Greinasafn fyrir merki: sjálfsstjórn

Þegar hrósið dugar skammt

Áður en ég kem mér að efninu vil ég taka það fram að það að hrósa börnum á markvissan hátt getur haft mjög góð áhrif á mótun sjálfsmyndar þeirra. Það að fá hrós og finna fyrir jákvæðu viðhorfi gagnvart manni sjálfum getur skipt sköpum þegar kemur að líðan.

hurray_1Ég tel að öll börn hafi marga góða en ólíka kosti að bera. Sum vita af styrkleikum sínum og jafnvel njóta þess að láta ljós sitt skína og finna fyrir sigrum, stórum sem smáum á hverjum degi. Önnur börn eiga erfiðara með að átta sig á styrkleikum sínum, brjóta sig jafnvel niður þegar illa gengur og taka lítið eftir eigin afrekum. Mikilvægt er því að benda börnum á þá flottu eiginlega sem þau hafa að bera, hvort sem það er að reima á sig skóna, vera dugleg að læra eða vera hjálpsöm á heimilinu.

En sum börn upplifa sjaldan eða jafnvel aldrei sigra í lífinu þrátt fyrir góðan stuðning og hrós frá foreldrum og öðrum, til dæmis kennurum.

Sonur minn er 9 ára. Hann er klár og yndislegur strákur. Hann á erfitt með að einbeita sér í skólanum og félagslega getur hann lent í vandræðum. Hann er stundum skilinn útundan en á það líka til að túlka aðstæður neikvæðari en þær í raun eru, þá rýkur hann burt í fýlu og finnst hann vera einn og yfirgefinn.

Sonur minn hefur marga góða kosti og er hann minntur á þá oft á dag. Gallinn er bara sá að hann trúir ekki foreldrum sínum. Honum finnst hann ekki klár, duglegur, skemmtilegur, fyndinn, hjálpsamur eða hvað sem nefnt er. Það virðist því ekki gagnast honum mikið að heyra foreldra sína hrósa honum í tíma og ótíma fyrir góða eiginleika sem hann telur sig sjálfan ekki bera.

Fyrir hann gæti aukin sjálfsstjórn og bætt færni á hinum ýmsu sviðum því verið mikilvægari þáttur í því að styrkja sjálfsmynd hans. Mögulegt er að hann fái þau skilaboð frá umhverfi að hann sé ekki klár eða skemmtilegur. Hann nær til að mynda ekki vel fyrirmælum í skólanum, nær ekki að klára verkefnin eins fljótt og vel og aðrir og lendir stundum í því að fá ekki að vera með í leikjum þar sem hann er orðinn fúll eða reiður yfir ákveðnum leikreglum eða samskiptum.

Mikilvægt er að hafa í huga að sumir krakkar þurfa aukna leiðsögn og aðstoð þegar kemur að samskiptum, námi, leik eða öðru. Með því að efla færni þeirra á þeim sviðum sem þjálfa má, aukast líkur á því að þau upplifi sig sem sigurvegara.

Verum því dugleg að hrósa og leiðbeina 😉

Elva Björk Ágústsdóttir (Námsráðgafi/MS í sálfræði)