.

Christina Aguilera

Lauren í Glee

Út frá verkefninu urðu skemmtilegar umræður. Til að mynda fannst nemendum áhugavert að sjá hve marga góða kosti útlitin áttu sameiginleg t.d. að vera góður í frjálsum íþróttum. Nemendur nefndu að það vera feitur eða grannur hafði lítið um það að segja hvort viðkomandi gæti orðið góður í frjálsum íþróttum. Nemendur voru líka allir meðvitaðir um það að allar tegundir útlits ættu að þykja eðlilegar og fallegar þar sem við fæðumst ólík. Sumir eru dökkhærðir, aðrir ljóshærðir, sumir verða hávaxnir meðan aðrir verða lágvaxnir. Þetta er ómögulegt að breyta og eitthvað sem enginn ætti að stríða öðrum vegna. Nemendur voru sammála um að það sama á við þegar kemur að holdafari.

Ég vil hvetja alla kennara til að prófa verkefnið. Það stuðlar að umræðu meðal nemenda um kosti hvers og eins. Um leið hvetur verkefnið nemendur sem og okkur starfsmenn skólanna til að fagna fjölbreytileikanum.

Elva Björk Ágústsdóttir. Námsráðgjafi/MS í sálfræði